19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Páll Pétursson:

Hæstv. forseti. Frv. það til l. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði í 13 greinum, sem hér liggur fyrir til umr. ásamt með fylgisamningum, er mikið og afdrifaríkt mál og er eðlilegt að um það séu nokkuð skiptar skoðanir. Það kemur mér þó nokkuð á óvart hve Alþb.-menn eru einhuga á móti þessu máli og stórorðir sumir, m. a. sá sem héðan var að fara úr ræðustólnum, hv. þm. Jónas Árnason, þar sem þetta er í mínum huga fyrst og fremst þeirra mál, þeirra afkvæmi, ef svo mætti segja. Forganga Magnúsar Kjartanssonar, hv. þm., um þessa samningagerð meðan hann var iðnrh. gerir hann náttúrlega að nokkurs konar föður málsins eða a. m. k. guðföður, jafnvel þó að nú vilji Alþ.-menn ekki láta á því bera. Að vísu hafa fáein atriði samningsins tekið breytingum eftir að málið komst í hendur núv. hæstv. iðnrh., en þau hafa flest verið til bóta að mínum dómi, þannig að samningurinn hefur þó skánað í síðustu lotu. Og þó er ekki þar með sagt að mér þyki þessi samningur nógu góður.

Samningurinn hefur ýmsa kosti og þann fyrstan og langstærstan að lögsagan er íslensk, og vona ég að þar sé nægilega vel um hnútana búið af íslendinga hálfu. Sá er annar kostur samningsins að eignarhald félagsins er íslenskt að meiri hluta. Framkvæmd þessi skapar einnig mörgum mönnum verkefni meðan bygging mannvirkja fer fram, og 100 manns eða meira fá starf við þessa verksmiðju. Það er raunar íhugunarefni hvort atvinna við verksmiðju eins og þessa er virkilega mjög eftirsóknarverð. Ég hef t. d. engan enn þá hitt sem óskar sérstaklega eftir því að börn hans verði vinnuafl í stóriðju. Lífsviðhorf og lífsgæðaþrá íslendinga og gildismat, a. m. k. unga fólksins, þykir mér ekki benda í þá átt að það ætli sér að verða stóriðjuvinnuafl í ríkum mæli.

Það verða talsverðar gjaldeyristekjur af þessari verksmiðju og ber að vissu leyti að telja til kosta, fjármagnsstrauminn sem þarna kemur upp eftir, en þó líklega kannske einkum til Akraness. Íslendingar koma til með að eignast mikið fé í þessu fyrirtæki ef áætlanir standast, og arðgreiðslurnar gætu orðið talsverðar.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að þeim ókostum sem ég tel fylgja þessum samningi. Fyrst vil ég nefna að þetta er fjárfrekt fyrirtæki, mjög fjárfrekt, á 3. milljarð á að svara út á næstunni og standa undir okkar hluta af lánsfé félagsins sem nemur 4, 6 eða hver veit hvað mörgum milljörðum. Ég tel að við gætum varið þessu fé á annan hátt.

Í öðru lagi verður óhjákvæmilega stórfelld félagsleg röskun hjá því fólki sem byggir hinar blómlegu sveitir sunnan Skarðsheiðar. Þetta verða ekki lengur fyrst og fremst landbúnaðarsvæði. Skilmannahreppi verður ekki stjórnað frá Lambhaga í framtíðinni, honum verður stjórnað af Grundartanga og e. t. v. stjórnað með aðra hagsmuni fyrir augum en bændafólks. Hreppurinn fær miklar tekjur af Grundartanga, en hann kemur líka til með að þurfa mikið fé til þess að veita eðlilega og sjálfsagða þjónustu Grundartangafólki.

Ég er engan veginn viss um að hafnargerðin sé fjárhagslega hagkvæmt fyrirtæki fyrir þá hreppa sem ætlað er að byggja höfnina. Ég hef enga trú á því að vöruflutningar aðrir en hvað verksmiðjunni sjálfri viðkemur verði um hana að nokkru verulegu leyti. Þessu veldur að sjálfsögðu nálægð við góða höfn á Akranesi og nábýli við Reykjavík.

Ég get ekki neitað því að mér hrýs hugur við því að þrengja kosti fólksins þarna uppi í sveitunum eða skerða lífshamingju þess eða lífsafstöðu með félagslegri röskun sem ég þykist sjá að verði þarna. Mér finnst að þetta fólk eigi þessar sveitir og eigi að halda áfram að fá að eiga þær í friði. Ég veit, að þessi umsvif verða ekki landbúnaði þarna lyftistöng og það er náttúrlega óhugnanlegt að knýja þessar framkvæmdir fram, fyrst þær brjóta í bága við óskir a. m. k. einhverra þarna í nágrenninu. Ég vil leyfa mér að minna á samþykktir Búnaðarsambands Borgarfjarðar, Kvenfélagasambands Borgarfjarðar, samþykkt sveitarfundar á Hvalfjarðarströnd, en allar gengu þær í þá átt að vara við þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð um undirbúning málsins, einkum hvað varðar náttúruvernd.

Mig brestur þekkingu á skattamálum hliðstæðra fyrirtækja til þess að ég þori að ræða mikið um skattahlið samningsins. Vera má að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir, sé eðlilegt og hið mikla tollfrelsi. Þó get ég ekki gert að því að mér sýnist að skattheimta og tollheimta verði mjög vægileg, svo að ekki sé meira sagt. Það gengur nefnilega eins og rauður þráður í gegnum alla þessa samningsgerð að hagur verksmiðjufélagsins, járnversins, er mjög tryggður ef um viðskipti við íslenska aðila er að ræða. Það sýnist mér hann hins vegar ekki vera þegar um er að ræða viðskipti félagsins við Union Carbide eða dótturfélög þess önnur. Félaginu er ætlað að græða, en ekki þeim aðilum íslenskum sem selja því eða veita því þjónustu. Í okkar hlut kemur að vísu rúmur helmingur þess arðs er þarna myndast.

Þá kann svo að fara, ef Union Carbide-hringnum fellur ekki við okkur, að við verðum að kaupa þeirra hlut að 10 árum liðnum og má vera að illa standi á hjá okkur þá að svara út þessu kaupverði, þó að ég voni að svo verði ekki.

Ég vil vekja athygli á því að tækniþekking og tækniaðstoð er hátt metin af hálfu auðhringsins. Framlag tækniþekkingar er metið sem 3.2 millj. dollara hlutabréf og það er auðvitað ekkert aðgengilegur kostur, þar sem á bak við 8 af hverjum 27 hlutabréfum, sem Union Carbide leggur í félagið, standa engir peningar, einungis vitsmunir og snilli hjá Union Carbide. Þá er tækniþóknunin til Union Carbide, 3% af árlegum sölutekjum félagsins, líka mjög verulegur skattur. Ekki get ég fallist á að sölufyrirkomulagið sé sérstaklega heppilegt. Auðvitað verður verksmiðjufélagið gersamlega upp á hringinn komið hvað söluna varðar og þiggur hann líka fyrir bað í ofanálag mjög mikið fé. Ég vil leyfa mér að vísa til ummæla hv. þm. Jóns G. Sólness í Ed., þegar þetta mál var þar til umr., um þetta atriði sérstaklega. Eins vil ég vísa til aths. hans um kísiliðjuna í Mývatnssveit og sölufyrirkomulag sem er að nokkru leyti hliðstætt með þessum tveimur samningum. Ég er ekki þar með að segla að ég sé sammála hv. þm. Jóni G. Sólnes um ýmis önnur atriði úr ræðu hans í Ed., en Jón G. Sólnes lítur á málefnin frá nokkuð öðru sjónarhorni en flestir aðrir hv. þm. Þess vegna er rétt að gefa gaum að þeim dráttum sem hana eykur í myndina, því að þeir geta orðið til þess að hún skýrist. Ég hrósa hv. þm. Jóni G. Sólnes fyrir að leggja það á sig að hugsa sjálfur um þetta málefni og tjá sig um það.

Þá er komið að því fyrra af þeim tveimur atriðum sem mér sýnast lökust við þennan samning. Það er raforkusalan. Ég get ekki séð annað en söluverð á raforku sé of lágt og það er ekki hyggilegt að mínum dómi að ráðstafa í einu lagi svo miklum hluta þeirrar orku sem við fáum frá Sigöldu. Við höfum reynsluna af óhagkvæmum raforkusölusamningum, við höfum reynsluna af samningnum við álverið. Salan á meira en helmingi af tiltækri raforku í landinu fyrir 10% af heildarverði raforku er náttúrlega ekki traustvekjandi ráðstöfun. Það var reiknað út með okkar frægustu reiknivélum á sínum tíma að sá raforkusölusamningur væri hagkvæm ráðstöfun. Þessu héldu mennirnir, sem gerðu samning þann, fram í góðri trú. Ríkisstj., viðreisnarstjórnin, sem samninginn gerði, hafði nefnd sérfræðinga sér til aðstoðar við samningagerðina. Í henni voru dr. Jóhannes Nordal, Eiríkur Briem framkvæmdastjóri Landsvirkjunar, Hjörtur Torfason lögfræðingur, Steingrímur Hermannsson, hv. þm., Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri og einhver Mr. Kyle, en hann kemur ekkert við sögu samninganna í ár. Ég vil lesa — með leyfi hæstv. forseta — lítinn kafla úr aths. sem fylgdu frv. til l. um lagagildi samningsins milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík, lagt fyrir Alþ. á 86. löggjafarþingi 1965–1966. Þessi kafli ber yfirskriftina „Áhrif álbræðslu á þróun raforkumála“ og er á bls. 98–99 í því frv.:

„Í sérstökum kafla hér á eftir er gerð allrækileg grein fyrir þeim hagstæðu áhrifum sem bygging álbræðslu og langur rafmagnssamningur við hana mun hafa á hag Landsvirkjunar og þróun raforkumála, Álbræðslan gerir það kleift að ráðast með hagkvæmum hætti í byggingu stórra orkuvera í hinum miklu óvirkjuðu jökulám Íslands. Gerður hefur verið víðtækur tölulegur samanburður á því hver muni verða afkoma Landsvirkjunar ef ráðist væri í Búrfellsvirkjun án rafmagnssamninga við álbræðslu annars vegar, en með slíkum samningi hins vegar. Þessir útreikningar hafa verið gerðir ár fyrir ár allt fram til ársins 1985, en Búrfellsvirkjun án álbræðslu mundi fullnægja raforkuþörfinni sunnan- og vestanlands fram til þess tíma. Til þess að gera þá leið að byggja Búrfellsvirkjun með samningi um orkusölu til álbræðslu sambærilega hefur verið gert ráð fyrir byggingu annarrar virkjunar á eftir Búrfellsvirkjun er hefði 126 mw. afl svo að séð yrði fyrir allri raforkuþörf fyrir Suðvesturland fram til ársins 1985. Í reikningunum hefur verið gert ráð fyrir því að þessi virkjun yrði gerð við Háafoss, en ýmsar aðrar leiðir geta að sjálfsögðu komið til greina. Í útreikningunum er áætlað að verja til þessarar seinni virkjunar 975 millj. kr. án vaxta á byggingartíma.

Samanburður á þessum tveim leiðum í raforkumálum hefur leit í ljós eftirfarandi meginniðurstöður:

Sé litið á rekstrarafkomu Landsvirkjunar fram til ársins 1985, eins og hún mundi vera samkv. hvorri leiðinni fyrir sig, kemur í ljós að samanlagður tekjuafgangur fram til ársins 1985 mundi án vaxta verða 700 millj. kr. meiri“ — takið eftir hv. þm. — „700 millj. kr. meiri ef gerður yrði rafmagnssamningur við álbræðsluna. Er þá þegar búið að reikna inn í dæmið allan kostnað af byggingu nýs orkuvers sem kæmi í stað þess hluta Búrfellsvirkjunar sem framleiddi raforku fyrir álbræðsluna. Sú mikla lækkun á framleiðslukostnaði raforku fyrir innanlandsmarkað, sem samningur við álbræðslu gerir mögulegan, gæti að sjálfsögðu komið fram annaðhvort í lægra raforkuverði eða örari uppbyggingu raforkukerfisins, eftir því hvað þætti þjóðhagslega hagkvæmara.

Að því er raforkuverðinu viðkemur sýna útreikningar að raforkukostnaður á árunum 1969–1980 mundi verða 28% hærri ef Búrfellsvirkjun væri eingöngu byggð fyrir almenningsnotkun og enginn sölusamningur gerður við álbræðslu.Fyrstu árin mundi þó raforkuverð þurfa að hækka enn þá meira en þetta umfram það sem nauðsynlegt yrði ef álbræðsla væri byggð. Ef þjóðhagslegar ástæður benda til þess í framtíðinni, að hagkvæmt sé að halda áfram örri uppbyggingu orkuframleiðslunnar í landinu, er líklegt að þeim hagnaði, sem hér um ræðir, verði frekar varið til örari uppbyggingar heldur en lækkunar raforkuverðs. Sé allur hagnaðarmismunurinn á þessum tveimur leiðum lagður í nýja stórvirkjun á móti 50% lánsfjáröflun annars staðar að mundi það t. d. nægja ríflega fyrir virkjun Dettifoss.

Hinn mikli hagnaður, sem felst í því að gera samning við álbræðsluna nú, liggur einfaldlega í því að geta miklu fyrr en ella nýtt til tekjuöflunar fyrir þjóðarbúið stórfellda raforkuframleiðslu sem ella væri ekki markaður fyrir. Þetta mun svo aftur hafa í för með sér örari uppbyggingu orkuframleiðslunnar í framtíðinni ásamt þeim efnahagslegu tækifæru.m sem í því felast.

Loks er svo rétt að benda á það, að hér hefur aðeins verið rætt um afkomu Landsvirkjunar fram til ársins 1985, en eftir þann tíma mun rafmagnssamningurinn við álbræðsluna halda áfram að skila Landsvirkjun miklum umframtekjum árlega. Um 22 árum eftir að virkjunin tekur til starfa verða öll lán hennar fullgreidd svo að allar tekjur álbræðslunnar, að frádregnum tiltölulega litlum árlegum rekstrarkostnaði, munu þá verða hreinn greiðsluafgangur fyrir raforkukerfið.“

Þetta var viðhorf okkar færustu sérfræðinga haustið 1965. Ég rek ekki þessa sögu lengur, en sú reiknivél eða tölva, sem fékk þessa útkomu 1965, gæti líka reiknað skakkt 1974. Ég mun, með leyfi hæstv. forseta, lesa örstuttan kafla úr rafmagnssamningi járnversins á bls. 52 í frv.

„Verkfræðideild hefur reiknað afkomu Landsvirkjunar með og án samnings við málmblendiverksmiðjuna með verðum þeim sem tilgreind eru í töflu 3. Ef gert er ráð fyrir að verðhækkunarákvæði í samningsuppkastinu vegi upp á móti hugsanlegum verðhækkunum á stofukostnaði Hrauneyjarfossvirkjunar, þá kemur í ljós, að Landsvirkjun fær um 700 millj. kr.“ — þarna koma þær aftur — „meira í sinn hlut af núgildandi samningum, reiknað yfir samningstímabilið, samanborið við það hvað Landsvirkjun fengi ef eingöngu væri selt til almennings og er þá reiknað með 9.5% vöxtum.“

Ég óttast að það hafi einhvers staðar líka verið stillt skakkt inn á tölvuna núna eins og 1965, og þá erum við illa settir.

Annars er það ekki ætlun mín — fjarri því — að bera saman þessa samninga, álsamninginn og járnblendisamninginn. Sá seinni ber náttúrlega af hinum fyrri og það sýnir að við höfum lært af mistökunum. Spurningin er bara: Höfum við lært nóg? Við þurfum að borga á annan tug kr. fyrir hverja kwst. til heimilisnotkunar fyrir norðan svo að mér þykja þessir 60 aurar á kwst. — eða hvað er hægt að gera þá marga með því að fella gengið — sem verksmiðjufélagið á að greiða ekki vera há upphæð.

Hækkunarákvæðin á samningstímanum eru að vísu mjög til bóta, en þau gefa tæplega fyllstu tryggingu að mínum dómi. Ég er ekki heldur viss um það að Noregur sé hagstætt viðmiðunarland. Norðmenn koma til með að hafa gnótt olíu innan skamms og gætu hlíft sínum ríkisfyrirtækjum við háu orkuverði. Sjálfsagt þykir mér að miða orkusölu til erlendra auðhringa við meðalkostnaðarverð íslenskrar raforku á hverjum tíma, og sannleikurinn er sá að það er mjög óþægilegt að sjá fyrir með nokkru öryggi orkuverðsþróunina í heiminum. Verðið hækkar. En hvað hækkar það ört? Orkulindir heimsins tæmast óðum og eftirspurn eykst dag frá degi.

Við erum auðug þjóð, íslendingar, að eiga alla þessa orku í jarðvarma og fallvötnum. En þar fyrir megum við ekki bruðla með hana eða ráðstafa henni gáleysislega. Það er okkur brýnt verkefni að gera heildaráætlun um það, hve mikla orku við höfum nýtanlega með góðu móti, og raða framkvæmdunum niður, en ekki bara leggja allt upp úr virkjunarhraðanum og standa svo uppi árið 2000 með alla aðgengilega orku nýtta og hafa ekkert eftir nema rándýra eða náttúruspjallandi möguleika til orkuöflunar í framtíðinni og orkunni kannske ráðstafað óhyggilega og til langs tíma.

Ýmsir telja, að við munum sitja uppi með mikla ónýtta orku frá Sigöldu ef ekki verður af þessum samningi. Sigalda verður þó tilbúin hálfu öðru ári undan járnverinu. Ég er ekkert hræddur við það þó að við komum ekki allri orkunni í lóg strax. Mikill hluti landsbyggðarinnar býr við mjög alvarlegan orkuskort og við þurfum orku norður svo fljótt sem verða má og við verðum að fá leyfi til húshitunar með rafmagni, en þess eigum við engan kost nú. Mér finnst það skammsýni að leggja ekki allt kapp á það að spara olíu svo sem frekast er kostur. Við verðum að fá rafmagnshitunarleyfi fyrir norðan, en ég hef enga von um að það fáist fyrr en rætist úr orkumálum þar og byggðalínan fer að flytja rafmagn. Úrtölutón dr. Jóhannesar Nordal á fundi Sambands ísl. rafveitna um byggingarhraða byggðalínu lít ég mjög alvarlegum augum. 47% landsmanna utan Reykjavíkur búa við olíukyndingu, 180 millj. lítrar voru notaðir til húshitunar 1972. Þeir kosta ofboðslegt fé. Olía til hitunar á hvert mannsbarn á Siglufirði var s. l. ár 1800 lítrar, samkv. vönduðum útreikningum sem nýlega hafa verið gerðir vegna undirbúnings að hitaveitu þar.

Það er alveg rétt að dreifikerfi rafveitnanna þarfnast endurbóta til þess að dreifa orkunni. Áætlun var gerð fyrir ári um línu milli landshluta og breytingar á dreifikerfinu og var þá talið að kostnaðurinn yrði 4 milljarðar, og nytu þá 80% raforku 1981. Þannig tel ég að fé og orku væri vel varið.

Við þurfum endilega að stækka áburðarverksmiðjuna svo fljótt sem þess er nokkur kostur. Ef til þess þarf orku og hún verður að vera tiltæk svo fljótt sem hægt er að hefja framleiðslu, og því miður samrýmist það ekki þessari ráðstöfun á raforkunni. Vel kann svo að fara að þurrkun fiskimjöls með rafmagni og þurrkun grass til heykögglagerðar verði hagkvæm innan tíður. Til þess þarf enn fremur orku. Árleg orkunotkun á hinum ýmsu veitusvæðum eykst hraðar en nokkur hefur gert ráð fyrir. Útreikningar Landsvirkjunar krefjast þess að Hrauneyjarfoss verði virkjaður strax og sú virkjun verði ekki dýrari en Sigölduvirkjun. Jafnframt því að Kröfluvirkjun seinki ekki og Bessastaðaárvirkjun reynist framkvæmanleg. Ef eitthvað af þessu bregst eða frestast, þá sjáum við fram á áframhaldandi orkuskort og þetta er glannalegt í meira lagi að mínum dómi.

Ég vil svo bæta við að í minni sveit þykir það búmennska að eiga fyrningar. Ég hef aldrei þekkt bónda sem skaðaðist á því að setja varlega á heyin sín eða eiga fyrningar á vordögum. Ég hygg að sama lögmál gildi í orkumálum. Ég held að það yrði enginn þjóðarvoði þó að rafmagnsframleiðslumöguleikar væru eitthvað meiri eitt ár en brýn þörf væri fyrir. Orkuskorturinn er dýrastur — ég endurtek — orkuskorturinn er dýrasti valkosturinn.

Svo er það mengunarhættan. Hún er nú auðvitað fyrir hendi, hvað sem hver segir, vonandi ekki háskaleg, en fyrir hendi þó og ekkert má fara úrskeiðis. Úrgangsefni frá verksmiðjunni geta orðið vandamál og erfitt að koma þeim fyrir kattarnef, þeim sem á annað borð tekst að höndla. Gjallhaugurinn kemur til með að verða kostnaðarsamur með tímanum. Síuleirinn verður ekki aðlaðandi, hygg ég, og eitthvað orkar tvímælis um hættuleysi hans. Forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins segir að hann sé krystallaður með fenóli. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur aldrei heyrt það. Mengunarhættu af vatni óttast ég líka nokkuð og áhrif á lífríki sjávar.

Það er mjög haft á orði af forgöngumönnum verksmiðjumálsins að mjög verði vandað til mengunarvarna og það er alveg sjálfsagt mál. Bjartsýnismenn hafa það eftir Union Carbide að þeir nái í síur 99% af rykinu, bara eitt lítið prósent sem sleppur. Ég bendi á að þetta prósent gæti verið nógu stórt til þess að valda verulegum skaða, jafnvel óbætanlegu tjóni.

Reykur frá fiskiðjuverum hefur blandast inn í þessar umr., nú síðast í framsöguræðu hæstv. iðnrh. Ég vil nefna það að reykur frá fiskiðjuverum, peningalyktin, er lífrænn og hollur gróðrinum. Ég get sagt ykkur frá því að fjöllin í kringum Siglufjörð voru miklu grænni og fegurri þau haustin sem fylgdu síldarsumrunum.

Ég neyðist til þess að játa það að framkoma Heilbrigðiseftirlitsins verkar ekki traustvekjandi á mig í þessu máli. Forstöðumaðurinn og umhverfisverkfræðingurinn Einar Valur Ingimundarson ruku til og deildu og umhverfisverkfræðingurinn varð að hætta störfum. Ég tek með fyllstu varúð yfirlýsingum Heilbrigðiseftirlitsins um hættuleysi þessa iðnaðar, eftir það sem á undan er gengið. Ég vitna til viðtals Morgunblaðsins við forstöðumann Heilbrigðiseftirlitsins 17. des. 1974. Slíkar skýrslugerðir þykja mér vafasamar, svo að ekki sé meira sagt. —

Ósamræmi í upplýsingum frá Union Carbide og norsku fyrirtækjunum er tortryggilegt. Sú aðferð að gera skyndireisu til að skoða verksmiðjur auðhringsins vestan hafs hafa líka sína annmarka, víst er um það. Ekki mundi ég hafa mikið gagn af því að fara slíka för. Ég hygg að mér og öðrum íslendingum, jafnvel þeim sem finnst þeir vera sérfróðir um heilbrigðiseftinlit, muni fara eitthvað líkt og 18 barna föður í álfheimum ef við færum að gera vísindalega úttekt á notagildi flókinna hreinsitækja. Við mundum einungis undrast svo langan gaur í lítilli grýtu.

Það er ónotaleg þversögn þegar gæslumenn hagsmuna Íslands hafa sannfærst um öryggi og vöndugheit viðsemjanda, sjálfsagt í góðri trú, og fara svo allt í einu að koma fram sem sérstakir málsvarar og áróðursmenn fyrir það fyrirtæki sem þeir áttu að athuga. Sem betur fer hafa fleiri aðilar en Heilbrigðiseftirlitið látið sig þessi mál varða og sumar þær umsagnir eru jákvæðar og sumar þeirra met ég mikils. Einn athugunarmaðurinn, flokksbróðir minn, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, andaði að sér „ekki sérlega óþægilegu lofti“ í verksmiðju fyrir vestan, segir hann í fróðlegri grein í Tímanum 8. febr. Þó mun hann hafa leitt hugann að hinu tæra fjallalofti uppi á Íslandi og „það var sannarlega fjarri“ sagði hann.

Stórorðir náttúruverndarmenn, t. d. eins og sá, sem var hér í ræðustól í hv. d. næstur á undan mér, hafa ráðist á hugmyndina um byggingu þessarar verksmiðju með miklu offorsi. Þeir hafa talað um kvikasilfurský, blásýru, kadmíum, kísilryk. Þeim upplýsingum tek ég líka með varúð og mun þar margt vera ofsagt. Allt um það vil ég gæta ítrustu varfærni í þessum efnum, því að víxlspor verða e. t. v. ekki aftur tekin og skaðinn getur orðið óbætanlegur fyrr en varir. Ég mun — með leyfi hæstv. forseta — lesa úr ályktun Búnaðarþings um þetta mál, einmitt þeirri ályktun sem hv. þm. Jónas Árnason nefndi hér í lok ræðu sinnar áðan. Ályktunin hljóðar svona:

„Búnaðarþing beinir því til Heilbrigðiseftirlits ríkisins að áður en til þess komi að það veiti starfsleyfi fyrirhugaðri málmblendiverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði, hafi það aflað sér allra fáanlegra upplýsinga um hugsanleg mengunaráhrif frá slíkri verksmiðju, bæði á landi, í lofti og í sjó. Telur þingið sjálfsagt að stuðst sé í þessu efni við reynslu annarra, þ. á m. norðurlandabúa, sem reka sams konar verksmiðjur og hér um ræðir. Í því skyni verði íslenskir sérfræðingar á sviði líffræði og verkfræði nú þegar sendir utan til þess að kynna sér af eigin raun allt það sem lýtur að umhverfisáhrifum slíkrar starfsemi.

Þá tekur þingið undir þá eindregnu ósk Náttúruverndarráðs, Búnaðarsambands Borgarfjarðar og fleiri aðila til iðrn. að gerð verði ítarleg líffræðileg könnun á Hvalfirði og umhverfi fyrirhugaðs verksmiðjustaðar áður en nokkrar framkvæmdir hefjast þar. Á grundvelli þeirrar könnunar verði leitast við að sjá fyrir hugsanleg áhrif verksmiðjurekstrarins á lífríki láðs og lagar, enda er nauðsynlegt að fyrir liggi líffræðileg úttekt á svæðinu til samanburðar við síðari athuganir. Verði niðurstaðan af áðurnefndum athugunum sú að hætta af mengunaráhrifum málmblendiverksmiðju sé engin fyrir heilsu manna né fyrir gróður eða dýralíf umhverfis og Heilbrigðiseftirlit ríkisins veiti þess vegna starfsleyfi til þvílíks rekstrar og hann verði hafinn, þá gerir Búnaðarþing eindregna og ákveðna kröfu um að haft verði stöðugt og fullkomið eftirlit með heilsufari starfsfólks og hugsanlegum breyting:um á lífríki í nágrenni verksmiðjunnar.“

Ályktun Búnaðarþings lýkur þannig:

„Þá minnir þingið á ályktun sína um nauðsyn þess að kanna hagkvæmni aukinnar áburðarframleiðslu í landinu áður en teknar eru frekari ákvarðanir um ráðstöfun raforku til stóriðju. Einnig verði gert stórt átak til að nýta raforku til húsahitunar.“

Hér lýkur tilvitnun í ályktun Búnaðarþings. Því miður sé ég þess ekki merki að ætlunin sé að verða við — nema þá að örlitlu leyti — þessum hófsömu og sjálfsögðu tilmælum Búnaðarþings.

Verksmiðjur Union Carbide í Bandaríkjunum hafa fram að þessu ekki verið neinn unaðsreitur þarlendum náttúruverndarmönnum. Það hygg ég að hv. þm. Jónas Árnason hafi farið rétt með í ræðu sinni hér áðan. Þetta veit allur heimurinn. Auðæfi okkar íslendinga liggja m. a. í hinu ómengaða umhverfi og það verðum við að varðveita og engu hætta til. Fiskur okkar selst betur vegna þess að kunnugt er að hann er úr nokkuð hreinum sjó. Það er ekki sérstaklega góð auglýsing ef kaupendur úti í heimi færu að líta á hann sem fisk frá landi þar sem Union Carbide hefur mjög mikil umsvif. Hér við land er Faxaflói í langmestri hættu vegna mengunar af hafsvæðum hér við land. Hættumerki geta verið skemmra undan en margir hyggja. Því veldur þéttbýli við flóann og stórfelldur verksmiðjurekstur. Ég minni enn fremur á það, að um þennan flóa eiga leið allir þeir laxar sem hv. þm. Stefán Jónsson og Steingrímur Hermannsson veiða hér suðvestanlands, og vonandi eru þeir sammála um að forða honum frá kvikasilfri og djöfulskap, því að þá færi að verða lítið gaman að veiða hann ef hann væri orðinn eitraður.

Rísi verksmiðja á Grundartanga og standist útreikningarnir og við verðum henni fjárhagslega háðir, þá er líka mikil hætta á því, þótt um verulega mengun verði að ræða, að ríkisvaldið treysti sér ekki til þess að verja enn þá meiri fjárfúlgum til mengunarvarna þannig að ríkið hefði beinlínis fjárhagslegan ávinning af því að útsvína Hvalfjörð.

Þessari verksmiðju er ætlað að framleiða fyrir markað í Evrópu. Við höfum að sumu leyti dapurlega reynslu af viðskiptum við Efnahagsbandalag Evrópu. Einu sinni vildu sumir málsmetandi menn hér á landi ganga í bandalagið, m. a. sumir þeirra sem hafa komið nærri þessari samningagerð. Sem betur fer var ekki farið að ráðum þeirra þá. Þetta bandalag hefur verið harðleikið við okkur í landhelgismálum og reynt að beita okkur viðskiptaþvingunum. Þessi verksmiðjubygging gerir okkur háðari Efnahagsbandalagi Evrópu í framtíðinni og það gæti hugsanlega komið sér illa einhvern tíma.

Það er vandrötuð leið fyrir litla þjóð að varðveita menningarlegt, stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði sitt og fara sér ekki að voða í ólgusjó veraldarhafsins. Við verðum umfram allt að sigla okkar fleytu sjálfir og binda hana ekki aftan í hafskip stórveldis eða ríkjabandalaga, ástunda góð samskipti við alla, en gæta þess að vera engum háð.

Niðurstaða mín er því þessi: Þótt samningurinn sé ekkert forkastanlegur, eins og sumir aðrir samningar sem við höfum gert, og innihaldi mörg jákvæð atriði sem gætu orðið til fyrirmyndar í framtíðinni ef við eigum á annað borð að gera stóriðjusamninga, þá inniheldur hann það mörg varhugaverð atriði að mér sýnist eftir vandlega umhugsun hvorki nauðsynlegt að gera hann né skynsamlegt. Ég tel búmannlegra að verja tiltækri raforku á annan hátt og forðast að taka þá mengunaráhættu sem tvímælalaust er fyrir hendi. Þess vegna legg ég til að málið fari í n. og hljóti þar nákvæma athugun og langa, en komi það síðan á móti von minni til 2. umr., þá mun ég segja nei.