03.04.1975
Neðri deild: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

95. mál, vegalög

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég er einn þeirra þm. Reykv., sem hafa fengið það bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Jóhann Hafstein, las í ræðu sinni.

Það er sérstaklega eitt atriði í bréfi borgarstjóra sem mig langar til að taka undir og leggja sérstaka áherslu á. En það er að borgarstjórinn vekur athygli á því að þeirri lagabreytingu, sem fyrirhuguð er með þessu frv., er ætlað að taka gildi og gilda um árið 1975, þ. e. a. s. eftir að öll sveitarfélög, þ. á m. auðvitað Reykjavík, hafa gengið frá fjárhagsáætlun sinni fyrir yfirstandandi ár. Borgarstjóri segir orðrétt í bréfi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgaryfirvöld hafa að sjálfsögðu reiknað með þessari fjárhæð óskertri“ — þ. e. a. s. fjárhæð samkv. gildandi lögum — „við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 1975, sem samþ. var fyrir s. l. áramót svo sem lög kveða á um.“ Og borgarstjórinn heldur áfram: „Það atriði eitt út af fyrir sig að gera till. um breytingu til lækkunar á veigamiklum tekjustofnum sveitarfélaga, eftir að þau hafa gengið frá sínum fjárhagsáætlunum í samræmi við ákvæði laga, ætti að vera nægilegt til þess að hindra samþykkt slíkrar tillögugerðar.“

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessum ummælum borgarstjórans í Reykjavík, sem raunar eru ekki ummæli hans eins, heldur alls borgarráðs, þ. e. a. s. fulltrúa allra stjórnmálaflokka í borgarráði. Þessi ummæli eru fullkomlega réttmæt og þau ein út af fyrir sig eru alveg nægileg ástæða fyrir því að þessu máli ber a. m. k. að fresta á þessu þingi og taka það til athugunar fyrir næsta þing, því máli sem hér er um að ræða. Það er án efa mjög sjaldgæft, ég skal ekki fullyrða að það sé fordæmislaust, að slíkt sem þetta hafi verið gert. En það er áreiðanlega sjaldgæft og þótt fordæmi séu fyrir slíku, þá eru þau fordæmanleg og eiga ekki og ættu ekki að eiga sér stað.

Að öðru leyti er fram á það sýnt í bréfinu, enda þurfti ekkert bréf til, það er augljóst af efni frv., að með því er gengið á hlut Reykjavíkur og annarra þéttbýlisstaða, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Jóhann Hafstein, vakti sérstaka athygli á. Það er gengið á hlut þéttbýlisins til þess að greiða fyrir vegagerð í dreifbýli. Sannleikurinn er sá að það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að gengið sé á hlut þéttbýlis og þá alveg sérstaklega á hlut Reykjavíkur. Það hefur verið vaxandi tilhneiging til slíks á undanförnum árum. Þetta hefur að verulegu leyti verið rökstutt með fögru stjórnmálaslagorði orðinu „byggðastefna“. Hitt er aftur á móti sjaldgæfara að menn geri nákvæma grein fyrir hvað menn eigi við þegar menn lýsa sig fylgjandi byggðastefnu. Ég legg þann skilning í orðið að með því sé stefnt að því að stuðla að heilbrigðri dreifingu byggðar um landið. Ef sá skilningur er lagður í orðið, er ég sammála byggðastefnu. Það er sjálfsagt og réttmætt af mörgum ástæðum, sem ég hirði ekki um að rekja hér, að ríkisvald og sveitarfélög stuðli að heilbrigðri dreifingu byggðar um landið og það er gert og hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum. Byggð í dreifbýli á Íslandi er studd á kostnað þeirra, sem búa í þéttbýli, og það er fyllilega eðlilegt. En hitt virðast menn of sjaldan hugleiða, hvar eðlileg mörk séu. Hvar eru eðlileg mörk í því, hversu langt skuli ganga í því að styðja byggð í dreifbýli á kostnað byggðar í þéttbýli? Á því vantar sannast sagt allar athuganir, og er það í raun og veru furðulegt eitt út af fyrir sig að ekki skuli hafa verið stofnað til neinnar almennrar athugunar í þessum efnum. Svo margar stofnanir höfum við þó hér sem fást við ýmiss konar áætlunargerð, ýmiss konar athugunargerð, svo margar n. hafa verið skipaðar á undanförnum árum að það hlýtur að vekja undrun að engri stofnun skuli nokkurn tíma hafa verið falið eða hún tekið sér það verkefni eða n. verið sett á laggirnar til að athuga hvar við erum staddir í þessum efnum, hversu langt er nú þegar gengið í því að styðja dreifbýli á kostnað þéttbýlis.

Auðvitað væri ekkert vit í því að skipta útgjöldum ríkisins í hlutfalli við það hvaðan tekjur ríkisins koma, að ég ekki tala um að slíkt væri fjarstæða að því er sveitarfélög snertir. En það veit enginn í dag hvernig þessu er háttað. Það hefur engin athugun verið á því gerð hvaðan heildartekjur ríkisins koma, hvernig þær skiptast á byggðarlög eða í hvers konar einingar menn vilja skipta landinu og hvernig þessar einstöku einingar njóta þeirrar þjónustu sem veitt er fyrir þær tekjur, sem aflað er. Það veit enginn hvernig þetta ástand nú þegar er. En mér segir svo hugur um að full ástæða sé til þess að afla slíkrar vitneskju. Hér er um að ræða tilvalið verkefni fyrir Þjóðhagsstofnunina, að gera á þessu athugun, gera á því fræðilega athugun hvernig þessum málum er nú varíð, hvernig ástandið í þessum efnum er nú. Síðan ætti að fela áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins að gera almennar till. um heildarstefnu í þessum málum, m. ö. o. það ætti að fela áætlanadeildinni að gera till. um heilbrigða og skynsamlega byggðastefnu. Ég hygg að enginn hugsandi íslendingur sé ekki sammála um að byggðastefna í þeim skilningi, sem ég lagði í orðið áðan, sé sjálfsögð og nauðsynleg, að án hennar yrði Ísland ekki jafnbyggilegt og það er, án hennar yrði íslenskt þjóðfélag óheilbrigðara en það er.

En hvað er byggðastefna í tölum talað, í stærðum mælt? Það er ekki nóg að lýsa sig almennt fylgjandi byggðastefnu, eins og ég geri núna, meðan menn vita ekki nákvæmlega um hvað menn eru að tala, því að mismunandi langt má auðvitað ganga í þessum efnum. Og það er ekki hægt að móta skynsamlega byggðastefnu nema út frá einhverju tilteknu ástandi, ástandi sem menn þekkja ekki í dag. Það eru þessar upplýsingar sem vantar. Að vísu hafa verið gerðar ýmsar svonefndar landshlutaáætlanir og slík áætlanagerð hefur tvímælalaust verið til mikilla bóta. Að svo miklu leyti sem framkvæmd landshlutaáætlana hefur átt sér stað, að svo miklu leyti sem þeim hefur verið hrundið í framkvæmd, þá hefur af þeim án efa hlotist gagn. Í fyrsta lagi er sú stefna skynsamleg að semja landshlutaáætlanir, að ég ekki tali um hversu nauðsynlegt er að framkvæma þær þegar þær eru samdar, en á því hefur stundum viljað verða misbrestur. En þetta gildir ekki um landið í heild. Það þarf að semja allsherjarlandshlutaáætlun fyrir Ísland sem grundvöll að heilbrigðri byggðastefnu. Án slíkrar landshlutaáætlunar fyrir landið allt, þar sem landshlutaáætlanir yrðu samræmdar, verður engin heilbrigð byggðastefna framkvæmd. Meðan þetta er ekki gert er byggðastefna innantómt slagorð, eru yfirlýsingar um fylgi við byggðastefnu í raun og veru byggðar á sandi.

Þessar hugleiðingar komu mér fyrst í hug þegar um efni þessa máls er að ræða. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa einróma vakið athygli á því að í frv., sem lagt er til að afgreiða í byrjun árs, sé raskað gildandi skiptingu á mjög veigamiklum útgjöldum til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar, að skiptingunni sé raskað milli héraða, milli þéttbýlis annars vegar og dreifbýlis hins vegar. Ég skal ekki fella neinn almennan dóm um það hvort þessi röskun, sem hér er um að ræða, er ómótmælanleg, og hæstv. ráðh. gerði enga tilraun til þess að leiða í ljós í framsöguræðu sinni hvort hún kynni að reynast réttmæt að vandlega athuguðu máli. En ég segi enn: það er óviðurkvæmilegt, það er nánast ósæmandi, að gera slíka breyt. á ráðstöfun fjár til mikilvægra sameiginlegra þarfa á milli héraða, á milli landssvæða, eftir að sveitarfélög hafa gengið frá fjárhagsáætlunum sínum og reiknað með tilteknum tekjum samkv. þeim lögum sem gilda þegar tekjuáætlanirnar eru gerðar. Auk þess vek ég athygli á því að það ætti ekki að framkvæma slíka röskun, sem gerð er á ráðstöfun fjár til samneyslu, eins og hér er um að ræða, án þess að nánari athugun fari fram á því hvernig ástandið í þessum málum er í dag í raun og veru, og þegar eða ef slík breyt. verður gerð, sem hér er lagt til, þá ætti hún að vera liður í miklu stærri framkvæmd en þeirri sem hér er um að ræða. Þetta finnst mér vera nægileg og sterk rök fyrir því að fresta að þessu sinni afgreiðslu þessa máls og athuga málið milli þinga og þá á miklu víðari vettvangi en hér er um að ræða og taka það síðan aftur til meðferðar á næsta þingi.

Hæstv. forseti. Um hitt skal ég stilla mig, að gera það að sérstöku umtalsefni, þótt vissulega væri það freistandi, að vekja athygli á því að hér er um það að ræða að borgarstjórn Reykjavíkur, sem lýtur stjórn Sjálfstfl., kvartar undan ranglátu stjfrv. En núv. ríkisstj. lýtur, eins og kunnugt er, forsæti form. Sjálfstfl., sem auk þess er 1. þm. Reykv. Um þetta mætti auðvitað sitthvað segja þótt ég skuli láta það ósagt á þessu stigi málsins. Þó kemst ég ekki hjá og hefði líklega látið þessar setningar líka ósagðar ef hv. þm. Jóhann Hafstein hefði ekki vakið athygli á því að þetta frv. hefði ekki verið rætt í ríkisstj. Það hlýtur að vekja furðu þings og þjóðar að fram skuli lagt á Alþ. stjfrv. um jafnveigamikið og mikið stefnumál og þetta, sem hér er um að ræða, án þess að frv. skuli hafa verið rætt í ríkisstj. Ég átti sæti í ríkisstj. í 15 ár og átti samstarf við alla þá flokka, sem sæti eiga á Alþ., nema SF. En það gerðist aldrei þau 15 ár, sem ég átti sæti í ríkisstj., að frv. um veigamikið stefnumál væri lagt fram á Alþ., án þess að ríkisstj. hefði fjallað um það. Veit ég að þeir menn, sem með mér áttu sæti í ríkisstj. og ég sé nú framan í hér í ýmsum áttum, geta fúslega og munu fúslega bera vitni um það. En það er eins og að á síðustu árum hafi verið tekin upp ný vinnubrögð á ýmsum sviðum. M. ö. o.: hér er flutt frv. af hálfu samgrh., sem ríkisstj. stendur ekki á bak við, og í frv. felst það að stórlega er gengið á hlut Reykjavíkur sem sjálfur forsrh. er 1. þm. fyrir. Hér er auðsjáanlega eitthvað alveg óvenjulegt á ferðinni.

Ég lýk þessum orðum mínum með því að undirstrika það, sem raunar ætti ekki að þurfa að undirstrika, að sérhver ríkisstj. — og þá auðvitað þessi — á auðvitað að vera ríkisstj. allrar þjóðarinnar, jafnvel þótt hún sé ríkisstj. ákveðinna flokka. Mér kemur ekki til hugar að ríkisstj. eigi að vera ríkisstj. Reykjavíkur og gæta hagsmuna Reykjavíkur alveg sérstaklega.