08.04.1975
Sameinað þing: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

339. mál, framkvæmd vegáætlunar 1974

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir fróðlegt yfirlit yfir vegalagningu víðs vegar á landinu. En vegna þess að hann minntist í sínu máli á happdrættisskuldabréfaútboð, þá vil ég að það komi hér fram við þessar umr. að ég álít það hættulega fjáröflunarleið. Þau hafa reynst bæði dýr og þjóðhagslega hættuleg lán, þar sem þau ganga á veltufé þjóðarinnar — það veltufé sem ég álít vera vinnufé þjóðarinnar, fer til fjárfestinga, og kemur með miklum þunga á hið almenna útlánakerfi banka og annarra peningastofnana. Það segir sig sjálft, eins og raun ber vitni og ástandið er í banka- og peningamálum í dag, að það er þrengt þannig að atvinnufyrirtækjum að það má segja að atvinnurekstur allur, hvort sem hann er opinber eða einkarekstur, er nú í fjárhagslegum erfiðleikum. Ég vil láta það koma hér fram að við verðum að forðast að íþyngja þjóðarbúskapnum með því að vera með of margar dýrar framkvæmdir í gangi á dýrustu lánum, og við verðum að varast að gera of mikið á of skömmum tíma fyrir of lítið eigið fé.

Ég hef áður sagt við umr. um þessi mál í Ed. þessarar hv. stofnunar að ég álíti skynsamlegra að standa að vegalagningu almennt, ekki síst varanlegum vegum, á sama hátt og staðið er að virkjun fallvatna, hafa sömu starfsaðferð og viðhöfð er í orkumálum okkar, þ. e. a. s. að bjóða út vegagerð á Íslandi á sama peningamarkaði og gert er í orkumálum og sama vinnu- eða verktakamarkaði, þannig að hingað gætum við fengið á sama hátt í vegamálum og í orkumálum erlenda verktaka, stórfyrirtæki til að bjóða í þessi verk, og á ég þar við að skipulagt sé allt landið í einu. Ísland er ekki stórt land og þó að við bjóðum út 5 000–6 000 km og höfum ákveðin verkefni í gangi í varanlegri vegagerð í öllum landsfjórðungum í einu, annaðhvort með einum stórum verktaka eða kannske fjórum minni verktökum og íslenskir verktakar starfi þá sem undirverktakar með þessum erlendu verktökum, eins og þeir hafa gert í orkumálum, þá álít ég að það sé heppilegra heldur en að ráðast á íslenskan peningamarkað sem alls ekki þolir þær fjárfestingar sem við höfum lagt í að undanförnu í vegagerð og framkvæmdum yfirleitt með þessum útboðum á happdrættisskuldabréfum.

Ég vil miða endurgreiðslu slíkra lána við þær upphæðir sem skv. fjárl. hverju sinni eru ætlaðar til slíkra framkvæmda. Ef þannig er að staðið tel ég að við séum að nota rétt magn af eigin fé á fjárl. hverju sinni til opinberra framkvæmda.

Orð mín í þessu máli verða ekki fleiri að þessu sinni. En ég mun aftur taka til máls hvar sem framkvæmdir út á íslenskt lánsfé kemur til umr., því að það liggur ljóst fyrir að það lánsfé, sem tekið var fyrir 10 árum, hefur 13-faldast miðað við innlenda markaðinn, en það, sem tekið hefur verið í erlendum lánum, hefur um það bil 3-faldast.