03.04.1975
Neðri deild: 62. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

95. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég hélt að ég hefði kvatt mér hljóðs með þeim fyrstu, en það reyndist ekki vera. Það hefur svo margt verið sagt um þetta frv. sem gefur tilefni til þess að mín orð verði fleiri en ætlað var í fyrstu. Það er ekki nema eðlilegt að það séu nokkuð skiptar skoðanir um þetta frv. Hæstv. samgrh. telur það örugglega vera til bóta, en eigi að síður er margt sem þarf að taka til athugunar áður en það er afgreitt.

Hæstv. ráðh. sagði öllum þm. til ánægju, að vegáætluninni yrði útbýtt á morgun. Við höfum beðið eftir vegáætluninni, enda er áreiðanlega þörf á því að fara nú að taka hana til meðferðar. Vitanlega er eftir því beðið að sjá hversu mikið fjármagn verður til skipta á þessu ári og næstu árum. Á s. 1. ári varð að fresta framkvæmdum, sem ákvarðaðar voru með vegáætlun 1972–1975, vegna fjárskorts. Þetta frv. felur eigi að síður það í sér að auka verksvið Vegasjóðs, sem er fjárvana, og það eitt út af fyrir sig gefur tilefni til umhugsunar. Ef þetta frv. verður lögfest án þess að auka fjármagn Vegasjóðs hlýtur það að leiða af sér að fresta verður meiru að hinum venjulegu vegaframkvæmdum en annars hefði þurft að gera.

Hv. 9. þm. Reykv. talaði um þetta mál sem byggðamál og sagði, eins og fleiri hv. þm., sem hér hafa talað, að það væri verið að níðast á Reykjavík með því að lögfesta frv. Það er rétt, sem kemur fram í bréfi borgarstjórans í Reykjavík, að um 18 millj. kr. eru teknar af Reykjavík og færðar á einhvern annan stað í landinu, ef þetta frv. verður samþ., en ég er hræddur um að það verði fleiri þéttbýlisstaðir en Reykjavík sem muni kvarta ef frv. verður samþ. Það fé, sem hefur verið tekið frá skv. 32. gr. vegal. til framkvæmda í þéttbýli, þar sem íbúar eru 300 eða meira, lækkar mikið að krónutölu ef tekin verða 25% í staðinn fyrir 10% af því fjármagni. Við getum talað um alla þéttbýlisstaði á landinu, sem hafa 300 íbúa eða meira, sem gætu með sama rétti og Reykjavík sagt: Það er verið að níðast á okkur. Sannleikurinn er sá að ég er dálítið undrandi yfir því ef þeir aðilar, sem áður áttu kost á því að fá fjármagn skv. 32. gr. og ráðstafa því sjálfir, vilja nú gefa eftir 15% til fjvn. til ráðstöfunar. Fjármagnið kemur að betri notum með því að ráðstafa því eftir þörfum af heimamönnum eins og gert hefur verið.

Það er rétt, sem hæstv. samgrh. sagði áðan, að 10% sjóðurinn hefur verið notaður til nauðsynlegra þarfa og ég tel að 10% sjóðurinn þurfi að vera áfram. Það þarf að vera eitthvert fjármagn fyrir hendi til þess að úthluta í framkvæmdir, sem hinir einstöku staðir ráða alls ekki við, sbr. þjóðveginn gegnum Selfoss og veginn gegnum Kópavog. Þetta voru nauðsynlegar framkvæmdir sem vantaði fjármagn til. Þannig má vitanlega benda á ýmsa staði víðs vegar um land. En spurningin er hvort það er rétt að taka til viðbótar 15%, sem veitt hefur verið til þéttbýlis skv. 32. gr., og rýra þannig hlut kauptúnanna og þéttbýlisins víðs vegar um land og draga þannig úr því að varanleg gatnagerð þar geti átt sér stað. Það liggur í hlutarins eðli að ef þetta fjármagn lækkar eftir höfðatölureglunni minnkar möguleikinn í þorpum og kauptúnum víðs vegar um landið til þess að hraða varanlegri gatnagerð. Þess vegna þarf að staldra við og athuga þetta, ekki aðeins þm. Reykv., heldur þm. annarra kjördæma sem hafa þéttbýliskjarna og kaupstaði innan sinna marka.

En það eru aðrir þættir í þessu frv., sem mætti segja að væru mjög til bóta og nauðsynlegir. Það er vitanlega mjög æskilegt að efla sýsluvegasjóðina. Það er mjög æskilegt að gera það og þörf á því. En það verður ekki gert nema auka fjármagn, annars vegar með því að hækka það gjald, sem sýslusjóðir leggja fram, og hins vegar að hækka það, sem Vegasjóður leggur til. fjárvana Vegasjóður. Það er einnig mjög æskilegt að gera vegi sem liggja að flugvöllum, að landsbrautum. Það er mjög æskilegt. Það er einnig mjög æskilegt að gera svokallaðar heimreiðir að landsbrautum. En til þess þarf aukið fjármagn.

Og spurningin er: Hvernig er staða Vegasjóðs? Er unnt að auka fjármagn Vegasjóðs til þess að hann geti aukið sín verksvið sem að sjálfsögðu eru mjög nauðsynleg. Það er vitanlega mjög æskilegt að kauptún með 200 íbúa eigi þess kost að fá fé til gatnagerðar og engin ástæða til þess að mæla gegn því, þar sem ekki er um mörg kauptún að ræða. Þetta er vitanlega mjög æskilegt að lögfesta. En það þarf aukið fjármagn til þess að það sé raunhæft. Sama má segja um fjallvegi að fjölsóttum ferðamannastöðum. Gert er ráð fyrir í frv. að breyta þeim í vegáætlun. Þessu er ekki ástæða til að mæla gegn, ef möguleiki er á að færa út kvíarnar. En frestun framkvæmda hjá Vegasjóði á s. l. ári mun hafa verið yfir 1 milljarð og því var spáð á s. l. hausti, þegar nokkuð var rætt um vegáætlun fyrir þetta ár, að það yrði meira á þessu ári sem yrði að fresta. Allar þær framkvæmdir, sem teknar voru í vegáætlun 1972–1975, voru mikilvægar og nauðsynlegar, en þeim hefur eigi að síður orðið að fresta vegna fjárskorts. Verðbólgan hefur gert Vegasjóð fjárvana, þar sem vegagerðarkostnaður hækkaði frá í apríl 1972 til júní 1974 um hvorki meira né minna en 100%, og þá er eðlilegt að ýmislegt færi úr skorðum.

Hv. 9. þm. Reykv. talaði lítils háttar um byggðamál. Hv. þm. sagði að það vissi raunverulega enginn um hvað byggðastefna væri í dag, vegna þess að það hefði ekki verið athugað hvar það raunhæfa og sanngjarna væri í þeim málum. Eigi að siður fullyrti hv. þm. að dreifbýlinu væri viðhaldið á kostnað þéttbýlisins. Hv. þm. gaf í skyn að það fjármagn, sem rynni í þjóðarbúið, kæmi síst frá hinu svokallaða dreifbýli eða því sem kallað er byggðir. Hv. þm. sagði enn fremur að enginn vissi um hvaðan tekjurnar kæmu. Ég held að ég geti upplýst það að þetta liggur nokkuð vel fyrir. Það hafa verið gerðar áætlanir í Þjóðhagsstofnuninni og hjá Landshlutasamtökunum. Það liggur nákvæmlega fyrir t. d. um gjaldeyrisöflunina, hver hún er, úr hverju kauptúni, hringinn í kringum landið. Það liggur fyrir hver gjaldeyrisöflunin er t. d. í Vestmannaeyjum á hvern íbúa. Ég man ekki þessar tölur núna, en þær eru háar. Það liggur fyrir hvað gjaldeyrisöflunin hefur verið mikil á Vestfjörðum á hvern íbúa og það er ákaflega mikið. Það liggur fyrir hve gjaldeyrisöflunin hefur verið mikil á hvern íbúa í kauptúnunum á Austfjörðum og á Norðurlandi. Það er ákaflega mikið og öll þessi kauptún teljast til hinnar svokölluðu byggða.

Þegar keypt er fiskiskip á þessa staði og lán eru veitt, þá er sagt að það tilheyri byggðastefnunni. Ég er hræddur um að Ísland væri ekki sjálfstætt ríki ef það væri aðeins borgríki án landsbyggðarinnar, ef það væri aðeins Reykjavík og Reykjanessvæðið. Þá væru íslendingar tæplega menningarþjóð meðal Sameinuðu þjóðanna, sjálfstæð þjóð. Þess vegna finnst mér að hv. 9. þm. Reykv. hafi talað nokkuð óvarlega áðan. Hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands á að vita hvaðan tekjurnar koma í íslenskt þjóðarbú. Tölurnar eru fyrir hendi og ég held að það sé alveg nauðsynlegt að nemendurnir í hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands fái hugmynd um hvaðan tekjurnar koma í íslenskt þjóðarbú, frá atvinnuvegunum. Það er ekki aðeins frá sjávarútvegi. Það er frá landbúnaði, það er frá iðnaði og frá ýmsum þjónustustörfum, samgöngum og ýmsum þjónustustörfum. Þetta þurfa þeir, sem eru í Háskólanum, að vita, um þetta þurfa þeir að læra og þekkja þær áætlanir sem gerðar hafa verið af Þjóðhagsstofnuninni og landshlutasamtökunum og notfæra sér þær.

Ég hef alltaf viljað unna Reykjavík hins besta. Ég hef aldrei greitt atkv. með því að níðast á málefnum höfuðborgarinnar. Ég hef viljað leitast við að finna það sem er sanngjarnt og réttlátt fyrir íslenskt þjóðfélag, og það verður ekki gert nema með því að hafa yfirsýn yfir þjóðfélagið í heild og gera sér grein fyrir atvinnulífinu í öllum þáttum þess og greinum. Það tekst ekki með öðru móti. Ef ætti að fara að taka upp þann hátt á hv. Alþ. að metast um hverja krónu, í hvaða kjördæmi hún fer, þá væri stigið spor aftur á bak og þá fara þm. að tileinka sér það sem er lítið og lágt. Fram að þessu hafa alþm. yfirleitt reynt að hafa yfirsýn yfir þjóðmálin. Menn hafa yfirleitt ekki verið að metast um hverja krónu, í hvaða kjördæmi hún hefur farið. Reynt hefur verið að finna hvar þörfin sé fyrir fjárveitinguna og hvernig fénu sé best ráðstafað til þess að þjóðfélagið geti notið þess. Ég vona að það verði áfram sá andi hér í hv. Alþ. og það verði ekki verið að skapa deilur að óþörfu á milli stétta eða landshluta, milli Reykjavíkur og dreifbýlis, vegna þess að báðir þessir aðilar þurfa að vinna saman.

Það er rangt, sem hv. 9. þm. sagði hér áðan, að dreifbýlinu væri haldið uppi á kostnað þéttbýlisins. Það væri líka rangt að segja að þéttbýlinu væri haldið uppi á kostnað dreifbýlisins. Það er alveg öruggt að bæði þéttbýli og dreifbýli er nauðsynlegt í þessu landi og þessir aðilar þurfa að vinna saman. Ég held að það sé enginn vafi á því að byggðastefna að vissu marki er sjálfsögð og nauðsynleg. En það væri hægt að reka byggðastefnu þannig að hún gengi út í öfgar og verkaði öfugt. Það væri ekki hollt fyrir þá sem í dreifbýlinu búa að það yrði komið þannig fram við þéttbýlið að þar skapaðist atvinnuleysi, kaupgetan minnkaði og kjör manna, sem þar búa, versnuðu svo að landbúnaðarvörurnar yrðu ekki keyptar. Þannig mætti margt til telja sem gæti orðið dreifbýlinu til óþurftar ef níðst væri á þeim sem eru í þéttbýlinu. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa meðalhóf í þessu máli og reyna að finna skynsamlegasta veg og réttlátustu leiðina.

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég taldi ástæðu til að vekja athygli á því að það er ekki einsýnt að það sé fólkinu til hagnaðar að hækka framlag frá 32. gr. vegalaga til svokallaðs 10% sjóðs. Öll önnur ákvæði í frv. tel ég geta verið til bóta, ef fjármagn verður til þess að uppfylla þau atriði sem þar eru nefnd. En hv. samgn. tekur málið til meðferðar. Till. til vegáætlunar verður lögð fram og það fer vel á því að afgreiðsla þessa frv. verði samhliða afgreiðslu vegáætlunarinnar. Það er ekki mín till. að frv. verði frestað, heldur að 11. gr. verði skoðuð vel áður en frv. verður af greitt.