08.04.1975
Sameinað þing: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2784 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það hefur þegar komið fram í þessum umr. að gert er ráð fyrir því í þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir að það þurfi að skera niður fyrri áætlanir um framkvæmdir í vegamálum mjög verulega. Öllum er um það kunnugt að á s. l. ári, árinu 1974, varð ekki hjá því komist að skera niður framkvæmdir í vegamálum allmikið frá fyrri áætlunum m. a. vegna þess að samkomulag fékkst ekki á hv. Alþ. um nýja og óhjákvæmilega tekjuöflun fyrir Vegasjóð. Í þeirri grg., sem fylgir vegáætlunartill. sem hér liggur fyrir, er frá því skýrt að á s. l. ári hafi af þessum ástæðum þurft að fresta eða ýta á undan sér áætluðum framkvæmdum sem hefðu kostað í kringum 1300 millj. kr. Og nú er gert ráð fyrir því að ýta ekki aðeins þessari sömu fjárhæð enn á undan sér heldur að auka þar einnig við, þannig að nú er gert ráð fyrir því, þegar litið er á framkvæmdir áranna 1974 og 1975, að þá þurfi að skera niður áður áætlaðar framkvæmdir sem nemur í kringum 2000 millj. kr. eða fresta þeim eins og hér er rætt um, fram til ársins 1976. Nú er enginn vafi á því að þessi niðurskurður nemur í raun og veru, miðað við núverandi verðlag, enn þá hærri fjárhæð en þessari sem hér er nefnd, því að þegar framkvæmdakostnaður þessara framkvæmda var reiknaður út var miðað við annað verðlag en nú er fyrirsjáanlegt að muni verða á árinu 1975.

Þess er getið í grg. með till. að á árinu 1976 sé ráðgert að verja til nýbyggingar vega, þ. e. a. s. til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta, 2150 millj. kr. á árinu 1976, en fresturinn, sem þá er á skollin frá árunum 1974 og 1975, nemur eins og ég sagði um 2000 millj. kr. eða álíka mikilli fjárhæð. Af þessu er ljóst að hér er um það að ræða að skera niður áður áætlaðar framkvæmdir í vegamálum stórkostlega.

Það er enginn vafi á því að allir hv. alþm. hljóta að leiða hugann að þessu. Þeir hljóta að hugsa um hvaða afleiðingar verða af þessu að það virðist vera stefnt að því að skera niður þessar framkvæmdir í vegamálum svo mikið. Ég er hræddur um að það samrýmist heldur illa þeirri mikið umræddu byggðastefnu sem mest er rætt um nú til dags. Núv. hæstv. ríkisstj. hafði gefið fyrirheit um að nú ætti að gera stórátak í byggðastefnumálum. En þessi niðurskurður, hvernig halda menn að hann komi við hina svonefndu byggðastefnu? Ég tel fyrir mitt leyti að sá niðurskurður, sem gert er ráð fyrir að verði að eiga sér stað, nái engri átt, það verði að leita allra ráða til þess að minnka þennan niðurskurð og það þurfi að huga að því hvort ekki eru til ráð til þess að útvega Vegasjóði starfsfé að láni eða með beinni tekjuöflunarleið þannig að þessi niðurskurður þurfi ekki að eiga sér stað í svona ríkum mæli.

Það er auðvitað alveg ljóst að niðurskurðurinn á þessu ári, á árinu 1975, verður mjög mikill í reynd frá s. l. ári, frá árinu 1974, þegar varð þó að grípa til niðurskurðar af þeim ástæðum sem hér hefur verið greint frá. Nú er samkv. þessari till. gert ráð fyrir því að til nýrra þjóðvega verði varið á árinu 1975 1711 millj. kr. borið saman við 1706 millj. kr. á s. l. ári. Ég hef ekki handbærar tölur um það hvað þetta þýðir í raun og veru mikinn niðurskurð í beinum framkvæmdum því að til þess að finna það út þyrfti að hafa framkvæmdakostnaðinn, sem reyndist vera á árinu 1974, og þann framkvæmdakostnað sem verða mun á árinu 1975. En áætluð fjárveiting samkv. þessari till. er svo til jöfn til þessara framkvæmda bæði þessi ár í krónum talið. En ekki þætti mér ósennilegt að raunverulegur magnniðurskurður yrði til nýbyggingar þjóðvega samkv. þessu á milli 30 og 40% á milli áranna 1974 og 1975, þegar meðaltalskostnaður á árinu 1974 er annars vegar lagður til grundvallar og hins vegar meðaltalskostnaður við framkvæmdir á árinu 1975 er hafður í huga. Hér er auðvitað um slíkan niðurskurð að ræða að ég álít að það komi ekki annað til mála en athuga gaumgæfilega hvort ekki eru til þess að forðast slíkan niðurskurð.

En auk þess að þetta blasir við, þá skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli hvernig á að verja því fé, sem til ráðstöfunar er, hvernig á að skipta því á hinar einstöku framkvæmdir. Viðurkenni ég strax að það er ofureðlilegt að menn geti greint nokkuð á um það á hvaða framkvæmd skuli leggja mesta áherslu og hverjar verði þá heldur að þoka. En þó eru nokkur atriði í þessum efnum sem binda alla þm. nokkuð. Það á t. d. að binda okkur nokkuð ef ákveðin loforð hafa verið gefin um framkvæmdir, ef samningar hafa beinlínis verið gerðir um framkvæmdir. Ef Alþ. hefur áður samþykkt tilteknar áætlanir um framkvæmdir þá ber vitanlega að taka tillit til þeirra áður en ráðist er í aðrar framkvæmdir sem engin loforð hafa verið gefin um. Í þessum efnum hlýt ég að vekja athygli á því að þegar kemur til þess að ráðstafa þessu allt of litla fjármagni þá sýnist mér t. d. að fjárveiting til svonefndrar Austurlandsáætlunar, en þar er um aðalvegaframkvæmdir á Austurlandi að ræða, fari mjög harkalega út úr till., sem hér liggja fyrir, og miklu verr en flestar aðrar framkvæmdir.

Ég vil þá fyrst minnast á það að svonefnd Austurlandsáætlun í vegamálum er þannig til komin að samkomulag var gert þar sem annars vegar stóðu allir þm. úr Austurlandskjördæmi og hins vegar sú ríkisstj. sem var við völd þegar þetta samkomulag var gert, bæði fjmrh. þeirrar ríkisstj. og samgrh. þeirrar ríkisstj. Þetta samkomulag mun hafa veið gert á þinginu 1970, fyrsta framkvæmdaárið átti að vera árið 1971. Í áætlun, sem var gerð um tilteknar framkvæmdir, þar sem ákveðnar framkvæmdir voru lagðar til grundvallar, eins og skýrt kemur fram í þeirri grg. sem fylgir þessari till., var gert ráð fyrir því að verja tilteknu fjármagni til að leysa af hendi þessar framkvæmdir á næstu 5 árum, og síðasta ár þessarar framkvæmdaáætlunar átti að vera árið 1975.

Á s. l. ári, árinu 1975, var varið til Austurlandsvegáætlunarinnar 107 millj. kr. og varð þó að skera niður framkvæmdir þá mjög verulega af þeim ástæðum sem hér hefur verið minnst á um stöðuna í vegamálum þá almennt. En nú er gert ráð fyrir að verja til Austurlandsáætlunarinnar á árinu 1975 ekki 107 millj. kr., eins og á s. l. ári, heldur 75 millj. kr. og síðan 75 millj. kr. á ári árin 1976 og 1977, — alltaf sama upphæð, 75 millj. kr. Þó er gerð grein fyrir því í fylgiplaggi með þessari till., að vegna þess að verðlag hefur gerbreyst á þessum framkvæmdatíma og einnig vegna þess að breyta hefur þurft framkvæmdum frá því sem áður var áætlað, — reynslan hafði sem sagt sýnt mönnum að fyrri áætlanir stóðust ekki, kringumstæður voru þær að það varð að standa öðruvísi að verkunum, — þá er gert ráð fyrir því að raunverulega vanti í þessa framkvæmd til þess að standa við áætlunina 531 millj.

Í grg. er réttilega sagt að brýnustu framkvæmdir varðandi Austurlandsvegáætlunina séu jarðgöngin undir Oddsskarð og vegurinn yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Og því er bætt við að fjárveitingar samkv. þessari áætlun á árunum 1975 og 1976 muni tæpast duga til að ljúka þessum tveimur verkefnum sem telja verður einna brýnust í Austurlandsáætlun. Nú hlýt ég að leiða athygli hv. Alþ. að því, hvernig ástatt er í þessum efnum varðandi Austurlandsáætlun. Hún hefur algera sérstöðu í þessum efnum að því leyti til að þar var samið um tilteknar framkvæmdir samkv. áætlun, ákveðið verk, og það ber vitanlega að reyna að standa við þetta samkomulag. Um aðrar áætlanir, sem nefndar hafa verið, eins og Norðurlandsáætlun, kemur fram í þessari grg. að þar hefur ekki verið samin nein áætlun um framkvæmdir í einstökum greinum fyrir árin 1976 og 1977. Það hefur ekki verið gert enn. En nú standa sakir einnig þannig í þessu tilfelli, t. d. varðandi þessa tvo þætti, þ. e. a. s. veginn til Neskaupstaðar og veginn til Seyðisfjarðarkaupstaðar, að þarna er um að ræða tvo stærstu staðina á Austurlandi sem eru þannig komnir nú í sambandi við vegamál að það er skemmst frá að segja, að þeir hafa verið slitnir úr öllu vegasambandi í um það bil 4 mánuði. Norðfjarðarmegin við Oddsskarð búa um 1800 manns. Hvar er hægt að finna byggðarlag á Íslandi af svipaðri stærð sem er slítið með öllu úr vegasambandi við aðalakvegakerfi landsins 4 mánuði á ári? Alveg hið sama er að segja um Seyðisfjörð. Til viðbótar við, að menn eiga við þetta að búa á þessum stöðum, kemur svo það að þegar þessir vegir eru loksins opnaðir, auðvitað með ærnum kostnaði í sambandi við snjómokstur, þá verður að loka þessum vegum í 1–2 mánuði á eftir á hverju ári fyrir mestallri umferð eða a. m. k. þeirri umferð sem skiptir hér mestu máli, vegna þess að vegirnir eru þannig úr garði gerðir að þeir þola ekki nema mjög létta umferð lengi á eftir. M. ö. o.: menn sjá að t. d. kaupstaður eins og Neskaupstaður er ýmist í engu vegasambandi eða nauðaómerkilegu vegasambandi um það bil hálft árið. Annars staðar rífast menn um, að það sé ekki mokað til þeirra tvisvar í viku eða meir þegar snjór fellur á veg, eða þá um að þeir verði að fá bundið slitlag á sína vegi. En í þessu sambandi hlýt ég að minna á það og bið alveg sérstaklega hæstv. samgrh. að taka eftir því, að til viðbótar við svona alvarlegt ástand eins og þessir staðir eiga við að búa í Austurlandskjördæmi hafa þessir aðilar samning við ráðh. — samgrh. og samþykkt Alþ. um framkvæmdir í þessum efnum sem hefur þurft að víkja frá ár eftir ár. Og nú þegar við stöndum frammi fyrir nýrri vegáætlun, þá er gert ráð fyrir því ekki aðeins að víkja frá þessu, eins og gert hefur verið, heldur að víkja frá því enn meir en nokkru sinni fyrr. Þetta er auðvitað svo alvarlegt mál að það er ekki hægt að víkja sér undan því lengur.

Göngin undir Oddsskarð eru þannig komin að það er búið að sprengja göngin í rauninni í gegn. Það er aðeins eftir næfurþunnt þil, sem menn hafa talið rétt að brjóta ekki í sundur fyrr en eitthvað meira gerðist í þessari framkvæmd. Það er búið að leggja veg að gangamunnanum öðrum megin og hinum megin liggur í rauninni vegur þó að hann sé ekki góður. Göngin eru að verulegu leyti gerð. En það á eftir að eyða miklu fjármagni í verkið til þess að það sé hægt að taka göngin í notkun. Á s. l. ári var ekki hægt að vinna neitt í þessum jarðgöngum, það varð að fresta því með öllu. Í stað þess var unnið að nokkrum verkum sem telja má skyld jarðgöngunum sjálfum eða eru í beinum tengslum við þau, en tiltölulega lítið verk.

Í Austurlandsáætlun er ekki aðeins um framkvæmdina á jarðgöngunum undir Oddsskarð að ræða eða vegagerð yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar, heldur einnig meginsamgönguleiðina — í rauninni alveg frá Hornafirði og norður eftir fjörðum, hluta af hringveginum, þar sem ýmsir kaflar eru þannig að það nær engri átt að stefna allri umferð landsmanna að meira eða minna leyti á þetta svæði án þess að halda áfram að reyna að ljúka þeim köflum á Austurlandsáætluninni sem var gert ráð fyrir að þyrfti að vinna. Ég sé ekki annað en ef ætti að standa að fjárveitingum á þann hátt sem gert er ráð fyrir í þessari till. varðandi Austurlandsáætlun, þá mættu menn bíða eflaust í næstu 5–10 ár enn þangað til þetta gæti komist í not hjá okkur. Og svo heyrir maður jafnvel um það talað að við ættum að reyna að koma okkur saman um að gera hér áætlun um það að leggja malbik eða varanlegt slitlag á allan hringinn í kringum landið. Sá hringur kæmi auðvitað ekki við t. d. hjá okkur í Neskaupstað, það er gefið mál.

Ég veit að hæstv. samgrh. vill að sjálfsögðu gera það sem unnt er til þess að leysa þann vanda sem um er að ræða í þessum efnum. Og því beini ég orðum mínum sérstaklega til hans að hér er um svo mikið alvörumál að ræða að það er engin leið að ætla sér að standa á till. eins og þeirri sem hér er lögð fyrir varðandi fjárveitingar til Austurlandsáætlunar, hún er alger fjarstæða. Auk þess er hún hrein brigðmæli í sambandi við það sem um hafði verið samið áður.

Ég tek eftir því að í þeirri till., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir einni verulegri breytingu frá því sem verið hefur í sambandi við ráðstöfun á þessu takmarkaða vegafé. Það er gert ráð fyrir því að verja um 500 millj. kr. á ári, sem er allstór fjárhæð borið saman við vegáætlunina í heild, til sérstakrar vegagerðar, til svonefnds Norðurvegar og Austurvegar. Í þeim efnum er vitnað í frv. sem hefur verið lagt fyrir Alþ. varðandi það mál. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt er hér fyrst og fremst átt við verulegar endurbætur á veginum frá Reykjavík til Akureyrar vestur um land og svo aftur verulegar endurbætur á veginum frá Reykjavík og um Suðurland til Austurlandsins. Þegar þetta frv. lá hér fyrir lýsti ég því yfir að ég gæti á það fallist og væri því hlynntur að við héldum áfram að nýta þann tekjuöflunarmöguleika sem við höfum notfært okkur nú um hríð, þ. e. a. s. að afla til sérstakra vegaframkvæmda í landinu fjár með svonefndri happdrættisskuldabréfaútgáfu. En það kom þá skýrt fram hjá mér og öðrum, sem þá ræddu um þetta mál, að gert var ráð fyrir því að þessi fjáröflun með þessum sérstaka hætti, happdrættisskuldabréfaútgáfu, yrði til þess að gera sérstakt átak í vegamálum landsins og valið yrði eitthvert sérstakt verkefni, mikilvægt verkefni, en hún yrði að sjálfsögðu umfram það sem venjulega hefur verið aflað til vegagerðar í landinu og þetta verkefni ætti ekki að koma í staðinn fyrir aðrar framkvæmdir í vegamálum. Mér hefði aldrei dottið í hug að fallast á það sjónarmið að tekjuöflunarmöguleikar Vegasjóðs í sambandi við almennar framkvæmdir Vegasjóðs yrðu nýttar í einhverja sérstaka framkvæmd og það yrði á kostnað annarra vegagerðarmála í landinu. En þannig er málum stillt upp að þessu sinni, að það er augljóst að gert er ráð fyrir því að afla minna fjár með lántökum og útboðum á láni hér innanlands og erlendum lántökum til vegagerðarframkvæmda í í landinu, þegar þessar 500 millj. eru skildar frá sem áttu að vera í sérstakt átak, en ekki á kostnað annarra framkvæmda. Ég get t. d. ekki fallist á að það eigi að svíkja áður samþykkta Austurlandsáætlun og þau brýnu verkefni sem þar þarf að leysa, til þess að fé verði handbært til þess að malbika vegi hér, þar sem vegirnir eru þó fyrir bestir í landinu. Það tel ég fráleitt.

Ég álít því að eins og vegáætlunin er sett upp í þessari till. verði ekki hægt að taka á þessum málum á annan veg en þann að taka þessa fjárhæð, þessar 500 millj. sem hér eru merktar sérstaklega til Norðurvegar og Austurvegar, og nota þá fjárhæð til þess að standa við þær áætlanir sem gerðar hafa verið áður og þau brýnu verkefni sem engin leið er að skjóta sér undan að leysa. Verði hins vegar aflað fjár til Vegasjóðs þannig að ekki þurfi að taka af þessum 500 millj. og þær geti gengið í þetta sérstaka verkefni umfram hið venjulega hjá Vegasjóði, þá lítur málið allt öðruvísi út.

Ég, eins og ég sagði í upphafi míns máls, skil mætavel að sitt sýnist hverjum um hvað beri að leggja áherslu á í vegagerðarmálum landsins. Víða er þannig ástatt að brýn þörf er á því að ráðast í framkvæmdir. En ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að við beina atkvgr. hér á Alþ. sé ekki til meiri hl. alþm. hér fyrir því að standa við þær samþykktir sem gerðar hafa verið, ekki aðeins af einni ríkisstj., heldur fleiri ríkisstj., viðvíkjandi Austurlandsáætlun, og hv. alþm. fallist ekki á að það verði að reyna að koma vegasambandinu í skipulegt horf til Neskaupstaðar og til Seyðisfjarðar, því að það er ekki til eitt einasta dæmi í landinu sem er neitt í samlíkingu við það sem menn búa við á þessum stöðum. Ég vildi a. m. k. mjög gjarnan að einhver reyndi að benda á einhver slík tilvik þar sem um er að ræða staði sem eru þó a. m. k. þetta stórir. Ég veit að það eru til staðir enn þá í strjálbýli sem ekki er jafnvel lagður vegur til.

Það er ekki víst að ég eigi þess kost að vera hér og taka þátt í endanlegri afgreiðslu þessarar vegáætlunar og af þeim ástæðum sérstaklega hef ég sagt það sem ég hef hér sagt varðandi afgreiðslu málsins. Ég fer mjög eindregið fram á það við hv. fjvn., sem fær þetta mál til athugunar, og að sjálfsögðu við alla hv. alþm. og ekki síst hæstv. ráðh. að tillit verði tekið til þessara ábendinga minna alveg sérstaklega varðandi fjárveitingar til Austurlandsáætlunar. Ég gæti að sjálfsögðu sagt ýmislegt varðandi það, hvað það þýðir fyrir byggðarlög eins og ég hef hér minnst á, að vera þannig sett í vegamálum en skal ekki gera það í löngu máli. Ég vil þó aðeins minnast á það, að vegna þess, hvernig ástatt er, höfum við t. d. í Neskaupstað, einum af myndarlegustu útgerðarbæjum á landinu, þurft í marga mánuði að fleygja í hafið miklum verðmætum af fiskúrgangi af því að við urðum fyrir því óhappi að verksmiðjan okkar féll í snjóflóði. Það hefur ekki verið nein leið að koma þessum mikla fiskúrgangi til nýtingar annars staðar. Við höfum ekki haft neinn veg til þess að keyra eftir, það hefur allt verið lokað. Það var engin leið önnur en að henda þessu hráefni. Auk þess er svo auðvitað það, að á Austurlandi er aðeins til eitt teljandi sjúkrahús, það er í Neskaupstað og einangrað á þennan hátt. Þar er aðeins til ein dráttarbraut sem tekið getur upp og þjónað stærri fiskiskipum. Það sjá allir að það er alveg útilokað að standa þannig að þessum málum að ekki verði bætt úr frá því sem nú er, og það er búið að dragast allt of lengi að ráða bót á þessum málum.

Ég veit að það er auðvelt verk að segja við okkur þm. Austf. að við hefðum átt að vera enn kröfuharðari en við höfum verið. En okkur er ljóst að við höfum þurft að líta þar í mörg horn og þessu hefur miðað grátlega seint. Úr því sem nú er komið get ég ekki séð annað en að þessar framkvæmdir eigi að vera í forgangsröð.

Það er alveg rétt sem hæstv. samgrh. sagði hér að það er auðvitað heildarfjármagnið sem veitt er til vegagerðarmála sem ræður því hvað hægt er að gera í þessum efnum. En það hefur ekki að mínum dómi verið reynt til fullnustu hvar hægt er að afla fjár til þessara framkvæmda eins og nú standa sakir. Ég vil ekki ganga inn á það fyrir mitt leyti að það eigi að vera svo takmörkuð upphæð að það megi ekki útvega meira fé en gert er ráð fyrir í þessari vegáætlun til þess ara framkvæmda. Ég er alveg sannfærður um að það er hægt að afla bæði hér innanlands og erlendis einnig lánsfjár til vegagerðarmála umfram það sem hér er reiknað með í þessari áætlun. Einnig kemur að sjálfsögðu til mála nú eins og áður, að athuga um sjálfa tekjustofna Vegasjóðs.

Herra forseti. Ég skal svo ekki tala hér lengra mál um þessa vegáætlun. Hún fer nú til fjvn. og að venju verður málið þar rætt ítarlega og eflaust rætt ítarlega við þm. hinna einstöku kjördæma. Ég tel víst að þessi áætlun taki breytingum og það miklum breytingum, eins og þessar áætlanir hafa jafnan tekið áður. En þó að það kunni að vera erfitt, eins og ég hef sagt, að velja þar á milli einstakra framkvæmda, þá eru þó viss mörk sem þar verða að ráða, miðað við það sem áður hefur verið gert. Ég sætti mig ekki við að það standi hér hátíðlega í grg. þessarar till. að það sé búið að semja um tilteknar framkvæmdir á ákveðnum hraðbrautarvegum í nánd við Reykjavík og við þetta verði að standa, en það þurfi hins vegar ekki að standa við það sem Alþ. hefur samþ. áður og a. m. k. tvær ríkisstj. hafa heitið að standa við gagnvart stöðum úti á landi. Ég álít að það verði að standa við það engu síður en hitt og þar á eftir verði síðan að koma athugun á öðrum og nýjum framkvæmdum.