19.03.1975
Neðri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það voru aðeins nokkrar aths. sem ég vildi gera við þú ræðu sem hæstv. iðnrh. flutti áðan.

Hann sagði að það væri greinilegt að ég væri haldinn misskilningi, að ég hefði misskilið mjög þær reglur sem raunverulega giltu um afgangsorku, og hélt, að framkvæmdin í þeim efnum gæti verið á allt annan veg en ég hefði lýst. En þá kom mjög greinilega í ljós, að hæstv. iðnrh. hefur alls ekki sett sig inn í þetta mál. Nú er þetta mál ekki flókið, það á að vera hægt að gera það upp með örfáum tölum.

Hæstv. ráðh. sagði m. a. að við gætum haldið þannig á framkvæmd þessa máls að við afhentum t. d. á hálfu ári enga afgangsorku, en þá auðvitað þeim mun meira á hinum helmingnum. Nú stöndum við þó frammi fyrir því að í einu ári er ákveðinn klukkustundafjöldi og Union Carbide fær ekki breytt því. Og reikni maður með 365 dögum í árinu og 24 tímum í sólarhringnum, þá er ómögulegt að fá út úr árinu nema 8 760 stundir, það er engin leið. Ef hæstv. ráðh. heldur þannig á málinu að hann er búinn að sleppa helmingnum af árinu þá hefur farið helmingurinn af þessum klukkustundum og þá eru aðeins eftir 4380 stundir. Nú er þarna um tvo ofna að ræða sem taka 30 mw. Annar á að vera samkv. samningi alltaf í gangi svo gott sem, vegna þess að þar er um að ræða forgangsorku upp á 244 mw. Þótt hann hefði hinn ofninn, sem á að taka við afgangsorkunni, í gangi allar þessar klukkustundir í hálft ár, 4380x30, þá fær hann ekki út úr þessu nema 131 gwst. Málið er svona einfalt. En í samningunum segir, að það sé skylda að afhenda minnst 153 gwst., aldrei fara neðar en það. En það er eins og ég benti á, að skilyrðin, sem fylgja afhendingu afgangsorkunnar eru m. a. þau að það megi aldrei fara neðar með afgangsorkuna en niður í 153 gwst. Þó er sagt að þegar gerð eru upp 4 ár í einu, á fjögurra ára tímabilinu, má aldrei fara neðar en í 183 gwst. að meðaltali á 4 árum. Svo er bætt við: þó aldrei neðar en í 244 gwst. yfir allt samningstímabilið, 20 ár. Það sem sagt gefur auga leið þar sem eru tveir ofnar upp á 30 mw. hvor, að 30 mw. ofninn verður að ganga í 8 000 stundir á ári til þess að ná út 240 gwst.

Sannleikurinn er sá að reglurnar í þessum samningi um afgangsorku eru að langmestu leyti blekkingar. Hér er um það að ræða að það er verið að gera samning um að afhenda 244 gwst. á ári sem forgangsorku og 244 gwst. að meðaltali á ári sem afgangsorku. Við þetta eru líka allar þær áætlanir miðaðar sem hér liggja fyrir um afkomu verksmiðjunnar. Þær eru miðaðar við þetta. Það er því ekki svo einfalt að reikna dæmið þannig að þeir fái bara forgangsorkuna, því að þá er vitanlega líka verksmiðjan farin á hausinn, þá stenst hún ekki samkv. útreikningunum. Ég sá það alveg greinilega á því sem hæstv. ráðh. sagði að hann hefur ekki sett sig inn í hvernig þetta er í raun og veru svo að hann kennir mér ekkert í þessum efnum. Ég er nefnilega búinn að fara í skóla til miklu fróðari manna en hann er varðandi þessi mál. Og þetta er það einfalt að það á að vera hægt að skilja það.

En það var annað atriði sem hæstv. ráðh. minntist á og gerði efnislega aths. við það sem ég sagði. Hann sagðist hafa fengið bréf frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Þetta bréf hafði ég líka og hef og vitnaði í það í ræðu minni. Hann las lokaorðin í þessu bréfi þar sem segir að miðað við það hvað þeir telji líklegt að geti orðið um rafhitun húsa, þá telji þeir ekki útilokað að það verði gert hvort tveggja: að selja málmblendiverksmiðjunni raforku og framkvæma húshitunina. En fyrr í þessu bréfi segir að miðað við 100% framkvæmd á húshitunarverkefninu verði um að ræða að það vanti 72 gwst. til þess að til sé orka til að anna þessu. En þeir bara reikna ekki með því að húshitunarmálið verði leyst 100%. Það kemur líka fram í þessu bréfi frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, eins og ég hafði minnst á, að til þess þó að ná þetta langt er búið að reikna með því að Krafla verði 60 mw. virkjun, sem nú er sannarlega ekkert ákveðið um enn þá. Það kemur líka fram hjá honum að hann gerir aðeins ráð fyrir því í þessum útreikningum að járnblendiverksmiðjan fái þá orku sem skyldugt er að afhenda henni. En þar vantar verulega upp á. Ég reikna með því að við verðum að afhenda járnblendiverksmiðjunni alla þá orku sem útreikningarnir um hana byggjast á og það þýði ekkert að skjóta sér undan því að hún eigi t. d. fyrstu 4 árin að fá undir magni í þeirri trú að hún eigi að fá langt yfir magn ú seinni tímanum.

Sannleikur málsins er því sá, eins og ég hafði vikið að og hæstv. ráðh. gat vitanlega ekki hnekkt í einu eða neinu, að það er ekki möguleiki á því að leysa bæði þessi verkefni þannig að eitthvert öryggi sé í okkar raforkukerfi um nægilega orku, — það er ekki möguleiki nema stefnt sé að því að koma upp nýju orkuveri og hefja framkvæmdir á því svo að segja strax. Það er ekki hægt öðru vísi. En það er auðvitað alltaf hægt að segja að þá sé ekkert annað en ráðast bara í nýja stórvirkjun og aftur stórvirkjun. Þá væru menn komnir út í þá sjálfheldu að ráðast í nýja stórvirkjun eins og Hrauneyjarfossvirkjun sem er jafnstór og Sigölduvirkjun. Og séu núna rök fyrir því að það eigi að koma upp járnblendiverksmiðju vegna þess að Sigalda sé of stór, þá koma upp nákvæmlega sömu rök fyrir því þegar Hrauneyjarfoss hefur verið virkjaður, jafnstór virkjun, þá þarf aðra járnblendiverksmiðju til þess að eitthvað vit sé í rekstrinum. Þannig halda menn auðvitað áfram. En þetta geta menn auðvitað ekki sagt allt í einu því að þá mundu norðanmenn ekki fylgja á eftir, þá mundu þeir verða órólegir og ekki vilja samþykkja þetta.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar nú því að komið er fram á nótt og tækifæri gefst til að ræða þetta mál nánar síðar. En ég álít að það sé í rauninni að bæta gráu ofan á svart í þessum efnum ef verið er að skýra mönnum rangt frá um það hvað til stendur og hvað gera verður ef þetta mál verður samþ. Það verður að taka ákvörðun um nýja stórvirkjun og það er Hrauneyjarfoss sem stendur til að ráðast í, og þá er bara að játa það eins og það er. Allir útreikningar og allar forsendur í þessu máli eru byggðar á því. Það er stefnt að því að fresta húshitunarframkvæmdum og bera við peningaleysi vegna þess að dreifingarkerfið sé ekki nægilega gott og velja járnblendiverksmiðjuna fram yfir húshitunarmálin. Að þessu er stefnt. Og raforkusalan er léleg vegna þess að við verðum að ganga út frá því meðaltalsverði sem raunverulega kemur fram í grg. frv. Allir sjá að það meðaltalsverð er svo lágt að það mega í rauninni undur heita ef það nær því að vera framleiðslukostnaðarverð, og það er undarlegt keppikefli að ráðast í virkjanir til þess að afhenda öðrum orkuna á hreinu framleiðslukostnaðarverði. Það er pólitík, sem ég hef aldrei skilið að sé eftirsóknarverð.