21.03.1975
Neðri deild: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., mun fara til fjh.- og viðskn. þessarar d. til athugunar. Þar verða væntanlega gefnar upplýsingar um fjölmörg atriði sem þarfnast skýringa og nánari upplýsinga varðandi fyrirhugaða framkvæmd á þeim breyt. sem frv. gerir ráð fyrir. Ég á sæti í þeirri n. sem kemur til með að fjalla um frv. Af þeim ástæðum m. a. mun ég ekki nú við 1. umr. ræða í ítarlegu máli um efni þess, heldur stytta mál mitt eins og mér er unnt og víkja þó að helstu efnisatriðum frv. og benda þar á nokkur þýðingarmikil atriði. Mér er einnig ljóst að það eru ekki tök á því að halda þingfundi lengi áfram í dag og þörf er á því að málið geti komist til þeirrar n. sem á að fjalla um það.

Mér sýnist að meginefni þessa frv. felist í raun og veru í l. kafla þess og þar með í 1. gr. Þar er gert ráð fyrir að ríkisstj. verði veitt heimild til að lækka útgjöld nýlega samþykktra fjárl. um allt að 3 500 millj. kr. Að vísu er það með því skilyrði að til komi einnig samþykkt fjvn. fyrir þessari lækkun útgjaldanna. Mér sýnist að meginatriði þessa frv. sé að finna í þessari gr. Sáralitlar skýringar eru á því hvernig fyrirhugað er að standa að þessari útgjaldalækkun ríkisins og hvað hér er í raun og veru um að ræða. Það er t. d. ekki vikið að því einu orði, ekki á beinan hátt, hvort hér sé einvörðungu um lækkun til verklegra framkvæmda að ræða eða til félagslegra styrkja sem er að finna á fjárl. eða hvort hér er um lækkun á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs að ræða. Þó má að mínum dómi lesa greinilega út úr grg. frv. að ætlunin sé fyrst og fremst að lækka útgjöld á fjárlagafrv. til verklegra framkvæmda og félagslegra styrkja um alla þessa fjárhæð. Er gerð grein fyrir því í frv. að afleiðingar síðustu gengislækkunar muni verða þær að almenn rekstrarútgjöld ríkissjóðs muni hækka um 1870 millj. kr. beinlínis af völdum gengislækkunarinnar. Síðan er frá því skýrt að með sérstökum ráðstöfunum hugsi ríkisstj. sér að reyna að koma því fram að hinir einstöku aðilar, sem með rekstur ríkisins hafa að gera, jafnt ríkissjóðs sjálfs og fyrirtækja og stofnana ríkisins, reyni með sérstökum ráðstöfunum að draga úr útgjöldum. Nefnt er í því sambandi að þannig ætli að vera hægt að draga úr útgjöldum sem nemur 824 millj. kr. En þá er augljóslega enn eftir hækkun útgjalda í almennum rekstri sem nemur yfir 1000 millj. kr. Þegar frá þessu hefur verið skýrt segir síðan í grg. frv. orðrétt: „Með þessu frv. er síðan leitað heimilda til þess að lækka útgjöld um allt að 3 500 millj. kr. frá tölum fjárl.“ Það fer því í rauninni ekkert á milli mála, það er búið að gera grein fyrir því, að rekstrarútgjöldin miðað við fjárl. hljóta að hækka, jafnvel þó að menn leggi sig fram um að draga úr þeim. En síðan er lagt til að auk þess séu útgjöld fjárlaga færð niður um 3500 millj. kr. Af þessum ástæðum sýnist mér vera augljóst að ætlunin sé að draga úr þeim fjárveitingum, sem ákveðnar hafa verið til verklegra framkvæmda og til félagslegra þarfa sem þessari fjárhæð nemur.

Ég vil taka það fram strax að ég er algjörlega andvígur þessari till. Ég tel að hún stefni í alranga átt, það eigi ekki á neinn hátt að draga úr fyrirætlunum um verklegar framkvæmdir í landinu. Þar er, eins og við vitum, fyrst og fremst um skólabyggingar að ræða, sjúkrahúsbyggingar, hafnargerðir, vegaframkvæmdir og annað af því tagi. Vegna áhrifa gengislækkunarinnar er augljóst að þær fjárhæðir, sem nefndar eru á fjárl., muni verða ódrýgri í reynd í sambandi við allar þessar framkvæmdir, og ef síðan ætti að lækka framkvæmdaféð beint í krónum talið, þá er um alvarlegan niðurskurð að ræða. En það verða væntanlega gefnar frekari upplýsingar um það í fjhn. hvað hér liggur á bak við, hver er ætlunin varðandi framkvæmd á þessari heimild, og skal ég ekki fara frekar út í það í þessum umr.

Þá er í öðru lagi lagt til með þessu frv. að gera nokkrar breytingar á gildandi 1. um tekjuskatt og eignarskatt og einnig á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Það er frá því skýrt að með þessum breytingum sé að því stefnt að lækka beina skatta nokkuð frá því sem gildandi l. segja, lækka tekjuskatt og lækka útsvar. Mér sýnist að í þessum kafla sé ekki um neina verulega lækkun að ræða hjá velflestum aðilum, sé miðað við þær skattlagningarreglur sem giltu á s. l. ári, en þá var ekki heimilt að leggja á hærra útsvar en sem nemur 10% af útsvarsskyldum tekjum. Hins vegar tek ég eftir því, að í grg. þessa frv. er við það miðað að útsvarsálagningin hækki upp í 11% og síðan er skattalækkunin á tekjuskatti og útsvari miðuð við það í grg. þessa frv. að þegar sé komin útsvarshækkun inn í dæmið. Ef gera á samanburð á skattlagningu á þessu ári miðað við skattlagningu á s. l. ári á að sjálfsögðu að halda sig við þá skattlagningarreglu sem þá var og þá kemur líka í ljós að lækkun skatta skv. þessum ákvæðum frv. er mun minni en talið er í grg. frv. og í flestum tilfellum er hún lítil og óveruleg. Auk þess vil ég svo á það benda að mér sýnist að nokkrir aðilar komi beinlínis til með að tapa á þessari breyt. Þannig sýnist það vera greinilegt, að nokkrir þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu, bæði í hópi einstaklinga og fjölskyldna, geti beinlínis tapað, þeir þurfi að greiða tiltölulega meira eftir þessa breyt. heldur en eftir eldra fyrirkomulagi. Eins sýnist það líka vera þannig að einstæðir foreldrar þurfi í vissum tilfellum að borga meira en eftir eldra kerfinu. Auk þess er svo það, að með þessari breytingu er gert ráð fyrir því að hætta að greiða fjölskyldubætur í því formi sem verið hefur, en skuldskeyta þær við opinber gjöld aðila, þ. e. a. s. að fjölskyldubætur verða látnar renna upp í skatta viðkomandi aðila. Í vissum tilfellum mun þetta koma sér mjög illa því að þessar greiðslur færast á milli. Nú hafa í framkvæmd ýmsir haft þessar fjölskyldubætur í sambandi við framfærslu barna, þeir sem ekki bera gjöld, en skv. frv. yrðu fjölskyldubætur vegna þessara barna að fara til þeirra sem hingað til hafa jafnvel ekki notið bótanna af því að börnin hafa ekki verið hjá þeim. Hér er um breytingu að ræða sem þarf að huga nánar að.

Um þessa kafla vildi ég segja það í sem fæstum orðum að mér sýnist að hér sé að mestu leyti um formbreytingu að ræða, tiltölulega óverulega skattalækkun, en hins vegar er í þessum till. ekki hreyft við ýmsu af því í skattal. sem brýnt er að taka til athugunar. Þar tel ég m. a. að hefði verið ástæða til þess að athuga um skattlagningu fyrirtækja og sérstaklega þær reglur sem nú gilda um fyrningarfrádrætti. Ég tel líka að það hefði verið brýn þörf á því að athuga hvernig hægt er að fyrirbyggja betur en nú er gert að vissir aðilar geti skotið tekjum undan skattlagningu. Í frv. er ekkert um það að finna. Það er heldur ekkert um það að finna í þessu frv. að reyna að skattleggja að einhverju leyti verðbólgugróða sem til fellur. Þá er að sjálfsögðu ekki heldur á það minnst að skattleggja að neinu ráði hæstu tekjur, og fleira mætti til nefna í þessum efnum, sem ég tel að sé gallað við þessar till.

Þá er að finna í þessu frv. till. sem miða að því, að veita ráðh, heimild til að fella niður söluskatt eða til lækkunar eða niðurfellingar á söluskatti og að afnema tolla á vissum vöruflokkum. Ég tel þessar till. stefna í rétta átt. Þær eru í samræmi við frv. sem við Alþb-menn stöndum að og höfum flutt. En ég tel að í þessum efnum sé gengið of skammt og auk þess eigi hér ekki að vera um aðeins heimild að ræða, heldur um beina ákvörðun. Ég vil einnig geta þess, að við Alþb-menn höfum staðið að því að flytja hér frv. um lækkun á eða aukinn frádrátt í sambandi við útsvarsálagningu. Þær till. þessa frv., sem ganga í þessa átt, stefna því í rétta átt að mínum dómi. En till. ganga mun skemmra en við höfum lagt til í okkar frv.

Þá er að finna í þessu frv. ákvæði um nokkurn skyldusparnað. Mér sýnist að þessar till. hafi ekki mikið gildi. Ég tel þó að þessi aukaskattur komi vissulega til greina. Það er gert ráð fyrir að tekjur af þessum skatti geti numið 200–250 millj. kr. Þetta er mjög óverulegt gjald og breytir tiltölulega litlu.

Einnig er að finna í frv. ákvæði um sérstakt flugvallagjald. Ég tel að það komi fyllilega til greina að leggja gjald á þá aðila sem hér um ræðir, hvort sem það verður gert í þessu formi eða öðru. En mér sýnist þær röksemdir, sem fluttar eru fram í grg. frv. fyrir þessu gjaldi, harla einkennilegar, því helst er að skilja á röksemdunum að fjárveitingar hafi verið of miklar til flugmála í landinu, flugmálin standi því ekki undir sér og af þeim ástæðum þurfi sérstaklega að leggja á þetta gjald. Ég tel sjálfsagt að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli séu hækkuð til samræmis við það sem almennt tíðkast um slík gjöld og það þurfti í rauninni ekki lagabreyt. til þess. Þar er fyrst og fremst um framkvæmdaratriði að ræða. Ég er á þeirri skoðun að það hefði verið miklu nær að ganga hreint til verks og leggja nokkuð verulegt aukagjald á ferðagjaldeyri og láta þá borga mest sem mestan gjaldeyri fá til slíkra nota. En fast flugvallagjald, sem menn verða að borga, jafnmikið gjald hvort sem þeir ferðast til Færeyja eða til Japans, það sýnist mér í rauninni ekki eins æskilegt form, en ég er ekki andvígur gjaldinu út af fyrir sig.

Þá er einnig að finna í frv. annað býsna mikilvægt ákvæði sem snertir lántökuheimildir ríkisins í sambandi við ýmsar framkvæmdir í landinu og þar með lántökuheimildir til þess að greiða eitthvað úr málefnum stofnlánasjóðanna í landinu. Það er greinilegt að með ákvæðum frv. í þessum efnum er verið að setja ákveðin mörk fyrir því hvað mikið fé skuli útvegað að láni til þessara framkvæmda, og mér sýnist að það sé gert ráð fyrir að þrengja mjög að hinum almennu stofnlánasjóðum atvinnuveganna frá því sem verið hefur. Það er að vísu sagt að skv. þessum till. sé gert ráð fyrir að þessir sjóðir hafi allir til samans í kringum 31% meira ráðstöfunarfé en þeir höfðu á s. l. ári. En það gefur auga leið að þær framkvæmdir, sem stofnlánasjóðirnir lána fé sitt út á, hækka allar stórlega í verði. Þegar t. d. keypt eru ný fiskiskip eru þau nú miklum mun dýrari í kr. talið en var fyrir gengisbreytingu og í rauninni fyrir tvær gengisbreytingar sem orðið hafa nú á stuttum tíma. Lánveitingar Fiskveiðasjóðs verða því að vera miklum mun meiri en áður, þegar svona er komið. Mér sýnist því alveg augljóst að það sé verið að gera ráð fyrir að skera niður mjög verulega lánsmöguleika stofnlánasjóðanna, en það tel ég alrangt miðað við núv. aðstæður. Ég tel brýna þörf á því að þeir geti haldið áfram lánveitingum sínum til allra þeirra framkvæmda sem verða að teljast gagnlegar, hagstæðar fyrir uppbyggingu atvinnulífsins í hverri grein um sig. En það er einmitt eitt af því sem fram kemur í þessu frv. sem mér sýnist harla athyglisvert, að það sé ekki mikill áhugi hjá hæstv. ríkisstj. fyrir að hægt verði að halda áfram þeirri atvinnuuppbyggingu sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Í síðasta kafla frv. IX. kafla, ýmis ákvæði, er bætt þeirri einkennilegu gr., að þar er fram tekið að gildandi lög um heimildir handa ríkisstj. til þess að veita ríkisábyrgðir á lánum vegna skuttogarakaupa falli úr lögum. Þetta þykir af hálfu ríkisstj. svo alvarlegt mál að jafnvel ríkisstj. sé ekki trúandi fyrir að hafa þessa heimild, að ákveða hvort hún vill veita ríkisábyrgð til kaupa á nýjum skipum eða ekki.

Hún vill undirstrika það svo rækilega, að það stendur ekki til að kaupa fleiri skip, að það sé best að afnema úr lögum og því þurfi í hverju einstöku tilviki fyrir sig að sækja til Alþ. og fá um það sett lög ef veita á hliðstæða ríkisábyrgð fyrir kaupum á nýjum fiskiskipum og nú er í lögum. Það er ekki lítil alvara sem er á bak við þetta. Það er greinilegt að hæstv. ríkisstj. lítur svo á að nú sé nóg komið, nú megi ekki bæta við fleiri fiskiskipum. Ég er alveg sannfærður um að núv. ríkisstj., eins og aðrir, á eftir að sannfærast um að það er okkur lífsnauðsyn að halda áfram að endurnýja skipastól okkar og koma honum í það form sem okkur er hagkvæmast. Ég álít fyrir mitt leyti að það sé ein af brýnustu þörfum okkar í efnahags- og atvinnumálum að sinna ýmsum þeim svæðum á landinu sem hafa dregist aftur úr í þessum efnum. Þau þurfa að fá þessi skip til þess að hægt verði að tryggja nægilegt hráefni á hverjum tíma til fiskvinnslunnar og koma fiskvinnslunni á hagstæðan grundvöll. Ég skal ekki ræða frekar um þetta að þessu sinni, en mér finnst að þessi till. í frv. sé býsna táknræn um þann anda sem er á bak við þessar till. og hvert hæstv. ríkisstj. stefnir í þessum efnum.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég er andvígur þessu frv. í meginatriðum eða meginefni þess, þó að í frv. sé að finna ýmsar till. sem að mínum dómi stefna í rétta átt og að sjálfsögðu mætti lagfæra margt í frv. Ég tel að í frv. vanti margvísleg ákvæði sem eru þýðingarmikil til áhrifa í efnahagsmálum þjóðarinnar, þau sem ég hef hér m. a. minnst á, önnur séu þar beinlínis óeðlileg og andstæð. Sérstaklega vil ég taka fram að ég er andvigur því sem ég tel vera megintilgang þessa frv., en það er að veita ríkisstj. og fjvn. heimild til að skera niður ríkisútgjöld sem greinilega eru útgjöld til verklegra framkvæmda og félagslegs stuðnings. Ég er mótfallinn því, að þetta verði skorið niður, tel það hættulegt og stefna í ranga átt. Þá vil ég einnig benda á að ég tel í rauninni ekki sæmilegt að afgr. þessi mál þannig að það sé ekki vikið hér að þeirri aðstöðu sem upp er komin varðandi afkomumál ellilaunafólks og öryrkja. Ég tel ófullnægjandi að segja að þetta verði til athugunar síðar.

Ég tel að samþykkt þessa frv. hafi síður en svo hagstæð áhrif í efnahagsmálum okkar nú. Frv. mun að litlu eða engu leyti hafa áhrif á lausn kjaramálanna og síður en svo bæta úr hinu almenna atvinnuástandi í landinu, ef það yrði framkvæmt eins og mér sýnist vera stefnt að.