21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

52. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Vegna þess að ég er örlítið tengdur öðru flokkahappdrætti, samkeppnisaðila háskólans að þessu leyti, langar mig til að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa miklu stækkun háskólans, og ég vil óska þeim til hamingju með þann stórhug og þá víðsýni sem þeir sýna, með því að ráðast í svona stórt. Þetta verður gífurleg tekjuaukning hjá háskólanum, ef vel tekst til, enda þarfirnar miklar. Ég vil um leið vekja athygli á því að á undanförnum árum, á annan tug ára, virðist læknadeild háskólans mjög lítið hafa notið tekna af háskólahappdrættinu. Það er mjög merkilegt til þess að vita að þessi stærsta og veigamesta deild háskólans hefur algjörlega farið varhluta af því mikla fjármagni, sem úthlutað hefur veríð frá háskólahappdrættinu. Nú sé ég í grg., að til stendur að bæta úr þessu, og þykir vænt um að svo er, enda eru byggingaþarfir þeirrar deildar mjög viðamiklar og kostnaðarsamar á næstu árum.

Í þessu sambandi langar mig aðeins til að minnst á mál, sem ég hef áður minnst á í sambandi við happdrættið, og það er að mér hefur fundist að það væri ástæða til fyrir ríkisvaldið að ákveða hámark þess sem leyfilegt væri að borga út í vinninga. Í háskólahappdrættinu eru borguð 70% í vinninga. Happdrætti SÍBS borgar 60%, en í sjálfu sér, þegar maður lítur á tilgang þessarar happdrættissölu, þá vitum við að tilgangurinn er ekki fyrst og fremst að safna peningum hjá mörgum og deila þeim með fáum, heldur er meiningin að safna til þessa ákveðna tilgangs sem happdrætti er stofnað til. Því hefði ég haldið að það væri fullkomin ástæða til þess að ríkisvaldinu setti hámark á leyfilega útborgun vinninga, t.d. 50%, og ekkert happdrætti mætti greiða meiri hluta af sinni tekjuöflun í vinninga en 50%. Þetta mundi þýða það að öll happdrættin fengju miklu meira í sinn hlut til þeirrar starfsemi, sem þau eiga að sinna, en aftur á móti hef ég ekki trú á því að veltan minnkaði að sama skapi.