21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

53. mál, vátryggingasamningar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er óaðskiljanlegur fylgifiskur með frv. til l. um breyt. á 71. gr. einkamálalaganna sem ég hef mælt hér fyrir áður og hv. allshn. hefur til meðferðar. Það er að sjálfsögðu ástæða til þess að ég mæli fyrir þessu frv., því að vitaskuld heyra vátryggingarsamningar almennt undir þann ráðh. sem fer með tryggingamál. En í þessu frv. um breyt. laganna um meðferð einkamála, 71. gr. þeirra, var gert ráð fyrir því að þegar notuð væri heimild til þess að skipta sakarefni í skaðabótamáli vegna slysa, þá væri einnig lögfest heimild til handa dómara til þess, ef sækjandi krefðist þess, að ákveða bráðabirgðafjárhæð til greiðslu upp í endanlega skaðabótarfjárhæð sem dæmd kynni að verða, þ.e.a.s. þegar sakarefninu er skipt á þá lund að dæmt er eingöngu um skaðabótaskylduna í fyrra þætti málsins. En til þess að sú heimild, sem lögfest verður, komi að fullum notum verður þetta ákvæði í lögunum um vátryggingarsamninga að koma til og taka þeirri breyt. sem lagt er til í þessu frv., þ.e.a.s. að þá sé lögð tilsvarandi skylda á vátryggjandann eins og á þann sem tjóni hefur valdið og að vátryggingafélagið verði þá einnig skylt til þess að greiða tjónþola þá fjárhæð sem dómari hefur talið rétt að úrskurða til bráðabirgða.

Eins og ég sagði er þetta frv. fylgifiskur frv. um breyt. einkamálalaganna og þess vegna nauðsynlegt að það fylgi því í könnun í n., og þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að þessu litla frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn. og hún taki þetta frv. til meðferðar í sambandi við margnefnt frv. um breyt. á einkamálalögunum og láti það fylgja því.