20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á undanförnum mánuðum hafa forustumenn stjórnarandstæðinga reynt að telja þjóðinni trú um að alla forustu skorti hjá ríkisstj. um málefni lands og þjóðar, Hér í umr. hafa þeir haldið þessari iðju sinni áfram eins og þið hafið heyrt. Þeir fullyrða að ríkisstj. hafi gerst sek um aðgerðarleysi í efnahagsmálum og að hún hafi brugðist of seint við vandanum. Form. Alþfl. spyr hvort landið sé stjórnlaust. Þá er sagt að ríkisstj. sé afturhaldsstjórn sem vilji skerða lífskjör almennings í þágu atvinnurekenda og braskara, og sagt er að fjárlagaafgreiðslan fyrir jól hafi verið gagnrýnisverð og niðurstaðan orðið stórfelld verðbólgufjárlög. Við skulum nú, góðir áheyrendur, athuga hvað hæft er í þessum staðhæfingum.

Núv. ríkisstj. gerði sér grein fyrir því að þau verkefni, sem hún tók að sér að leysa, verða ekki leyst á nokkrum mánuðum né án samstarfs við þjóðina. Hún tekst því óhikað á við þau miklu efnahagsvandamál, sem að steðja, en gerir sér grein fyrir því að það tekur tíma að batinn komi í ljós. Stundarerfiðleika hræðist hún ekki, hún vill vinna sér traust með verkum sínum. Hvort það tekst mun sjást þegar upp verður staðið. En skortir forustu? Er landið stjórnlaust? Lítum yfir farinn veg í rúma 6 mánuði.

S. l. haust var stöðvun útgerðar og fiskvinnslu yfirvofandi vegna stórfellds taprekstrar. Með skjótum aðgerðum tryggði ríkisstj. óhindraðan rekstur fiskiskipaflota og fiskvinnslufyrirtækja fram yfir áramót. Til stöðvunar kom ekki. Eftir áramótin skapaðist á ný hætta á stöðvun útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja vegna áframhaldandi verðfalls á fiskafurðum. Ríkisstj. bægði þeirri hættu frá. Verðhrun á loðnuafurðum stefndi loðnuvertíðinni í vetur í voða, og fyrir áramót töldu margir vafasamt að gert yrði út á loðnu í vetur. Í dag er loðnuvertíðin orðin hin þriðja besta í sögunni að magni til. Þannig hefur á stuttum valdaferli þessarar ríkisstj. þrívegis stefnt í stöðvun undirbúningsatvinnuveganna vegna gífurlegra rekstrarvandamála. Samt hefur þessi rekstur þrátt fyrir allt gengið óhindraður. Er þetta forustuleysi? Er þetta stjórnleysi?

S. l. haust ríkti óvissa á vinnumarkaðinum. Vinstri stjórnin tók kaupgjaldsvísitöluna úr sambandi. Núv. ríkisstj. framlengdi þá ákvörðun. Verkalýðsfélögin sögðu upp samningum s. l. haust vegna gengisbreytingar. Margir óttuðust vinnustöðvun. Eftir áramótin hafði helsti forustumaður sjómanna mjög á orði að efnt yrði til sjómannaverkfalls snemma í febrúar. Hver varð niðurstaðan? Það varð ekkert sjómannaverkfall í febrúar. Í rúmlega 6 mánaða stjórnartíð núv. ríkisstj. hefur ríkt vinnufriður.

Við hvaða aðstæður hefur þessi vinnufriður ríkt? Kaupgjaldsvísitalan er ekki í sambandi. Óhjákvæmileg, en sársaukafull kjaraskerðing hefur orðið. Yfirvinna hefur minnkað. Hver er skýringin á því að vinnufriður hefur þrátt fyrir allt haldist á slíkum tímum? Skýringin er sú að launafólk treystir góðvilja og réttsýni þessarar ríkisstjórnar í kjaramálum við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Þetta traust launafólks hefur ríkisstj. áunnið sér með verkum sínum. Launajöfnunarbætur s. l. haust vernduðu láglaunafólk fyrir mestu áföllunum. Skattalækkanir nú, láglaunafólki til hagsbóta, eru framhald þeirrar stefnu. Forseti Alþýðusambands Íslands segir að ríkisstj. hafi tekið vel í hugmyndir verkalýðssamtakanna um skattalækkanir. Er það skortur á forustu og stjórnleysi að hafa tryggt vinnufrið með þessum hætti við ótrúlega erfiðar aðstæður? Og hver trúir því að ríkisstj., sem hefur náð þessum árangri á vinnumarkaðnum, sé afturhaldsstjórn sem vilji skerða kjör launafólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur? Nei, góðir áheyrendur. Þessi dæmi, sem ég hef nefnt um vinnufrið og snurðulausan rekstur undirstöðuatvinnuveganna, að ekki sé talað um fulla atvinnu í verstu efnahagskreppu sem yfir Ísland hefur gengið frá því á árunum eftir heimsstyrjöldina síðari, sýna að í landinu situr sterk stjórn, sem hefur haft trausta forustu á hendi og nú þegar náð umtalsverðum árangri, — stjórn sem vill láta verkin tala, og þau hafa talað sínu máli á fyrstu 6 mánuðum hennar stjórnartíðar.

Okkur er borið á brýn aðgerðarleysi í efnahagsmálum, að bregðast of seint við vandanum. S. l. haust beitti ríkisstj. sér fyrir gengisbreytingu, áframhaldandi vísitölustöðvun kaupgjalds og launajöfnunarbótum. Var það aðgerðarleysi? Við nýjum efnahagsvanda eftir áramótin hefur á ný orðið að bregðast með gengisbreytingu ásamt með niðurskurði ríkisútgjalda, takmörkunum á útlánum fjárfestingarsjóða, ráðstöfun til að draga úr óhóflegum innflutningi, skyldusparnaði og síðar en ekki síst skattalækkun í þágu láglaunafólks, — í heild sinni ráðstafanir sem setja svo sterka hemla á efnahagskerfið að lengra má ekki ganga án þess að atvinnuleysi vofi yfir. Svo tala menn um aðgerðarleysi.

Ég svara því neitandi að of seint hafi verið brugðist við vandanum. Það er ekki nóg að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir eðli vandans og hvernig við honum skuli bregðast. Ef skilning almennings skortir fara ráðstafanir í efnahagsmálum út um þúfur. Þess vegna greip ríkisstj. ekki til þeirra ráðstafana, sem nú eru kunnar og hófust með gengisbreytingunni í febrúar, fyrr en ljóst var orðið að almenningur í landinu gerði sér skýra grein fyrir því hversu alvarlegt ástandið var orðið. Þá fyrst var tími til kominn að hefjast handa.

Í frv. því, sem ríkisstj. lagði fram á Alþ. í dag, er gert ráð fyrir niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs sem næmi um 3 500 millj. kr. Í framhaldi af þeim ráðstöfunum, sem gerðar verða til að stemma stigu við því að öll áhrif gengisbreytingar komi fram sem útgjaldaauki hjá ríkissjóði, verður leitast við að koma við frekari sparnaði í rekstri. Mun sú viðleitni ekki einungis beinast að stofnunum sem standa undir rekstrinum með beinum framlögum úr ríkissjóði, heldur einnig að fyrirtækjum sem afla eigin tekna með sölu á þjónustu.

Mikilvægt er að hafa föst tök á öllum útgjöldum og útlánum hins opinbera. Jafnan verður þó að hafa vakandi auga á atvinnuástandi og atvinnusjónarmið sett ofarlega þegar metið verður hvaða framkvæmdum eigi að fresta og hverjum að flýta. Fjárlagaafgreiðslan fyrir jól hefur verið gagnrýnd og vék reiknimeistarinn frægi, hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, að því í kvöld. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á: Í fyrsta lagi að undirbúningur fjárlagagerðar hófst á s. l. sumri, þegar Lúðvík Jósepsson sat í stjórn. Í öðru lagi að fjárl. hljóta óhjákvæmilega að endurspegla yfir 50% verðbólgu í landinu á síðasta ári, en það var seinasta árið sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson sat í ríkisstj. Í þriðja lagi að meginhluti útgjaldaliða fjárl. er lögbundinn og ekki er hægt að gera þar breytingar á nema með lagabreytingum, eins og hér er verið að gera og veldur gremju hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. Í fjórða lagi að þjóðhagsforsendur hafa gerbreyst frá því að fjárl. voru samþ. í des., þ. e. a. s. viðskiptakjör hafa versnað mun meira en þjóðhagsspáin hafði gert ráð fyrir. Viðskiptakjörin hafa versnað svo að einsdæmi er, eins og ég gat um áðan, í efnahagssögu Íslands enda þótt hv. 3. landsk. þm., Magnús T. Ólafsson, hafi ekki haft tíma til að fylgjast með því. Með till. um niðurskurð á fjárl. er nú leitast við að aðlaga fjárl. ríkjandi aðstæðum í efnahagsmálum. Sú stefna, sem núv. ríkisstj. telur að fylgja beri í fjármálum ríkisins, kemur skýrt fram í því frv., sem nú hefur verið lagt fram, og mun að sjálfsögðu koma enn skýrar fram við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1976.

Ég hef nú farið nokkrum orðum um þá gagnrýni sem haldið hefur verið uppi á núv. ríkisstj. Eftirtektarvert er að hún beinist ekki fyrst og fremst að efnislegum þáttum í stefnu og störfum ríkisstj., heldur ýmsum formsatriðum og ytra búnaði.

Í raun og veru má segja að eina efnislega gagnrýnin, sem Alþfl. hefur haldið uppi á núv. ríkisstj., sé afstaða formanns þingflokks Alþfl. til söluskattshækkunar vegna Norðfjarðar og Vestmannaeyja. Sú gagnrýni átti sér þó ekki meiri hljómgrunn innan Alþfl. en svo að aðeins 2 af 5 þm. flokksins greiddu atkv. á móti söluskattshækkuninni,

Hins vegar hafa forsvarsmenn Alþb. að einu leyti markað mjög skýra afstöðu gegn stefnu ríkisstj. Helsti foringi Alþb., Magnús Kjartansson fyrrv. ráðh., hefur hafnað þeirri stefnu ríkisstj. að bæta fyrst og fremst kjör láglaunafólks og krafist þess að hið hróplega misrétti sem fram kom í kjarasamningunum í fyrra þegar hærri tekjuhópar innan verkalýðssamtakanna fengu margfalt meiri kauphækkun en lægri tekjuhópar, verði endurreist umsvifalaust. Þessi stefna hefur hvað eftir annað verið ítrekuð í aðalmálgagni Alþb. og hefur fylgt hörð gagnrýni á helstu verkalýðsforingja úr röðum Alþb. fyrir að fylgja ekki þessari stefnu. Er hér um að ræða mjög athyglisverða stefnubreytingu flokks sem hingað til hefur talið sig helsta málsvara launafólks.

Við afgreiðslu fjárl. gerði ég grein fyrir þeim breytingum á skattalöggjöfinni sem ríkisstj. hygðist beita sér fyrir. Í samræmi við stefnu ríkisstj. og á grundvelli þess starfs, sem unnið hafði verið í fjmrn., fól ég nokkrum embættismönnum að undirbúa till. varðandi einstaka þætti skattamálanna, jafnframt því sem skipuð var þm.-nefnd til þess að fylgjast með því starfi. Megináhersla var lögð á till. um lækkun tekjuskatts að upphæð 700 millj. kr. sem gert hafði verið ráð fyrir með samþykkt fjárl. svo og sameiningu fjölskyldubóta tryggingakerfisins og skattkerfisins. Með þeirri sameiningu væri stefnt að því að ná þeim tekjujöfnunaráhrifum, sem bótum almannatrygginga og tekjuskatti er ætlað að ná, skýrar og sanngjarnar en núgildandi löggjöf gerir kleift.

Í frv. ríkisstj., sem lagt var fram á Alþ. í dag, er að finna ákvæði hér að lútandi. Hinir hefðbundnu persónufrádrættir ásamt hinum gölluðu nýmælum s. l. árs um skattafslátt eru felld niður, þess í stað koma persónufrádrættir. Fjölskyldubætur tryggingakerfisins og allar ívilnanir vegna barna í tekjuskatti eru sameinaðar í einn afslátt, barnabætur. Þessar barnabætur ganga til greiðslu á opinberum gjöldum, en að því marki sem þær eru hærri en þau greiðast þær út til framfæranda. Leiðir þetta til einföldunar, bæði fyrir hið opinbera og skattþegn, auk réttlætis og sparnaðar í rekstri. Verði þessi breyt. samþ. lækka fjárlög ríkisins um einn milljarð.

Frv. gerir ráð fyrir lækkun tekjuskatts einstaklinga um 850-900 millj. kr. og um lækkun útsvars um 360 millj., miðað við að sveitarfélögum sé heimilað að leggja á 11% útsvar.

Breytingar þær, sem lagt er til að gera, miða fyrst og fremst að hagsbótum fyrir lágtekjufólk, eins og dæmin í grg. frv. glögglega sýna. Hjón með tvö börn geta haft samkv. till. skattfrjálsar brúttótekjur 1216 þús., en að óbreyttum lögum 1101 þús., þar er hækkun 115 þús. Einstætt foreldri með eitt barn getur haft samkv. till. frv. skattfrjálsar brúttótekjur 906 þús., en að óbreyttum lögum 774 þús., hækkun 132 þús. Ég læt hér staðar numið, en hvet alla til þess að kynna sér vel þessar skattalagabreytingar.

Með ákvæðum þessa frv. um lækkun skatta og heimild til lækkunar skatta er að því stefnt að milda nokkuð þá kjaraskerðingu sem þjóðin í heild fær ekki undan vikist. Þessar úrbætur eru ætlaðar til hinna tekjulægstu og þá helst barnafjölskyldnanna og stuðla þannig að skynsamlegri niðurstöðu í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Áfram verður unnið að skoðun skattalaganna. Vonast ég til að áður en þessu þingi lýkur fái það til meðferðar ákvörðunartöku um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og söluskatt með virðisaukasniði. Þá hefur ríkisstj. ákveðið að fyrir næsta Alþ. verði lagðar till. um sérsköttun hjóna með skiptingu tekna þeirra að jöfnu.

Góðir hlustendur. Við lifum á erfiðum tímum. Ytri áföll fara saman við það að við höfum ekki kunnað fótum okkar forráð hin síðustu ár. En lengur verður ekki undan vikist að taka á vandanum. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar tók við völdum til þess að veita þjóðinni forustu, ekki til að láta reka á reiðanum. Engum okkar, sem í ríkisstj. sitjum, hefur verið það ánægjuefni að grípa til þeirra ráðstafana sem við höfum þurft að beita okkur fyrir að undanförnu. Við gerum okkur þess glögga grein að kjaraskerðingin er orðin þungbær. Okkur er ljóst að slíkri kjaraskerðingu fylgir óánægja. Við erum reiðubúnir að taka þeirri óánægju, að gera allt í okkar valdi til þess að bæta úr, og fyrr en varir erum við vissir um að efnahagsráðstafanir ríkisstj. sýna árangur í verki, — árangur sem verður allri þjóðinni til hagsbóta þegar til lengdar lætur. — Góða nótt.