04.04.1975
Sameinað þing: 57. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Jón Gíslason fyrrv. alþingismaður og bóndi andaðist á sjúkrahúsi hér í Reykjavík í fyrrakvöld, miðvikudaginn 2. apríl, 79 ára að aldri.

Jón Gíslason var fæddur í Norðurhjáleigu í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu 11. jan. 1896. Foreldrar hans voru Gísli bóndi og hreppstjóri þar Magnússon bónda í Jórvík í Álftaveri og víðar Ólafssonar og kona hans, Þóra Brynjólfsdóttir bónda í Hraungerði og Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri Eiríkssonar. Skólanám hans var barnafræðsla í farkennslu og síðan unglingaskólanám í Vík í Mýrdal 1911–1913, alls 7 mánuði báða veturna. Hann vann við bú foreldra sinna fram á árið 1919, en tók þá við búinu og var bóndi til ársins 1962. Heimili átti hann í Norðurhjáleigu til dauðadags.

Jóni Gíslasyni voru falin ýmis trúnaðarstörf bæði í héraði og utan héraðs. Hann var oddviti Álftavershrepps árin 1928–1938 og 1946–1974, sýslunefndarmaður 1944–1974 og hreppstjóri 1947–1973. Í sauðfjársjúkdómanefnd átti hann sæti á árunum 1950–1964. Hann var alþm. Vestur-Skaftfellinga 1947–1953, sat á 6 þingum alls. Búnaðarþingsfulltrúi fyrir Búnaðarsamband Suðurlands var hann 1954–1974. Síðustu 2 árin var hann að mestu frá störfum vegna veikinda.

Jón Gíslason ólst upp á rausnarbúi foreldra sinna í Norðurhjáleigu. Faðir hans var áhugamaður um samvinnu í verslunarmálum og var stofnfundur Kaupfélags Skaftfellinga haldinn árið 1906 á heimili hans. Sjálfur tók Jón fram um afskipti sín af félagsmálum, að hann hafi tekið af nokkrum áhuga í starfi ungmennafélaganna frá 1908 og fram yfir 1930 og aðaláhugamál hans auk sveitabúskapar væru félags- og samvinnumál bænda. Hann átti lengi fyrir stóru heimili að sjá, var góðbóndi á föðurleifð sinni og bætti jörð sína mjög að ræktuðu landi og húsakosti. Hann vann ýmis trúnaðarstörf fyrir Kaupfélag Skaftfellinga, var deildarstjóri þess og aðalendurskoðandi, og aðalendurskoðandi Sláturfélags Suðurlands var hann rúma tvo áratugi. Á Alþ. var hann ötull baráttumaður fyrir hagsmunamálum héraðs síns. Búnaðarþing var kjörinn vettvangur fyrir áhugamann um velferð íslensks landbúnaðar.

Jón Gíslason var félagslyndur maður, en þó dulur í skapi, prúðmenni í framkomu og lét ekki mikið yfir sér. Hann var gervilegur að vallarsýn, þrekmenni, traustur og áræðinn ferðamaður um sanda og stórfljót, sem umkringdu byggðina þar sem hann ól aldur sinn. Hann var enginn málskrafsmaður á þingum, hygginn og tillögugóður, samvinnuþýður en þó fastur fyrir, ef því var að skipta, glaður í vinahópi, naut trausts og virðingar.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóns Gíslasonar með því að rísa úr sætum. - [Þm. risu úr sætum.]