20.03.1975
Sameinað þing: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

131. mál, rannsóknir á snjóflóðum og skriðuföllum

Flm. (Tómas Árnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 247 till. til þál. um rannsóknir á snjóflóðum og skriðuföllum, en till. hljóðar á þessa leið:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun og rannsóknir á snjóflóðum og skriðuföllum. Áhersla verði lögð á gagnasöfnun og rannsóknir á þessum náttúrufyrirbærum, eðli þeirra og orsökum, enn fremur hvort unnt sé að sjá fyrir og hindra snjóflóð og skriðuföll og hvaða vörnum og viðvörunum verði við komið. Ríkisstj. leggi fyrir Alþ. niðurstöður þessara athugana ásamt till. til úrbóta.“

Snjóflóð og skriðuföll eru mjög algeng náttúrufyrirbæri hérlendis, enda hafa skriður átt drjúgan þátt í mótun landsins. Frá upphafi byggðar hafa þessar náttúruhamfarir öðru hvoru gert usla í lífi og starfi þjóðarinnar og valdið stórfelldu manntjóni og eignatjóni.

Snjóflóðin í Norðfirði og víðar nú í vetur hafa enn minnt harkalega á það að hefja verður skipulegar og hagnýtar snjóflóðarannsóknir á Íslandi, en jafnframt þurfa einnig að koma til rannsóknir á skriðuföllum.

Ýmsir íslendingar hafa unnið merkileg störf að gagnasöfnun í þessum fræðum. Ólafur Jónsson hefur t. d. skrifað mikið og gagnmerkt ritverk um skriðuföll og snjóflóð. Almannavarnanefnd ríkisins hefur nokkuð hafist handa í þessum málum, m. a. með því að skrifa bæjaryfirvöldum í þeim kaupstöðum á landinu, þar sem snjóflóð gætu fallið, og óska eftir kortlagningu hættusvæða. Enn fremur hefur n. beðið um álit á því hvaða vörnum væri hugsanlegt að koma við til varnar gegn snjóflóðum.

Erlendis hafa rannsóknir á snjóflóðum, fjallhruni og jarðskriðum verið gerðar um alllanga hríð. Í Sviss, Noregi, Bandaríkjunum og eflaust víðar er þessi starfsemi talsvert öflug í formi rannsóknar- og athugunarstöðva. Ein merkasta rannsóknarstöð um snjóflóð er í Davos í Sviss og er markmið hennar að vinna að vörnum gegn snjóflóðum og gera svonefndar snjóflóðaspár til viðvörunar. Þá er einnig unnið skipulega að björgunarstörfum, m. a. með hjálp hunda og rafbylgjutækja. Einnig fer fram fræðslustarf um snjóflóð, bæði með fyrirlestrum og útgáfustarfi.

Safna þarf öllum upplýsingum um snjóflóð og skriðuföll og kortleggja hættusvæðin. Þá þarf vísindalegar rannsóknir á þessum náttúrufyrirbærum, orsökum þeirra og eðli. Er t. d. unnt að sjá snjóflóð fyrir, þannig að ráðrúm gefist til viðvörunar?

Sjálfsagt er að leita til þeirra stofnana erlendis sem hafa á að skipa reyndum sérfræðingum í vörnum gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Sérstaklega virðist áríðandi að hraða aðgerðum í öllu er lýtur að snjóflóðum.

Eins og segir í grg., eru snjóflóð og skriðuföll mjög algeng náttúrufyrirbæri hérlendis, enda hafa skriður átt drjúgan þátt í mótun landsins. Ef skyggnst er aftur í tímann og athugaðar frásagnir fornrita um skriður á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, kemur í ljós að engar slíkar frásagnir eru finnanlegar. Enginn efi er á því að snjóflóð og skriður hafi fallið á þessum tímum eins og bæði fyrr og síðar. Þó eru til sagnir um snjóflóð, t. d. í Sturlungasögu, þar sem segir á einum stað að snæskriða hafi tekið 5 manns sem allir hafi farist. Mun það hafa verið á öndverðri 12. öld.

Í annálum er sagt frá skriðum úr fjöllum í byrjun 13. aldar og var haustið 1206 kallað skriðuhaust, enda féllu þá skriður m. a. undir Eyjafjöllum — sem drápu 15 hesta.

Árið 1390 voru mikil skriðuhlaup, einhver þau stórfelldustu og mannskæðustu sem vitað er til að orðið hafi hérlendis. Flateyjarannáll greinir frá þessum skriðum. Höfðu verið miklir vatnavextir og úrkoma og hlupu fram skriður meira og minna um allt land. Ónýttust bæði skógar, engjar, töður og úthagar. Þá tók bæ allan á Hjallalandi í Vatnsdal og 6 manns fórust. Þá tók og bæ í Búðarnesi og önduðust 12 manns og þá tók skriða allan bæinn á Lönguhlíð ytri í Hörgárdal, sem nú heitir Skriða, og létust þar 16 manns. Er þetta mannskæðasta skriðufall sem vitað er til að hlaupið hafi hér á landi. Samanlagt urðu því 36 manns undir skriðum af völdum sömu stórrigningar um og eftir miðjan nóvember 1390.

Árið 1545 féll feiknamikil skriða í Vatnsdal, svokölluð Skíðastaðaskriða. Er það eitt hið mesta skriðuhlaup sem orðið hefur hér síðan land byggðist. Skarðsárannáll segir svo um þetta skriðuhlaup:

„Féll mikil skriða í Vatnsdal um eina nótt að áliðnu sumri um engjasláttutímann og tók af einn bæ, þann er Skíðastaðir hét. Urðu þar undir 14 menn. Þar bjó sá maður er Sæmundur hét, vel fjáreigandi. Ekkert fannst í því mikla skriðufalli nema hönd hin hægri af Sæmundi bónda og var hún auðkennd, því að henni fylgdi silfurbaugur er á fingrinum var. Vildu menn svo í þann tíma þetta ráða að sú hans hönd skyldi fá kirkjuleg fyrir ölmusugjafir. Hann gaf alla tíð fátækum með henni. Völlur að Skíðastöðum hljóp yfir langt á eyrar sem þeir kalla nú Hnausa. Er þar nú byggð og heyskapur mikill. Vatnshlaup hafði komið undan grjóthruninu og hratt það fram túninu og er þar nú stöðuvatn á sléttlendinu sem vatnið nam staðar, en sú fárlega skriða uppundan sem nefnd er Skíðastaðaskriða nú síðan.“

Það er talið líklegt að skriða þessi hafi fallið í septembermánuði og neðan við fjallrótina hafi breidd Skíðastaðaskriðu a. m. k. numið 500 m. Á flatlendinu fyrir neðan hefur skriðan dreifst yfir svæði sem er um 1000 m langt frá norðri til suðurs, þ. e. inn dalinn, en um 500 m frá austri til vesturs. Allt þetta svæði hefur þakist leir, sandi og þykkum jarðvegstorfum. Þá er einnig talið að meðalþykkt skriðunnar niðri á láglendinu hafi numið um 2m þegar hún var nýrunnin og efnismagn hennar hefði þá getað verið um 1 milljarður rúmmetra. Efstu upptök skriðunnar eru líklega í um 600 m hæð yfir Vatnsdal á allbreiðum kafla.

Nær 200 árum síðar eða árið 1720 féll skriða sú, er nefnd hefur verið Bjarnastaðaskriða og kennd er við Bjarnastaði í Vatnsdal, en Bjarnastaðir voru og eru næsti bær innan við Hnausa og því næsti bær innan við Skíðastaðaskriðu. Bærinn mun nú standa nokkru sunnar en þá var. Um Bjarnastaðaskriðu eru margar heimildir sem engin ástæða er til að vefengja. Skriðan er ein sú mesta sem fallið hefur hér á landi og sú sem mestum og varanlegustum landsspjöllum hefur vakið. Hún féll úr fjallinu ofan við Bjarnastaði skammt fyrir sunnan Skíðastaðaskriðuna. Hún var stórgrýtt og steyptist niður yfir bæinn á Bjarnastöðum, sópaði honum burtu eða gróf gjörsamlega með mönnum og málleysingjum ásamt húsi, túni og engjum. Skriðan hljóp yfir dalinn og stíflaði Vatnsdalsá svo mjög að mikið vatn safnaðist framan við stífluna og náði flóðið að lokum allt fram að Kornsá og Hvammi. Þá varð til varanlegt stöðuvatn, Flóðið, sem enn getur að líta eins og kunnugt er. Sagt er að þetta flóð hafi um nokkur ár tekið burt mestallt engjatak 8 Þingeyrarjarða. Áin hefur að líkindum ekki stöðvað skriðuna, heldur hefur hún haldið áfram nokkurn spöl norðvestur með álmu þeirri af Vatnsdalshólum er þarna gengur niður að Vatnsdalsá. Heimildum ber ekki fyllilega saman um manntjónið, en talið er að þarna hafi farist 5–7 manneskjur. Skriðufar Skíðastaða- og Bjarnastaðaskriða er í meginatriðum svipað.

Árið 1797 féll fram mikið jarðhlaup á Guðrúnarstaði í Möðruvallasókn í Eyjafirði, svonefnd Guðrúnarstaðaskriða. Svo vel vildi til að húsbóndinn á Guðrúnarstöðum var staddur utan við bæinn og hafði leyst út nautgripi sína. Hann kom viðvörunum við heim á bæinn og allt heimilisfólkið bjargaðist mjög naumlega undan skriðunni. Hlaupið virtist springa fram úr fjallinu upp af bænum og fór mjög hratt eins og venja er til um jarðhlaup, en þó ekki hraðar en svo að fólkið fékk tíma til að forða sér. Er talið, að frá því sást til flóðsins og þar til það tók bæinn hafi liðið a. m. k. 3 mínútur.

Árið 1811 urðu mikil skriðuföll norðan- og austanlands. Þá tók m. a. af í annað sinn bæinn á Guðrúnarstöðum í Eyjafirði.

Sumarið 1858 var veðurfar mjög vætusamt og haust gekk snemma í garð. Í októbermánuði urðu mikil skriðuföll. Þá féll skriða á túnið á Brekku í Kaupangssveit í Eyjafirði og gerði talsverðan usla. Mest voru þó skriðuhlaupin í Kolbeinsdal í Skagafirði, — einkum þau er urðu á Skriðulandi. Á meðan bóndinn þar var að reyna að bjarga fólki og búfé úr yfirvofandi háska, féllu a. m. k. fimm stórskriður í Skriðulandslandi og sennilega einhverjar nokkru áður. Hér mun hafa verið um að ræða aurskriður, en þær skriður fara venjulega hægar. Þó fara slíkar skriður svo hratt að ekki vinnst mikill tími til umsvifa, enda eru fjöll þarna brött. Þennan dag féllu víðar skriður en í Kolbeinsdal.

Árið 1886 urðu mikil skriðuhlaup á Kjalarnesi. Þá féllu mjög margar skriður úr Esjunni og 9 jarðir á Kjalarnesi og ein í Mosfellssveit urðu fyrir stórskemmdum af skriðuhlaupum 2. sept. þetta ár. Þessum skriðum mun hafa valdið mjög stórfelld rigning, sem stóð u. þ. b. einn dag. Árið eftir urðu fádæma skriðuhlaup og vatnavextir víða norðanlands, svo sem í Öxnadal, Svarfaðardal og víðar. Í ágústmánuði 1897 urðu miklir vatnavextir og skriðuföll á Austurlandi. Mestar skriður urðu á Seyðisfirði, Loðmundarfirði og Mjóafirði. Féllu skriður á Búðareyri í Seyðisfirði úr Strandatindi og ollu verulegu tjóni á mannvirkjum og öðrum eignum.

Á þessari öld hafa fallið margar og stórar skriður víðsvegar um landið, helst á Austfjörðum, Vestfjörðum, Eyjafirði og víðar á Norðurlandi. Talsvert manntjón hefur orðið af þessum skriðuföllum. Ég vil aðeins minna á örfá meiri háttar skriðuhlaup á þessu tímabili.

Jökulhlaupið í Sölvadal í Eyjafirði við bæinn Draflastaði hljóp fram 19. júní 1941. Er það sennilega mesta skriðufall á þessari öld. Jarðvegsmagnið, sem þarna spýttist fram, mun hafa numið 45 þús. rúmmetrum og allt hlaupið með hlaupfarinu tók yfir 50–60 hektara. Hallinn á hlaupinu, er merkilega lítill, náði líklega hvergi 20 gráðum. Við upptök skriðunnar var dýpt hlaupfarsins um 4 m.

Árið 1926 tók skriða bæinn að Steinum undir Eyjafjöllum. Voru þar tveir bæir, Vesturbær og Uppibær, tvö fjós, 5 hesthús og 3 heyhlöður. Fólk og fénaður bjargaðist mjög naumlega. Þessi mannvirki urðu undir urð. Steinalækur, sem fellur fram af Steinafjalli, olli þessari umbyltingu, en geysileg úrkoma var á þessum slóðum um þetta leyti.

Mjög úrkomusamt var á Austfjörðum í júlímánuði 1950. Þá féllu miklar skriður á Hólmum í Reyðarfirði. Á Seyðisfirði gerði óhemju úrkomu 19. ágúst það ár ofan í samfellda vætutíð. Í ysta íbúðarhúsi bæjarins á ströndinni sunnan fjarðarins bjó Aðalsteinn Jónsson. Hann vaknaði snemma morgunsins og þótti veður ískyggilegt og ótryggt að dveljast í húsinu sem stendur undir hæsta og brattasta hluta Strandatinds. Hann vakti upp fólkið og bað það búast til brottferðar. Fór hann síðan á reiðhjóli inn á Búðareyri að sækja bíl til að flytja fólkið á brott. Hafði hann sagt fólkinu að yfirgefa húsið kæmi hann ekki strax aftur. Fólkið hikaði við að, leggja út í veðurofsann, nema ein kona sem lagði af stað fótgangandi og bar ungan son sinn. Skipti það engum togum að vatns- og aurskriða steyptist yfir húsið, molaði það í rúst, nema brak úr húsinu sem flaut ofan á skriðunni. Í þessari skriðu fórust fjögur börn Aðalsteins, en kona hans og ein dóttir björguðust eftir þrjá tíma. Þá bjargaðist maður konunnar sem hafði yfirgefið húsið og sonur þeirra. Á sama tíma féll önnur skriða á Síldarverksmiðju ríkisins, sem er nokkru innar, og olli miklum spjöllum.

Árið eftir varð sviplegt slys á þjóðveginum um Óshlíð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur þegar hópur íþróttamanna frá Akureyri og Ísafirði var þar á ferð í langferðabíl. Létust þar tveir ungir íþróttamenn frá Akureyri og tveir slösuðust mikið. Stór steinn, um smálest að þyngd, hafði losnað úr fjallinu og lenti á bifreiðinni.

Árið 1955 féll skriða á nýbýlið Hjalla í Kjós með þeim afleiðingum að lítil telpa fórst, en húsmóðirin ásamt 6 börnum hjónanna bjargaðist naumlega.

Snjóflóð eru ólík skriðuföllum að því leyti til að þau skilja sjaldnast eftir nokkur vegsummerki sem haldast mega til langframa og hafa má til marks um eðli þeirra og útbreiðslu. Frásagnir um snjóflóð eru fremur fátæklegar fram eftir öldum og raunar fram yfir siðaskipti. Er kemur fram á 17. öld, fer þó frásögnum að fjölga og mætti minnast á mörg snjóflóð sem féllu á 17. og 18. öld.

Veturinn 1698–1699 var mikill frosta- og snjóavetur og urðu snemma á árinu 1699 mikil snjóflóð, mannskaðar og eignatjón. Þann 15. janúar hljóp snjóflóð á Reynivelli í Kjós, tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið. Fórust þar 7 menn, þ. á m. prófasturinn í Kjalarnesþingi, sr. Oddur Jónsson. Eftir þennan atburð var bærinn á Reynivöllum fluttur til og settur niður á annan stað. Mörg fleiri snjóflóð urðu þennan vetur víða um landið.

Í maímánuði 1725 hljóp snjóflóðið á bæinn Vatnsenda í Héðinsfirði og tók hann allan. Heimildum ber ekki saman um hvað fórst af fólki í þessu snjóflóði. Sumir segja að þrennt hafi farist, aðrir 5 og enn aðrir að 6 manneskjur hafi farist í þessu snjóflóði.

Árið 1732 hljóp mikið snjóflóð á bæinn Brimnes sem er nyrsti bær norðanvert við Seyðisfjörð. Tók flóðið baðstofuna og mestan part bæjarins og 9 manneskjur fórust, en 9 komust af. Svo kraftmikið var þetta snjóflóð að það hljóp á sjó fram. Eitt stúlkubarn, að nafni Snjófríður, fannst í flóðinu þegar 9 dægur voru liðin frá þessum atburðum. Heyrðu menn í barninu þegar þeir gengu á flóðinu og bað það um að breitt yrði ofan á sig. Þá var grafið í snjóinn og fannst barnið nakið, en lifandi og lifði nokkur ár eftir þetta.

Árið 1737 segir frá mannskaða í Fnjóskadal af völdum snjóflóðs. Þrem árum síðar hljóp snjóflóð í Ólafsfirði og fórust þar 2 börn. Í nóvembermánuði 1772 gerði 6 daga hríð um Norðurland. Snjóflóð hlupu þá fram á Látraströnd við Eyjafjörð og einnig í Höfðahverfi. Í Miðgerði í Höfðahverfi fórust 4 menn, en 2 komust lífs af. Á Steindyrum á Látraströnd fórust 4 eða 5, en 5 björguðust. Snjóflóð þetta hljóp að nóttu til þegar fólk var sofandi í rúmum sínum og varð ekki kunnugt um slysið fyrr en eftir 4 daga þegar fólk á næstu bæjum fór að vitja bæjarins. Heimildir segja að maður einn hafi fundist á lífi á 20, eða 21. dægri í flóðinu, en annar hafi legið 9 dægur í snjónum. Báðir komust þó til lífs og heilsu. Er ekki vitað til að nokkur manneskja hafi legið lengur en 101/2 sólarhring í snjóflóði hérlendis og lifað það af.

Árið 1836, nóttina milli 17. og 18. desember, féll snjóskriða á bæinn Norðureyri í Súgandafirði. Urðu þar 10 manns undir skriðunni, en 2 kvenmenn og 2 börn náðust lifandi daginn eftir. Snjóflóð þetta var geysilega kraftmikið og er talið að skriðan hafi hlaupið fram á fjörðinn og og yfir hann, a. m. k. öldurótið sem af henni leiddi, og fundust ýmsir búshlutir úti á firðinum. Norðureyri stendur fremst á þó nokkurri eyri við Súgandafjörð, andspænis Suðureyri. Eyrin, sem bærinn stendur á, er fremur flöt og stendur bærinn a. m. k. 300 m frá fjallinu sem er allhátt eða um 500 m og bratt. Nokkuð ofan við bæinn Norðureyri er mannvirki sem líklega hefur verið gert til að verja bæinn snjóflóðum.

Árið 1857 urðu tvö snjóflóð sem ég sé ástæðu til að minnast örlítið á. Þann 2. jan. gerði stórhríð yfir austanvert landið og er sagt að margir menn hafi orðið úti víðs vegar á Austurlandi. Um kvöldið féll snjóflóð yfir bæinn Hlíð í Lóni. Flestir heimamenn voru í baðstofu, sem ekki sakaði, en flóðið braut niður göngin og eldhúsið. Þar voru stödd bóndinn Jón Markússon ásamt vinnukonu sinni er Ragnhildur hét. Morguninn eftir var grafið í snjóflóðið og allan daginn og fram á nótt, en ekki tókst að finna þau Jón og Ragnhildi. Á öðrum degi tókst Jóni að grafa þau út og var hann þá ófær til gangs vegna brunasárs sem hann hafði hlotið, en annar fótur hans hafði lent í eldi í eldhúsinu og skaðbrennst.

Seint á þessu sama ári var sá atburður á Kollsvík við Patreksfjörð, að morguninn 3. des. kom skyndilega þytur á baðstofuna, sem var 12 álna löng, og féll hún í sama vetfangi í grunn niður og mölbrotnaði hver spýta. Frammi í bænum var nýbyggt stofuhús sem búið var að leggja loft í. Hús þetta var fremur rammgert og að mestu byggt úr rekavið. Viðirnir þverkubbuðust sundur, en mikið þarf til að seigur rekaviður brotni þannig. Í snjóflóðinu fórust gift kona, nær sextugu, og ungur maður. Ungur drengur náðist úr bæjarrústunum með lífsmarki eftir sólarhring og hresstist skjótt og varð heill. Tvö börn, annað á öðru ári, en hitt nokkru eldra, náðust ekki fyrr en að sex dögum liðnum og voru þá lifandi, en kalin. Þá var tvítug stúlka, sem bjargaðist á þriðja degi, allmikið kalin. Menn voru ekki á einu máli um hvers konar náttúrufyrirbæri hér var á ferðinni, en nokkuð öruggt má telja að hér hafi valdið snjóflóð af þeirri gerð sem nefnd hafa verið kófhlaup og verða þau helst í smágerðum frostsnjó. Snjórinn í hlaupinu sjálfu verður meira og minna að fíngerðu snjóryki sem fyllir loftið. Kófhlaup fara með geysilegum hraða og valda ægilegum loftþrýstingi. Stormurinn, sem fylgir þessum snjóflóðum, feykir húsum, þverkubbar gild tré og brýtur svo að segja allt sem fyrir þeim verður.

Árin 1882 og 1883 urðu mikil snjóflóð á Austurlandi. Fyrra árið urðu krapahlaup á Fjarðaröldu í Seyðisfirði. Þá fórust 2 manneskjur og eignatjón var metið á samtals 12 250 kr. sem var býsna mikið fé í þá daga. Í Eyjafirði lentu 2 menn í snjóflóði um þetta leyti og annar þeirra fórst. Árið 1883 hljóp gífurlegt snjóflóð á bæinn Stekk í Njarðvík norðan við Borgarfjörð. Þar fórust 6 manneskjur. Samtals 9 manns lentu í snjóflóðinu, en 3 tókst að bjarga eftir að þau höfðu legið í snjónum í 35 klst. Á Stekk hefur aldrei verið byggð eftir þetta snjóflóð.

Eitt hörmulegasta slys, sem orðið hefur hér á landi, varð þegar snjóflóðið mikla hljóp á Seyðisfirði 18. febrúar 1885. Þetta hlaup kom úr Bjólfinum sem stendur norðan fjarðaröldunnar og gnæfir yfir byggðina. Ég hef undir höndum af tilviljun dagbók sem Lárus Tómasson skólastjóri á Seyðisfirði skrifaði, en hann var faðir þeirra bræðra, Gísla, Snorra og Inga T. Lárussonar tónskálds. Lárus segir svo í dagbók sinni, en hann hélt hana nokkurn veginn reglulega á tímabilinu frá 1872–1916:

„18. febr. 1885, öskudagur. Vildi til á öldunni hið ógurlegasta slys kl. 71/2 um morguninn. Hljóp þá fram breið spilda í fjallinu hér fyrir ofan og hafði tekið sig upp í gjá sem nefnd er Hlutgjá, því nær uppundir brún á Bjólfstindi“ — þ. e. a. s. Bjólfi. „Nam sumt staðar hér skammt fyrir ofan á öldunni, en sumt hljóp til sjávar og sópaði burtu öllu er fyrir varð, þ. á m. 15 íbúðarhúsum og bjuggu í þeim 94 persónur er allar lentu í flóðinu auk þeirra 2 aðkomandi. Fórust af þeim 24, en fyrir guðs dásamlega mildi komust hinir allir lífs af, sumir af sjálfsdáðum, aðrir voru grafnir upp. 12 af þeim voru meira eða minna særðir og beinbrotnir. Flestallir voru í rúminu, er flóðið skall yfir, og sumir ekki vaknaðir.“

Snjóflóðið hljóp niður Bjólfinn á svæði sem þá var mikið byggt, en var utarlega á fjarðaröldunni og nær útundir svokallaða Háubakka sem liggja út á Vestdalseyri. Ólafur Jónsson segir í annál sínum um snjóflóðið, að það hafi umturnað algerlega á svipstundu 15 íbúðarhúsum og ýmist stórskemmt þau eða brotið niður eða fært fram á sjó, talið hafi verið að í þessum húsum hafi búið 80–90 manns og lenti meginþorri þeirra að einhverju leyti í hlaupinu, en 24 fórust, margir meiddust, þar af er talið að 12 hafi beinbrotnað. Tíðarfar á Austfjörðum eftir áramótin þennan vetur var á þá leið, að framan af janúar var það heldur hagstætt og síðari hl. janúarmánaðar tók að snjóa og hlóð þá niður snjó af austri og norðaustri um allt Austur- og Norðausturland samfleytt í mánaðar tíma. Í þessum látlausu snjókomum og norðaustlægu hríðum hlóð niður ódæmi af snjó í hinum bröttu fjöllum á Austfjörðum og þar urðu til háskalegar snjódyngjur og hengjur sem síðar hlupu fram og gerðu víða usla.

Mun ég nú ekki frekar rekja þessa sorgarsögu hér en hún er býsna löng og lærdómsrík. Ég hef nú rakið stærstu og mannskæðustu snjóflóð og skriðuföll sem sögur fara af fyrir upphaf 20. aldar.

Jöklarannsóknafélagið gefur út rit sem heitir Jökull. Í þessu riti birtist árið 1971 grein um snjóflóð og snjóflóðahættu á Íslandi eftir þá Ólaf Jónsson og Sigurjón Rist. Í inngangsorðum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangur þessarar greinar er fjórþættur.

1. Að birta snjóflóðaannál 1958–1971.

2. Að sýna á Íslandskortinu aðalsnjóaflóðasvæðin.

3. Að minna ráðamenn verklegra framkvæmda á snjóflóðahættuna.

4. Að stuðla að skipulegri gagnasöfnun um snjóflóð.

Liðin eru 71 ár af 20. öldinni og tala þeirra, sem farist hafa í snjóflóðum hér á landi síðan um aldamót, er hundrað eða nánar tiltekið 101. Á Vestfjörðum hafa farist 49, á Norðurlandi 37 og Austurlandi 10 og í Skaftafellssýslum 5. Dánarhlutföllin gefa vísbendingu um hvar snjóflóðahættan er mest. Þau eru þó hvergi nærri einhlítur mælikvarði. En hvert stefnir nú?“ — segir í greininni.

„Ef líta skal til framtíðarinnar, verður að taka tillit til breyttrar búsetu og gjörólíkrar ferðatækni. Lögð eru af dalabýli sem kröfðust fórna, lagðir eru af viðsjálir fjallvegir, en byggðin og umferðin hafa færst inn á ný svæði. Við verðum að gera okkur grein fyrir hvar hættur leynast og það áður en sporið er stigið fram. Auk mannslífa tapast hér á landi mikið eignaverðmæti í snjóflóðum. Fyrr á öldum voru það bæir og búsmali, uppsátursbátar og hjallar, sem snjóflóðin grönduðu eða löskuðu að meira eða minna leyti. Á þessari öld hafa bæst í lestina heilar verksmiðjur, nokkrir tugir íbúðarhúsa, sum ný. Þá hafa síma- og raflínur verið í vegi snjóflóða, einkum símalínur, eða alls um 40–50 sinnum. Venjulegast eru það 2–3 staurar sem brotna í spón í einu og sama snjóflóði, en hafa þó komist upp í 40 talsins. Þá hafa bifreiðar lagst saman og tortímst og sömuleiðis dráttarvélar. Með stækkun vegakerfisins verða vegahindranir af völdum snjóflóða meira og meira áberandi. Snjóflóðahættan vofir yfir skíðafólki og öðrum sem njóta útilífs á vetrum.

Íslenskar námsbækur segja fátt um snjóflóð. Þar er vart stafkrók að finna um þau, en það er varhugavert, því að áriðandi er að ráðamenn verklegra framkvæmda kunni sem best skil á snjóflóðahættunni. Staðkunnugir heimamenn eru oft á tíðum of hlédrægir eða atkvæðalitlir til að hafa uppí ákveðin aðvörunarorð og svo eru snjóflóðin sömu lögmálum háð og stóru flóðin í ánum. Langt árabil er á milli þeirra og þau falla því í gleymsku.“

Eins og fram kemur í grein þeirra Ólafs Jónssonar og Sigurjóns Rist, höfðu um 100 manns farist í snjóflóðum á fyrstu 7 áratugum þessarar aldar. Nú munu hafa farist milli 115 og 120 manneskjur í snjóflóðum á þessari 20. öld.

Á þessum 71/2 áratug þessarar aldar hafa mjög mörg snjóflóð fallið víðs vegar um landið. Árið 1910 féll geysilegt snjóflóð í Hnífsdal, Skálavík og víðar. Þorpið í Hnífsdal stendur við grunna vík rétt utan við mynni Skutulsfjarðar, skammt frá Ísafirði. Nokkur hluti þorpsins er norðan eða norðvestan við víkina undir mjög bröttu og háu fjalli er nefnist Búðarhyrna. Í Búðarhyrnunni eru 3 gil, en úr þeim hafa fallið bæði skriður og snjóflóð. Það hafði verið mjög snjóasamt á þorranum þennan vetur og gengu snjóhríðar dag eftir dag svo að vikum skipti. Hafði því hlaðið niður ódæmum af snjó við Ísafjarðardjúp og urðu til miklar hengjur í fjallabrúnum, sérstaklega á móti suðri og suðaustri. Þann 18. febr. kl. rúmlega 8 um morguninn, barst fram nokkur hluti af hengjunum í Búðarhyrnunni og steyptust með ægilegum hraða niður Búðargilið. Þegar kom niður úr gilinu breiddi snjóskriðan úr sér og sópaði öllu burt sem varð á vegi hennar, íbúðarhúsum, sjóbúðum og ýmsu fleiru. Snjóflóðið brast á eins og byssuskot svo að ekkert svigrúm varð til bjargar. Milli 30 og 40 manns lentu í þessu snjóflóði og fórust 19 þegar, en einn lést síðar af meiðslum. Tólf manns meiddust meira eða minna. Nokkrir sluppu ómeiddir, voru grafnir úr flóðinu eða varð bjargað úr krapa fram á sjó. Auk þessa geigvænlega mannskaða varð eignatjón af völdum snjóflóðsins mikið og margvíslegt. Giskað var að eignatjónið mundi nema 10 þús. kr. sem var mikil upphæð í þá daga.

Þetta hræðilega slys var að ýmsu líkt hinum miklu snjóflóðum á Seyðisfirði 1885. Ef að er gætt, kemur í ljós að það líða nákvæmlega 25 ár milli þessara slysa. Bæði gerðust þau 18. febr. og svo að segja á sama klukkuslaginu.

Um hálfum mánuði eftir hin miklu snjóflóð í Hnífsdal hljóp geysilegt snjóflóð á bæinn Breiðaból í Skálavík, en þar var margbýli. Skall snjóflóðið á þrjú íbúðarhús í Skálavík, sem er lítið byggðarlag sem skerst inn í fjöllin milli Ísafjarðardjúps og Súgandafjarðar rétt utan við Stigahlíð. Talið er að snjóflóð þetta hafi tekið yfir 1000 faðma breitt svæði. Þarna fórust 4 manneskjur. Þeir, sem grafnir voru upp úr snjóflóðinu, voru m. a. kona ein og fjögur börn hennar. Var allt þetta fólk lifandi eftir að hafa legið í 40 klst. í rústunum og snjónum.

Veturinn 1919 er sennilega mesti snjóflóðavetur sem orðið hefur á þessari öld. Þá féllu háskaleg snjóflóð í þremur landshlutum og sum þeirra ollu stórfelldu manntjóni. Snjóflóðið féll á býlið Strönd í Reyðarfirði, eyðilagði íbúðarhúsið og þar fórst ein kona. En hrikalegust urðu snjóflóðin í Hvanneyrarhreppi, en þar fórust samtals 18 manns á örstuttum tíma. Í Siglufirði hljóp gífurlegt snjóflóð úr Staðarhólsfjalli sem er andspænis Siglufjarðarkaupstað. Þetta snjóflóð sópaði með sér dálítilli byggð sem á þessum tíma var kringum síldarverksmiðju Evangers undir Staðarhólsfjalli. Þá voru þar og nokkrir bæir, Skútubæirnir, Efri- og Neðri-Skúta, Ábakki og Landamót og enn fremur tómt húsbýli niðri á sjávarbakkanum Svo mikið afl var í snjóflóðinu, að þegar það lenti í sjóinn olli það mikilli flóðöldu sem gekk á land upp í Siglufjarðarkaupstað og varð af því margs háttar tjón, bæði á skipum og mannvirkjum, hinum megin fjarðarins. Í snjóflóðinu fórust alls 9 manns og margir björguðust við illan leik. Tjónið af þessu snjóflóði var gífurlegt. Auk verksmiðjunnar og þeirra húsa, sem voru kringum hana, eyðilögðust tvö stór geymsluhús, síldarpallar, bryggjur, mikið af tunnum, mörg hundruð föt af lýsi. Það fórust kindur og auk þess varð mikið tjón á skipum og mannvirkjum í Siglufjarðarkaupstað vegna flóðbylgjunnar. Talið var að eignatjón af þessu eina snjóflóði hafi numið hálfri annarri millj. kr. Nokkru síðar urðu snjóflóð í Héðinsfirði og fórust tvær manneskjur í þeim flóðum og verulegt eignatjón varð þar einnig. Skömmu eftir að snjóflóðið féll úr Staðarhólsfjalli í Siglufirði, féll snjóflóð á Engidal sem var ystur hinna svokölluðu Dalabæja í Hvanneyrarhreppi. Þar fórust 7 manneskjur, þannig að manntjónið í þessum snjóflóðafaraldri varð samtals 18 manneskjur úr einum og sama hreppi. Þennan sama vetur urðu víða snjóflóð þótt ekki yrðu þau svo mannskæð sem hin minnisstæðu og hörmulegu flóð í Hvanneyrarhreppi.

Árið 1928 féll mikið snjóflóð í Óshlíð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Svo illa hittist á að þar voru á ferð 5 manns sem voru að koma frá Ísafirði og voru á leið heim til sín í Bolungarvík, en höfðu verið settir á land í Hnífsdal frá báti sem var á leið til Bolungarvíkur, en sjóveður var ekki gott. Þarna fórust 4 manneskjur.

Árið 1934 hljóp fram snjóflóð hjá Búðarnesi við Önundarfjörð. Þar fórust 3 menn frá Flateyri, en þeir voru þar á ferð.

Síðustu dagana í febr. 1941 féll snjóflóð á húsið Sólgerði sem stóð við Seljalandsveg skammt innan við Ísafjarðarkaupstað. Átta manns voru í húsinu þegar snjóflóðið reið yfir. Björguðust 6, en 2 stúlkur fórust.

Árið 1948 féll hið minnisstæða snjóflóð í Goðdal inn af Bjarnarfirði í Strandasýslu. Þar fórust 6 manneskjur, en húsbóndinn á heimilinu bjargaðist. Goðdalur er innsti bærinn í byggðinni og þess vegna vissi enginn um snjóflóðið fyrr en fjórum sólarhringum eftir að það hljóp fram, Þetta sorglega slys mun flestum í minni sem komnir eru til fullorðinsára.

Árin 1953 og 1955 urðu dauðaslys af völdum snjóflóða í Svarfaðardal. Fyrra árið féll snjóflóð á bæinn Auðnir og fórust þar fullorðinn maður og ung kona, og síðara árið, 1955, urðu svo tvö dauðaslys í Svarfaðardal af völdum snjóflóða. Bóndinn á Másstöðum ytri í Skíðadal fórst við leit að kindum í fjallinu upp af Másstöðum og enn fremur bóndinn á Hjaltastöðum í Skíðadal sem einnig fórst við fjárgæslu.

Fjöldamargar frásagnir eru um að menn hafi lent í snjóflóðum, ýmist við fjárgeymslu eða á ferðalögum, ýmist gangandi eða akandi. Enn fremur eru nokkrar frásagnir af því að menn hafi lent í snjóflóðum á skíðum.

Árið 1953 varð sá atburður á Ísafirði í janúarmánuði að fjórir ísfirskir skíðamenn lentu í snjóflóði þar sem þeir voru að æfa sig upp á Gullhól á Seljalandsdal. Vissu skíðamennirnir ekki fyrr en snjóflóðið reið að þeim og voru engin umsvif til að forðast það. Lentu þeir allir í snjóflóðinu. Barst sá, sem lengst fór, um 254 m með flóðinu, en öllum tókst þeim að bjarga sér.

Árið 1965 reið snjóflóð að skíðamanni sem var á skíðum í Húsavíkurfjalli í svonefndri Dagmálalág. Snjóflóðið hreif hann með sér alllanga leið niður fjallshlíðina og færði hann í kaf. Honum tókst þó að losa sig úr flóðinu og komst til Húsavíkur.

Þá gerðist það árið 1966 í aprílmánuði að snjóskriða féll í Jósefsdal. Sunnudaginn 22. apríl fór fram skíðakeppni Ármanns í Jósefsdal. Þá bar það við er keppni karla var að hefjast, að snjóflóð féll á svigbrautina og gróf hana á 30–40 m kafla svo að hlíðastengur fóru í kaf. Veður var slæmt svo að ógerlegt var að gera nýja braut. Áður en þetta varð, hafði keppni kvenna og unglinga farið fram í brautinni. Keppni karla hófst hins vegar hærra í fjallinu og losnaði skriðan þegar fyrsti keppandinn var kominn vel af stað. Snjóflóðið féll nokkuð þvert á brautina og var keppandinn aldrei í neinni hættu.

Þessi dæmi sýna að víða getur snjóflóðahættan leynst og er ástæða til þess fyrir skíðamenn að hyggja að snjóflóðahættu.

Ég hef hér að framan rakið helstu snjóflóð og mannskæðustu og þau sem valdið hafa mestu tjóni eftir því sem ég hef getað kynnt mér. Eins og sjá má af þessari upptalningu, hafa snjóflóð fallið víðs vegar um landið. Þau hafa enn fremur hlaupið fram við mismunandi aðstæður. Það hefur einnig komið í ljós að í mörgum tilfellum hafa snjóflóð hlaupið þar sem enginn átti von á þeim og ekki er vitað til að þau hafi hlaupið áður. Í flestum tilfellum er þó um að ræða endurtekningu og það eru fjölmargir staðir á landinu sem eru sérstaklega næmir fyrir snjóflóðum.

Í 1. bindi rits Ólafs Jónssonar um skriðuföll og snjóflóð er að finna annál um skriðuföll á Íslandi. Annáll þessi nær fram til ársins 1957. Í 2. bindi er svo annáll um snjóflóð sem sömuleiðis nær til ársins 1957. Þá hefur Ólafur birt snjóflóðaannál 1958–1971 í grein þeirri í tímaritinu Jökli frá 1971 sem ég gat um áður. Frásagnir þær, sem ég hef verið að rekja, eru teknar úr annálum Ólafs Jónssonar. Ólafur byggir annála sína á ýmsum heimildum, svo sem íslenskum annálum, Flateyjarbók, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, Alþingisbókum, sóknarlýsingum, Ferðabók Þorvalds Thoroddsens, prestsþjónustubókum og fleiri heimildum. Þegar kemur fram yfir miðja 19. öld fara heimildir að byggjast meira á frásögnum ýmissa blaða og ritum um náttúrufræðileg efni. Elsta heimild um snjóflóð er Sturlunga. Þá má og nefna Biskupasögur, Íslenskt fornbréfasafn, Íslenskar æviskrár, Sýslumannaævir, Prestaævir, ásamt öðrum þeim heimildum sem ég rakti hér áður.

Í þáltill. á þskj. 247 segir að „áhersla verði lögð á gagnasöfnun og rannsóknir á þessum náttúrufyrirbærum, eðli þeirra og orsökum“. Ólafur Jónsson flokkar skriðuföll á þessa leið: 1) Framhlaup. Það eru stórar bergsyllur sem renna eða springa fram og hrynja. 2) Svokallaðar ruðningsskriður sem verða í myldnum og lausum jarðefnum. 3) Hrun, þegar stærri eða minni stykki losna úr föstu bergi.

Segja má að höfuðorsakir snjóflóða séu í fyrsta lagi landslagið sjálft og í öðru lagi veðurfarið. Nánar tiltekið má segja að orsakirnar séu nægur snjór og bratti og tiltekin skilyrði.

Menn hafa reynt að flokka snjóflóðin eftir eðli þeirra. Helgi Björnsson jöklafræðingur skrifaði nýlega athyglisverða grein í Morgunblaðið um varnir gegn snjóflóðum, orsakir, eðli og rannsóknir. Grein þessi er stutt, en ákaflega skýr og fylgja henni skýringarmyndir. Helgi segir svo um snjóflóð:

„Við fræðilega könnun á eðli snjóflóða er gagnlegt að greina á milli 4 flokka. Flest snjóflóð eru hins vegar blönduð að gerð. Lausasnjóflóð fara hraðast allra snjóflóða. Lausi snjórinn þyrlast upp í kóf sem feykist niður hlíðina ofaná snjóbreiðunni. Aðeins loft veitir því framrás kófsins mótstöðu. Framan við æðandi kófið þrýstist loftið saman og því fylgir þrumuhávað í og oft höggbylgjur og hvirfilvindar. Kófhlaup verða oft kröm þegar neðar dregur vegna varma af völdum hinnar miklu núningsmótstöðu í snjóflóðunum. Einnig er snjór oft rakur lágt í hlíðum. Snjórinn stirðnar þá og steypist saman jafnskjótt og hlaupið stöðvast. Mannskæðustu snjóflóð hérlendis fara af stað sem kófhlaup. Talið er að hraði þessara hlaupa sé oft og tíðum 500 km á klst.

Í hinum krömu snjóflóðum nær votur snjórinn ekki að þyrlast upp, heldur veltist og hnoðast saman í bolta og samloðun í snjónum veldur því að hlaupin skafa niður á jörð og róta upp jarðvegi, Eftir stendur gjá með gljáskorna veggi. Þau móta því nokkuð lag fjalla og skilja eftir sig gróðurlitla slakka. Frambrún hlaupsins heggur ekki á móti lofti eins og kófhlaupin, heldur mót kyrrstæðri snjóþekjunni. Kröm flóð eru kraftmest allra snjóflóða þótt þau fari um helmingi hægar en lausasnjóflóðin.

Flekahlaup verða, er yfirborðslag rennur á skaralagi. Þau hafa verið mannskæð á Íslandi og hleypa oft af stað öðrum gerðum flóða.

Krapahlaup verða í asahlákum og eru algeng í Mýrdalnum. Við jöklamenn mætum þeim oft meinlausum á ferðum okkar upp í jökulsporð á vorin. Þau fara hægast snjóflóða:

Þannig farast Helga Björnssyni orð í grein þeirri í Morgunblaðinu sem ég vitnaði hér til. Eins og áður er að vikið valda snjóflóð oft stórslysum og margháttuðu tjóni. Öll rannsókn og þekking á eðli þeirra og hvað veldur þeim miðar að því að draga úr slysum og margvíslegu tjóni sem snjóflóðin valda.

Er þá komið að því að spyrja um það, hvort unnt sé að sjá snjóflóð fyrir. Nauðsynlegt er að vinna vandlega snjóflóðakort, þ. e. að kortleggja alla snjóflóðastaði, þar sem manntjón hefur orðið, kort sem sýnir flóð sem valdið hafa tilfinnanlegu eignatjóni og að lokum snjóflóð sem aðeins hafa orsakað vegatafir og fleira af því tagi.

Sigurjón Rist hefur ritað í tímarit Jöklarannsóknafélagsins, Jökul, skýra og glögga grein um snjóflóðakort. Þessari grein fylgja 4 gróf yfirlitskort um aðalsnjóflóðasvæði hér á landi, en þau eru 4: Í fyrsta lagi Norðurland, þá Vestfirðir, Austfirðir og að lokum Mýrdalurinn. — En auk þessa hafa hlaupið fram snjóflóð á einstökum stöðum víðs vegar um land, eins og dæmin sanna.

En það er ekki nægilegt að gera almenn yfirlitskort þó að það sé mjög fróðlegt og gefi vitneskju um aðalsnjóflóðasvæðin í stórum dráttum. Það þarf í raun og veru að gera sérstakt kort af öllum snjóflóðum sem valda tjóni eða eignaspjöllum. Þurfa þessi kort að vera mjög nákvæm og þarf einnig að fylgja lýsing á snjóflóðunum og snjólagi, veðurfari og mörgu fleiru. Slík vinna verður að fara fram þegar snjóflóð hefur fallið. Snjóflóðin miklu, sem féllu í Neskaupstað 19. og 20. des. s. l., hafa verið rannsökuð allítarlega. Hjörleifur Guttormsson kennari í Neskaupsstað hefur sérstaklega annast þessar rannsóknir. Hafa verið kortlögð öll snjóflóð sem féllu í Norðfirði kringum 20. des. s. l. Kortin eru nákvæmari neðan til í snjóflóðunum og hafa verið gerðar dýptarmælingar í stærstu hlaupunum. Þá er verið að útvega veðurlýsingar veðurathugunarstöðva í grenndinni um þetta leyti, og gert er ráð fyrir að gera ítarlega heildarskýrslu. um þessi snjóflóð ásamt athugunum á fyrri flóðum.

Við athugun hefur komið í ljós, að einhvern tíma 19.–20. des. s. l. hljóp allmikið snjóflóð, sennilega flekahlaup, niður utan við svonefndan Vatnshól og stöðvaðist í gili Bakkalækjar um 15 m utan og ofan við efsta húsið sem þar er í byggingu. Þá hefur einnig komið í ljós, að um hádegisbilið þann 19. des., daginn áður en stóru snjóflóðin hlupu fram í Neskaupstað, féll stórt snjóflóð úr svokölluðu Nesgili sem er í fjallinu upp að ystu byggðinni í kaupstaðnum. Þetta snjóflóð stöðvaðist um 130 m frá efsta húsi og í 54 m hæð yfir sjó. Einhvern tíma milli kl. 10.30 og 11 þann 20. des., daginn sem stóru snjóflóðin féllu í Neskaupstað, féll þriðja snjóflóðið og þá úr svokölluðu Drangagili sem gengur niður úr Drangaskarði, sem er leiðin til Mjóafjarðar frá Norðfirði. Þetta snjóflóð náði allar götur að efstu húsum og kom meira að segja lítillega að efsta húsinu. — Þarna hljóp snjóflóð árið 1894 á þorradag. Það snjóflóð féll á bæinn Þiljuvelli. Tveir bændur björguðust naumlega úr flóðinu og misstu þar mikið af eignum sínum,

Það er allajafna auðveldara að vera vitur eftir á, en ef atburðarás snjóflóðanna í Norðfirði þann 19. og 20. des. s. l. er athuguð, þá kemur í ljós að ástæða hefði verið til að gera viðvart um mögulega hættu á næmasta snjóflóðasvæðinu. En auðvitað verður slíku ekki við komið nema til komi skipulegar aðgerðir, svo sem viðvörunarkerfi. Er ástæða til að ætla, að ef unnið yrði skipulega að þessum málum væri mögulegt að sjá snjóflóð fyrir með það miklum líkindum að mestu hættunni á manntjóni mætti bægja frá. Sigurjón Rist telur að snjóflóðakort 19. og 20. aldar sýni að mannskæðust eru þurru snjóflóðin. Stærstu og geigvænlegustu snjóflóðin eru venjulegast til orðin á þann hátt að snjóhengja í fjallsbrún brestur og setur af stað snjódyngju, kófhlaup og jafnvel samtímis snjóbreiðu af nýjum nokkuð vindbörðum snjó, svokallað flekahlaup. Ef fylgst er vandlega með veðurfari, úrkomu, vindátt og snjólagi, geta menn séð fyrir, hvenær hættuleg skilyrði eru að skapast fyrir snjóflóðum. Þegar þar við bætist að snjóflóð eru byrjuð að falla á tilteknu svæði, þá liggur nokkuð ljóst fyrir að hætta getur verið á ferðum.

Erlendar rannsóknarstöðvar vinna að svonefndum snjóflóðaspám. Safnað er saman öllum upplýsingum á hinum ýmsu flóðasvæðum. Þá er og stuðst við reynslu heimamanna sem eru öllum hnútum kunnugir. Auðvitað eru mörg ljón á veginum í þessum efnum, vond veður og slæm skyggni hamla rannsóknum og margt fleira kemur til.

Þá er minnst á það í þáltill., að athuganir verði gerðar á því, hvort unnt sé að hindra snjóflóð. Ekkert fær stöðvað snjóflóð á ferð. Þess vegna er þýðingarmikið að reyna að hindra að snjóþekjan komist nokkru sinni af stað. Þetta er gert víða, þar sem snjóflóðahætta er augljós eða kunn af fyrri reynslu. Helstu mannvirki af þessu tagi eru stallar og láréttir skurðir sem gerðir eru eftir fjallshlið. Þessi mannvirki má sjá sums staðar, t. d. í Sviss, allar götur frá því í lok 18. aldar. Þetta er gert til þess að reyna að halda snjónum stöðugri. Síðan hafa víða verið gerðir garðar eða múrar til þess að stöðva snjórennsli. Þar eru sums staðar aðeins reknir niður staurar sem eiga að binda fönnina. Gallinn er sá að þessi mannvirki fara stundum á kaf í snjó og veita þá litla mótstöðu. Svo er einnig þess að gæta að upptök flóðanna reynast oft á tíðum á stærri svæðum en menn ætla. Sums staðar eru reistar lóðréttar rimlagrindur, sem eiga að safna snjó, eða skágrindur, sem eiga að stöðva snjó í fjallshlíð. Á stundum er svona rimlavirkjum dreift um hlíðar til þess að reyna að halda snjónum kyrrum. Sums staðar eru eims konar rimlabryggjur, sem eiga að hjálpa til að stöðva snjóflóðin, og garðar, sem er dreift yfir tiltekin svæði, Þá er hugsanlegt að reyna að beina snjóflóðunum í ákveðnar áttir.

Hér á landi hafa slíkar ráðstafanir til að hindra eða hafa áhrif á snjóflóð verið lítt þekktar. Þó hef ég minnt á mannvirki ofan við bæinn á Norðureyri við Súgandafjörð. Hins vegar reyna menn að skipuleggja byggð með hliðsjón af snjóflóðum og skriðuföllum, þótt dæmin sanni því miður að nokkur misbrestur hefur verið á því. Það dylst auðvitað engum að mannvirki af þeirri gerð, sem ég hef rætt um, eru bæði dýr og í mörgum tilfellum erfitt að koma slíku við, eins og t. d. í klettum. Þá hefur víða á snjóflóðasvæðum verið gert allnokkuð til þess að verja mannvirki. Bæði er það að mannvirki eru gerð þannig að lögun og styrk að þau standist snjóflóð. Stundum eru mannvirki byggð í skjóli við hóla eða hæðir til varnar. Þá eru gerðir veggir og hlaðnir sérstakir múrar til varnar gegn snjóflóðunum. Stundum eru sett sérstök skýli eða skáþök yfir vegi til þess að varna að tjón verði af snjóflóðunum á samgöngutækjum og umferð um vegi. Og svo er auðvitað það sem er þýðingarmest, það er staðsetning mannvirkja. Höfuðgildi snjóflóðakortanna er einmitt að marka hættusvæðin til þess að leiðbeina þeim sem ákveða mannvirkjum stað. Skipulagsyfirvöld, bæði heimamanna og ríkisins, geta stuðst við snjóflóðakortin við skipulagningu kaupstaða og kauptúna og byggðar yfirleitt. Einnig geta vegargerðarmenn, sem velja vegum stað, haft nokkra hliðsjón af snjóflóðakortunum.

Þáltill. gerir ráð fyrir því að athugað verði hvort unnt sé að koma við vörnum og viðvörunum, en ég hef þegar rætt nokkuð um möguleika á vörnum. Megintilgangur snjóflóðarannsókna er að reyna að forðast slys og tjón af völdum hlaupanna. Fyrst og fremst er um að ræða mannskaða, meiðsl eða eignatjón. Slík tjón eru bundin við staðsetningu manna í mannvirkjum á hættusvæðum eða við ferðir eða flutninga. Þegar spáð er hættu á snjóflóðum á tilteknu svæði, verður að vara við mannaferðum á svæðinu. Ef vegur liggur um svæðið, kemur til greina að loka honum fyrir umferð meðan hættan vofir yfir og auglýsa lokunina t. d. í útvarpi eða sjónvarpi. Víða háttar svo til á snjóflóðasvæðum hér á landi að ástæða er til að sýna ítrustu varúð um umferð þegar spáð hefur verið snjóflóðum. Mýmörg dæmi sanna nauðsyn þessa. Þá eru hús, sem búið er í á hættusvæðum, og byggingar, sem unnið er í. Slík hús á að rýma þegar ástæða er til. Mörg eru dæmi þess í byggðum hérlendis að snjóflóð hafa fallið á einstök hús eða bæjarhluta. Þá er hægt að bægja frá hættunni með því að loka hreinlega þessum svæðum, þar til hættan er talin liðin hjá.

Sums staðar er nokkuð gert að því að hleypa snjóflóðum af stað svo að þau falli ekki öllum að óvörum. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti. Erlendis munu notaðar sprengjur sem kastað er á hengjurnar. Hvort slíkt er gerlegt hér á landi, treysti ég mér ekki til að dæma um, en gæti komið til greina í vissum tilfellum.

Það, sem veldur áreiðanlega mestum erfiðleikum við varnir og viðvaranir gegn snjóflóðum hér á landi, er veðráttan. Oft falla snjóflóð í vonskuveðrum, stórhríð og stormi, svo að varla sér út úr augum. Á meginlandi Evrópu a. m. k. eru skilyrði öll mjög á annan veg en hér á Fróni.

Í nýútkominni Sögu Íslands, svonefndri þjóðhátíðarútgáfu, er mjög fróðlegur kafli eftir Sigurð Þórarinsson jarðfræðing um sambúð lands og lýðs í 11 aldir. Þar er m. a. fjallað um ýmsar náttúruhamfarir og sagt frá skriðuföllum og snjóflóðum. Ekki verður unnt að tíunda með mikilli nákvæmni hversu margir íslendingar hafa farist í skriðuföllum á liðnum öldum. Að frátöldum frásögnum Landnámu og Íslendingasagna er kunnugt um nálægt 160 dauðsföll af völdum skriðufalla og grjóthruns. Á þeirri einu heilu öld, sem sæmilega öruggar heimildir eru um, á 19. öldinni, voru dauðaslys af þessum ástæðum um 30. Má því ætla að dauðsföll af völdum skriðufalla séu um 200 frá því að land byggðist. Hins vegar eru mannskaðar af völdum snjóflóða miklu meiri en af völdum skriðufalla. Það er vitað um að nær 160 manns hafa farist í snjóflóðum fyrir 1600. Á 17. öld fórust þannig um 100 manns og á 18. öld um 60, á þeirri 19. um 170 og um 80 á fyrri helmingi þessarar aldar. Samanlagt er þá vitað um á 6. hundrað manns sem farist hafa í snjóflóðum.

Hér á undan hef ég gert grein fyrir helstu og mannskæðustu skriðuföllum og snjóflóðum sem vitað er um í Íslandssögunni. Ef nánar eru skoðaðir annálar um skriðuföll og snjóflóð kemur í ljós, að langsamlega flest fólk hefur farist í heimahúsum. Langflestir bæir, sem orðið hafa fyrir snjóflóðum eða skriðuföllum, hafa verið fluttir til. Þess vegna er ástæða til að ætla að byggðin í landinu hafi breyst á þann veg að síður falli yfir hana snjóflóð eða skriðuföll í framtíðinni. Er því engin ástæða til þess, þó að menn rifji upp þessa atburði á margra alda skeiði, að skelfast um of yfir þessum náttúruhamförum. Ég vil því undirstrika það um leið og bent er á hættu af snjóflóðum og skriðuföllum, að þá er engin ástæða til þess að slík söguskoðun eigi að valda sérstökum ótta í þessum efnum. Miklu er nær að menn reyni að átta sig á, hvað skeð hefur, og hagnýta fyrri reynslu til þess að forðast tjón af skriðuföllum og snjóflóðum. Og það, sem er langþýðingarmest í þessum efnum, er að skipuleggja byggðina í landinu með þeim hætti að reyna að forðast sem unnt er að hún verði fyrir snjóflóðum og skriðum. Hins vegar er sennilega erfitt að forðast þetta með öllu og þess vegna er einmitt ástæða til að rannsaka öll þessi mál miklu nánar en gert hefur verið og menn færi sér síðan í nyt niðurstöður þessara rannsókna eftir því sem unnt er.

Sigurður Þórarinsson telur að fullyrða megi að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi verið minna um hvort tveggja, skriðuföll og snjóflóð, heldur en síðan hefur orðið. Stafar þetta af því að veðráttan hefur verið misjöfn í Íslandssögunni, það hafa komið hlýviðristímabil og síðan kaldari tímabil sem varað hafa áratugum saman.

Í niðurlagi þáltill. er gert ráð fyrir að ríkisstj. leggi fyrir Alþb. niðurstöður athugana og rannsókna ásamt till. til úrbóta. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú, að Alþb. hefur sett mörg lög sem e. t. v. væri ástæða til að athuga og breyta þegar niðurstöður rannsókna og annarra athugana í sambandi við skriðuföll og snjóflóð liggja fyrir. Nefna má löggjöf eins og lög um Veðurstofu Íslands, skipulagslög, lög um almannavarnir og e. t. v. fleiri.

Ef Veðurstofan ætti að taka að sér aukin verkefni í sambandi við skriðuföll og snjóflóð, þyrfti hún eflaust að fjölga veðurathugunarstöðvum, efla tækjakost og starfsemi sína. Hvort breyta þurfi lögum þess vegna er athugunarefni.

Í skipulagslögunum er hvergi beint vikið að því að haga skipulagi kauptúna og kaupstaða með tilliti til snjóflóða og skriðuhættu. Væri ástæða til þess að setja í lög ákvæði um skyldu skipulagsyfirvalda í þessu efni. Einn megintilgangur snjóflóðakortanna er, eins og ég hef sagt hér áður, að merkja hlauprásir snjóflóða til þess að auðvelda skipulagsyfirvöldum að skipuleggja byggðir framhjá hættusvæðum. Hlauprásir skriðufalla eru miklu varanlegri og augljósari.

Í löggjöfinni um almannavarnir eru ýmis ákvæði sem varða náttúruhamfarir, Þó gæti verið ástæða til að athuga nánar þessa löggjöf með sérstöku tilliti til snjóflóða og skriðufalla. Almannavarnanefnd ríkisins hefur látið sig þessi mál talsvert varða. Árið 1973 mun n. t. d. hafa skrifað bréf til bæjaryfirvalda í þeim kaupstöðum í landinu, sem snjóflóð geta hugsanlega fallið, og beðið um að send yrðu kort yfir þá staði, þar sem snjóflóðahættan væri talin vera. Einnig var beðið um álit á því, hvað hugsanlega mætti verða til varnar gegn snjóflóðum.

Vegna þess, hve hin miklu snjóflóð í Neskaupstað eru mönnum í fersku minni, vil ég leyfa mér að lesa bréf hér sem ég hef fengið, en þetta bréf er svar frá byggingarfulltrúa Neskaupstaðar til Almannavarna í Reykjavík. Bréfið er dags. 11. mars 1974 og hljóðar hluti þess svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þökkum bréf yðar frá 24. febr. s. l., þar sem þér óskið eftir upplýsingum um snjóflóðahættu og hengjumyndun yfir bænum og hugsanlegar úrbætur í þeim efnum. Ég hef sett inn á kort snjóflóð sem komu hér niður hlíðina í byrjun febrúarmánaðar og sjá má á kortinu að féllu allt niður að 60–65m hæðarlínu. Einnig féllu snjóflóð innar í bænum, sem ekki sést á meðfylgjandi korti, við fiskvinnslustöð síldarvinnslunnar og Naustahvamm, sem er fyrir botni fjarðarins við nýju höfnina. Flóð þessi koma allt niður á 50–60 m hæðarlínu. Upptök flóðanna voru yfirleitt í 150–190 m hæð, en það er í öðru og þriðja klettabelti og djúpum giljum í fjallinu.“

Og enn segir í bréfinu:

„Um ráðstafanir til að fyrirbyggja slys af völdum snjóflóða tel ég að koma þurfi til sérfræðileg kunnátta manna sem þekkingu hafa á þessu sviði.“

Þá hefur verið rætt um það hjá Almannavörnum ríkisins að leita aðstoðar erlendis frá við að kanna betur þessi mál og mun nú þegar hafa verið skrifað tilraunastöðinni eða vísindastöðinni í Davos í Sviss um þessi mál. Ég hygg að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur hafi haft milligöngu í þessum efnum, en hann er mikill áhuga- og kunnáttumaður varðandi snjóflóð og skriðuföld. Þessi beiðni Almannavarna ríkisins mun hafa verið tekin til velviljaðrar athugunar af hálfu þeirra svisslendinga. Þá hefur og komið til tals hjá þeim hjá Almannavörnum að fá menn frá stofnunum í Kaliforníu og Noregi .til þess að kanna þessi mál einnig. Þá eru til félög og stofnanir í fleiri löndum sem sérstaklega leggja áherslu á rannsóknir og gagnaöflun um snjó og ís. Ég nefni t. d. Hið alþjóðlega jöklafræðifélag — The International Glacierlogical Society — í Cambridge í Englandi. Þeir leggja m. a. áherslu á vísindalegar og praktískar rannsóknir á snjó og ís. Einnig má nefna Bandarísku jarðfræðistofnunina, The American Geological Institute í Washington. Fleiri mætti nefna. Ég hef ástæðu til að ætla að þessi málefni, sérstaklega snjóflóðavarnir, verði eitt af aðalverkefnum Almannavarna ríkisins á þessu ári.

Auðvitað er það liður í þessu máli og það ekki ómerkur, að það kostar eflaust talsvert fé að gera þá úttekt og þær umbætur í þessum málum sem nauðsyn ber til. Það er eitt af þeim atriðum sem þarf að huga að í sambandi við þessi þýðingarmiklu mál. Ég hef hér undir höndum sérstakt starfsskipudag Almannavarna Ísafjarðar sem Almannavarnir ríkisins hafa gert varðandi þessa starfsemi í lögsagnarumdæmi Ísafjarðarkaupstaðar, en starfsemin miðar að því að veita íbúum svæðisins sem mesta hugsanlega vernd og öryggi, m. a. gegn náttúruhamförum. Auk þess munu Almannavarnir Ísafjarðar koma til hjálpar öðrum bæjar- og sveitarfélögum í nágrenninu ef þörf krefur og það verður ákveðið af Almannavörnum ríkisins. Þetta starfsskipulag er talsvert yfirgripsmikil bók og einn liður í þessu starfsskipulagi eru aðgerðir vegna aurskriða og snjóflóða. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði aur- eða snjóskriður í Ísafjarðarkaupstað eða aðrar náttúruhamfarir þess eðlis að byggingar í kaupstaðnum hafi orðið fyrir meiri háttar skemmdum, skal svæðisstjórn Almannavarna á Ísafirði strax taka til starfa í svæðisstjórnarstöð samkv. 7. kafla skipulagsins. Lögreglan skal strax boða alla almannavarnarnefndarmenn til starfa. — Þá er nánar kveðið á um samvinnu við ýmsar stofnanir, eins og t. d. Landsímann, lækna, hjúkrunarlið, Slysavarnarfélagið, sóknarprestinn og starfsmenn bæjarins. Þá er og sérstök áætlun um björgunarstarf.

Reynslan sýnir að nauðsyn ber til að efla starfsemi Almannavarna, en einn þáttur þeirrar starfsemi varðar einmitt snjóflóð og skriðuföll.

Ég hef ekki rætt um björgunarstarfsemi í sambandi við þessa þáltill., enda tekur hún ekki til þeirra mála. Það verkefni er í höndum Almannavarna og fjölmargra annarra aðila. En slíka starfsemi ber að efla mjög frá því sem nú er, þótt margt hafi verið frábærlega vel gert á því sviði. Það ríður á mestu að fljótt sé brugðið við og unnt að safna nægu hjálparliði sem hafi nauðsynleg tæki og útbúnað. Það er oft stutt milli lífs og dauða og geta mínútur valdið úrslitum. Mjög er þýðingarmikið að útbúnaður og nauðsynleg tæki séu til á helstu snjóflóðasvæðunum svo að hægt sé að grípa til þeirra í skyndi. Þá hef ég ekki heldur rætt um eignatjón og björgun eigna.

Eftir er að geta þess að trmrh. hefur nýlega skipað n. sem á að gera till. um löggjöf um skyldutryggingu gegn náttúruhamförum hvers konar. Þar koma eflaust til álita eldgos, jarðskjálftar, snjóflóð, skriðuföll og skaðaveður. Þegar löggjöf um Viðlagasjóð kemur fyrir Alþ., gefst tækifæri til að ræða nánar þessa þætti málanna.

Ég hef verið nokkuð langorður í þessari framsögu minni. Mér finnst þetta efni áhugavert og áhugaverðara, eftir því sem menn sökkva sér meira niður í það, og full ástæða til að taka þessi mál fastari tökum en gert hefur veríð. Um leið og ég lýk máli mínu, leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að till. verði vísað til hv. allshn.