08.04.1975
Sameinað þing: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara ýkjamörgum orðum um vegáætlunina við þessa umr., hún kemur til kasta fjvn., og það gildir um þingmál yfirleitt og ekki síst mál eins og vegáætlun, að afgreiðsla þeirra byggist fyrst og fremst á vinnu í n. og þingflokkum, en ekki á orðræðum í þingsal. En þegar vegáætlun er lögð fram nú fer ekki hjá því að upp rifjist meðferð þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1974–1977 sem lögð var fyrir hv. Alþ. s. l. vor. Þá var jafnframt með sérstöku frv. um fjáröflun til vegamála gert ráð fyrir hækkun bensingjalds frá 1. maí 1974 um 4.13 kr., í 14 kr. á lítra, og jafnframt talsverðri frestun framkvæmda þrátt fyrir till. um aukna fjáröflun. Síðan átti bensíngjald að hækka um eina kr. til viðbótar um áramótin 1974–1975, en á móti að falla niður 38 gjaldaliðir á ökutækjum.

Það fór nú svo þrátt fyrir margrómaðan áhuga alþm. á vegagerð að þessa tekjuöflun tókst ekki að tryggja Vegasjóði vegna neitunar þáv. stjórnarandstöðu, einkum Sjálfstfl., á að afgreiða málið. Var þar fremstur í flokki hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. samgrh. Ýmsir minni spámenn þáv. stjórnarandstöðu létu í ljós hvað þyrfti að gerast til þess að leystur yrði vandinn í vegamálum, hvað þyrfti að gera til þess að bæta úr þessari vegáætlun, þar sem gert var ráð fyrir frestun framkvæmda, — frestun sem þessir aðilar töldu ekki unnt að þola. Hv. 2. þm. Norðurl. e., sem þá var Halldór Blöndal varaþm., lýsti þeirri höfuðnauðsyn að þáv. ríkisstj. yrði lögð að veili, þá mundi vegáætlun taka stakkaskiptum, og sagði með leyfi hæstv. forseta:

„Ef á að bæta eitthvað það plagg sem hér er, þá verður það að gerast. Því miður getur það ekki gerst að neinu marki á þessu ári, en það gæti kannske farið svo að við tækjum menn sem öðruvísi héldu á málum. Þá er það von okkar, að næst þegar þessi vegáætlun kemur til endurskoðunar verði hægt að auka framkvæmdamagn hennar verulega, þannig að það sé a. m. k. í fyrirsjáanlegri framtíð hægt að búast við því, að það séu sæmilega öruggir og tryggir vegir í miðjum héruðum, sem er miklu meira en hægt er að segja núna, og sums staðar næsta undarlegt hvernig þolað hefur verið hvernig að hefur verið staðið.“

Þetta sagði hv. þm. í fyrravor. Og það fór nú svo sem allir vita að sameiginlegt áhlaup Varðbergsmanna, Sjálfstfl. og Framsfl. á lokatímabili vinstri stjórnarinnar gegn yfirlýstri stefnu þessarar stjórnar í herstöðvamálinu bar árangur, og vandlætingarleiksýning Sjálfstfl. gegn verðbólguþróun bar einnig árangur í kosningunum, svo að mynduð var hægri stjórn. Þegar hún hafði verið mynduð var að nýju farið að huga að fjáröflun handa Vegasjóði, og þá fór nú svo að sá hluti fyrrv. stjórnarandstöðu, sem harðast barðist gegn allri hækkun bensingjalds, lét sér ekki nægja hækkun um 4.13 kr. á lítra, heldur var gjaldið hækkað um 6.13 kr. og hefði þó hækkað um 7.13 kr. ef hv. 1. þm. Sunnl. hefði ekki verið of bráðlátur að semja um þá hækkun við Framsfl. án samráðs við flokksmenn sina. Hann varð með trega að slaka til um eina kr. vegna óánægju flokkssystkina sinna með vinnubrögðin. Hann fékk það hins vegar fram í sárabætur að þeir 38 gjaldaliðir á bifreiðaeigendur, sem áttu að falla niður um s. l. áramót, eru enn í gildi.

Nú er runnin upp sú stund sem hv. 2. þm. Norðurl. e. batt mestar vonir við, Vegáætlun er komi til endurskoðunar eftir að hægri stjórn hefur farið með völd í 7 mánuði, og mætti þá ætla að vonir hans og fyrirheit um að framkvæmdamagn vegáætlunar ykist verulega, eins og hann orðaði það, væru nú að rætast. Reyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir meiri tekjuöflun en gert var ráð fyrir við framlagningu vegáætlunar í fyrravor er ekki einungis enn gert ráð fyrir þeirri frestun framkvæmda sem þar var innifalin, heldur minnkar framkvæmdamagnið þar til viðbótar mjög verulega. Í mars 1974, um það leyti sem vegáætlunin var lögð fram, var vísitala vegagerðar 2036 stig. Þá var gert ráð fyrir framkvæmdum á árinu 1975 við nýja þjóðvegi, þ. e. hraðbrautir, þjóðbrautir, landsbrautir, girðingar og uppgræðslu og allar sérstakar áætlanir fyrir 1648.7 millj. kr., en í þeirri till. að vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að veittar verði 1711 millj. til þessara framkvæmda á árinu 1975. Vísitala vegagerðar er hins vegar talin 2691 stig í jan. s. l. Það þýðir að enda þótt einungis sé gert ráð fyrir þeirri vísitölu frá jan., þá ætti fjárveiting til þessara framkvæmda með hliðstæðu framkvæmdagildi og gert var ráð fyrir í till. um vegáætlun í fyrra að nema 2126 millj. kr. í stað 1711 millj. eins og hér er lagt til, þ. e. fjárveiting til þessa aðalframkvæmdaliðs ætti að vera 24.3% hærri en gert er ráð fyrir í þáltill. til þess að hún hefði sama framkvæmdagildi og gert var ráð fyrir í þeirri vegáætlun sem þm. Sjálfstfl. voru svo óánægðir með í fyrra. Til viðbótar þeim frestunum á framkvæmdum, sem þá var gert ráð fyrir á árinu 1975, lækka fjárveitingar til nýrra þjóðvega um nær fjórðung og þó í raun og veru enn meir því að reiknað er hér með vísitölu fyrir árið 1975, sem er miðuð við verðlag í jan. s. l., að viðbættri áætlaðri hækkun fyrir leigu vinnuvéla um 15%, en að öðru leyti hefur hvorki verið gert ráð fyrir verðlagshækkunum af völdum gengislækkunarinnar síðustu né þeim láglaunabótum sem nú hefur verið samið um. Ég hef engar upplýsingar um hversu miklu þessar hækkanir nema við vegagerð, en ljóst er af þessu að rýrnun framkvæmdamáttar fjárveitingar til nýrra þjóðvega á árinu 1975 nemur talsvert meira en 1/4 þeirrar upphæðar sem ætluð var til framkvæmdanna í vegáætlun, sem lögð var fyrir í fyrra. Raungildi fjárveitingar til brúargerðar á þessu ári minnkar á sama hátt miðað við janúarvísitölu 1975 um 74.1% í samanburði við áætlaðar fjárveitingar í þeirri till. til þál. um vegáætlun sem lögð var fram í fyrravor. Sú lækkun kemur til viðbótar þeim frestunum framkvæmda sem þá var gert ráð fyrir, og raunveruleg lækkun fjárveitingar er þó enn meiri ef tekið væri tillit til þeirra verðhækkana, framkominna og fyrirsjáanlegra, sem ekki er reiknað með í þessari vísitölu, eins og ég áðan greindi.

Það eru margar tölur og töflur, sem fylgja þeirri þáltill. um vegáætlun, sem hér er til umr., og það tekur sinn tíma að grynna í þeim. En ég held að þessi samanburður, sem ég hef hér verið að gera á veigamestu nýbyggingarþáttum á árinu 1975 í þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir, og þeirri, sem lögð var fram í fyrravor, lýsi því nokkuð hvað raunverulega felst í áætluninni. Þar er vegáætlunin í hnotskurn.

Margt væri hægt að segja um einstaka þætti vegáætlunar og um vegamálin almennt, en ég sleppi því að sinni. Ég á sæti í þeirri n. sem fær þáltill. til meðferðar, og þar gefst tækifæri til að fjalla nánar um einstök atriði.

Það fer ekki milli mála að vandi Vegasjóðs er mikill og meiri en nokkru sinni fyrr. Patentlausnir fyrrv. stjórnarandstöðu láta á sér standa. framkvæmdagildi fjárveitingar til vegamála stórrýrnar á sama tíma og reynt hefur verið til hins ítrasta á þot tekjuliða, ekki síst þegar höfð er í huga almenn stórskerðing kaupmáttar launa þeirra sem eiga að greiða þessi gjöld. Það er illleysanlegur vandi að gera áætlanir fram í tímann um tiltekið framkvæmdamagn þegar verðbólga geisar í þeim mæli sem nú á sér stað en aðaltekjuliðir eru bundnir í krónutölu á magneiningu söluvöru. Og þegar svo árar minnkar það ekki vandann að sá háttur er jafnan hafður á við afgreiðslu vegáætlunar að hverri krónu er ráðstafað í tilteknar framkvæmdir, en ekki svo mikið sem 10% af framlögum til einstakra framkvæmdaþátta eru skilin eftir óráðstöfuð, m. a. til þess að mæta verðhækkunum. Jafnframt því að á þanþol tekjuliða er nú reynt til hins ítrasta er framkvæmdamagn minnkað til viðbótar fyrri frestunum. En lántökum eru takmörk sett, ekki síst þegar sú hægri stjórn, sem nú fer með völd, hefur tekið tugmilljarða framkvæmdir í slagtogi með erlendum auðhring fram yfir allar þær nauðsynjaframkvæmdir sem landsmenn bíða eftir hvarvetna um landið, en nú eru skornar niður. Annars vegar eru skornar niður þær framkvæmdir, sem ákvarðaðar eru í fjárl., og hins vegar vegaframkvæmdir, eins og er gert ráð fyrir með þeirri till. til þál. um vegáætlun sem hér liggur fyrir.