20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það mun í efa dregið að nokkurri ríkisstj. á Íslandi hafi tekist á jafnskömmum tíma að fá jafn marga upp á móti sér eins og núv. ríkisstj., og gildir það jafnt um samherja sem andstæðinga. Á þessu er raunar enginn hissa. Á valdaferli viðreisnarstjórnarinnar sálugu var launafólki og öllum almenningi vissulega sýndur hnefi valdhafanna og mörg óþurftarverkin voru þá unnin gagnvart verkalýðshreyfingunni. En það virðist ekki ætla að verða nema svipur hjá sjón miðað við það sem stefna núv. ríkisstj. hefur leitt af sér og á óefað eftir að leiða af sér verði fram haldið sem horfir.

Ein af meginröksemdum framsóknrarráðh. fyrir því feigðarflani Framsfl. að mynda stjórn, ekki með íhaldinu, heldur fyrir það, var sú að slík ríkisstj. væri sú eina sem væri nægilega sterk til þess að ráða fram úr þeim vandamálum sem við væri að glíma í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég veit ekki hvort meinlokan er svo alger hjá forustuliði Framsfl. að enn sé haldið fram slíkri firru, en sé svo, þá munu þeir nú hinir einu sem halda slíku fram. Allir aðrir hafa séð það algera stjórnleysi sem ríkt hefur frá myndun núv. ríkisstj. Ráðh. sjálfir vita ekki sitt rjúkandi ráð og væflast sitt á hvað, eftir því sem vindurinn blæs hverju sinni.

Allir kannast við orðatiltækið: „hann er tvíátta“. Það á við þegar mjög er óráðið úr hverri áttinni vindurinn blæs. Eitthvað álíka er ástatt fyrir hæstv. ríkisstj. Það er aldrei að vita úr hverri áttinni hann blæs innan veggja núv. stjórnarliða. Meira að segja forustumönnum úr Sjálfstfl., sem ekki kalla allt ömmu sína þegar flokkurinn á í hlut, ofbauð svo stjórnleysið að þeir fá vart mælt fyrir undrun og hneykslan yfir þessum ósköpum. Það er ástandið á kærleiksheimili peningasjónarmiðanna. Þar um breytir engu hin sprettharða ræða hæstv. fjmrh. hér áðan. Landið er stjórnlaust, hæstv. fjmrh.

Það hefur vakið athygli, ekki aðeins hér á Alþ., heldur einnig hjá öllum almenningi í landinu, að í hvert skipti sem foringjar Sjálfstfl. tala um vanda efnahagslífsins leggja þeir megináherslu á harðorða gagnrýni á stjórnarstefnu fyrrv. ríkisstj., þeirrar stjórnar, sem Framsfl. veitti forustu.

Aldrei heyrast foringjar Framsfl. svara einu né neinu þessum sífelldu árásum íhaldsins á vinstri stjórnina. Það er engu líkara en framsóknarmenn séu sem bandingjar eða í álögum á íhaldsheimilinu, enda Framsfl. að því er virðist alger umskiptingur orðinn í íslenskum stjórnmálum.

Eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. var að binda allt kaupgjald í landinu með lögum og rifta þannig löglega gerðum kjarasamningum verkalýðshreyfingarinnar á sama tíma og öllu verðlagi var sleppt lausu með þeim afleiðingum að slík flóðbylgja verðhækkana hefur dunið á almenningi að engin dæmi munu til um slíkt áður. Efnahagsstefna núv. ríkisstj. knúði verkalýðshreyfinguna í landinu til að segja upp kjarasamningum þeim sem undirritaðir voru fyrir ári. Ríkisstj. ber því beina ábyrgð á því að kjarasamningar 30–40 þús. launþega hafa verið lausir síðustu mánuði. Og það er ekki aðeins að ríkisstj. hafi haldið áfram af fullum krafti kjaraskerðingarstefnu sinni og aukið skerðingu lífskjara láglaunafólks sem annarra launamanna jafnt og þétt, heldur hefur hún staðið fyrir ráðstöfunum sem til þess eru líklegastar að koma í veg fyrir að samningar geti tekist.

Öll efnahagsstefna núv. ríkisstj. hefur einkennst af algeru fálmi og fumi sem virðist þó hafa haft það sameiginlega markmið að þrýsta svo niður launakjörum alls almennings í landinu að engin dæmi munu til um slíkt áður.

En sé það sannfæring núv. ríkisstj. að stórkostleg kjaraskerðing sé bjargráðið, þá hefði vissulega átt að byrja á þeim sem hærri eru launaðir. Öllum mun ljós sá vandi, sem við er að glíma í efnahagsmálum, en engum dettur það líklega í hug, nema núv. ríkisstj. og stuðningsliði hennar, að allur vandinn verði leystur á kostnað launþega og þá fyrst og fremst á kostnað þeirra lægst launuðu. Þessi stefna hefur einmitt komið skýrt í ljós í öllum efnahagsaðgerðum ríkisstj. frá því að hún tók við völdum. Við skulum líta á nokkur dæmi.

Hæstv. forsrh. sagði hér áðan: Gengisfelling, aðeins gengisfelling, leysir vandann. Og hæstv. dómsmrh. tók undir þetta. Ríkisstj. hóf einmitt feril sinn á 17% gengisfellingu, 20% hækkun búverðs, álagningu tveggja nýrra söluskattsstiga, hækkun á raforkuverði og bensínskatti. Í kjölfar þessara aðgerða fylgdi 10–12% skerðing á umsömdum kjörum sjómanna, enn frekari hækkun á landbúnaðarvörum og margvíslegar verðhækkanir á flestum eða öllum sviðum vöru og þjónustu. Þessar aðgerðir, sem að sögn stjórnvalda áttu að rétta við stöðuna í efnahagsmálum, bitna langverst á láglaunafólki, og ekki bara það, heldur hafa þessar aðgerðir gert þann vanda, sem við var að etja, enn erfiðari viðfangs. Frá valdatöku ríkisstj. hefur verðbólguhraðinn stóraukist, gjaldeyrisvarasjóðurinn tæmst og ráðstafanir, sem bæta áttu stöðu atvinnuveganna, oft og tíðum verkað alveg öfugt og gert vanda þeirra enn meiri, enda kom að því nokkrum mánuðum eftir að ríkisstj. tók við völdum að hún framkvæmdi nýja gengisfellingu, að því sinni 20%, og skellti þar með nýrri verðbólgu á almenning. Og enn hált hún áfram að vega í sama knérunn með því að hækka söluskattinn í 20%, jafnt á brýnustu nauðsynjum almennings sem lúxusvörum.

Það gefur nokkra hugmynd um hina geysihröðu verðbólguþróun að vísitala framfærslukostnaðar, sem var 247 stig fyrir ári, var komin í 372 stig 1. febr. s. l. og hafði því hækkað langt umfram það sem efnahagssérfræðingar ríkisstj. höfðu spáð. Og nú er áætlað að 1. maí n. k. verði vísitalan komin í a. m. k. 422 stig. Þótt það sé sennilega einnig of lágt áætlað þá gerir þessi hækkun vísitölunnar samtals 74% hækkun frá því að kjarasamningar verkalýðsfélaganna voru gerðir. Vegna kaupbindingarinnar hljóta launþegar hins vegar einungis 6.18% verðlagsuppbót. Aðrar verðhækkanir bera þeir að mestu bótalaust.

Sú gegndarlausa kjararáðstefna, sem ríkisstj. hefur framfylgt frá því að hún kom til valda, hefur leitt til mjög alvarlegs ástands á vinnumarkaðinum. Með samningunum í fyrra var samið til langs tíma, en aðgerðir ríkisstj. neyddu verkalýðshreyfinguna til að segja samningum sínum lausum. Ríkisstj. ber því beina ábyrgð á því að samningar um 40 þús. launþega eru nú lausir. Aðilar vinnumarkaðarins hafa undanfarna mánuði reynt að ná samkomulagi um nýja kjarasamninga, en verkalýðshreyfingin hefur sett sér það markmið að endurheimta aftur í áföngum þau kjör sem um var samið í síðustu samningum. Ríkisstj. hefur með áframhaldandi kaupránsaðgerðum sínum gert enn erfiðara fyrir í samningamálinu því að hver ný efnahagsaðgerð hefur aukið þá kjaraskerðingu sem verkalýðshreyfingin þarf að vinna upp. Það fer því ekki á milli mála, að ef til alvarlega átaka kemur á vinnumarkaðnum á næstu vikum, þá er það ríkisstj., hún ein og enginn annar, sem ber þar höfuðábyrgð.

Við í SF höfum lagt á það áherslu að við teldum efnahagsstefnu núv. ríkisstj. alranga og stórhættulega, og við höfum bent á aðrar leiðir. Sérstök ástæða er til að minna á, að Samtökin lögðu fram mjög skýrar till. í efnahagsmálum á s. l. sumri, og framkvæmdastjórn SF hefur nú nýverið ítrekað þá stefnu. Í stuttu máli eru meginatriðin í stefnu okkar í efnahags- og kjaramálum þessi:

Meginþáttur efnahagsaðgerða ríkisvaldsins verði framkvæmd niðurfærsluleiðar sem fyrst og fremst miðist við kjaraöflun. — Það er ekki hægt, sagði hæstv. forsrh. áðan. — Tekjur láglaunahópa verða ekki skertar frá því sem um var samið, en þeir forréttindahópar, sem vegna sérstakrar aðstöðu hafa að mestu sjálfdæmi um kaup og kjör, verði látnir bera fyllilega sinn hluta sameiginlegu byrða. Ákveðið hámark, þak, verði sett á fjárlög og erlendar lántökur, vísitölu og heildarfjárfestingu. Samningar verði teknir upp um endurskoðum vísitölukerfisins og þær sjálfvirku verðákvörðunarreglur, sem gilda á ýmsum sviðum, verði endurskoðaðar. Verðtrygging sparifjár og fjárskuldbindinga verði tekin upp. Þar sem því verður ekki við komið verði nafnvextir hafðir breytilegir. Framkvæmdir verði eftir fremsta megni fjármagnaðar innanlands og m. a. samið við banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði um kaup á ríkisskuldabréfum vegna fjármögnunarframkvæmda. Stighækkandi skyldusparnaður verði settur á útsvarsskyldar tekjur sem fara yfir ákveðið mark. Skattur á eignasölugróða verði aukinn. Reglum um fyrningar og afskriftir fyrirtækja verði breytt og núverandi hlutfall lækkað. Skattaeftirlit og eftirlit með innheimtu söluskatts verði hert til muna. Framkvæmdir á landsbyggðinni verði látnar sitja í fyrirrúmi og boðaður samdráttur í opinberum aðgerðum verði bundinn við önnur svið.

Það er sannfæring okkar, að ef farið hefði verið eftir till. SF s. l. sumar, þá væri ekki slíkt efnahagsöngþveiti, verðbólga og kjaraskerðing nú sem raun ber vitni. Meginorsök þess vandræðaástands er einmitt röng og hættuleg efnahagsstefna, — stefna sem gengur jafnvel enn lengra en stefna viðreisnarstjórnarinnar í fjandskap við verkalýðshreyfinguna og landsbyggðarfólk og er þá mikið sagt.

Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að stjórnarandstaðan hefði aldrei neitt jákvætt lagt til mála. Þessi sami hæstv. ráðh. lýsti því sjálfur yfir á s. l. sumri, að það væri sín sannfæring að sú leið, sem Samtökin þá bentu á og benda á enn, væri hin eina raunhæfa út úr þeim ógöngum sem menn telja nú vera fyrir hendi. En eigi að síður vildi þessi hæstv. ráðh. þá ekki fara þessa leið.

Við teljum að við þessar aðstæður sé nauðsynlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir reyni eftir megni að spyrna við fótum og styðja verkalýðshreyfinguna í þeirri erfiðu baráttu sem hún hefur staðið í að undanförnu og mun örugglega standa í á næstu mánuðum. Þess vegna hefur þingflokkur SF átt frumkvæði að því að þingflokkar stjórnarandstöðunnar ræddust við um nánara samstarf í þessu efni. Í bréfi, sem þingflokkur SF sendi þingflokkum Alþb. og Alþfl., sagði m. a.:

„Stefna núv. ríkisstj. í efnahags- og launamálum hefur orðið þess valdandi að stórkostleg kjaraskerðing hjá öllu launafólki er staðreynd. Kjaraskerðing þessi er svo alvarlegs eðlis að verði ekkert að gert, þá blasir við gjaldþrot fjölda heimila á næstunni. Verkalýðshreyfingin freistar þess nú að fá leiðréttingu mála sinna umbjóðenda og þá fyrst og fremst þeirra lægst launuðu, sem verst eru settir. Þar sem fulltrúar allra verkalýðsflokkanna á Alþ., andstöðuflokka núv. ríkisstj., hafa lýst stuðningi við þetta meginsjónarmið verkalýðshreyfingarinnar samþykkir þingflokkur SF að óska eftir því við þingflokka stjórnarandstöðunnar að þeir tilnefni hver um sig fulltrúa til sameiginlegra viðræðna um hugsanlegar leiðir til stuðnings verkalýðshreyfingunni í þeirri baráttu sem hún á nú fyrir höndum:

Þessar viðræður eru nú þegar hafnar og ég vona, að þær beri góðan árrangur.

Jafnframt fjandskap við verkalýðshreyfinguna hefur núv. ríkisstj. í reynd stöðvað framkvæmd þeirrar byggðastefnu, sem vinstri stjórnin lagði áherslu á, og hún hyggst á sama hátt og viðreisnarstjórnin draga úr nauðsynlegum framkvæmdum úti á landsbyggðinni. Til viðbótar við þann samdrátt í framkvæmdum úti á landi, sem þegar er staðreynd, hyggst ríkisstj. nú skera niður framkvæmdir frá því, sem ákveðið var í fjárl., um 3500 millj. kr., og er samkv. frv. ríkisstj., sem lagt var fram hér á Alþ. í dag, óútfylltur víxill um það hvað á að skera niður. Þessi niðurskurður mun, ef að líkum lætur, bitna mjög harkalega á lífsnauðsynlegum framkvæmdum, m. a. í heilsugæslu, hafnargerð, flugvallargerð og skólabyggingum.

Á sama tíma og byggðastefnunni er þannig varpað fyrir borð eru nauðsynlegustu athuganir og framkvæmdir í orkumálum landsbyggðarinnar látnar sitja á hakanum og þær vanræktar. Þess í stað er allt kapp lagt á að selja ódýra orku til erlendrar stóriðju í Hvalfirði. SF telja að hér sé öfugt farið að hlutum og hafa því lýst yfir andstöðu sinni við fyrirhugaða járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Það er táknrænt dæmi um hvað er að marka allt orðaflóðið þeirra stjórnarliða u.m aukna byggðastefnu, að á sama tíma og neitað er um nauðsynlegustu fjárveitingar til að ljúka mjög brýnum rannsóknum í orkumálum úti á landsbyggðinni og ríkisstj. boðar nú 3 500 millj. kr. niðurskurð á framkvæmdum, þá ætlar hún að setja nokkra milljarða kr. úr ríkissjóði til framkvæmda hér á suðvesturhorni landsins. Það verður að teljast furðulegt að þm. dreifbýliskjördæma, sem neitað var um fjárveitingu til nauðsynlegustu rannsókna og þar sem kyndingarkostnaður með olíu er að sliga hvert einasta heimili á þessu svæði og tekur allt að helming dagvinnutekna verkamanns, skuli láta hafa sig í að styðja slíka andbyggðastefnu sem þessi ákvörðun ríkisstj. er.

Það er til marks um vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. að hún hefur í dag lagt fram stjfrv., sem felur í sér aðgerðir í efnahagsmálum og skattamálum, nú um 11/2 mánuði eftir að gengisfelling var ákveðin, og líklega hefði hið hraðsoðna frv. ríkisstj. ekki séð dagsins ljós fyrr en með vorinu nema vegna útvarpsumr. sem nú eru fyrr á ferðinni en venjulega. Stjórnarandstaðan hefur ekki fengið tækifæri til að kynna sér þetta frv. fyrr en nú í dag og skal því ekki farið um það mörgum orðum hér. Þó virðist þar í ýmsu haldið áfram á sömu óheillabrautinni og áður. Það er t. d. athyglisvert, að þær till. um kerfisbreytingu í skattamálum, sem felast í frv., virðast lítt eða ekkert bæta hag almenns launafólks í landinu og jafnvel bitna harkalega á sumum þeim sem síst skyldi. Tökum dæmi:

Barnlaus hjón, sem hafa 500 þús. kr. eða minna í árstekjur og ekki eru annaðhvort ellilífeyris- eða örorkulífeyrisþegar, hækka beinlínis í sköttum við breytinguna. Sömu sögu er að segja um einhleypinga sem hafa 200 þús. kr. tekjur eða minna. Barnlaus hjón á þessu tekjubili eru 1300–1400 talsins, en einhleypingar eru 9–10 þús. Auðvitað er verulegur hluti þessa hóps elli- og örorkulífeyrisþegar, en margir eru það hins vegar ekki og fá því hækkun á skatti. Þarna er í ýmsum tilvikum þrengt að þeim sem síst skyldi. Þá er einnig ljóst að skattar einstæðra foreldra, sem hafa yfir 850 þús. í brúttótekjur, hækka verulega. Svonefnd skattalækkun annarra virðist í mörgum tilfellum smávægileg, þannig eiga skattar hjóna með eitt barn að lækka um 24–32 þús. kr. eftir tekjum og skattar einhleypinga, þeirra sem ekki beinlínis hækka í sköttum, um 13–18 þús.

Þess ber þó að geta að í þessum skattalækkunartölum er gert ráð fyrir að skattar samkv. gamla kerfinu fælu í sér 11% útsvar, en á s. l. ári var einungis greitt 10% útsvar. Raunveruleg skattalækkun, miðað við álagningu útsvars eins og hún var í fyrra, virðist því nánast engin samkv. till. ríkisstj. Þessar till. eru því ekki til þess líklegar að greiða götu til lausnar á samningamálum aðila vinnumarkaðarins. Og sé litið á þær aðrar skattahækkanir, sem núv. ríkisstj. hefur staðið að, þ. á m. hækkun söluskatts um 3 stig, þá er ljóst að ríkisstj. hyggst í heild stórhækka skattaálögur á almenning. Einnig er ljóst, að ekki á að breyta því ákvæði gildandi skattalaga um fyrningar og afskriftir sem er þess valdandi að svo til allur atvinnurekstur í landinu er skattlaus, en almenningur látinn borga.

Hér er enn eitt dæmi um hvern hug hæstv. ríkisstj. ber til launafólks og breyta þar um engu fjálglegar yfirlýsingar hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hér áðan. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.