19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um stofnun járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Segir svo, að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði til framleiðslu á ferrosilikoni og hafa með höndum þá framleiðslu og skyldan atvinnurekstur. Ástæðurnar til þess, að ríkisstj. hefur lagt fram þetta frv. og leggur til að ráðist sé í þetta fyrirtæki, eru í meginatriðum þessar:

Í fyrsta lagi, slík verksmiðja er æskileg og í rauninni nauðsynleg vegna orkusölu frá Sigölduvirkjun, nauðsynleg til þess að selja við góðu verði þá orku sem þar verður framleidd og ekki er annar markaður fyrir um sinn. Þetta frv. og sá samningur eða samningsdrög, sem það byggist á, eru því mjög mikilvæg fyrir þessa stórvirkjun.

Í öðru lagi mundu renna með þessum hætti fleiri stoðir en nú er undir íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf. Öllum er kunnugt hversu varhugavert er að byggja svo mjög á einum atvinnuvegi eins og gert er í okkar þjóðfélagi, þó að hann sé að sjálfsögðu okkar lífæð. Við verðum að fá fleiri stoðir. Í þá átt var stigið stórt spor með byggingu álversins á sínum tíma og nú mundi járnblendiverksmiðjan einnig verða mikilvæg stoð undir efnahagslíf íslendinga.

Þá mundi slík verksmiðja auka gjaldeyristekjur okkar. Nettógjaldeyrishagnaður mundi verða verulegur af þessari verksmiðju.

Þá mundi verða hér atvinnuaukning vegna verksmiðjunnar. Er gert ráð fyrir að um 300 manns mundu hafa atvinnu við byggingarframkvæmdir, en síðar, þegar verksmiðjan tekur til starfa, er gert ráð fyrir að um 115 manns vinni þar að staðaldri. Í þessu sambandi verðum að sjálfsögðu að gæta þess vandlega, hvernig þetta fellur að hinum almenna vinnumarkaði, og hafa sérstaklega í huga að slíkar framkvæmdir valdi ekki aukinni þenslu. Þetta þarf að skoða í sambandi við framboð og eftirspurn eftir vinnuafli og í sambandi við efnahagsmálin í heild.

Þá mundi slík stóriðja sem þessi skapa möguleika fyrir ýmiss konar þjónustufyrirtækis viðgerðarverkstæði, flutningsaðila o. s. frv. Ísland mundi fá skatttekjur af þessari verksmiðju sem mundu verða verulegar, bæði til ríkis og sveitarfélags, ef svo fer sem horfir. Þá er gert ráð fyrir að Ísland geti fengið töluverðan arð af þessu fyrirtæki.

Þetta eru nokkur þau meginsjónarmið sem liggja til grundvallar því og eru rök fyrir því að ráðist verði í þetta fyrirtæki.

Ég mun ekki fara í þessari framsögu mjög ítarlega út í þetta mál, m. a. vegna þess hversu rækilega það hefur verið rætt á almennum vettvangi, í fjölmiðlum, ítarlegar umr. í hv. Ed., sem hefur nú samþ. frv. og afgreitt það frá sér, og ekki síst vegna þess að mjög ítarleg grg. fylgir frv. frá stóriðjunefnd, þar sem gerð er grein fyrir öllum meginþáttum þessa máls. Ég skal þó að sjálfsögðu láta nokkur orð fylgja í byrjun.

Ég minntist á það í upphafi að ein meginástæðan fyrir byggingu slíkrar verksmiðju væri orkusala frá Sigölduvirkjun. Þegar sú virkjun var í undirbúningi og ákvörðun tekin um að ráðast í hana sem næsta áfanga eftir Búrfellsvirkjun, þá kom þetta vandamál upp sem jafnan rís í sambandi við stórvirkjanir, hvort nægur markaður væri fyrir þá orku sem þar yrði framleidd. Flestir töldu að til þess að nýta þá orku þyrfti að koma upp stóriðju. Að vísu heyrðust raddir um að slíkt væri óþarfi, þar sem rafhitun húsa mundi skapa nægilegan markað fyrir það afl og þá orku sem Sigalda hefði að bjóða. En þær raddir hljóðnuðu fljótlega og nokkru eftir stjórnarskiptin 1971 skipaði þáv. iðnrh. viðræðunefnd um orkufrekan iðnað til þess að eiga viðræður við erlend fyrirtæki um stóriðju sem gæti verið orkukaupandi frá Sigölduvirkjun. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að vitanlega er stefnt að því að nýta innlenda orkugjafa til húshitunar í þeim mæli sem möguleikar eru á og með þeim hraða sem unnt er.

Í því sambandi er það auðvitað fyrst og fremst nýting jarðhitans sem til greina kemur og eru þar nú stórframkvæmdir í gangi. Fyrst og fremst er hitaveita fyrir Kópavog, Garðahrepp og Hafnarfjörð, í annan stað hitaveita fyrir 7 sveitarfélög á Suðurnesjum sem selt voru lög um á fyrri hluta þessa þings eða fyrir jól. Það mál er nú í undirbúningi og hefjast framkvæmdir innan skamms, en sérstök stjórn fyrir það fyrirtæki hefur verið sett á laggirnar samkv. lögunum. Margar aðrar hitaveitur víðs vegar eru í undirbúningi, en vonir standa til þess að mikill meiri hl. landsmanna geti áður en langt um líður notið húshitunar frá jarðvarma. Í áætlunum, sem gerðar voru fyrir um það bil ári, var gert ráð fyrir að um 2/3 landsmanna gætu notið jarðvarma. Síðan hafa orðið breytingar í þá átt að nú má gera ráð fyrir því að töluvert meiri hluti allra landsmanna en þá var gert ráð fyrir geti notið hita frá hitaveitum. M. a. má geta þess, að í áætlunum fyrir ári var gert ráð fyrir því að höfuðstaður Norðurlands, Akureyri, væri á rafhitunarsvæði, en nú hafa jarðboranir síðustu víkur og mánuði bent til þess að möguleikar eigi að vera á því að leggja hitaveitu til Akureyrar og hita hana að verulegu leyti upp með jarðvarma, þannig að nú horfir svo að jarðvarma til húshitunar megi nota í það ríkum mæli að væntanlega um eða yfir 70%, kannske 70–80% landsmanna geti notið hitaveitna.

Ég nefni þetta hér vegna þess að það er öllum kunnugt að nýting jarðvarmans til húshitunar er sú langhagkvæmasta og hentugasta aðferð sem völ er á. Rafhitun kemur þar næst á eftir, en vitanlega ekki nema á þeim stöðum; þar sem jarðvarmi er ekki tiltækur. Að því er snertir rafhitun húsa, þá kostar það nokkurn tíma og töluvert fé að koma henni í framkvæmd víðs vegar, sérstaklega vegna þess hve miklu fé þarf að verja til þess að styrkja línukerfi og lagnir þar sem nota á rafmagn til húshitunar, en að því er að sjálfsögðu unnið. Ég nefni þetta vegna þess að í upphafi máls, þegar Sigölduvirkjun var ákveðin, var mjög rætt um að rafhitun mundi vera nægilegur markaður fyrir orkuna frá Sigöldu. Hins vegar hafa athuganir leitt í ljós að svo var ekki, enda komst fyrrv. iðnrh. að þeirri niðurstöðu strax haustið 1971 að svo mundi ekki vera. Þess vegna skipaði hann þá n. til þess að eiga viðræður við erlend fyrirtæki um stóriðju sem ég gat um.

Sú framleiðsla, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er járnblendi eða ferrosilikon. Þau hráefni, sem notuð eru til þessarar framleiðslu, eru kvarts, brotajárn, kol, spænir og rafskaut. Járnblendi er einkum notað við stálframleiðslu og járnsteypu. Þetta efni hefur þá þýðingu að það hreinsar málminn, eykur viðnám og bætir ýmsa eiginleika stáls og járns.

Það er talinn allöruggur markaður fyrir þessa framleiðslu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Að undanförnu hefur verið mikill skortur í heiminum á þessu efni, mikil eftirspurn, og hin síðustu ár hefur verð farið hækkandi. Sem samningsaðila við íslensku ríkisstj. um þessa stóriðju valdi fyrrv. ríkisstj. bandaríska fyrirtækið Union Carbide og hafa samningar staðið yfir milli íslensku ríkisstj. og þessa bandaríska fyrirtækis nú í nokkur ár.

Á s. l. vori eða í maí lágu fyrir samningsdrög við þetta bandaríska fyrirtæki og lá einnig fyrir að fyrrv. ríkisstj. hafði fallist á þau samningsdrög í öllum meginatriðum og taldi þau hagkvæm fyrir Ísland. Eftir stjórnarskiptin var þetta mál tekið upp að nýju og voru það einkum 3 atriði sem þá komu til athugunar eða endurskoðunar.

Í fyrsta lagi var það orkuverðið sem talið var sjálfsagt að endurskoða og freista þess að fá samkomulag um verulega hækkun á rafmagnsverðinu sem verksmiðjan mundi greiða. Sú athugun og endurskoðun leiddi til þess að veruleg hækkun fékkst á verðinu, þannig að í heild er talið að það nemi um 42% hækkun frá þeim samningsdrögum sem lágu fyrir í fyrravor.

Í öðru lagi var rætt um eignaraðildina, en í þessum samningsdrögum frá því í maí 1974 var gert ráð fyrir því að íslendingar ættu 65% af þessu fyrirtæki, en Union Carbide 35%.Það er rétt til skýringar á þessum tölum að taka það fram að þegar viðræður voru hafnar við Union Carbide árið 1971, eftir stjórnarskiptin þá, var það skilyrði sett af hálfu íslensku ríkisstj. að Ísland ætti meiri hl., þ. e. a. s. minnst 51% í verksmiðjunni. Í fyrstu taldi Union Carbide hæpið að ganga að þessum skilmálum vegna þess að í flestum ef ekki öllum tilvikum, þar sem það fyrirtæki hafði reist verksmiðjur eða átt þátt í þeim í öðrum löndum, átti það sjálft meiri hl. Hins vegar féllst fyrirtækið síðar á þetta skilyrði um meirihlutaeign Íslands, en tjáði þá fulltrúum ríkisstj. að ef Union Carbide ætti ekki meiri hl., þá kærðu þeir sig ekki um að eiga meira en þriðjung. Þannig er það til komið sem gert var ráð fyrir í fyrra og var í þeim till. sem þá lágu fyrir, að Ísland væri með 65% aðild og Union Carbide með 35%.

Eftir stjórnarskiptin á s. l. hausti, þegar þetta mál var tekið til meðferðar að nýju, þótti ríkisstj. ástæðulaust að Ísland ætti meira en ríflega helming. Varð niðurstaðan eftir allítarlegar viðræður við hið bandaríska fyrirtæki að hlutföllin yrðu 55% eignaraðild Íslands og 45% af hálfu Union Carbide, eins og þetta frv. og samningar, sem því fylgja, byggjast á.

Í þriðja lagi var kannað rækilega, hvort eða hver mengunarhætta kynni að stafa af starfsemi slíkrar verksmiðju. Þegar ráðist er í stórvirkjanir og stóriðju þarf að sjálfsögðu að huga mjög að því að slíkar framkvæmdir verði ekki til tjóns á umhverfi og íslenskri náttúru. Við íslendingar þurfum alveg sérstaklega að gefa þessu gaum vegna þess hve íslensk náttúra er viðkvæm. Við erum sjálf ákaflega viðkvæm fyrir íslenskri náttúrufegurð og viljum ekki að á nokkurn hátt sé að henni vegið. Og hér kemur margt til. Við búum við hreint og tært loft, langdrægt útsýni sem fáar aðrar þjóðir njóta. Við höfum líka í marga áratugi notið hitaveitu í höfuðborginni og sem betur fer á nokkrum stöðum annars staðar, — hitaveitu sem hefur útilokað kola- og olíureyk og þar með orðið til mikillar hollustu og bættrar heilbrigði og hreinlætis fyrir það fólk sem hennar hefur notið. Þegar við ræðum um nýja stóriðju þarf alveg sérstaklega að huga að þessu, að hún spilli ekki umhverfi eða náttúrufegurð landsins.

Þegar athugað er hvernig staðið hefur verið að slíkum málum á undanförnum árum og áratugum, þá er ljóst að þar hefur víða verið pottur brotinn. Margar verksmiðjur og margvíslegur iðnaður hefur risið upp á síðari áratugum, þar sem ekki hefur verið gætt þessara sjónarmiða. Þar má nefna m. a. verksmiðjur á sviði sjávarútvegsins sem hafa mengað loft og umhverfi þótt menn hafi ekki tekið til þess, vegna þess að vitað var hver björg í bú þessar verksmiðjur voru, og þess vegna var lyktinni frá þessum verksmiðjum stundum valið heitið „peningalykt“. Hér þarf hins vegar á öllum sviðum í sambandi við allan iðnað, hvort sem er á sviði sjávarútvegs eða annars, að vinna vel og gera hið ítrasta til að draga úr mengun og óþrifnaði, bæði hjá þeim verksmiðjum sem fyrir eru og ekki síður gæta þess að hreinlætis- og þrifnaðarreglum sé fylgt til hins ítrasta og komið í veg fyrir mengun og heilsuspillandi áhrif þegar ný fyrirtæki eru að rísa upp.

Í sambandi við þessa verksmiðju kemur til athugunar í fyrsta lagi, hvort loftefni, ryk eða reykur komi frá verksmiðjunni sem skaðleg geti orðið, enn fremur hvort frárennsli frá verksmiðjunni geti skapað hættu, hvort föst úrgangsefni gætu valdið tjóni eða truflun, og ekki síst þarf að athuga vinnuöryggi og vinnuvernd í verksmiðjunni sjálfri. Áður fyrr hafa ýmsar málmblendiverksmiðjur verið þannig úr garði gerðar að mikill reykur og margs konar óhollusta hefur frá þeim stafað. Hin síðari ár hefur víða um lönd verið lögð í það mikil vinna og varið til þess miklu fé að finna ráð til þess að útiloka sem mest mætti verða mengun og önnur óholl áhrif. Á því er enginn vafi að í þessu efni hefur mikið áunnist og eru viðhorfin ekki sambærileg nú í dag við það sem var fyrir fáum árum.

Hér á landi gildir nú reglugerð um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna frá 1972. Þar er svo ákveðið að leyfi til verksmiðjurekstrar eins og þess, sem hér um ræðir, veiti heilbrrh. og áður en slíkt leyfi er veitt skuli leitað umsagnar Heilbrigðiseftirlits ríkisins, Náttúruverndarráðs, Öryggiseftirlits ríkisins, Siglingamálastofnunar og eiturefnanefndar, eftir því sem ástæða þykir til. Við undirbúning þessa máls hefur bæði viðræðunefndin um orkufrekan iðnað, iðnrn. og Heilbrigðiseftirlit ríkisins reynt að kanna þessi mál eftir því sem frekast eru tök á.

Varðandi fyrsta atriðið sem ég nefndi, loftmengun, ryk eða reyk frá verksmiðjunni, þá hafa nú verið fundnar upp og notaðar með ágætum árangri allvíða sérstakar aðferðir til að safna þeim reyk og ryki með pokasíum. Árangurinn er sá, sem þegar hefur náðst í því efni, að um 99% af þessum loftefnum nást þar og verður unnið úr þeim að nýju. Úr þeim úrgangi, sem þannig fæst, eru gerðir kögglar sem notaðir eru að einhverju leyti til framleiðslunnar á nýjan leik, en einnig hefur komið til orða að Sementsverksmiðja ríkisins gæti til framleiðslu sinnar nýtt köggla sem unnir eru úr þessu ryki og þessum reyk. Það mál er til athugunar hjá Sementsverksmiðju ríkisins.

Þeir, sem um þetta hafa fjallað af íslenskri hálfu, telja að ekki verði um loftmengun að ræða sem skapi hættu fyrir umhverfið. Um þetta verður að sjálfsögðu sett reglugerð og fylgt hinum ströngustu reglum sem Heilbrigðiseftirlítið og aðrir aðilar, þeir sem ég nefndi, vilja viðhafa í þessu efni.

Varðandi frárennsli frá verksmiðjunni er ekki talið að þar sé um neinn skaðvald að ræða, því að kælivatnið, sem notað er, er í lokuðu kerfi og fer ekki út.

Að því er snertir föst efni, þá er þar um að ræða gjall og málmgrýti og hafa ekki fundist í því háskaleg efni. Allt þetta verður að sjálfsögðu skoðað og settar um það strangar reglur.

Varðandi vinnuöryggi og vinnuvernd í verksmiðjunni sjálfri er þess sama að geta, að þar verða auðvitað settar hinar ströngustu reglur til að koma í veg fyrir slys og gæta þess öryggis sem unnt er við að koma.

Í sambandi við verksmiðjuna þarf að gera hafnarmannvirki. Aðstaða til hafnarmannvirkja við Grundartanga er ein af ástæðunum til þess að þessi staður var valinn, því að hafnarskilyrði eru þar mjög góð. Það mál hefur verið rækilega rætt, hver skyldi vera eignaraðili og rekstraraðili að höfninni. Niðurstaðan hefur orðið sú að ríkisstj. telur rétt að sveitarfélögin, sem þarna eiga hlut að máli, verði eigendur hafnarinnar. Hreppsfélögin eru 4: Skilmannahreppur, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Innri-Akraneshreppur og Leirár- og Melasveit. Auk þess á Akraneskaupstaður hlut að máli. Einnig kemur til athugunar hvort Borgarfjarðarsýsla yrði einnig aðili. Hæstv. samgrh. hefur fyrir nokkru skipað n. til þess að athuga nánar eignaraðild að höfninni. En í stórum dráttum má segja að gert sé ráð fyrir því að sveitarfélög verði eigendur hafnarinnar, höfnin verði síðan byggð eftir hafnalögum og almennum reglum um fjárframlög, þannig að ríkissjóður leggi fram 75% kostnaðarins, en sveitarfélögin 25%.

Ég vil að öðru leyti vísa til þess, sem fram kemur í hinni ítarlegu grg. með þessu frv., og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.