21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

43. mál, ljósmæðralög

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég ber fram um breyt. á ljósmæðralögum nr. 17 19. júní 1933, ásamt hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan, var flutt á þinginu 1971–1972 af þáv. hv. 3. þm. Austurl., Páli Þorsteinssyni, og hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan. Frv. fékk mjög góðar undirtektir, en var vísað til ríkisstj. á þeim forsendum að nýrra ljósmæðral. væri að vænta.

Ný ljósmæðralög hafa ekki komið fram og okkur þykir því rétt að endurflytja þetta frv., þótt ekki væri til annars en að hreyfa við þessu nauðsynlega og sjálfsagða máli.

Núgildandi lög um ljósmæður eru rúmlega 40 ára gömul og á þeim tíma hafa orðið miklar breytingar í þjóðfélaginu, þannig að sum ákvæði ljósmæðralaganna samrýmast ekki þeim öru breytingum, sem hafa orðið, og hefur því reynst óhjákvæmilegt að víkja frá þeim í framkvæmd Ég vil í stuttu máli gera grein fyrir þeim breyt. sem lagt er til að gerðar verði á gildandi lögum.

Ljósmæður fá skipun til starfa af hendi sýslumanna og bæjarfógeta. Umfang ljósmóðurstarfsins er mjög misjafnt. Nokkrar ljósmæður eru þannig settar að um fullt starfssvið er að ræða, en flestar eru þannig settar að ekki er um fullt starf að ræða og launin miðuð við það að þau séu fremur þóknun en full starfslaun.

Það er till. okkar, sem berum fram þetta frv., að launakjör skipaðra ljósmæðra skuli ákveðin með kjarasamningum eða kjaradómi á sama hátt og laun opinberra starfsmanna. Þess skal getið að í kjarasamningum, sem gerðar voru á þessu ári, er ljósmæðrum skipað í 16. launafl. annað þrep í byrjunarlaun, en það mun aðeins ná til þeirra örfáu einstaklinga í stéttinni sem hafa fullt starf. Um kjör annarra ljósmæðra mun hafa skipast þannig, þegar almennar launabreytingar hafa orðið, að heilbr: og trmrn. hefur gert till. um það hverjar breyt. skyldu gerðar hverju sinni á þeirri þóknun eða því kaupgjaldi, sem ljósmæður úti á landsbyggðinni fá, og síðan hafi þessar till. verið lagðar fyrir fjmrn. sem hefur raunverulega ákveðið þessar greiðslur. Ekki er nein ástæða til að ætla að í rn. hafi verið nokkur tilhneiging til þess að halla á þessa starfsmenn. En við teljum það ekki eðlilega skipun að rn. ákveði launakjör þessara starfsmanna sem hafa fengið bréf um skipun í opinber störf. Við teljum eðlilegast að þetta verði lagt í hendur þeirra, sem fara með kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða kjaradóm.

Önnur ákvæði í 4. gr. eru óbreytt í frv. okkar frá því sem er í gildandi lögum. Við teljum það koma til álita að sú skipan verði tekin upp að ríkissjóður greiði hluta af launum allra ljósmæðra í landinu, hvort sem þær starfa í kaupstöðum eða sveitum. Það getur þá komið til athugunar við meðferð málsins, en ekki er gerð till. um það í þessu frv.

2. gr. þessa frv. kveður svo á að ljósmóðir, sem skipuð er í starf skv. frv., eigi rétt á orlofi ár hvert á sama hátt og aðrir opinberir starfsmenn. Það má telja sjálfsagt að þessi réttur sé veittur á sama hátt og öðrum stéttum, en það eru engin ákvæði um þetta efni í núgildandi ljósmæðralögum.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv. að aftan við lögin komi ákv. til brb., svo hljóðandi:

„Á árinu 1975 skal hver sýslunefnd endurskoða skiptingu sýslunnar í ljósmæðraumdæmi, sbr. 2. gr. l. Að endurskoðun lokinni skal sýslunefnd í hverju lögsagnarumdæmi gera ráðberra grein fyrir till. um skiptinguna og leita samþykkis hans á þeim.“

Í 2. gr. ljósmæðralaganna, sem hér er vitnað til, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Hverri sýslu landsins skal skipt í ljósmæðraumdæmi og gerir sýslunefnd það með samþykki ráðh. Skipa skal eina ljósmóður til að gegna hverju umdæmi og hefur hún þar aðsetur er sýslunefnd þykir hæfa.“

Skipting í ljósmæðraumdæmi, eins og hún er nú í mörgum eða jafnvel flestum sýslum landsins, er miðuð við það að hver sveit eða hvert sveitarfélag sé ljósmæðraumdæmi út af fyrir sig. Því teljum við eðlilegt að sú skipting, sem gilt hefur, skuli tekin til endurskoðunar. Þessi skipting var eðlileg þegar samgöngur voru litlar sem engar, nær veglaust, vatnsföll óbrúuð og bifreiðaeign lítil. Með þeim breyt., sem orðið hafa á samgöngukerfi landsins, og með þá staðreynd í huga, að mjög erfitt er að fá ljósmæður til að gegna starfi í mörgum fámennum byggðarlögum, teljum við eðlilegt að þessi mál verði tekin til endurskoðunar. Við leggjum á það áherslu að slík endurskoðun verði fyrst og fremst í höndum sýslunefnda, en með því fæst trygging fyrir því að um þessi mál fjalli nefnd með staðgóða þekkingu á staðháttum og aðstöðu hvers byggðarlags.

Þegar ákveða skal hvernig skipta á héraði í ljósmæðraumdæmi, þá ber að dómi okkar flm. að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Það ber að líta með sanngirni á sérstöðu einstakra byggðarlaga og hafa það í huga fyrst og fremst að ávallt verði veitt svo góð þjónusta á þessu sviði sem kostur er. Það verður líka að taka tillit til samgangna innan héraðs, eigi aðeins á þeim árstíma þegar samgöngur eru greiðastar, heldur engu siður, hvernig samgöngum er háttað á vetrum. Rétt er og að hafa hliðsjón af fólksfjölda í sveitarfélögum og gera sér grein fyrir því eftir fenginni reynslu hvort auðveldara muni reynast að fá ljósmæður til starfa í allfjölmennum umdæmum fremur en hinum fámennustu. Enn fremur verður að hafa í huga löggjöf um heilbrigðisþjónustu frá 27. apríl 1973, en þar er gert ráð fyrir mikilli stækkun læknishéraða. Þá virðist það augljóst að í sambandi við skipulagsbreyt. á þessu sviði beri sérstaklega að athuga hvort hagkvæmt sé að auka verkefni ljósmæðra í umdæmum utan kaupstaða með því að þær jafnframt ljósmóðurstarfi veiti héraðslæknum aðstoð við almenna heilsugæslu. Þetta mundi sérstaklega eiga við og geta komið sér vel í byggðarlögum, sem eru í mikilli fjarlægð frá heilsugæslustöð, og í fámennum ljósmæðraumdæmum.

Að svo mæltu vil ég leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.