08.04.1975
Sameinað þing: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

189. mál, menntun í hjúkrunarfræðum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin og ekki síður þær viðbótarupplýsingar sem fram komu í svörum hans.

Það liggur fyrir að í þessum Nýja hjúkrunarskóla svonefnda eru engir nemendur eins og er. Ráðh. hefur skýrt þær ástæður, sem hann telur liggja þar að baki: húsnæðisleysi, skort hjúkrunarkennara, vandkvæði í sambandi við verklegt nám og !svo hitt, sem kom mér örlítið á óvart, að Hjúkrunarskóli Íslands hefði fullnægt eftirspurninni varðandi hjúkrunarnema á undanförnum árum, þ. e. a. s. að mati skólans, margar umsóknir hefðu verið þannig úr garði gerðar að þær hefðu ekki komið til greina vegna þess að nægilegur undirbúningur hefði ekki verið fyrir hendi hjá þessum tilvonandi nemum. Ég held að það þurfi einmitt að sjá til þess að það skorti ekki á þetta, vegna þess að ég tel að þarna muni ekki mikið á skorta varðandi menntun þessara ungu stúlkna að þær komist í þetta nám. Ástæða þessarar fsp. var afskaplega einföld. Það voru tvær ungar stúlkur sem báðu mig að grennslast rækilega fyrir um þessi mál. Þær kváðust hafa reynt að komast í hjúkrunarnám, töldu sig hafa allgóðan rétt til þess, en það hefði ekki tekist, Hjúkrunarskólinn væri fullsetinn. Nýi hjúkrunarskólinn hefði ekki tekið nemendur s. l. ár og mundi fyrst gera í haust, eins og reyndar kom fram í svörum ráðh., og þá óvíst hvernig færi. Ég taldi rétt að fá úr þessu skorið og sú er ástæða þessarar fsp., auk þeirrar almennu þarfar á aukinni hjúkrunarmenntun sem við blasir. Það liggur nú fyrir að þarna hefur farið á ýmsan annan veg en ráðgert var og þörf var álitin fyrir í upphafi, og ég efast ekkert um að sú þörf er enn þá fyrir hendi. Það verður að harma það að ekki skuli hafa betur til tekist til þessa, en hitt þá vonað að úr rætist. Eftir svörum ráðh. bendir raunar flest til þess. En vegna verklega þáttarins vildi ég minna á það hver nauðsyn það er að nokkur fjórðungssjúkrahús geti að hluta sinnt menntunarhlutverki heilbrigðisstétta og það í svo ríkum mæli sem kostur er. Það væri fátt vænlegra til lausnar þeim vanda, sem ný heilsugæslulöggjöf færir okkur óneitanlega ef ekki er allra fanga leitað til framfara og bættra skilyrða.

Ég vil sem sagt ítreka þá skoðun mína að námsbrautir í þessum efnum verði svo samtengdar sem mögulegt er, að ein loki ekki fyrir annarri eða hindri frekari nám beinlínis eins og nú er. Það er brýnt verk að vinna í framtíðarskipan skólamála okkar á framhaldsstigi í heild. Ég hef reyndar vakið athygli á því á öðrum vettvangi og skal ekki fara frekar út í hér, en þakka ráðh. fyrir svörin og þær ráðagerðir sem hann hefur uppi um bætt ástand þessara mála almennt.