03.04.1975
Neðri deild: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2718 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Forseti. Það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið hér síðan ég mælti fyrir þessu frv., sem ég vildi gera aths. við, en sérstaklega þykir mér verra að hv. 9. þm. Reykv. skuli ekki vera hér inni, því að ég hefði nú fyrst og fremst viljað gera athugasemd við það sem hann sagði, ekki síst þar sem hann fór með nokkurn misskilning og að öðru leyti vildi fara að blanda inn í þetta mál pólitískum hugleiðingum.

Það má öllum ljóst vera að þetta mál verður ekki afgr. sem flokkspólitískt mál. Menn hafa mismunandi skoðanir á því, og það byggist ekki á því hvar í flokki þeir eru, eins og kom fram í hv. Ed. við afgreiðslu þess. Ég vil hins vegar taka það fram að með þetta mál var farið eins og venja er með mál, sem flutt ern af ríkisstj., að það fékk afgreiðslu á ríkisstjórnarfundi á eðlilegan hátt og var ekki neitt farið á bak við ríkisstj. í þeim efnum. Þess vegna var það á misskilningi byggt hjá hv. 9. þm. Reykv. Gylfa Þ. Gíslason, að svo væri. (Gripið fram í.) Ja, það var afgr. á ríkisstjórnarfundi og þar gerði ég grein fyrir þessu atriði, enda var þetta frv. líka lagt fram á hv. Alþ. í fyrra og var þá til umr. og þar var þetta með 20% ákvæði og ég gerði grein fyrir 25% ákvæðinu. Hitt er allt annað mál, ég tek undir það með hv. 9. þm. Reykv., að auðvitað er ríkisstj. ríkisstjórn alls landsins, og þetta mál er líka þess eðlis að vera landsmál.

Það er svo, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., að þessi 10% sjóður hefur verið notaður til þess að leysa úr þeim verkefnum sem brýnust hafa verið, og eins yrði þó að það séu 25%, nema að nú á að vera enn betur fyrir þessu séð með því að fjvn. Alþ. á að skipta þessum sjóði í staðinn fyrir að vegamálastjóri, sem í báðum tilfellum á að gera till. um þetta, átti áður að gera þær til ráðh., en nú til fjvn. Alþ., svo að Alþ. fær málið betur til meðferðar en áður hefur verið.

Ég vil taka það mjög skýrt fram að þegar það var til meðferðar hér á hv. Alþ. um takmörkun á veginum út úr höfuðborginni, að ríkisvegurinn tæki við þegar að Elliðaánum kom, stóð ég með þeirri samþykkt og hef varið hana í mínu kjördæmi gagnvart þeim sem hafa haft það sjónarmið að það hafi verið rangt því að Reykjavíkurborg ein hefði átt að sjá um þetta. Ég lít svo á að þetta hafi verið réttmætt, því að auðvitað er vegurinn út úr höfuðborginni og inn í borgina mál allrar þjóðarinnar. Eins getur verið um einstök atriði, og það er búið að gera í þessum atriðum stærsta þáttinn, bæði um veginn hér út úr höfuðborginni og einnig um veginn í gegnum Kópavog.

Það féll í minn hlut sem fjmrh. að samþ. þá breyt. að gera veginn í gegnum Kópavog að ríkisvegi, og satt að segja er það að mínu mati réttmætt. Þetta er vegur, sem er gegnumkeyrsluvegur og tilheyrir ekki Kópavogsbúum einum, eins og margir aðrir vegir, en í sumum byggðarlögum er þetta þannig að þeim væri ómögulegt að koma slíkum vegum í sæmilega framkvæmd. Mér dettur t. d. í hug staður eins og Reyðarfjörður. Þegar farið er til Eskifjarðar og Norðfjarðar, þá er auðvitað ekið í gegnum Reyðarfjörð. Ég álít að íbúar Reyðarfjarðar sé svo fáir að það sé í raun og veru óhugsandi að þeir geti með framlagi, sem þeir fengju úr þessum þéttbýlissjóði út frá höfðatölureglunni einni, komið þessu í verk.

Mér dettur ekki í hug að svona atriði verði misnotað. Fyrir því er trygging með afskiptum Alþ. Ég held að það muni vera almennt álit hv. þm., hvar í flokki sem þeir eru, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að embættismaður eins og vegamálastjóri mundi leggja það til, sem hann teldi mesta þörf á, um ráðstöfun á fjármunum sem þessum. Að mínu áliti er búið að gera mikið átak á þeim stöðum, sem mest þurfti til, og þess vegna sé hægt að nota meira svigrúm í þessu og snúa sér með meira átaki að þeim verkefnum, sem er ekki hægt að koma áfram nema fá aukafjárveitingu umfram höfðatöluregluna.

Eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn. taldi hann að höfðatölureglan væri ekki eingild og í raun og veru er þetta ákvæði alveg í samræmi við hans hugsun, að höfðatölureglan sé ekki sú eina sem eigi að gilda. Hún er látin gilda áfram upp að 75% í staðinn fyrir að áður var hún látin gilda upp að 90%. Það er færsla þar á milli. En svo á í sambandi við þessi 25% að taka tillit til, eins og hann taldi, umferðarinnar og þá fyrst og fremst á aðalleiðum og þá sérstaklega á þeim stöðum sem umferðin liggur í gegnum og auka möguleika þeirra til að leysa þessi verkefni. Þess vegna held ég einmitt að þetta falli alveg að hugsun þessa hv. þm., að það sé hægt með þessu móti að ná því takmarki betur en nú er sem hann einmitt túlkaði hér réttilega.

Ég skal ekki fara að deila um þetta og það gáfu engir raunverulega tilefni til þess þó að menn hafi mismunandi skoðanir á þessu. Við því er ekkert að segja og það er ekki nema eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á því. Ég hefði aðeins gert fleiri aths. við ræðu hv. 9. þm. Reykv. ef hann hefði verið hér viðstaddur. Út af því atriði, sem hann talaði um, að það væri ekki hægt að hugsa sér afgreiðslu á þessu núna vegna þess að stjórnir væru búnar að gera sínar fjárhagsáætlanir og annað því um líkt, þá vil ég vekja athygli á því að frv. var í fyrsta lagi til meðferðar hér í fyrra og í öðru lagi var það lagt fram og útbýtt hér á hv. Alþ. 6. des. og þá munu bæjarstjórnir ekki hafa verið búnar að gera sínar fjárhagsáætlanir. Þess vegna var alveg eins hægt að reikna með þessu eins og að ekki yrði gerð nein breyt.

Málið fer svo að sjálfsögðu til n. og afgreiðslu hér í hv. d. eins og í hv. Ed. og það verður að ráðast hvernig fer með það. Ég lít ekki á þetta sem pólitískt flokksmál, enda munu menn ekki fara eftir þeim línum í þessum efnum, heldur hvað þeim sýnist sanngjarnt í þessu og hvað ekki. Sanngirni finnst mér vera fólgin í því, að þetta gefur meira svigrúm til þess að greiða fyrir þeim þéttbýlisvegum, þar sem þörfin er mest og ekki er hægt að leysa úr með öðrum hætti en að fá fé umfram það sem höfðatölureglan gefur. Ég tel að það hafi sýnt sig að þetta fé hafi gert það, að því leyti sem það hefur verið notað í þessu skyni. Þar heyrir til Kópavogsvegurinn.

Ég vildi segja hv. 9. þm. Reykv., sem heldur að séu nú komnar allt aðrar reglur í ríkisstj. síðan hann hætti að vera þar, að ég mundi vel að hann hafði verið þar samfleytt í 15 ár, og meira að segja studdi ég hann í fyrstu lotu, en reiknaði ekki með að það þyrfti að verða svona lengi eins og það var, að hann sæti þar, og ábyggilega hefði verið betra fyrir hann að vera ekki svona lengi. Hann mundi þá hugsa öðruvísi núna. Það kom fram í ræðu hans núna, að hann hélt að það hefði orðið einhver stórkostleg breyting á meðferð mála í ríkisstj. Þetta mál var borið fram í ríkisstj. og afgr. þar með venjulegum hætti. Hins vegar er hér ekki um pólitískt mál að ræða, og ég býst við því að þm. úr öllum flokkum muni hafa sínar skoðanir á því, þannig að það er ekkert frágangsatriði fyrir ríkisstj. hvernig það fer í gegn eða ekki. Ég hef hins vegar þá skoðun að þetta sé til bóta, og ég tel, eins og ég sagði áðan, að það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., hafi sannað að það væri með þessum hætti hægt að greiða úr einmitt á þeim stöðum þar sem þörfin væri mest og geta ekki nóg. T. d. var Kópavogur einn af þeim stöðum, sem sannaði að það þurfti meira til að koma þar áfram vegamálum en Kópavogsbúar þó gátu með því að njóta þess hvors tveggja höfðatölureglunnar og viðbótarfjárins úr þessum sjóði. Ég held hins vegar að Borgarnes muni vera aftarlega þar. Út af því, að hv. 9. þm. Reykv. vill nú auka fylgi mitt í Borgarnesi, sem ég þakka honum kænlega fyrir, þá held ég að Borgarnes muni vera aftarlega í þessu tilfelli. Ég álít að það séu staðirnir þar sem gegnumkeyrslan er sem fyrst og fremst þurfi á aðstoð að halda í þessu tilfelli og þeirri reglu hafi verið fylgt og þeirri reglu muni verða fylgt. Ég álít t. d. að Ólafsvík komi þar fyrr en Borgarnes vegna keyrslunnar út á Hellissand og Rif, og Reyðarfjörð nefndi ég sem gott dæmi um þetta, en þar er keyrt þegar farið er til Neskaupstaðar og Eskifjarðar. Svo er um fleiri staði, sem ég man nú ekki í bili eða sé ástæðu til að nefna. (Gripið fram í: Blönduós.) Blönduós, að nokkru leyti, jú, jú. Það er að vísu í jaðrinum á Blönduósi, en ekki kannske eins og á þessum stöðum. Sama var með staði eins og Selfoss, hann er alveg táknrænn um þetta, Hvolsvöllur og Hella að nokkru leyti líka og þar hefur þessu verið komið á. Þess vegna vil ég nú ljúka þessu með því að segja að hér er um að ræða hvort á að verja meira af þessu fé til frjálsrar meðferðar en verið hefur til þess að meta af þeim, sem best þekkja eins og vegamálastjóra, sem mundi verða sá tillögumaðurinn sem hefði þarna mest áhrif á, eða hækka það ekki. Það er alveg rétt að þetta er alveg eins tekið af borgnesingum, garðhreppingum og reykvíkingum eftir höfðatölureglunni á hverjum og einum stað fyrir sig, ef þetta verður gert svona, og það er bara byggt á því að nauðsyn er að fá meira fé í stóru verkefnin sem er við að fást á þeim stöðum sem vegir liggja í gegnum. Að öðru leyti veit ég að n. fjallar um þetta og hv. d. og niðurstaðan verður sú sem hér verður samþykkt.