19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Hæstv. forseti. Þegar sagnfræðingar fara seinna meir að skyggnast í gang þess máls sem hér er til umr., þá hygg ég að þeir muni telja hvað hnýsilegast að fá svör við þessum spurningum: Hvaða undur og stórmerki áttu sér stað í aðalstöðvum auðhringsins Union Carbide vestur í New York í hvert sinn sem fulltrúar íslenskra stjórnvalda komu þangað til viðræðna? Hvernig stóð á því, að þegar menn þessir sneru aftur heim til Íslands, töluðu þeir að jafnaði einna líkast því sem þeim hefði birst heilagur andi? — Einkum virðast þessi undur hafa orkað sterkt á hina íslensku viðsemjendur Union Carbide þegar mengunarhlið málsins var rædd. — Fyrstu skjalfestu heimildirnar um þau er að finna í skýrslu þeirri sem viðræðunefnd svonefnd um orkufrekan iðnað lét alþm. í té fyrir um það bil einu ári. 5 valinkunnir menn, valinkunnir gáfumenn, sem n. þessa skipuðu, sögðu þar stutt og laggott að Union Carbide hefði frá upphafi viðræðnanna heitið því að mengun frá verksmiðjunni yrði í algeru lágmarki, og því næst kom þessi fræga fullyrðing: „og er ljóst, að hugur fylgir máli“. — Sama fullyrðing er svo ítrekuð í endurskoðaðri útgáfu skýrslunnar í nóv. s. l. með engu minni áherslu, enda munu þá þessir 5 valinkunnu gáfumenn hafa verið búnir að fara nokkrar ferðir til viðbótar hinum fyrri vestur til New York að sjá heilagan anda. Og fleiri urðu til að vitna í sama dúr, engu minni gáfumenn, þeirra á meðal hæstv. iðnrh. sem sagði frá því á fundi að Leirá í Borgarfirði 4. des. s. l. að hann hefði þá nýskeð skroppið vestur um haf og þar hefði Union Carbide sýnt sér, að mig minnir, eina eða tvær verksmiðjur sínar og eftir þessa örstuttu kynningarferð, því að örstutt var hún, þá taldi ráðh. sig þess umkominn að lýsa yfir þeirri bjargföstu sannfæringu sinni að alls engin mengunarhætta mundi stafa af verksmiðjunni á Grundartanga. Svona tala að sjálfsögðu engir aðrir en þeir sem hafa orðið fyrir merkilegri trúarreynslu.

Annar ráðh., hæstv. landbrh., gaf sams konar yfirlýsingu um sams konar bjargfasta sannfæringu á þessum sama fundi. Þessi ráðh. hafði að vísu ekki sjálfur séð heilagan anda, en hann hafði fyrir sér vitnisburð hins ráðh. og samkv. því ritúali sem gildir í samstarfi núv. stjórnarflokka hlaut hann sem ráðh. Framsfl. að sjálfsögðu að taka gott og gilt það sem gekk fram af munni ráðh. Sjálfstfl. — og má mikið vera ef þar er ekki einnig í vissum skilningi um að ræða merkilega trúarreynslu.

Skylt er að geta þess að í mengunarþætti umr. á Leirárfundi höfðu ráðh. sér til halds og trausts forstjóra Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Hann kom með tvær litlar ljósmyndir sem hann hafði tekið af einhverri verksmiðju Union Carbide vestur í Bandaríkjunum og lét þessar myndir ganga á milli fundarmanna svo að þeir mættu endanlega sannfærast um ágæti og heiðarleika þessa auðhrings í mengunarmálum. Önnur þessara mynda var í fókus, en hin ekki.

Á þessu stigi var blærinn á fundinum líkastur því sem hefði einhver sértrúarflokkur kallað borgfirðinga saman til að boða þeim fagnaðarerindið. Það er rétt, að eftir fundinn að Leirá fór ríkisstj. að sýna svolitla tilburði í þá átt að leita um það upplýsinga hjá öðrum aðilum en Union Carbide hvort allt væri í mengunarmálum eins og auðhringurinn sagði sjálfur. En allt fram til þess tíma höfðu allir talsmenn verksmiðjumálsins, viðræðunefndarmennirnir, forstjóri Heilbrigðiseftirlits ríkisins, ráðh. o. fl., o. fl. gáfumenn, allir höfðu þeir veifað einu og sama siðferðisvottorðinu til sönnunar því að íslendingum væri óhætt að treysta Union Carbide, og þetta siðferðisvottorð var uppáskrifað af auðhringnum sjálfum. En fyrir þá sök hef ég fjölyrt hér sérstaklega um Leirárfundinn, að til hans var bersýnilega stofnað með það fyrir augum að þessi sérkennilega trúarvakning næði þar hámarki. En borgfirðingar reyndust, sem kunnugt er, of miklir efasemdarmenn til þess að gleypa við fagnaðarboðskapnum. Það var ekki sungið neitt halelúja á Leirárfundi.

Ég hef aflað mér gagna sem veita upplýsingar um það að Union Carbide er svo sannarlega ekki neinn heilagur andi. Þessi gögn segja frá reynslu bandaríkjamanna sjálfra af þessum auðhring í mengunarmálum, og þar kveður nokkuð við annan tón en í fullyrðingum þeirra manna sem reynt hafa að sannfæra íslendinga um ágæti þess að fá járnblendiverksmiðju á Grundartanga. Ég ætla að taka nokkur dæmi,

Á árunum 1970–1971 gerðu tveir menn, tveir vísindamenn, lögfróðir jafnframt, Larry Silverman og William Osbourn starfsfélagar hins kunna bandaríska neytendaleiðtoga Ralph Nader, könnun á mengunaráhrifum af starfsemi Union Carbide í Bandaríkjunum. Niðurstaða þeirra var í stuttu máli sú að Union Carbide — og ég hef hér orðrétt eftir: „Union Carbide sé og hafi verið einn af verstu mengunarvöldum landsins“. Fullyrðing þeirra er studd fjölda greina í landsmála- og landsbyggðarblöðum og svo í sjónvarpsþáttum, þar sem fjallað hefur verið um mengunarvanda í borgum eins og Charlestown í Vestur-Virginíu, Marietta í Ohio og Tonawanda í New York-fylki.

Einna verst var ástandið í sambandi við verksmiðjuna í Marietta. Af þeim sökum hélt landseftirlit loftmengunar þar ráðstefnu og bauð til fulltrúum Union Carbide. Union Carbide neitaði að senda fulltrúa. Hið virta tímarit bandarískra kaupsýslumanna, Business Week, segir: „Næstu tvö árin neitaði Union Carbide að láta í té fullkomin gögn um útblástursefni og gekk svo langt að girða fyrir störf opinberra embættismanna í Marietta-verksmiðjunni.“

Árið 1969 endurtók sig leikurinn og var boðuð ráðstefna. Union Carbide neitaði að senda fulltrúa. Eftir hótun um málsókn af ráðuneytis hálfu árið 1970 lét Union Carbide hinar umbeðnu upplýsingar í té og féllst á að fullnægja vissum kröfum um skerðingu á brennisteinsoxíði fyrir okt. það ár. Við það var ekki staðið. Í jan. 1971 var gefin út tilskipun af alríkisstjórnvöldum að Union Carbide dragi úr mengun og var félagið hið fyrsta sem fékk að kenna á valdi umhverfisverndarráðsins.

Forráðamenn Union Carbide hafa reynt að bera þessar ásakanir af sér í skýringarbréfi sem sent var öllum starfsmönnum og hluthöfum, og mér er ekki grunlaust um að fullyrðingar þeirra manna, sem gerst hafa ákafastir talsmenn Grundartangaverksmiðjunnar, byggist fyrst og fremst á þessu bréfi og öðrum slíkum plöggum frá Union Carbide. En í þessu bréfi segir að Union Carbide hafi mikið á sig lagt til varnar gegn mengun og verið samvinnuþýtt. Ralph Nader og félagar hans telja þau skrif hins vegar mjög svo villandi og harla marklítil.

Hechler, fulltrúadeildarþm. frá Vestur-Virginíu, tók til máls um þetta á Bandaríkjaþingi 25. mars 1971. Hann sagði þar frá einni af verksmiðjum Union Carbide í kjördæmi sínu og komst svo að orði: „Borgin er talandi vitnisburður um svívirðuna. Hún er aðsetur verksmiðju sem spýr að líkindum mestum reyk allra verksmiðja í heimi. Járnblendiverksmiðja Union Carbide hellir út í loftið 70 þús. tonnum af rykögnum á ári.“

Það mætti tilgreina fjölmörg fleiri dæmi af þessu tagi. Breytir engu, segja forsvarsmenn fyrirhugaðrar Grundartangaverksmiðju, Union Carbide hefur bætt ráð sitt, Union Carbide er í dag afbragð annarra auðhringa að því er varðar varnir gegn mengun. Annað segir framkvæmdastjóri Iðnaðarmannaráðsins í Puerto Rico. Honum var sent bréf héðan frá Íslandi með beiðni um upplýsingar vegna fyrirhugaðs samstarfs íslendinga og Union Carbide í verksmiðjurekstri. Í svarbréfi, sem kom í jan. s. l., dags. í jan. s. l., segir hann að Union Carbide sé einn af verstu mengunarvöldunum í Puerto Rico, þverskallast við reglum um mengunarvarnir, reyni með öllu mögulegu móti að komast hjá að verja fjármunum til mengunarvarna, en eyði þeim mun meiri peningum í auglýsingar sem eigi að sannfæra fólk um einlægan vilja auðhringsins til þess að tryggja landsmönnum í Puerto Rico hreint vatn, hreint land og hreint loft. Þetta muni vera í auglýsingunum kjörorð auðhringsins þótt andlítið á honum sé nokkuð annað.

Ég er hér líka með bréf frá breskum þm., Bob Edwards. Það er dags. 19. febr. 1975 og fjallar um Union Carbide. Edwards var lengi framkvæmdastjóri hjá Chemical Workers Union, félagi verkamanna sem starfa í efnaiðnaði, og þekkir vel til starfsemi Union Carbide, bæði í Bretlandi og víðar. Hann segir m. a. að auðhringurinn Union Carbide beri mesta sök á mengun í sjó, stöðuvötnum, ám og í lofti.

Maður er nefndur dr. Arthur Bourne, breskur vísindamaður, Ég kynntist honum á fundi sem hann efndi til ásamt Thor Heyerdal vestur í New York í fyrravetur. Íslensku sendinefndinni hjá Sameinuðu þjóðunum var boðið á þennan fund og þeir félagar Heyerdal og Bourne gerðu þarna grein fyrir þeirri geigvænlegu hættu sem nú þegar vofir yfir öllu lífi í Atlantshafi vegna mengunar. Ættu varnaðarorð Heyerdals að vera flestum mönnum kunn, m. a. af fregn sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins nú fyrir nokkrum dögum, og þarf enginn að fara í grafgötur um það, hvað Heyerdal mundi segja ef hann yrði spurður álits á þeim áformum að reisa járnblendiverksmiðju á stað þar sem lífríki er jafnfjölskrúðugt og auðugt og jafnframt viðkvæmt eins og raun ber vitni í Hvalfirði.

Dr. Arthur Bourne nýtur mikillar virðingar í heimalandi sínu vegna afskipta af umhverfisverndarmálum. Hann hefur stjórnað mörgum rannsóknum, bæði á vegum hins opinbera og annarra aðila, varðandi þau mál. Ég er hér með bréf frá honum, þar sem hann segir t. d. frá einni rannsókn sem gerð var undir hans stjórn. Það átti að reisa verksmiðju á tilteknum stað á Bretlandsströnd, en niðurstaða af þessari rannsókn varð sú að stjórnvöld settu bann við því að verksmiðjan yrði reist. Dr. Bourne hefur komið hingað til Íslands og hann þekkir nokkuð til í Hvalfirði og hann segir í þessu bréfi, að á þessum stað séu aðstæður mjög svipaðar og þær eru í Hvalfirði. Þess má geta að dr. Arthur Bourne hefur verið fenginn til þess að flytja erindi um umhverfisverndarmál á hátíðasamkomu sem Sameinuðu þjóðirnar efna til vestur í New York í júnímánuði n. k., á afmæli svonefndrar Stokkhólmssamþykktar.

Nú fyrir skömmu spurði ég dr. Bourne álits á þessum áformum að reisa verksmiðju á Grundartanga. Og hann spurði: Eruð þið alveg út af að drepast vegna atvinnuleysis? Hvað hefur eiginlega komið fyrir hjá ykkur? — Hann kvaðst ekki trúa því að stjórnvöld mundu nokkurs staðar ympra á slíkum áformum nema þar sem atvinnuleysi og önnur slík vandræði væru orðin svo mikil að óhjákvæmilegt væri talið að grípa til örþrifaráða. Það væri alveg af og frá, sagði dr. Bourne, að nokkur stjórnvöld í Bretlandi t. d. eða á vesturlöndum yfirleitt mundu leyfa sér að hefja framkvæmdir við slíka verksmiðjubyggingu fyrr en ítarlegar rannsóknir hefðu leitt í ljós að af henni mundi ekki stafa hætta fyrir náttúru umhverfisins og lífríkið.

Um Union Carbide sagði dr. Bourne, að auðhring þessum fyndist nú að þrengdist mjög um sig í heimalandi sínu, Bandaríkjunum, vegna strangra laga og reglugerða um mengunarvarnir og af ýmsum öðrum orsökum og hann leitaði því æ meir til annarra landa með starfsemi sína. Sennilega eigið þið, sagði dr. Bourne, að taka við þeirri mengun sem þessum auðhring helst ekki lengur uppi að ausa yfir samlanda sína, þ. e. a. s. bandaríska þegna. Ég sagði honum að við hefðum álíka ströng lög um mengunarvarnir og bandaríkjamenn. Já, en þið eruð hins vegar reynslulitlir af eðlilegum ástæðum, reynslulitlir að því er varðar eftirlitið á þessu sviði, sagði dr. Bourne. Ætli þeir Union Carbide-menn reikni ekki með því að vegna þessa reynsluleysis ykkar muni þeir, þegar til kemur, geta sloppið við ýmsa þá kostnaðarliði varðandi mengunarvarnir sem hvíla þungt á þeim heima í Bandaríkjunum.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að eftir þá reynslu sem fengin er af störfum og dómgreind þeirra manna sem fjallað hafa um mengunarhlið þessa verksmiðjumáls og munu, ef til kemur, einnig annast þetta eftirlit, þá sýnist mér ekki sennilegt að Union Carbide telji sig þurfa að búast við ýkjamikilli aðgangshörku af þeirra hálfu — eða hví skyldi þeim ekki opinberast heilagur andi uppi á Grundartanga rétt eins og vestur í New York.

Í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að vitna í bækling, sem ég fékk nýútkominn vestur í New York í fyrra. Hann var gefinn út af einni deild þeirrar frægu bandarísku menningarstofnunar sem kennd er við Carnegie. Þessi deild vinnur að eflingu friðar. Hún nefnist Carnegie Endoument for International Peace. Það stendur mikið um Union Carbide í þessum bæklingi og þ. á m. þessi setning sem tekin er orðrétt eftir einum af forstjórum Union Carbide: Það er óhjákvæmilegt, segir hann. Union Carbide neyðist til þess af samkeppnisástæðum að flytja framleiðslu sína til annarra landa. — Skýrsla þessi greinir annars að meginefni til frá umsvifum Union Carbide í Rhodesíu og Suður-Afríku. Þau umsvif eru mikil. Forstjórar Union Carbide þreytast ekki heldur á að róma það athafnafrelsi sem þeir njóta fyrir tilstilli þeirra hvítu minnihlutastjórna sem ráða þar lögum og lofum í krafti fasistísks valds: Engar reglur um mengunarvarnir, orkan við höndina, hráefnið við höndina, verkalýðssamtök svo til óþekkt. Union Carbide hefur líka endurgoldið fasistunum umhyggjuna með ýmsu móti. Til að mynda áttu erindrekar Union Carbide einna mestan þátt í því að rofið var það viðskiptabann sem Sameinuðu þjóðirnar og þ. á m. Bandaríkin samþykktu að setja á Rhodesíustjórn vegna kúgunarstefnu hennar gagnvart þeim 95% af íbúum landsins sem voru svartir á hörund.

Þannig er þessi auðhringur illræmdur, ekki aðeins fyrir að brjóta lög í heimalandi sínu, heldur einnig fyrir að virða að vettugi alþjóðlegar samþykktir ef svo ber undir. Til marks um eðli hans má einnig hafa það, að hvítir verkamenn, sem vinna hjá fyrirtækjum hans í Rhodesíu og Suður-Afríku, fá allt að því tíu sinnum hærri laun en svartir verkamenn og meðferð þessa auðhrings á svörtu fólki er öll eftir því.

Það er sem sé sannað í þessum bæklingi að auðhringnum Union Carbide er stjórnað af ofríkismönnum sem einskis svífast til þess að ná fram áformum sínum. Og ég spyr: Hvaða nauður rekur okkur íslendinga til að gera félag við slíka menn? — Við rennum með þessu nýjum stoðum undir efnahagslíf okkar, við græðum morð fjár, segja talsmenn málmblendiverksmiðjunnar. Ja, það er nú svo. Einn af þm. Sjálfstfl., Jón G. Sólnes, fullyrti í umr. um þetta mál í Ed. og beitti þar fyrir sig því sem hann mundi sjálfur kalla hreina og klára kapítalíska rökhyggju, — hann fullyrti að Grundartangaverksmiðjan kynni þvert á móti einn góðan veðurdag að leiða til óbætanlegra skakkafalla fyrir efnahag okkar. Ég leiði annars hjá mér í þetta sinn, hvað sem seinna verður, að ræða þessa hlið málsins, efnahagshliðina, enda hafa aðrir til komið og munu eflaust fleiri til koma að gera henni rækileg skil við umr. hér í Nd. Ég ætla að fara að slá botninn í þessa ræðu mína.

Ég vil aðeins að lokum láta í ljós þá von, láta í ljós þá einlægu ósk mína, að enda þótt þessi hv. d. beri ekki gæfu til að fella þetta frv. sem hér er til umr., þetta óheillafrv., þá muni henni samt endast til þess sjálfstæði, einstökum þm. endast til þess sjálfstæði, dómgreind og manndómur að taka undir þá kröfu sem hv. Alþ. hefur borist frá ýmsum aðilum og m. a. og ekki hvað síst frá því fólki sem mest mundi fá að kenna á hugsanlegri óhollustu vegna Grundartangaverksmiðjunnar, þ. e. a. s. borgfirðingum, — taka undir þá kröfu að sett verði inn í frv. ákvæði þess efnis að líffræðileg könnun skuli gerð í Hvalfirði og á landinu í grennd við Grundartanga áður en framkvæmdir hefjast þar. Áköfustu talsmenn verksmiðjunnar fengu því ráðið við atkvgr. í Ed. að d. hunsaði þessa kröfu, þessa lágmarkskröfu, en samþykkti þess í stað að fyrst skuli verksmiðjan reist og síðan, þegar allar maskínur eru tilbúnar að taka til starfa, á að fara að gefa gaum að því hvort ekki kunni að stafa af þessu einhver hætta fyrir umhverfið.

Ég spyr: Hvað veldur eiginlega svona lágkúru? Óttinn við að styggja auðhringinn Union Carbide? Hræðslan við það að sjálfsögðustu varúðarráðstafanir af hálfu okkar íslendinga mundu varpa skugga á hans heilögu ásjónu? Spyr sá sem ekki veit.