20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Út af ræðu Ragnars Arnalds vildi ég spyrja: Heldur þm. að Grundartangahöfnin verði ekki jafngóð nú eins og þegar flokksbróðir hans, Magnús Kjartansson, vann að framgangi þess máls af framsýni? Báðir vita þeir Ragnar og Magnús að þarna verður ein besta innflutningshöfn landsins. Það vita borgfirðingar og þess vegna hafa þeir áhuga á höfninni. Þeir vita það líka, þm. Alþb., sem hugsa raunhæft, að afgangsorkan, sem við komum til með að selja verksmiðjunni á Grundartanga, lækkar verð á rafmagni til íslenskra notenda og flýtir fyrir dreifingu á raforku, m. a. til húshitunar. Þeir vita það líka, þeir raunhæfu, að lánsfé til framkvæmda á Grundartanga er tengt þeirri framkvæmd einni og endurgreiðslan við framkvæmdina miðuð, en hún mun fyrr en seinna skapa möguleika til lántöku erlendis til annarra íslenskra framkvæmda og treysta atvinnulífið í landinu og þannig einnig skapa eigið fé.

Út af ræðu Benedikts Gröndals vil ég segja: Er hann búinn að gleyma því að það var viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, sem stóð fyrir þeirri samningsgerð sem hann fordæmir nú?

Lúðvík Jósepsson tók það réttilega fram að Framsfl. hefði haft forustu um uppbyggingu og samheldni vinstri stjórnarinnar meðan hún hélt saman. En Framsfl. var líka raunsær í efnahagsmálum. Áföllin, sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir á s. l. ári, eru engin bókhaldsatriði, heldur raunveruleiki sem Lúðvík viðurkenndi í lok ræðu sinnar um viðskiptakjörin og hafði einnig viðurkennt áður þegar hann í samningum í sumar gat hugsað sér gengislækkun, og hann hafði einnig geta hugsað sér áður launalækkun hjá þeim sem fengu mest út úr kjarasamningunum í fyrra.

Út af ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar vil ég segja það, að upphafið var, eins og venja er, um ráðleysi og að allt væri að farast. Það er kannske ekkert undarlegt þó að þessum þm. finnist allt vera að farast, því að hann þekkir svo til á sínum heimaslóðum. Um till. þær, sem hann vék hér að og ekki voru teknar upp úr efnahagsfrv. ríkisstj., skal ég vera fáorður. Ég vil hins vegar minna hann á það að þegar lög um launakjör alþm. voru sett síðast, þá var það undir forustu þáv. forseta Sþ., Alþfl.- þm. Birgis Finnssonar, og þá voru tveir nm. sem lögðu til að launakjör þm. yrðu ákveðin af kjaradómi, það voru ég og Björn Jónsson. Aðrir voru því andvígir. M. a. hélt þáv. forseti Sþ. því fram að Alþ. ætti ekki að lúta öðrum en sjálfu sér því að það væri æðsta stofnun þjóðarinnar.

Eins og greinilega kom fram í ræðu viðskrh. ber brýna nauðsyn til að þjóðin sýni aðhald í kröfum, eyðslu og framkvæmdum, hvort sem um er að ræða opinbera eða einkaaðila, þegar viðskiptakjör hennar hafa versnað á einu ári um 30%, eins og nú hefur átt sér stað.

Við þetta tækifæri minni ég á aðvörunarorð fyrrv. forsrh., Ólafs Jóhannessonar, til þjóðarinnar í áramótaræðu, er hann flutti við áramótin 1973–1974, og tilraunir hans til aðgerða með efnahagsfrv. á Alþ. í fyrravetur. Nú liggja staðreyndirnar fyrir. Aðvörunin um verri viðskiptakjör af hendi Ólafs Jóhannessonar var réttmæt, og þjóðinni hefði verið farsælla að til hennar hefði verið tillit tekið.

Undir slíkum kringumstæðum sem þessum þurfa stjórnvöld og aðrir framkvæmdaaðilar að meta rétt val framkvæmda. Til dæmis þarf að gæta þess að byggðastefnan verði ekki fyrir áfalli og ekki síður að þær framkvæmdir atvinnuveganna, sem þegar eru hafnar, geti haldið áfram. Þá eru málaflokkar eins og samgöngumál og orkumál forgangsframkvæmdir, eins og fram kemur um fjárútvegun til þeirra í efnahagsfrv. ríkisstj. Af þeim niðurskurði, sem hugsaður er, er um milljarður vegna rekstrarkostnaðar, m. a. sem stafar af gengislækkuninni sem var gerð nú fyrir stuttu. Einnig er hér um heimild að ræða sem að verður farið með fullri gætni.

Afkoma landbúnaðarins hefur verið góð síðustu árin svo að fá ár eða engin munu jafnast á við þau. Þetta hefur komið fram í því, að bændur hafa nú komist nær því en nokkurn tíma fyrr að hafa svipaðar tekjur og viðmiðunarstéttirnar. Þessi góðu ár hefur bændastéttin notað til þess að byggja upp og bæta land sitt. Enda hafa á þessu tímabili verið meiri útlán úr Stofnlánadeild landbúnaðarins til framkvæmda en nokkru sinni fyrr. Það er svo, að í samanburði við aðra stofnlánasjóði atvinnuveganna hefur hlutfallsleg aukning verið mest hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins á, síðustu árum. Á þessum árum hefur einnig verið tekinn upp nýr lánaflokkur, bústofnslán, sem lánuð eru til að aðstoða unga fólkið við að stofna til búskapar. Sama er að segja um veðdeild Búnaðarbankans, hún hefur verið efld og aukin lán til jarðarkaupa.

Þá vil ég geta þess að afurðalán til landbúnaðarins hafa verið færð í sama horf og afurðalán til sjávarútvegsins og hefur veruleg bót orðið á því. Hins vegar liggur enn þá eftir að koma rekstrarlánum landbúnaðarins svo fyrir sem skyldi, og það hefur ekki síst orðið tilfinnanlegt vegna verðhækkunar. Sérstaklega kemur það illa við sauðfjárbændur sem hafa sitt innlegg eingöngu á haustinu, svo sem kunnugt er. Af því mun nú verið að leita að leiðum til úrbóta á þessu sviði. Lán til vinnslustöðva landbúnaðarins hafa verið veruleg nú síðustu árin og uppbygging þeirra meiri en áður. Hér skortir þó á að þeim málum sé eins vel komið fyrir og að er stefnt. En það er einnig þörf að lána vinnslustöðvum landbúnaðarins út á vélar og annan tækjabúnað, sem nútímavinnslustöðvar krefjast. Enginn má gera ráð fyrir því að um slíka útlánaaukningu verði að ræða hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins á þessu ári og verið hefur undanfarandi ár, enda munu framkvæmdir ekki krefjast þess. Hins vegar er nú ákveðið að stofnlánadeildin hafi ekki minna fé til útlána á árinu 1975 heldur en hún hafði á árinu 1974. Ef fé skortir til útlána hjá deildinni verða framkvæmdir hjá bændum og vinnslustöðvum þeirra, sem hafnar eru, að hafa forgang.

Eitt áfall, sem landbúnaðurinn verður fyrir á þessu ári og ég vil geta hér, er hækkun á áburðarverði. Gert er ráð fyrir því að hækkun á áburðarverði hér á landi muni verða um 150%. Hér er um svo gífurlegt áfall að ræða að það hlýtur að hafa áhrif á afkomu ekki aðeins atvinnuvegarins, heldur þjóðarinnar allrar, og draga úr áburðarnotkun. Enda þótt ríkisstj. hafi ákveðið að greiða áburðinn niður að einhverju leyti til þess að draga úr áhrifum þessarar hækkunar á verðlag á landinu almennt, sem gert verður í samráði við forustumenn bændasamtaka, mun hækkunin samt segja verulega til sin. Ekki er hægt að gera ráð fyrir öðru en að einhver útflutningur verði á landbúnaðarvörum nema um skort verði að öðrum kosti að ræða á neysluvörum hans á heimamarkaði. Með samstarfi á milli landbrn., Framleiðsluráðs landbúnaðarins og útflytjenda er reynt að keppa að því að gera þessi mál eins hagkvæm og tök eru á, og líkur eru til að úr útflutningi á landbúnaðarvörum muni draga á þessu ári frá því sem var árið 1974, m. a. vegna þess að á s. l. ári gekk á birgðir landbúnaðarvara.

Ekki ætla ég að fara að ræða hér og gera að umtalsefni þær árásir, sem hafa verið gerðar á bændastéttina á síðustu mánuðum, enda hafa þær ekki verið á rökum reistar eða á skynsemi byggðar. En öllum er ljóst að hver þjóð verður að búa við kosti lands síns, nýta þá sem best, eins og gert hefur verið af íslensku bændastéttinni fyrr og síðar.

Um samgöngumálin vil ég segja það, eins og áður er að vikið, að það er ákveðið með frv. ríkisstj. í efnahagsaðgerðum að vegáætlunin, eins og hún er á fjárl., verði framkvæmd á yfirstandandi ári. Þetta er einn þáttur ríkisstj. til að halda uppi fullri atvinnu um land allt. Hér er um að ræða svipaða krónutölu og á síðasta ári þegar Skeiðarársandsframkvæmdin er tekin með inn í framkvæmd þess árs. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að meiri hraði verði í vegagerð á yfirstandandi ári en hér er gert ráð fyrir, vegna efnahagsörðugleika þjóðarinnar, sem auðvitað verður að taka fullt tillit til hér eins og annars staðar. En vegagerðin er einn af þeim góðu þáttum, þar sem gjaldeyriseyðsla er ekki mikil, en hún er hins vegar nokkuð atvinnuskapandi. Bættar samgöngur eru og gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðina, hvort sem litið er á útgjöld í viðhald eða bensin- og olíueyðslu.

Um skipulagsmál Pósts og síma hefur nokkuð verið rætt upp á síðkastið, og nú er unnið áfram að þeim málum. Enn fremur hefur verið gerð áætlun um framkvæmdir á vegum þessarar stofnunar miðað við eigin tekjur hennar sem þegar hafa verið ákveðnar fyrir þetta ár. Að sjálfsögðu mun verðhækkunin eitthvað draga úr framkvæmdum, en það verður í þeim efnum sem öðrum reynt að gæta hófs og miða við aðstæður og láta það á hakanum sitja, sem er þannig vaxið að helst er hægt eftir því að bíða eða undirbúningi þess ekki fulllokið. Ákveðið hefur verið að setja næturvörslu á 4 símstöðvar á næstunni, þ. e. Sauðárkrók, Húsavík, Patreksfjörð og Kirkjubæjarklaustur. Jafnhliða er unnið að því að gera áætlun um uppbyggingu á símakerfinu með tilliti til öryggis á nóttu sem degi, þótt nokkurn tíma taki að koma slíku í framkvæmd. Geri ég ekki ráð fyrir meiri hraða á þessu ári en þegar er ákveðinn en samstarf við heimaaðila þar um þarf að komast á til að hraða framkvæmd málsins.

Eins og þjóðin naut góðærisins, þá verður hún einnig að taka á sig vandann þegar komið er svo um afkomu hennar út á við sem nú ber raun vitni um. Tvennt er það, sem stjórnvöld hafa hugfast að keppa að: Það er annars vegar að bæta gjaldeyrisstöðuna út á við svo að þjóðin búi þar við fullt öryggi og þurfi ekki að eyða meiru af gjaldeyristekjum sínum í vexti og afborganir af erlendum lánum en góðu hófi gegnir. Í öðru lagi ber að halda uppi fullri atvinnu hér á landi og að því verður unnið. Mér er það fullkomlega ljóst, að það er erfitt verk að reyna að synda hér á milli skers og báru. Framsfl. lýsti því yfir í kosningunum á s. l. vori, að hann væri reiðubúinn til þess að taka á sig þann vanda, sem því væri samfara að axla þær byrðar sem þjóðin yrði að axla vegna breyttrar afkomu, eins og nú er á daginn komið. Hann mun því halda við þá ákvörðun sína og taka á sig þau óþægindi sem af því leiðir að gera ráðstafanir sem í bili eru kallaðar óvinsælar, en stefna til farsældar fyrir þjóðina. Engin þjóð lifir á óskhyggju. Það gerir engin ríkisstj. heldur. Forusta ríkisstj. og gifta hennar byggist á því að hún hafi þrek og þor til þess að takast á við þau verkefni, sem við er að fást á hverjum tíma, með manndómi, kjarki og af réttsýni. Til þess ætlast þjóðin af þeim þingmeirihl. og þeirri ríkisstj. sem hún hefur kjörið til forustu um málefni sín. Að því miða einnig aðgerðir ríkisstj. sem gerðar hafa verið og unnið er að. Framsfl. mun ekki láta sinn hlut eftir liggja í þeim aðgerðum sem þarf að gera til þess að þjóðinni takist að komast út úr aðsteðjandi erfiðleikum á farsælan hátt. — Góða nótt.