19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Benedikt Gröndal:

Hæstv. forseti. Enda þótt hugmyndir um virkjanir og byggingu orkufrekra iðjuvera séu gömul saga hér á Íslandi, má segja að tímamót hafi orðið á því sviði þegar ákveðið var að ráðast í Þjórsárvirkjun og heimila svissnesku fyrirtæki að reisa hér álverksmiðju. Þegar þetta gerðist, átti Alþfl. aðild að ríkisstj. og tók þar af leiðandi afstöðu til þessara mála. Þá var mikið rætt um erlent fjármagn og stóriðju á almennum grundvelli og þá heyrðust raddir í þá átt að við ættum að opna allar gáttir og reyna hvað við gætum að ná hingað erlendu fjármagni til þess að byggja upp stóriðju í landinu. Um þessar hugmyndir voru menn ekki einir hér á landi, því að nágrannaþjóðir okkar sumar, eins og t. d. norðmenn, völdu sína bestu menn í svipað hlutverk og þetta.

Alþfl. snerist þó algerlega gegn þeirri hugmynd að mótuð yrði almenn afstaða, t. d. með almennri löggjöf, sem opnaði dyrnar fyrir erlendu fjármagni og stóriðju sem væri að meira eða minna leyti í eigu erlendra aðila. Alþfl. tók þá afstöðu að orkulindirnar sjálfar og öll mannvirki til beislunar þeirra skyldu tvímælalaust undir öllum kringumstæðum vera í eigu íslendinga. Hins vegar gæti komið til mála að heimila erlendum aðilum að reisa eða vera aðilar að því að reist verði iðjuver, en við tókum fram og höfum haldið þeirri afstöðu síðan að við teldum rétt að hvert slíkt tilvik yrði athugað fyrir sig. Það er því ekki rétt þegar því er haldið fram, að sú ríkisstj., sem þá sat að völdum, hafi markað þá stefnu að álverið væri aðeins byrjun á löngu áframhaldi. Alþfl. hafði aldrei samþykkt það og hafi þær skoðanir komið fram þá, hygg ég að ríkisstj. hafi ekki verið af þeim bundin.

Nú er komið að því að afgreiða löggjöf um aðra stórverksmiðju af þessu tagi, orkufrekan iðnað, þar sem erlendir aðilar koma mjög við sögu. Verulegur munur er á því, hvernig lagt er til að samið verði um málmblendiverksmiðju þá sem nú er fyrirhuguð og hvernig samið var við svisslendinga um byggingu álversins. Grundvallarmunurinn er sá að svisslendingum var heimilað að eiga algerlega álverið, en nú er hugmyndin sú að íslendingar eigi meiri hluta í þeirri verksmiðju sem fyrirhuguð er, þótt skiptar séu skoðanir u.m hve mikill sá meiri hluti eigi að vera. Í sambandi við fyrri leiðina, að heimila hinum erlenda aðila að eiga verksmiðjuna að öllu leyti, er það að sjálfsögðu ætlun íslendinga að tryggja með samningum allan þann rétt sem við viljum leggja áherslu á, og þar ber e. t. v. hæst hvaða tegund skattlagningar verður valin, hvernig fer með tækni og greiðslur fyrir hana, hvernig á að úrskurða deilumál og ýmislegt fleira. Það er hægt að ákveða slíkt í samningum um viðkomandi iðjuver og það er líka hægt að ganga út frá því að allt slíkt lúti venjulegum íslenskum lögum.

Sá er meginmunurinn á þessum tveimur leiðum að leið álsamninganna, sú að láta hinn erlenda aðila eiga álverið algerlega, standa undir öllu hlutafé og stofnkostnaði, en tryggja rétt íslendinga með samningum, — sú leið tryggir það að íslendingar taka eins litla áhættu sjálfir af þeim rekstri, sem verið er að stofna til, og hægt er að búast við. Hin leiðin, þar sem íslendingar ætla sér að verða meirihlutaeigandi í verksmiðjunni, en ætla þó erlendu fyrirtæki að eiga verulegan hluta hennar og hafa á sínu valdi sérstaklega sölu- og tæknihlið verksins, — sú leið hefur það í för með sér að íslendingar taka mjög mikla áhættu sjálfir. Það má því segja að hér sé um mismunandi framkvæmd á sömu grundvallarhugsun að ræða, en álsamningurinn hafi byggst á því að íslendingar tækju sem allra minnsta áhættu, en málmblendiuppkastið geri ráð fyrir því að íslendingar taki á sig verulega áhættu.

Ekki munu þó allir meta þetta mál út frá þessum sjónarmiðum, heldur kemur þar til þjóðernistilfinning og viðhorf manna til þess að erlendir aðilar hafi hér yfirleitt nokkur umsvif. Virðist svo sem margir telji að það eitt sé nægileg ástæða til þess að íslendingar eigi ekki aðeins að eiga meiri hluta í málmblendiverksmiðjunni, heldur í öllum verksmiðjum, þar sem erlend þátttaka kemur til.

Um skatta og tækni og fleira slíkt hefur þó reynslan orðið sú að það virðist ekki vera með öllu hentugt að segja á einfaldan hátt: Öll þessi mál skulu lúta íslenskum lögum, — því að í uppköstum að samningum um málmblendiverksmiðjuna hafa verið ýmis ákvæði sem hafa falið í sér margvísleg frávik frá íslenskum lögum, svo að þeir, sem um þau mál fjölluðu frá upphafi, geta ekki hælt sér af því að þetta fyrirtæki hafi átt að heyra algerlega undir íslensk lög frá upphafi.

Alþfl.samþykkti á sínum tíma álsamningana og nú er fengin margvísleg reynsla af þeim svo og af a. m. k. einu öðru iðjuveri í landinu, norður í landi, þótt það sé öllu minna, kísilgúrverksmiðjunni í Mývatnssveit. Við teljum að það geti verið mjög hollt fyrir íslendinga þegar önnur verksmiðja af þessu tagi með þátttöku útiendinga rís, þá verði reynd sú leið að við eigum meiri hluta í verksmiðjunni og annað sem af þeirri grundvallarákvörðun fylgir, og mundi þá einnig fljótlega fást reynsla af því hvaða kostir og gallar fylgja slíkri skipan. Á þessum grundvelli höfum við í meginatriðum verið reiðubúnir til þess að veita því samþykki okkar að gert verði samkomulag um byggingu málmblendiverksmiðjunnar. En jafnframt, því sem Alþfl. hefur lýst sig í grundvallaratriðum sammála því að gera þessa verksmiðju hefur hann tekið fram að hann hafi fyrirvara um ýmis atriði þangað til frekari upplýsingar liggja fyrir. Mál þetta var að mestu leyti undirbúið í tíð fyrrv. iðnrh., á árum vinstri stjórnarinnar, og Alþfl. hafði mjög lítil tækifæri til að fylgjast með smáatriðum málsins og hefur raunar ekki haft það fyrr en tiltölulega nýlega. Þess vegna höfum við áskilið okkur allan rétt varðandi ýmis einstök framkvæmdaatriði og þá beðið eftir því að þau yrðu upplýst í meðferð málsins hér á Alþ.

Frv. hefur þegar farið í gegnum hv. Ed. og iðnn. þeirrar d. fjallað ítarlega um það, mun hafa haldið eina 11 fundi og boðað til sín sérfróða menn á mörgum mismunandi sviðum. Iðnn. Nd. var gefið tækifæri til að sitja þessa fundi og fylgjast með þeim yfirheyrslum eða þeim samræðum sem þar fóru fram, en því miður fór það svo að tiltölulega fáir iðnn.-menn gátu notfært sér þetta tækifæri vegna annarra starfa á vegum Alþ., svo að menn hafa í þessari d. fengið tiltölulega lítið að vita af því sem fram kom í rannsókn Ed. Að sjálfsögðu hafa Nd.-menn ekki nema að litlu leyti getað fylgst með hinum löngu umr. í Ed., vegna þess að fundir hafa verið í deildum samtímis. En það er athyglisvert að hv. síðasti ræðumaður, sem sótti tiltölulega fáa af þessum rannsóknafundum n. í Ed., virðist ekki þurfa á neinu slíku að halda, því að hann hefur fyrir fram skoðanir á öllum málum, skoðanir sem í sumum tilvikum stangast algerlega á við það sem sérfróðir embættismenn fullyrtu á fundum Ed.- nefndarinnar. En hann um það. Hann hefur verið ráðh. yfir þessum málum og þá sjálfsagt myndað sér fastar skoðanir sem líklega eiga ekki eftir að haggast, því að hann hefur farið þá óvenjulegu leið, sem mun a. m. k. ekki vera í anda þingskapa, að lýsa ítarlega brtt. við mál þegar við 1. umr. Með því sýnir hann í raun og veru iðnn. þessarar d. hina mestu fyrirlitningu, því að hann þarf ekki einu sinni við samnm. sína að tala, áður en hann mótar eigin brtt. við frv. En ég skal ekki hafa frekari afskipti af því, það er hans mál. Kannske þarf hann ekki einu sinni að mæta í iðnn. þessarar d. frekar en hinnar d.

Af þeim atriðum þessa máls, sem við Alþfl.-menn höfum viljað fá frekari skýringar á, skal ég nú nefna nokkur.

Í fyrsta lagi vil ég nefna lánsfé. Það er ljóst, að afleiðing af þeirri stefnu að íslendingar eigi meiri hluta í verksmiðjunni hvort sem það er 51% eða 65%, er sú að íslenska ríkið verður að útvega sér sjálfsagt í kringum 2 milljarða kr. til að leggja fram hlutafé sitt. Þessi fyrirtæki eru ekki eins og mörg smáfyrirtæki sem íslendingar eru vanir, þar sem hægt er að stofna þau löglega og gefa yfirlýsingar um hlutafé sem síðan er aldrei greitt og hefur aldrei sést, eins og rekstur fyrirtækjanna ber oft vitni um. Fyrir utan fé til þess að standa skil á eignarhlut íslenska ríkisins verður að útvega fé til þess að reisa eða byggja höfnina fyrir og enn fremur til þess að endurbæta vegi í nágrenninu, og kann að koma í ljós að íslenska ríkið þurfi að snara út fé til fleiri atriða. Allt verða þetta miklar upphæðir á íslenskan mælikvarða og við Alþfl.-menn leggjum á það ríka áherslu að þetta lánsfé verði tryggt á þann hátt að það gangi ekki út yfir eðlilega lánamöguleika íslensku þjóðarinnar og veiði því ekki til þess að draga til sín fé frá öðrum framkvæmdum. Slíkar yfirlýsingar hafa þegar verið gefnar svo að ekki er ástæðá til að vefengja, en ég vil þó ítreka að þetta er veigamikið atriði og mjög þungt á metunum.

Höfnin er í okkar augum sérstaklega viðkvæmt atriði í þessu tilliti. Rekstur hennar í byrjun er óviss. Sveitarfélögin, sem að henni standa, eru öll mjög fámenn og veik, að undanteknum Akraneskaupstað, og er fyrirtækið þó ærið stórt, jafnvel á hans mælikvarða. Við viljum því leggja ríka áherslu á að vel verði frá þessum málum gengið og það verði tryggt í fyrsta lagi, að þessi hafnargerð dragi ekki fé frá öðrum íslenskum höfnum og til hennar verði ekki veitt lán úr þeim sjóðum sem helst hafa getað lánað til annarra íslenskra hafna, því að verkefni eru þar ærin. Hér kemur enn að því sama, að það þarf að útvega sérstakt lánsfé í þetta. En yfirlýsingar hafa verið gefnar um að það muni vera hægt, þar sem svo mikil trú sé á arðsemi þessa fyrirtækis í heild að lánastofnanir, sem ekki mundu sinna íslendingum sérstaklega, muni vera reiðubúnar til að lána það fé sem til þarf.

Þá vil ég nefna það að við, eins og ég hygg allir aðrir, leggjum á það áherslu að við alla framkvæmd þessa máls, ef til kemur, verði hafðar í frammi ítrustu mengunarvarnir. Það er að vísu ekki rétt að þróunarlöndin séu öll til fyrir myndar hvað það snertir. Ég hef hlustað á það á alþjóðlegum fundum að þróunarríkin haldi því fram að þau hafi rétt til þess að menga hjá sér, og á bak við það er sú hugsun að þegar ríku þjóðirnar eru búnar að koma upp sínum eigin iðnaði eins og þeim sjálfum sýnist, þá ætla þær fullar af áhuga á því að vernda náttúruna að koma fram heimsreglum sem verða til þess að gera hinum fátækari ríkjum erfiðara fyrir um að koma sjálfum upp iðnaði. Fyrirmyndir í þessum efnum held ég að við sækjum til nágrannalanda okkar, þar sem náttúruverndarhreyfingin á undanförnum árum hefur verið sterkust og þar sem lengst hefur verið gengið í kröfum varðandi þessi mál.

Það fer ekki á milli mála að sumar yfirlýsingar, sem hafa birst á prenti í opinberum skjölum varðandi þetta mál, hafa verið næsta gálausar, og hefur verið viðurkennt við nánari athugun að þær hafi ekki fyllilega við rök að styðjast, eins og fullyrðingar um það að viðkomandi framleiðslu þessarar verksmiðju geti ekki verið um nein eiturefni eða meinskaðleg efni að ræða. Hins vegar virtist mér koma fram á fundum Ed.- n. um þessi mál að það hafi orðið miklar breytingar til batnaðar í mengunarvörnum hér á landi, og á ég þar ekki aðeins við þann lagabókstaf, sem Alþ. hefur sett á síðustu árum, eða þær reglugerðir, sem gefnar hafa verið út, heldur líka viðhorf þeirra embættismanna sem eiga að framfylgja þessum reglum. Mér er sérstaklega minnisstætt hvað landlæknir sagði um þessi mál á einum þeirra funda sem ég nefndi, en hann viðurkenndi þar að við íslendingar hefðum ekki sýnt nægilega varúð í þessum efnum við byggingu álversins eða kísilgúrverksmiðjunnar og yrðum að gera þar gagnráðstafanir. En hann hélt því fram að við hefðum lært mikið og mundum nú geta knúið fram ítrustu staðla í þessum efnum sem til eru hjá grannþjóðum. Og þá er rétt að minnast þess, að þótt eldri verksmiðjur til framleiðslu á ýmiss konar málmum séu hinir mestu mengunarskaðvaldar, þá hafa orðið feikilegar breytingar á þessu undanfarin ár og í flestum siðmenntuðum löndum kemst ekkert fyrirtæki, stórt eða lítið, opinbert eða einkafyrirtæki, upp með að reisa nú mannvirki án þess að þeim fylgi ítrustu mengunarvarnir.

Hins vegar er því ekki að leyna að mál þessi eru einmitt nú í mjög örri þróun og alls ekki komin á fastan grundvöll. Það var t. d. ekki fyrr en á síðari fundum n. í Ed. sem lagðir voru fram staðlar um mengunarvarnir, bæði frá Bandaríkjunum og Noregi, sem formaður v. hafði þá rétt fengið úr pósti. Þessir staðlar hafa verið gefnir út nú síðustu vikur, t. d. bæði í Noregi og Bandaríkjunum. Það kom í ljós, eftir því sem mönnum var sagt á þessum fundum, að amerísku staðlarnir mundu vera til muna kröfufrekari en þeir norsku eru. Þá kom einnig í ljós að Heilbrigðiseftirlitið og landlæknir hafa verið í sambandi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og einn sérfræðingur frá þeirri stofnun er væntanlegur hingað mjög bráðlega. Má vel vera að hann hafi þegar verið hér, sé þegar kominn. Vil ég láta í ljós ánægju yfir því að slíkrar samvinnu hefur verið leitað, og von er um það að hún geti orðið til þess að styrkja okkur í því að koma fram ítrustu mengunarvörnum. Ég vil taka það fram að þegar rætt er um mengunarvarnir eigum við ekki aðeins við mengun umhverfisins, heldur líka hina innri mengun í verksmiðjunni, þ. e. a. s. þær hættur sem steðja að verkafólkinu þar af ýmsum orsökum. Í sumum tegundum verksmiðja mun það vera svo, að mengunarvarnir hafa þau áhrif að t. d. skaðvænlegar lofttegundir og annað verða því meiri inni í verksmiðjunum sem minna kemst út úr þeim. Er því mikilvægt að ekki verði gleymt að gæta ítrasta öryggis þess verkafólks sem kemur til með að vinna í þessari verksmiðju. Þetta virtist landlækni vera fullljóst og hann kann að sjálfsögðu á þessu góð skil.

Þá teljum við að nauðsynlegt sé frá upphafi að tryggja að það verkalýðsfélag, sem starfar á svæði verksmiðjunnar, og verkafólkið í verksmiðjunni fái eðlilega og lýðræðislega aðstöðu til áhrifa í samræmi við þær hugmyndir sem nú eru uppi um slíka hluti. Vænti ég að ekki verði nein fyrirstaða á því sviði,

Mikið hefur verið rætt um líffræðilega athugun á umhverfi á þeim stað þar sem verksmiðjan mun eiga að rísa. Liggur í augum uppi að nauðsynlegt er að gera slíka líffræðilega athugun eins fljótt og hægt er, þótt ég telji ekki ástæðu til að stöðva framgang frv. á meðan hún fer fram, því að ég hygg að það séu, eftir því sem mér er tjáð af kunnugum mönnum, hverfandi líkur fyrir því að nokkuð komi í ljós sem gefi ástæðu til að hætta við verksmiðjubygginguna á þessum stað, enda hefur Náttúruverndarráð samþykkt staðinn út af fyrir sig. En ráðið hefur ekki veitt samþykki sitt að frekara leyti. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa ítarlegar líffræðilegar athuganir, sem síðan verður að halda áfram með reglulegu millibili, til þess að jafnan verði hægt að fylgjast með því hvort verksmiðjan hefur einhver óæskileg áhrif á umhverfi sitt, og ef þau áhrif reynast vera meiri en menn búast við eða önnur en menn bjuggust við, þá verður að bregðast við því.

Um samhengið á milli þessarar verksmiðjubyggingar og raforkumálanna í heild hefur mikið verið rætt og það samhengi var m. a. umræðuefni á löngum fundum í Ed.-n. Þar voru lagðir fram útreikningar, sem ég hygg að verkfræðingar Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens hafi gert, sem sýndu að ef húshitun er tekin upp og framkvæmd með eins miklum hraða og þeir telja hugsanlegt að framkvæma, þá muni með þau tvö orkuver, sem nú eru framundan á næstunni, verða næg orka til almennra nota til þeirrar húshitunar, sem hægt verði að framkvæma, og til þessa iðjuvers. Þessir sérfræðingar útskýrðu það, að húshitun væri ekki eingöngu undir því komin að sjálf raforkan væri fyrir hendi í raforkuveri, heldur væri það mikið mannvirki að koma henni til þeirra byggða þar sem hita á. Í fyrsta lagi yrði að styrkja og breyta línum á milli byggða og það væri í sjálfu sér víðast hvar stórvirki. Í öðru lagi hefði enn lítið sem ekkert verið athugað hvernig ætti að hita með rafmagni eftir að rafmagnið er komið til byggðarinnar. Það mun vera hægt að gera á mismunandi vegu tæknilega og hefur lítið sem ekkert verið athugað hér á landi. Virtist því vera skoðun þessara sérfræðinga að þó að keyrt yrði með fullum hraða í húshitun og við legðum í það alla þá orku sem við getum, vinnuafl og fé, þá mundi húshitunin ekki geta gengið hraðar en svo, að raforku muni ekki skorta, jafnvel þótt þetta orkuver verði reist. Þessar upplýsingar þóttist ég fá út úr umræðufundunum, sem fram fóru í iðnn. Ed., og stangast þær nokkuð á við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, en hann virtist eingöngu tala um þá orku sem væri á hverjum tíma fyrirliggjandi og mætti nota til hitunar. Það þarf sem sagt að koma þeirri orku til byggðanna. Tökum t. d. Austfirði og Vestfirði þar sem eru stærstu verkefnin, þar mun það ekki verða gert í einni svipan.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi, að grundvallarafstaða Alþfl. í þessum málum er sú að við eigum í hvert skipti að rannsaka gaumgæfilega þá möguleika, sem fyrir hendi eru, hvern fyrir sig, ef rætt er um erlenda þátttöku í íslenskum iðnaði, og að orkulindirnar eiga ávallt að vera í eigu íslendinga. Við teljum að þessi verksmiðja mundi geta aukið fjölbreytni íslenskra atvinnuvega, aukið atvinnuöryggi og útlitið í efnahagsmálum sé nú því miður slíkt, að svo geti farið að íslendingar muni telja sér mikinn hag í því að hafa þá vinnu sem verður sérstaklega á byggingartímabili verksmiðjunnar. Við höfum því samþykkt þetta frv., en þó með þeim vangaveltum sem ég hef hér látið í ljós. Við munum fylgjast með áframhaldandi rannsókn málsins í iðnn. þessarar d. sem vafalaust verður ítarleg ekki síður en rannsókn n. í Ed.