21.03.1975
Neðri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Tæpt ár er nú liðið frá því að fulltrúar launastéttanna og vinnuveitenda stóðu upp frá samningaborðinu að loknum einhverjum lengstu og umfangsmestu kjarasamningum sem gerðir hafa verið á seinni árum. Kjarakröfur launþega voru markaðar síðari hluta ársins 1973, en kröfur og samningar allir mótuðust í ríkum mæli af þeirri hagstæðu breytingu viðskiptakjara sem varð á því ári og náði hámarki um áramótin 1973–1974. Hin óvænta hækkun útflutningsverðlags á árinu 1973 bætti stöðu þjóðarbúsins út á við og tryggði jöfnuð í viðskiptunum við útlönd. Undir lok ársins 1973 varð hins vegar ljóst að áttaskipti höfðu orðið í þróun viðskiptakjara og staða þjóðarbúsins út á við versnaði að mun.

Þjóðarbúið átti við tvenns konar erfiðleika að etja þegar í ársbyrjun 1974: öra verðbólgu og vaxandi viðskiptahalla. Í þróun útflutningsverðlags gætti fyrst verðstöðnunar og síðan verðlækkunar ýmissa helstu útflutningsafurða einkum frystiafurða og fiskmjöls. Á hinn bóginn olli olíukreppan haustið 1973 stórhækkun olíuverðs á heimsmarkaði sem farið var að gæta hér fyrri hl. árs 1974 og komin var fram með fullum þunga um mitt árið. Jafnframt hækkaði almennt innflutningsverðlag stöðugt. Þótt menn hefðu almennt ekki gert sér ljóst, hve mikil þessi skerðing viðskiptakjara gæti orðið 1974, duldist engum að hinir almennu kjarasamningar, sem gerðir voru fyrri hl. ársins, fólu í sér launahækkanir sem fóru verulega fram úr greiðslugetu atvinnuveganna og stefndu efnahagsjafnvægi og atvinnuöryggi í tvísýnu. Um þetta var ekki ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna. Niðurstöður samninganna gátu ekki tryggt raunhæfar kjarabætur. Þetta átti ekki síst við þær kauphækkanir sem komu í kjölfar rammasamningsins 26. febr. 1974 og fóru í reynd út fyrir hann.

Auk launahækkana af völdum kjarasamninganna kom til vísitöluhækkun launa 1. mars 1974, og annarrar og miklu meiri vísitöluhækkunar var svo að vænta 1. júní. Til þess að koma í veg fyrir þá hækkun, sem talin var geta veikt stöðu atvinnuveganna að því marki, að kæmi til rekstrarstöðvunar í helstu atvinnugreinum og þar með til atvinnuleysis, beitti fyrrv. ríkisstj. sér fyrir bráðabirgðaráðstöfunum. í efnahagsmálum sem einkum fólu í sér afnám vísitölubóta á laun frá 1. júní 1974 að telja, og jafnframt var gengið látið siga frá upphafi ársins til ágústloka svo að nam 15% gengislækkun.

Í sambandi við stjórnarmyndunarviðræður að loknum þingkosningum fór fram heildarathugun á stöðu efnahagsmála á miðju ári. Niðurstaða þessarar athugunar var sú að við mikinn vanda væri að etja í efnahagsmálum og að hann hefði magnast frá því um vorið, einkum vegna meiri verðfalls á útflutningsvörum. Í stjórnarmyndunarviðræðum var það skoðun allra stjórnmálaflokka að við ríkjandi aðstæður væri ekki grundvöllur fyrir þeirri samningsbundnu vísitöluhækkun launa sem fyrrv. ríkisstj. hafði frestað með brbl. í maí. Eftir að samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var mynduð varð því samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að framlengja vísitölubindinguna.

Hinar almennu launahækkanir á fyrri hl. ársins höfðu í för með sér afar mikla aukningu eftirspurnar heima fyrir. Einkum jókst innflutningseftirspurn afar mikið og gætti mikillar spákaupmennsku innfluttra vara, m. a. af ótta við gengisfellingu.

Með tilvísun til þessarar þróunar, lækkandi útflutningsverðs og söluerfiðleika erlendis, geysimikils innflutnings og ört hækkandi innflutningsverðs og mikils viðskiptahalla var ekki unnt að halda gengisskráningu óbreyttri, þar sem ljóst var að forsendur hennar voru löngu brostnar. Eitt af fyrstu verkum ríkisstj. hlaut því að vera að leiðrétta gengisskráninguna og lækka gengi krónunnar með því tvíþætta markmiði að veita útflutningsatvinnuvegunum auknar tekjur og tryggja þannig rekstrargrundvöll þeirra og þar með fulla atvinnu og bæta viðskipta- og greiðslustöðuna gagnvart útlöndum.

Gengisbreytingin var fram sett sem fyrsti hluti samræmdra heildaraðgerða í efnahagsmálum og var henni síðan fylgt eftir með ráðstöfunum í sjávarútvegi og viðtækum ráðstöfunum á sviði launa- og verðlagsmála í sept. Meginmarkmið þessara ráðstafana var að tryggja atvinnuöryggi með því að treysta á ótruflaðan rekstur atvinnuveganna og draga úr hraða verðbólguskrúfunnar, jafnframt því sem þess væri gætt að vernda kjör láglaunafólks og lífeyrisþega, sem jafnan verða harðast úti í veðraskiptum efnahagslífsins.

Megininntak launamálaráðstafana ríkisstj, í sept. var greiðsla launajöfnunarbóta á lág laun í stað almennra verðlagsbóta á öll laun á tímabilinu fram til maíloka á þessu ári og hækkun bóta almannatrygginga, en jafnframt var ákveðið að verðstöðvun skyldi fram haldið og niðurgreiðslum haldið áfram í verulegum mæli á þessu tímabili. Var talið að þessar ráðstafanir dygðu um sinn til að halda sæmilegu jafnvægi í efnahagsmálum innanlands og bæta stöðuna út á við. Í stað þess að snúast til nokkurrar hækkunar, eins og vonir stóðu til haustið 1974, fór útflutningsverðlag hins vegar lækkandi til ársloka. Í dag er talið að viðskiptakjörin séu 30% lakari en þau voru á sama tíma í fyrra, 14–15% lakari en á miðju ári 1974 og 8–10% lakari en lagt var til grundvallar við gerð fjárlaga fyrir árið 1975. Þegar þess er gætt að þessi breyting viðskiptakjara veldur skerðingu þjóðartekna sem nemur þriðjungi ofangreindra talna, má öllum vera ljóst að slíkar breytingar skipta sköpum um þjóðarhag.

Frá því að efnahagsráðstafanir um haustið 1974 voru ákveðnar og frá því að forsendur fjárlaga 1975 um þróun meginþáttar þjóðarbúskaparins voru mótaðar seint á liðnu ári hafa efnahagshorfur þannig breyst í veigamiklum atriðum. Fyrst og fremst hafa viðskiptakjör þjóðarbúsins gagnvart útlöndum haldið áfram að versna, en í fjárlögum var gert ráð fyrir að þau bötnuðu nokkuð frá því sem þau voru á fjórða ársfjórðungi 1974. Þessi þróun viðskiptakjara hefur skert þjóðartekjur frá því, sem áður var búist við, og veikt stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Þjóðhagsniðurstöður síðasta árs eru nú betur þekktar en þegar fjárhagsforsendur voru mótaðar. Þannig var t. d. viðskiptahallinn á síðasta ári 3 000 millj. kr. meiri en spáð var seint á árinu, eða 15 500 millj. kr. í stað 2 400 millj. kr. Gjaldeyrisstaðan var af þessum sökum rýrari í árslok en gert hafði verið ráð fyrir. Endanlegar tölur um þróun ríkisfjármála 1974 liggja ekki fyrir, en ljóst er að alvarlegur greiðsluhalli varð hjá ríkissjóði á árinu eða nálægt 3 000 millj. kr. Þetta er mun óhagstæðari niðurstaða en búist var við þegar fjárlagafrv. var samið. Þessi mynd skýrðist enn betur á fyrstu vikum ársins 1975, en þá voru gerðir ýmsir útflutningssölusamningar sem staðfestu þá frekari lækkun útflutningsverðs sem vart varð undir lok ársins 1974. Þessar óhagstæðu breytingar kölluðu á gagngert endurmat á efnahagshorfum yfirstandandi árs.

Helstu niðurstöðurnar, sem fyrir lágu um mánaðamótin jan.–febr. s. l., voru þessar: Að aukning þjóðarframleiðslu yrði lítil sem engin. Að vegna versnandi viðskiptakjara mundu raunverulegar þjóðartekjur minnka um 3-5% í heild eða um 5–7% á mann. Að við blasti að öllu óbreyttu mikill halli í viðskipum við útlönd eða 14–17 milljarðar kr. á þágildandi gengi. Að jafnvel þótt reiknað væri með ítrustu lántöku erlendis virtist ókleift að jafna viðskiptahallann með þeim hætti. Unnt virtist að afla erlendra lána í þeim mæli að fjármagnsjöfnuðurinn skilaði í mesta lagi 91/2 milljarði kr. til að mæta viðskiptahalla. Þar með var útlit fyrir versnun gjaldeyrisstöðunnar um 5–8 milljarða á árinu, en um þessar mundir, í febrúarbyrjun, var gjaldeyriseignin þegar þrotin.

Þetta grundvallarmisvægi milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu birtist inn á við í ýmsum myndum: rekstrarhalla sjávarútvegs, fjárhagshalla hins opinbera og fjárvöntun til fyrirhugaðra farmkvæmda og útlána.

Engum vafa var undirorpið að þróun eins og þessi fengi ekki staðist til lengdar. Möguleikarnir til þess að halda uppi þjóðarútgjöldum umfram tekjur voru tæmdir. Ef öllu hefði farið fram sem horfði hlaut að draga til þess að hægði á starfsemi í hagkerfinu þegar fjármögnunarmöguleikar tæmdust og jafnvel gæti farið að gæta skorts á innfluttum nauðsynjum. Þessi hvörf í hagsveiflunni heima fyrir gátu orðið hastarleg. Við þessum horfum varð að snúast af raunsæi og festu til þess að tryggja það jafnvægi í þjóðarbúskapnum inn á við og út á við sem er forsenda atvinnuöryggis og góðra lífskjara til frambúðar. Við þessar erfiðu aðstæður varð ljóst að hefði verið stefnt að því að ná jafnvægi út á við með samdráttarráðstöfunum einum án öflugs stuðnings við þá atvinnuvegi sem áttu í mestum erfiðleikum, fyrst og fremst sjávarútveginn, hlaut það að leiða til alvarlegs atvinnuleysis. Aðeins með gengisbreytingu virtist raunhæft að ná því tvíþætta marki að efla starfsemi útflutningsatvinnuveganna og innlends framleiðsluiðnaðar og þar með grundvöll allrar atvinnustarfsemi í landinu, en draga jafnframt úr gjaldeyrisnotkun og styrkja þannig stöðu þjóðarbúsins út á við,

Gengislækkunin, sem ákveðin var í febr., nær þó því aðeins tilgangi sínum að almennur skilningur náist meðal allra stétta og hagsmunahópa í þjóðfélaginu á nauðsyn þeirrar leiðréttingar á stöðu útflutningsframleiðslunnar og takmörkunnar á gjaldeyrisnotkun sem að er stefnt. Í þessu efni skiptir það meginmáli að leiðréttingaráhrifum hennar verði ekki eytt með almennum launa-og verðbreytingum innanlands. Kjarabreytingar á næstunni verða eingöngu að miðast við að tryggja sem réttlátasta jöfnun þeirra byrða sem þessum ráðstöfunum hljóta að fylgja.

Lögð var áhersla á, að í framhaldi gengisbreytingarinnar þyrftu að koma aðgerðir í fjármálum ríkisins og peningamálum er tryggðu að framkvæmdir og útgjöld færu ekki fram úr eðlilegu ráðstöfunarfé þjóðarinnar við þær þröngu aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Fljótlega í kjölfar hennar ákvað ríkisstj. að hækka leyfisgjald af bilum við innflutning um 15% af cif-verði eða úr 35 í 50%. Jafnframt var ákveðin hækkun áfengis- og tóbaksverðs um 17–25%. Í febrúarlok gerði Seðlabankinn í samráði við ríkisstj. samkomulag við viðskiptabankana um stöðvun útlánaaukningar til maíloka. Undanþegin þessari stöðvun eru þó afurðalán til sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar. Jafnframt ákvað bankinn að hækka hámarksbindingu innlána úr 22% í 23% vegna þeirrar auknu fyrirgreiðslu sem veita þarf til afurða- og birgðalána framleiðslunnar á þessu ári. Þessar ákvarðanir voru áfangar í þeirri samræmdu jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, sem ríkisstj. vill fylgja.

Frv. því, sem hér er flutt um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara, er einmitt ætlað að fylgja þessari stefnu eftir. Frv. má skoða sem ramma fyrir ríkisbúskapinn og hlutverk hans við þær breyttu aðstæður sem nú horfa við okkur í efnahagsmálum. Strax að loknu páskaleyfi mun ríkisstj. síðan flytja frv. um ráðstafanir í sjávarútvegi til þess að ráðstafa gengismunarfé í þágu sjávarútvegsins og sérstakar ráðstafanir vegna hinnar miklu hækkunar á olíu og öðrum aðföngum útgerðarinnar á undanförnum missirum. Þar með væru þá fram komnar heildartill. ríkisstj. í efnahagsmálum að þessu sinni. En að sjálfsögðu mun hún leggja það sem hún getur af mörkum til þess að greiða fyrir lausn þeirrar kjaradeilu sem nú stendur yfir.

Vegna þeirra breyttu aðstæðna bæði í þjóðarbúskap og ríkisbúskap, sem hér hefur verið drepið á, er nauðsynlegt að endurskoða fjárlagaáætlun ársins 1975 í ýmsum greinum. Slík endurskoðun er einnig nauðsynleg vegna áhrifa þeirra efnahagsráðstafana sem gerðar hafa verið síðan fjárlög voru afgr. og áhrif hafa á fjármál ríkisins. Hér er fyrst og fremst um að ræða 20% lækkun á gengi ísl. krónunnar í febr. s. l. og þær ráðstafanir sem fylgja í kjölfarið og ég greindi áðan frá. Miðað við óbreyttar forsendur tekjuáætlunar fjárlaga um þjóðarútgjöld hefði þróun viðskiptakjara falið í sér greiðsluhalla við útlönd langt umfram það sem hægt hefði verið að jafna með lántökum erlendis. Jafnvel þótt reiknað væri með verulegum áhrifum af gengislækkuninni í febr. á viðskiptajöfnuð 1975 var ekki við því að búast að jöfnuður næðist í greiðslum við útlönd, miðað við forsendur fjárlagaáætlunar um þjóðarútgjöld. Af þessum sökum er nauðsynlegt að taka allar forsendur tekjuáætlunar fjárlaga til endurskoðunar, ekki aðeins vegna áhrifa gengisbreytingarinnar einnar. Þessi endurskoðun er í meginatriðum reist á þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunarinnar fyrir árið 1975 frá 10. febr. s. l. þar sem sett voru fram tvö dæmi um þjóðhagshorfur fyrir gengisbreytingu og aðrar ráðstafanir. Er ný tekjuáætlun miðuð við Dæmi 2 í fyrrgreindri skýrslu sem hv. alþm. hafa undir höndum. En að auki er hún reist á ákveðnum forsendum um verðlags- og eftirspurnaráhrif gengislækkunarinnar í febr. Er þar gert ráð fyrir að úr kaupmætti tekna einstaklinga dragi og þar með einkaneyslu sem nemi hálfum verðlagsáhrifum gengisbreytingarinnar, en að öðru leyti verði um sömu hækkun launa eða aðrar kjarabreytingar að ræða og reiknað var með. Eru þetta sömu forsendur og notaðar eru í áætlunum um áhrif gengislækkunarinnar 14. febr. sérstaklega á gjaldahlið fjárlaga. Auk þessa er gert ráð fyrir að gengisbreyting valdi nokkrum samdrætti almennrar fjármunamyndunar. Ein meginforsenda tekjuáætlunar er þannig sú, að gengislækkunin valdi samdrætti almennrar eftirspurnar innanlands, en valdi ekki aðeins verðhækkun á óbreyttan stofn útgjalda.

Helstu niðurstöður þeirrar þjóðhagsspár fyrir árið 1975, sem ný tekjuáætlun ríkissjóðs er á reist, eru þær að þjóðarframleiðslan minnki um 1–2% í stað þess að áður var gert ráð fyrir að hún ykist um 11/2–21/2% milli áranna 1974 og 1975, og þjóðartekjur minnki um 5–6% að raunverulegu verðgildi. Gert er ráð fyrir að almenn þjóðarútgjöld minnki um 7–8% að magni og þá reiknað með því að einkaneyslan dragist saman um 10–11% frá fyrra ári og að almenn fjármunamyndun minnki að magni um 3–4%. Í þessari síðustu tölu er m. a. tekið mið af þeim breytingum á útgjaldaáformum hins opinbera á árinu sem felast í þessu frv., en í því er annars vegar heimilað að lækka útgjöld ríkisins frá fjárlagatölum um 3500 millj. kr. og hins vegar að auka lánsfjármagn til opinberra framkvæmda um tæplega 1 300 millj. kr. Aukningin kemur öll fram á sviði orkuframkvæmda. Hins vegar er enn óráðið hvar lækkun fjárveitinga kemur niður í einstökum atriðum. Það verður á valdi fjvn. og gert með samþykki og samráði við hana. Á sama hátt er í einkaneysluspánni tekið tillit til þeirra ákvæða þessa frv. er áhrif hafa á fjárhag heimilanna.

Þessar breyttu spár um útgjöld þjóðarinnar í heild á árinu 1975 fela að sjálfsögðu í sér að búist er við verulegri magnminnkun innflutnings á þessu ári, enda var innflutningurinn í fyrra geysimikill. Þannig mætti í ofangreindri forsendu búast við 17–18% magnminnkun almenns vöruinnflutnings sem miklu veldur um tekjur ríkissjóðs.

Þegar þessi spá er lögð til grundvallar ásamt spá um útflutningsverðmæti 1975 og áætlun Seðlabankans um innstreymi erlends fjármagns á árinu verður niðurstaðan sú, að gangi þessar spár eftir mætti við því búast að gjaldeyrisstaðan batnaði nokkuð á árinu 1975. Hér væri þó um takmarkaða fjárhæð að ræða, miðað við það hversu langt niður gjaldeyrisstaðan var komin í ársbyrjun 1975 og brýna nauðsyn ber til að treysta hana á árinu bæði til þess að tryggja alla aðdrætti til landsins á innfluttum nauðsynjum og eins vegna þess að gjaldeyrisstaðan hefur áhrif á mat erlendra og alþjóðlegra fjármálastofnana á efnahag landsins og lánstraust.

Spáin um þróun einkaneyslu á árinu er miðuð við það að kaupmáttur kauptaxta haldist í aðalatriðum óbreyttur út árið eins og hann var í ársbyrjun, þó er gert ráð fyrir að hann skerðist sem nemur helmingi þeirrar hækkunar framfærslukostnaðar sem rekja má til gengislækkunarinnar í febr., eins og áður greindi. Þessi lækkun verður nálægt 4% frá því sem var í upphafi ársins, þegar hún er öll komin fram. Spáin felur í sér að reiknað er með að kaup og kjör launþega breytist á árinu til mótvægis við hækkun verðlags að öðru leyti. Þannig er reiknað með að kaupmáttur kauptaxta allra launþega verði að meðaltali 12–13% lægri árið 1975 en hann var árið 1974. Kaupmáttur kauptaxta verkamanna væri þann$g mitt á milli kaupmáttarstigs áranna 1971 og 1972. Í spánni felst í reynd að kaupmáttur ráðstöfunartekna yrði á árinu 1975 ívið lægri en hann var á árinu 1972.

Undanfarin tvö ár hafa ráðstöfunartekjur hækkað mun meira en kauptaxtar vegna launaskriðs og aukinnar yfirvinnu á þensluskeiði hagsveiflunnar, en nú er hætta á að þetta snúist við vegna hjöðnunar. Frá árinu 1971–1974 jókst kaupmáttur tekna einstaklinga langt umfram aukningu þjóðartekna. Slík þróun fékk ekki staðist til lengdar. Spáin, sem hér hefur verið lýst, felur í sér, að kaupmáttur tekna almennings verði nokkru meiri í hlutfalli við líklegar þjóðartekjur á árinu 1975 en hann var árið 1971.

Með ákvæðum þessa frv. um lækkun skatta og heimild til lækkunar skatta er að því stefnt að milda nokkuð þá kjaraskerðingu sem þjóðin sem heild fær ekki lengur undan vikist. Þessar úrbætur eru einkum ætlaðar hinum tekjulágu og þá helst þeim sem hafa mikla ómegð. Þessari léttingu skatta er einkum ætlað að stuðla að hófsamlegri niðurstöðu í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Endanlegi tilgangurinn er sá að freista þess að treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara á því háa stigi sem íslensku þjóðinni hafði auðnast að ná á árunum 1971 og 1972.

Til langframa er jafnvægi í þjóðarbúskapnum inn á við og út á við forsenda atvinnuöryggis og efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Þessi markmið hljóta að sitja í fyrirrúmi, og lengi hefur reynst örðugt að ná þeim, samtímis því sem verðbólgunni er haldið í skefjum. Svo verður á þessu ári, en þó má ætla að meðalhækkun verðlags frá upphafi ársins til loka þess verði mun lægri en í fyrra eða 25–30% í stað 50–60% 1974, Þessar niðurstöður eru þó að sjálfsögðu háðar niðurstöðu kjarasamninganna, sem nú standa yfir, og annarra, sem á eftir fylgja.

Niðurstaða endurskoðunar á tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1975 á ofangreindum forsendum um þjóðarbúskapinn og að teknu tilliti til áhrifa verðhækkunar á tóbaki og áfengi og hækkunar innflutningsgjalda af bifreiðum er sú, að almennar tekjur ríkissjóðs hækki um 950 millj. kr. frá fjárlagaáætlun. Helstu atriðin í þessari endurskoðun eru þessi: Í fyrsta lagi tekjubrestur vegna lakara efnahagsútlits almennt að upphæð 1650–1700 millj. kr. Í öðru lagi verðlagsáhrif gengisbreytingarinnar og skattbreytingar sem fylgdu beint í kjölfar hennar sem hafa í för með sér tekjuauka að upphæð 4200–4300 millj. kr. Og loks eftirspurnaráhrif þessara aðgerða, sem draga úr innflutningi og veltu, sem ríkið hefur tekjur af, og valda rúmlega 1 600 millj. kr. lækkun tekna. Nettóniðurstaðan verður því um 950–1000 millj. kr. tekjuauki í kr.

Útgjaldatölur fjárlaga voru miðaðar við kaupgjald í des. 1974 að viðbættum áhrifum 3% grunnkaupshækkunar 1. júní 1975. Gengisbreytingin 1. febr. s. l. hefur að sjálfsögðu áhrif á útgjöld ríkissjóðs bæði beint og óbeint. Auk þess virðist nú ljóst að uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur séu nokkuð vanáætlaðar í tölum fjárlaga. Þá hafa niðurgreiðslur búvöruverðs nýlega verið auknar nokkuð til þess að efna fyrirheit sem ríkisstj. gaf launþegasamtökunum um að takmarka hækkun búvöruverðs á næstunni.

Sé útgjaldaauki vegna gengisbreytingarinnar áætlaður á sömu forsendum um áhrif á verðlag og kaupgjald og greindi hér að framan við endurskoðun tekna ríkissjóðs, er hann metinn á 1870 millj. kr. Þá er talið að ætla þurfi 1650 millj. kr. til þess að standa straum af auknum útgjöldum vegna hreyttra forsendna um þróun launa og verðlags á árinn 1975 og vegna verðlagsmála landbúnaðarins. Fjárhagsvandi ríkissjóðs á árinu er þannig metinn sem næst 2440 millj. kr.

Þær 1870 millj. kr., sem ætlað er að útgjöld muni aukast um af völdum gengisbreytingarinnar, eru byggðar á því að kostnaðaráhrifin koma að fullu fram í rekstrarútgjöldum stofnana og fyrirtækja ríkisins. Ríkisstj. hefur hins vegar ákveðið að beita öllum tiltækum ráðum til þess að sporna við slíkri þróun, og hefur rn., stofnunum og fyrirtækjum ríkisins verið ritað sérstakt bréf þar sem aðilum er gert ljóst að kostnaðarhækkunin á rekstrarliðum af völdum gengisbreytingarinnar verði ekki bætt með auknum framlögum úr ríkissjóði. Er til þess ætlast að viðkomandi aðilar geri sérstakar ráðstafanir til þess að fresta útgjaldafyrirætlunum og endurskipuleggja reksturinn á þann hátt að fjárveitingar á fjárlögum dugi til starfseminnar á árinu. Þessi stefna er í samræmi við þann tilgang gengisbreytingar að draga úr útgjöldum þjóðarinnar í heild. Með þessum hætti er áætlað að draga megi úr kostnaðarauka af völdum gengisbreytingarinnar sem nemur 820 millj. kr. Með þessu frv. er síðan leitað heimilda til þess að lækka útgjöld um allt að 3 500 millj. kr. frá tölum fjárl. Frv. felur hins vegar í sér lækkun tekjuskatts einstaklinga, skattafslátt og aukna ívilnun vegna barna við skattlagningu til ríkissjóðs sem kostar ríkissjóð líklega um 1050 millj. kr. umfram áætlun fjárl. Á móti þessu kemur síðan niðurfelling fjölskyldubóta í núv. mynd.

Varðandi skattamálin er lagt til að gerð verði nokkur kerfisbreyting í skattheimtu sem felur í sér að öll barnaívilnun til framfæranda barns, þ.e. fjölskyldubætur, persónufrádráttur vegna barna og afsláttur frá tekjuskatti vegna barna, sé sameinuð í einn afslátt, barnabætur, sem greiðist ef hann nýtist ekki til greiðslu á tekjuskatti og útsvari eða öðrum opinberum gjöldum framfærandans. Við þessa breyt. verður barnaívilnun óháð tekjum, en í núv. kerfi vex ívilnunin með tekjum. Þá er gert ráð fyrir því, að persónufrádrætti hjóna og einhleypinga sé breytt í persónuafslátt sem nýtist eingöngu til greiðslu á tilteknum opinberum gjöldum. Þá er skattstiganum og breytt í kjölfar þessarar kerfisbreytingar og hafðir tveir skattstigar, annar fyrir hjón og hinn fyrir einstaklinga, eins og áður var um mismunandi persónufrádrætti að ræða í slíkum tilvíkum. Er gert ráð fyrir því, að skattstigar verði tveir í stað þriggja áður, 20 og 40%, og greiði menn 20% skatt af tekjum sínum upp að 800 þús. kr., ef um hjón er að ræða, en allt að 600 þús. kr. ef um einstakling er að ræða, en af tekjum fram yfir þessi mörk greiðist 40%. Frá skatti þannig útreiknuðum er svo dreginn persónuafsláttur og barnabætur.

Þá er lagt til í frv. að persónufrádráttur frá útsvari sé hækkaður um 50%, en persónuafsláttur skv. tekjustofnalögum sveitarfélaga hefur verið óbreyttur frá 1972. Hér er um tekjumissi að ræða fyrir sveitarfélögin er nemur um 350–360 millj. kr. og getur sá tekjumissir orðið þeim þungbær. En á það ber að líta, að eðlilegt er vegna þeirrar verðbólgu sem hér hefur verið, að hækka þennan persónuafslátt. Og það er trú mín að tekjumissir sveitarfélaganna verði ekki svo mikill sem þessir útreikningar sýna vegna þess að í reynd verða sveitarfélögin að gefa eftir útsvör þeirra gjaldenda sem lægstar tekjur hafa, og ákvæði þessa frv. um, að skattafsláttur gangi upp í opinber gjöld, ætti að tryggja sveitarfélögum öruggari innheimtu útsvara sinna.

Þá er rétt að það komi fram hér í framsögu, að aukin notkun skattafsláttar gerir kröfur til þess að séð verði við þeim annmörkunum sem fram komu við beitingu skattafsláttar við álagningu skatta á s. l. ári þegar það fyrirkomulag var fyrst tekið upp, þó að í smáum stíl væri. Til þess að koma í veg fyrir að skattafslátturinn nýtist þeim sem ekki eiga hann skilið þá eru ákvæði um að heimilt sé að beita ákvæðum tekjustofnalaga sveitarfélaga um viðmiðunartekjur þeirra, sem sjálfstæðan atvinnurekstur stunda, til þess að koma í veg fyrir að frádráttur, sem felst í fyrningum og afskriftum, geri menn skattlausa og verði til þess að þeir öðlist rétt til greiðslu skattafsláttar. Þá er og í frv. ákvæði, sem kemur í veg fyrir að mikill mismunur á nettótekjum eða skattgjaldstekjum annars vegar og brúttótekjum hins vegar, m. a. vegna mikils frádráttar, t. d. að völdum vaxtakostnaðar eða taps af atvinnurekstri, leiði til skattafsláttar nema í samræmi við ákveðnar reglur.

Þá felur frv. í sér till. um flugvallagjald sem skilað gæti ríkissjóði um 225 millj. kr., og gert er ráð fyrir að hækka lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli sem skilað gæti ríkissjóði 70–75 millj. kr. í ár og mundi ríkissjóður þannig fá um 300 millj. kr. upp í þær 440 millj. kr. sem ætlað er á fjárl. til flugþjónustu og flugvalla umfram tekjur af þeim rekstri. Eðlilegt er að reynt sé að fjármagna þau útgjöld með gjaldtöku af flugfarþegum.

Þá er rétt að fram komi að í útgjaldahlið fjárlaga verður eð taka tillit til að ríkissjóður þarf að greiða háar fjárhæðir vegna Ríkisábyrgðasjóðs vegna skuttogarakaupa á undanförnum árum og verðlagsmálin gætu enn valdið nokkrum kostnaðarauka. Til að mæta þessu þarf að ætla 350 millj. kr.

Heildarniðurstaðan verður sú, að með till. frv. er stefnt að lækkun ríkisútgjalda um 1 200 millj. kr. þrátt fyrir breyttar verðlagsforsendur og því meiri minnkun í raungildi. Endurskoðun tekjuhliðar veldur 300 millj. kr. hækkun áður en beitt væri heimildarákvæðum V. kafla frv. til lækkunar. Hér er því um verulega skattalækkun að ræða að teknu tilliti til breyttra aðstæðna. Hlutfall ríkisútgjalda af þjóðartekjum mundi skv. frv. lækka á árinu 1975 í nær 27% úr 29%. Þannig felur frv. í sér um 1 500 millj. kr. bæfita greiðsluafkomu ríkissjóðs 1975, væri lækkunarheimild l. kafla þess nýtt til fulls. En mikil þörf er á því að mynda slíkt fjárhagslegt svigrúm hjá ríkissjóði á árinu 1975. Í fyrsta dagi er ekki verjandi að stefna ríkissjóði í hallarekstur á árinu 1975 vegna hinnar tæpu stöðu þjóðarbúsins út á við. Gjaldeyrisstaðan leyfir um þessar mundir ekki slíka. beitingu ríkisfjármála. Brýna nauðsyn ber til að lækka skuld ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu. Í öðru lagi þarf ríkissjóður að hafa bolmagn til þess að geta lagt !sitt af mörkum til þess að friðsamleg lausn náist í yfirstandandi kjaradeilum, umfram það sem gert er ráð fyrir með lækkun beinna skatta, t. d. með því að beita heimildarákvæðum V. kafla frv. til að lækka matvælaverðlag og ná þannig kjarajöfnunaráhrifum til viðbótar þeim hagsbótum sem felast í lækkun beinna skatta. Í þriðja lagi gæti ríkissjóður þurft að standa undir auknum útgjöldum, a. m. k. um sinn, vegna gífurlegrar hækkunar áburðarverðs sem veldur bændum og landsmönnum öllum þungum búskelli. Að þessu upptöldu er ljóst að ekki mun af því veita að styrkja stöðu ríkissjóðs að því marki sem till. frv. fela í sér, en með framkvæmd þeirra ætti að nást það jafnvægi í ríkisfjármálunum sem er forsenda efnahagsjafnvægis í þjóðarbúskapnum öllum á þessu ári.

Í VI. kafla frv. eru ákvæði um 5% skyldusparnað af tekjum umfram allhátt mark, breytilegt eftir fjölskyldustærðum. 1 800 þús. kr. brúttótekjur hjóna með tvö börn er það mark þar sem skyldusparnaður byrjar að verka. Tekjur umfram það mark eru bundnar ákvæðunum um 5% skyldusparnað. Er gert ráð fyrir að þessi ákvæði afli 200–250 millj. kr. til opinberra framkvæmda.

Þá eru í frv. lántökuheimildir fyrir ríkissjóð. Í fyrsta lagi fela þær í sér að heildarfjárhæð lánsfjármagnaðra opinberra framkvæmda hækkar um 1 300 millj. kr. frá fjárl. eða úr 3 700 millj. í 5 000 millj. kr. Í öðru lagi er lagt til að tekið verði 1200 millj. kr. lán erlendis vegna Framkvæmdasjóðs. Með þessum till. er seilst svo langt sem auðið er til lánsfjáröflunar, bæði innanlands og utan, þegar jafnframt er litið til þarfa fjárfestingarlánasjóðanna.

Með gengisbreytingunni 14. febr. s. l. og með framkvæmd till. efnahagsmálafrv. ríkisstj. og þeirra fylgiráðstafana í sjávarútvegi, sem hún mun fljótlega leggja fyrir Alþ., er stefnt að því jafnvægi í ríkisfjármálum og þjóðarbúskap sem er forsenda atvinnuöryggis. Þessar till. eru við það miðaðar að það takist að rétta gjaldeyrisstöðuna nokkuð á árinu 1975, að tryggður verði snurðulaus rekstur atvinnuveganna þótt þeir eins og aðrir þurfi að búa við lakari hlut á þessu ári en á velgengnistímum, að tryggð verði full atvinna og lífskjör þjóðarinnar haldist lík og þau voru á árinu 1971 og 1972. Þetta er megintilgangurinn. Takist okkur að ná honum er mikið unnið.

Hastarleg umskipti til hins verra í efnahagsmálum, ör verðbólga og mikill greiðsluhalli í viðskiptum við útlönd hafa að undanförnu sett svip sinn á þróun efnahagsmála hér á landi eins og reyndar í flestum nálægum löndum. Hér eru þó sviptingarnar í kjörum hlutfallslega meiri en hjá flestum öðrum. Þessi umskipti eru þeim mun tilfinnanlegri sem hugmyndir manna um kjarabótamöguleika og útgjaldaáform, bæði hjá einstaklingum og öðrum, hafa fram til þessa mótast í ríkum mæli af velgengni undanfarinna fjögurra ára sem hafa verið mikill uppgangstími. Við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum í heiminum, sem hafa fært okkur versnandi viðskiptakjör og tregari sölu mikilvægustu útflutningsafurða, verðum við að sætta okkur við að lífskjör þjóðarinnar geta ekki batnað um sinn. Það liggur í eðli þjóðskipulags okkar að skilningur og stuðningur almennings og samtaka almennings er forsenda árangurs í þessum efnum. Einhliða aðgerðir af opinberri hálfu standast ekki til lengdar án þess.

Það er von ríkisstj., að með þessu frv. sé lagður grundvöllur að farsælli niðurstöðu þeirra kjarasamningaviðræðna sem nú fara fram. Mikið er í húfi að þar takist að finna sanngjarna lausn. Þegar í framhaldi af þeirri niðurstöðu mun ríkisstj. beita sér fyrir breytingum á tekjutryggingar-, og elli- og örorkulífeyrisfjárhæðum almannatrygginga. Og til viðbótar þeim till., sem hér felast í lækkun beinna skatta, skal það fram tekið að endurskoðun tekjuskattslaga og tekjustofnalaga sveitarfélaga verður fram haldið með það fyrir augum að kanna möguleika á frekari samræmingu skatta og tryggingakerfis og einnig í því skyni að koma á sérsköttun hjóna.

Frú forseti. Ég vil að svo mæltu leyfa mér að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. þessarar d., um leið og ég ber fram þá ósk, að fjh.- og viðskn. beggja d. starfi saman að meðferð frv. svo að afgreiðsla þess verði fljótvirkari, því að í frv. felast þær breytingar á beinum sköttum, sem til framkvæmda verða að koma á þessu ári. Nú er allmjög á árið liðið og byggja þarf á endanlegri samþykkt frv. við vinnu vegna skattálagningar yfirstandandi árs.