20.03.1975
Sameinað þing: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

88. mál, landmælingastjórn ríkisins

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég till. sama efnis og þá sem hér liggur fyrir. Till. fór þá til n., en var ekki afgr. úr n. Meðflm. minn að till. nú er hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram. Till. er um landmælingastjórn ríkisins og er á þskj. 96.

Till. gerir ráð fyrir að ríkisstj. skipi 5 manna n. til þess að semja frv. til l. um þetta efni. Að því verði stefnt að undir landmælingastjórn heyri stjórnun þríhyrningamælinga á Íslandi, stjórnun hæðarmerkjakerfisins, kortamælingar og kortaútgáfa ríkisstofnana, lóða-, landa- og jarðamarkamælingar. Gert er ráð fyrir að n. hraði þessum störfum og frv. um þetta efni verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþ.

Í grg., sem fylgir till., eru færð fram nokkur rök fyrir því að rétt sé að setja löggjöf, þar sem kveðið verði á um stjórn landmælinga á Íslandi. Ég get annars vísað til ræðu minnar frá síðasta reglulega þingi um þetta efni, en ég stikla þó á helstu atriðum sem að baki þessum tillöguflutningi liggur.

Í fyrsta lagi er það sú staðreynd að ekki er til nein löggjöf um þetta efni. Landmælingar Íslands eru til sem stofnun, en án löggjafar, án sérstakrar stjórnar og án valds til þess að segja fyrir um hvernig hinir ýmsu aðilar, sem landmælingar þurfa að nota, skuli starfa. Enginn má þó skilja orð mín svo, að þessi stofnun hafi verið þarflaus. Það er síður en svo. Þar hefur verið haldið áfram því starfi sem áður var í höndum dana, þ. e. kortaútgáfunni sem danir kostuðu allt fram til ársins 1959. Auk þess hafa verið teiknuð þar gróðurkort og jarðfræðikort af landinu, kort sem orðin eru yfir 50 að tölu, ljósmyndun úr lofti til teiknunar tæknilegra korta sem aðrir hafa unnið o. fl., o. fl. hefur þarna verið gert. Auðvitað verða því Landmælingar Íslands eftir sem áður starfandi ekki síður en Sjómælingar Íslands. Þessar stofnanir eru nauðsynlegar, en með löggjöf um þessi efni og starfsemi þessara og fleiri aðila er að því stefnt að kveða á um réttarstöðu þeirra og vald. Frá landmælingastjórn mundu þeir, sem fást við landmælingar, fá ákveðna þjónustu, fyrirmæli og vernd. Allar ríkisstofnanir, sem þurfa á mælingum og kortum að halda yrðu að leita til stjórnarinnar og fá þar fyrirmæli um það, hvernig að verkum skuli staðið. Þessar stofnanir mundu eftir sem áður geta unnið verkin og eiga að gera það.

Í öðru lagi er það skoðun mín að fé, sem varið er til landmælinga, nýtist illa vegna skipulagsleysis. Í dag fara þríhyrningamælingar og kerfisbundnar hæðarmælingar fram á vegum a. m. k 5 ríkisstofnana. Þær eru: Landmælingar Íslands, Landsvirkjun, Orkustofnun, Skipulag ríkisins og Vegagerð ríkisins. Eins og ég sagði áðan eru engin lög til um hvernig eigi að framkvæma þessar mælingar svo að þær komi að sem viðtækustum notum og geti fengið almennt gildi. Reyndar má bæta við þessa upptalningu Landnámi ríkisins. Búnaðarfélagi Íslands og Rafmagnsveitum ríkisins. Eftir því sem næst verður komist má ætla að ríkisstofnanir verji nú fast að 100 millj. kr. til landmælinga á ári hverju, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög um 50 millj. og verktakar ýmsir um 50 millj. kr. eða að samtals sé varið til þessara mála um 200 millj. kr. á ári. Það má segja, að ekkert samband sé á milli þessara aðila og verk, sem einn vinnur, getur því ekki nýst öðrum vegna þess að alla samræmingu vantar.

Landmælingar skiptast aðallega í þrjá hluta: Í fyrsta lagi landmælingar vegna rannsókna á landi til skipulagningar lands og til verkfræðilegrar hönnunar. Í öðru lagi landmælingar til ákvörðunar á mörkum lóða og landa. Og í þriðja lagi landmælingar við gerð mannvirkja. Í þeim flokki eru allar landmælingar verktakafyrirtækja. Með löggjöf um þetta efni fengi landmælingastjórn ákveðið vald til að segja fyrir um hvernig að landmælingum skuli staðið. Hún yrði jafnframt upplýsingamiðlari. Með þessu móti mundi sparast fé og skipulag kæmist á verkin sem vinna þarf; samræming mælikvarða og fleira þess háttar.

Í þriðja lagi nefni ég kortaútgáfuna. Ég held að engum sé nú ljóst að hvaða kortaútgáfum er nú unnið eða hvort þær útgáfur séu þær hentugustu. Ég gæti nefnt hér nokkrar þær kortaútgáfur sem unnið hefur verið að, en ég sleppi þeirri upptalningu, hún er nokkuð löng. En á þessu sést þó, að þarna er ekkert skipulag. Þar er um enn eina ábendingu að ræða sem sannar okkur nauðsyn löggjafar um þessi efni. Landmælingastjórn yrði aðili sem gæti samræmt aðgerðir þannig að allar ríkisstofnanir og einstaklingar ynnu að sama markmiði svo að sem best nýting verði á þeim fjármunum sem til þessara mála er varið.

Í fjórða lagi má nefna það öryggi sem krefjast verður við landmælingar. Eins og ég sagði er áætlað til landmælinga vegna lóðamarka og lóðauppdrátta svo og landa og jarðamarka sé a. m. k. varið 50 millj. kr. á ári. Þótt auðvitað verði í þessum verkum sem öðrum að gæta fyllstu hagkvæmni, er aðalatriðið fyrst og fremst að öryggi landa- og jarðaeigenda sé tryggt fyrir því að þessar landmælingar nái tilætluðum árangri, þ. e. a. s. að mælingarnar séu rétt gerðar, að þær greini rétt frá mörkum, að þær hafi lagalegt gildi og að hægt sé að setja út mörkin bæði á kortum og í landinu sjálfu án mikillar fyrirhafnar.

Þá má einnig nefna hverja þýðingu landmælingar hafa fyrir öryggi við skráningu fasteigna. Markmið slíkrar skráningar er safn upplýsinga um staðreyndir varðandi hverja skráningaeiningu. Til að ná fram slíkri heildarskráningu alls landsins er nákvæm kortlagning nauðsynleg og óhjákvæmileg. Því fer víðs fjarri að slík nákvæm kortlagning sé til hér á landi þannig að unnt sé að byggja á heildarmatrikel skráningu eða staðgreiningarskráningu, eins og hún hefur verið nefnd hér.

Fyrsta afmörkun landssvæða hér á landi hófst með komu landnámsmanna. Var þá þegar fylgt ákveðnum reglum um hvernig helga mætti sér land til eignar og umráða. Við þá afmörkun hefur að sjálfsögðu ráðið mestu landfræðileg lega landsins með tilliti til samfelldra nytja og greinileg afmörkun þess, svo sem fjöll, ár, firðir og flóar. Við þessa frumskiptingu landsins búum við enn í dag í stórum dráttum.

Í till. okkar er lagt til að ríkisstj. skipi 5 manna n. til þess að semja frv. um þetta efni. Í till. er kveðið á um hverjir skuli tilnefna nm., þ. e. a. s. 4 þeirra, en form. skuli skipaður án tilnefningar. Það má að sjálfsögðu um það deila hverjir eigi að tilnefna menn í n. sem þessa, en við höfum valið þann kostinn sem segir í till. Í fyrsta lagi að Rannsóknaráð ríkisins tilnefni einn mann. Það er vegna þess að í Rannsóknarráði sitja fulltrúar fyrir þær rannsóknastofnanir sem af ýmsum ástæðum eiga hagsmuna að gæta varðandi landmælingar. Þar nefni ég sérstaklega stofnanir landbúnaðarins. Í öðru lagi er ætlast til að Dómarafélag Íslands tilnefni einn mann. Það er vegna þess að þar er um að ræða þinglýsingardómarana sem þekkja betur en aðrir hvar skórinn kreppir varðandi hin mjög svo ófullkomnu skjöl sem komið er með til þinglýsingar. Við þessa aðila er æskilegt að sé sem nánast samband við samningu frv., og þeir þurfa að geta komið að sínum viðhorfum og leiðbeiningum. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn mann. Það er af þeirri eðlilegu ástæðu að sveitarfélögin í landinu eru það stór aðili í landmælingum og lóðamælingum að viðhorf þeirra þurfa að koma þarna fram. Og í fjórða lagi er lagt til að einn nefndarmaður verði tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands. innan vébanda Verkfræðingafélagsins eru mennirnir með sérþekkinguna.

Kerfisbundnar hæðarmælingar hefjast ekki hér á landi fyrr en 1900 og stóð herforingjastjórnin danska fyrir þeim. Þessum mælingum var eingöngu ætlað það hlutverk að vera grundvöllur að kortagerð í mælikvarða 1:100000. Í dag gera menn allt aðrar og miklu meiri kröfur til þríhyrningamælinga. Í dag er krafan sú að fyrir utan það að vera grundvöllur að kortagerð eiga þær að vera grundvöllur að mannvirkjagerð alls konar. Vegagerðin þarf t. d. á nákvæmum þríhyrningamælingum að halda þegar nú t. d. hraðbrautaframkvæmdir og önnur vegalagning er betur undirbúin en áður hefur tíðkast. Sjómælingar byggja að miklu leyti mælinga- og siglingaákvarðanir á hnattstöðutölum sem fengnar eru frá þríhyrningamælingum. Og með vaxandi flugumferð og blindflugskerfum er nauðsynlegt að þríhyrningamælingar séu nákvæmari en nokkru sinni fyrr. Þá má og nefna not þríhyrningamælinga til að ákveða landa- og lóðamerki í hnitkerfi landsins bæði í þéttbýli og strjálbýli.

Í nágrannalöndum okkar eru áratugir liðnir síðan komið var fastri skipan á landa- og jarðamarkamælingar. Hjá okkur er nánast ekkert til nema ófullkomnar, en að ýmsu leyti skemmtilegar lýsingar á jarðamörkum. Eiginlegar mælingar á þeim mörkum eru ekki til. Það er því orðið tímabært að koma skipan á þessi mál. Ég vona því að þessi till. fái góðar undirtektir á hv. Alþ.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.