21.11.1974
Efri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

45. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., var einnig til meðferðar á síðasta þingi, en varð ekki útrætt. Um margt má vísa til allítarlegrar framsögu um þetta mál þá, enda aðstæður allar og forsendur óbreyttar að öðru leyti en því, að enn frekari þörf er á skipan þessara mála í heild úti á landsbyggðinni. Þar kemur til aukning félagslegra þátta húsnæðismálanna, verkamannabústaða og leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, en þeir knýja á um aukin áhrif og viss völd út í landshlutana umfram það sem nú er, auk þeirrar almennu þjónustustarfsemi sem telja má aðra meginforsendu að frv.

Ég minntist á það í framsögu í fyrra að staðarvalsnefnd svokölluð hefði mjög fjallað um þessi mál. flutning stofnana frá Reykjavík eða stofnun útibúa frá þeim í landshlutunum. Það álit, sem þar er væntanlegt, þykir án efa nokkuð byltingarkennt og trúað gæti ég að hrollur færi um ýmsa þá í kerfinu okkar, sem trúa því að núgildandi skipan sé hin eina rétta og hafa sjóndeildarhring upp undir Esjuna eða tæplega það. En fólkið á landsbyggðinni sækir á um aukinn rétt, aukið vald, og meiri samstaða um sameiginleg baráttumál gefur baráttunni aukinn mátt, aukið gildi. Ég ætla að vona og veit reyndar að það muni móta till. okkar og rök í ríkari mæli en þröngsýn afturhaldssjónarmið skrifborðsþræla hinna ýmsu stofnana, sem svo sannarlega hafa komið í ljós víðar og meir en við væntum.

Húsnæðismálin eru tekin upp hér á Alþ. sem nokkur prófsteinn á það hver afstaða þings og stjórnar er í raun gagnvart hugmyndum sem þessum. Þau eru tekin fyrir vegna þess að þau eru í brennidepli þjóðfélagslegra viðfangsefna og alveg sérstaklega hefur orðið þar á stökkbreyting úti á landsbyggðinni, stökkbreyting sem kallar blátt áfram á aðra og betri skipan mála en nú viðgengst. Það þarf vart að rekja hér fyrir hv. alþm. hvernig þessi mál eru stödd í dag, hvernig öll ákvarðanataka, öll afgreiðsla, stór sem smá fer fram hér í Reykjavík, fyrir utan það að menn fá að skrifa nafnið sitt í einhverju bankaútibúinu og þangað fer svo lánið seint og siðar meir, þegar búið er að senda gögnin suður, síðan t.d. austur á ný og svo enn suður, sem sagt þjónustan er í lágmarki og kannske neðan þess.

Hér er ekki um að kenna slæmum mönnum, heldur slæmu kerfi. Út úr vítahring þess viljum við flm. brjótast með frv. þessu, þótt eflaust þurfi ýmsu að breyta og setja um nánari ákvæði nái megintilgangurinn fram að ganga.

Á það hefur t.d. verið minnst að frv. gangi of skammt, eitt útibú sé ekki fullnægjandi t.d. á Austurlandi, og eins hitt, að ekki skuli gert ráð fyrir útíbúi á Vesturlandi, þar sem íbúar Snæfellsness og Dalasýslu séu a.m.k. í svipaðri aðstöðu og þeir landshlutar sem frv. gerir ráð fyrir að fái útibú. Hvort tveggja hefur við rök að styðjast, seinna atriðið raunar sjálfsagt sanngirnismál þegar betur er að gáð. Hins vegar er rétt við útibúastofnanir sem slíkar að fara sér hægt og rasa ekki um ráð fram, en gera útibúin í þess stað virk og raunhæf, gera vald þeirra sem mest og notagildi fyrir íbúana einnig sem fjölþættast og best.

Ég heyrði því fleygt varðandi frv.-flutning þennan á síðasta þingi að mörgum valdaaðilum í bankakerfinu þætti vel fyrir þessum málum séð frá sinni hálfu þar sem þeir önnuðust afgreiðslu lánanna endanlega, þ.e. útborgun þeirra, ef útborgun skyldi kalla, því að venjulega hefur viðkomandi banki lánað nær alla lánsupphæðina og gerir ekki annað en að taka lánið upp í víxilskuldir. Með þessu frv. stefnum við að allt annars konar þjónustu en hér um ræðir þótt engir annmarkar séu á því samkvæmt frv. að sérhvert bankaútibú eða sparisjóðir geti annast endanlega afgreiðslu og útborgun lánsins. Það er aukaatriði málsins. Þjónusta þessara annars ágætu stofnana, sem hér um ræðir, hefur á margan veg verið verri og minni en æskilegt hefði verið, en þá undirstrika ég líka að hún er síður en svo einsdæmi hér um. Miklu frekar er um dæmigerða staðlaða stofnanagerð að ræða og þjónustu eftir atvikum, stundum góð og stundum slæm og stundum alls engin. Stofnunin er eins og margar aðrar bundin mörgum skjölum, vottorðum og uppáskriftum alls konar eða í einu orði sagt því pappírsflóði sem Parkinsonslögmálið krefst af hverri stofnun, sem allt vill hafa í lagi og löglegt í alla staði, eins og það heitir ef einhverjum smávægilegum, einskisverðum formsatriðum hefur ekki verið fylgt át í æsar. Nú skulum við ganga út frá því að öll þessi plögg séu nauðsyn. Þá er auðveldara og betra með að fylgjast ef stofnunin er í nánd, svo sem útibú í hverjum landshluta yrði, færri umsóknir yrðu á hverjum stað og auðveldara yrði um öll svör en oft er nú.

Eitt vottorð getur dregið lánshæfni íbúða um mánuði og oft er því gleymt að tilkynna viðkomandi að enn vanti þetta vottorð svo að allt sé í lagi.

Upplýsingamiðlun hefur farið í vöxt hjá Húsnæðismálastofnuninni, byggingafulltrúar hafa sótt námskeið og hlotið aukna fræðslu og leiðbeiningar í starfi, en enn vantar þó mikið á að allt sé hér sem skyldi og væntanlegur húsbyggjandi fái þær upplýsingar sem duga til þess að allt fari fram á réttan hátt og lánveiting komi á eðlilegum tíma. Viðkomandi útibú tæki slíkt upplýsinga- og fræðslustarf að sér á sínu svæði og næði auk þess nánara og betra sambandi við þá sem í einstökum byggðarlögum þyrftu að vera leiðbeinendur húsbyggjenda.

Ég hef heyrt efasemdarraddir um það að útibú sem þessi hefðu næg verkefni. Auðvitað fer þetta atriði mjög eftir þróun byggðar á Íslandi og húsbyggingum á landsbyggðinni. En verkefnið á og þarf að verða ærið. Óleyst verkefni bíða hvarvetna stórátaka, ekki síst á því félagslega sviði sem við höfum vanrækt um of. Það leiðir af sjálfu sér að útibú sem þessi hefðu með íbúðarbyggingar í sveitum að gera, annaðhvort í umboði Stofnlánadeildar eða — sem ég teldi eðlilegra — að íbúðarhúsalán til bænda féllu undir Húsnæðismálastofnun ríkisins og yrðu í svipuðu formi og verkamannabústaðir þéttbýlisstaðanna á margan hátt, a.m.k. til allra hinna efnaminni bænda. Við þetta bættist svo, eins og reyndar er vikið að í grg., það viðbótarverkefni, það viðbótarsvið sem fólgið er í samruna útibúa af þessu tagi og skipulagsskrifstofa frá Skipulagi ríkisins, sem landshlutasamtök sveitarfélaganna hafa gert ákveðnar kröfur um að fá út í landshlutana og þá um leið reyndar að þessi þáttur yrði á þeirra vegum, sem vel má vera að sé heppilegast, þó að ég telji eðlilegt að heildareftirlit og yfirsýn séu í höndum ríkisstofnunar áfram. Samtenging þessara tveggja sviða, húsbygginga og skipulags, ætti að vera auðveld og eðlileg, svo mikil og sjálfsögð tengsl sem þarna eru á mill. Hvort tveggja er a.m.k. ærið í eina stofnun í hverju kjördæmi, einkum ef framtíðarstefna húsnæðismála verður sú að efla sem mest húsbyggingar á framleiðslustöðum landsbyggðarinnar með virkri þátttöku sveitarfélaganna í þeirri framþróun, — stefna sem verður að ná fram að ganga. Atvinnuleg umbylting á fjölmörgum stöðum utan Reykjavíkur kallar á aukið húsnæði sem fyrst, og þeirri þörf þarf þjóðfélagið að sinna framar öllum Breiðholtum höfuðborgarsvæðisins. Nægir að benda á þá margtuggnu þjóðhagslegu nauðsyn sem í því er fólgin, þó að mér sé ofar í huga jafnréttisaðstaða landsbyggðar og þéttbýlis í þessu sambandi. Til viðbótar kæmi svo verkfræðiþjónustumiðstöð sem landshlutasamtök sveitarfélaga hafa mjög haft á orði að koma upp í hverju kjördæmi. Samspil þessara þriggja þátta, skipulags, verkfræðiþjónustu og húsnæðismálanna, er ótvírætt og kemur víða heim og saman. Allt þyrfti þetta að athugast samhlíða.

Þá er ég e.t.v. kominn að viðkvæmasta atriðinu, þ.e. hvert vald ætti að vera hjá útibúum sem þessum, hver hlutur þeirra í heildarfjármagni húsnæðismálanna á hverjum tíma. Um þetta er erfitt að setja ákveðnar reglur, en skoðun okkar flm. er sú að valdsviðið eigi að vera sem víðast og umfram allt að ná til allra þátta húsnæðismála og þá, eins og áður er sagt, til beinnar örvunar félagslegra framkvæmda í húsbyggingum. Byggðanefnd Alþ. mun eflaust endurflytja frv. um sérstök örvunarlán út á landsbyggðina og væntanlega fæst það nú í gegnum þingið, og þótt Byggðasjóður verði hinn formlegi lánsaðili hlytu þessi lán einnig að koma til kasta útibúa af þessu tagi. Meira að segja ættu heimaaðilar að hafa um þau ákveðinn rétt til miðlunar og sem æskilegastra áhrifa.

Að sjálfsögðu lytu þessi útibú yfirstjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins en okkar ætlan er sú að allt undirbúningsstarf, öll afgreiðsla og öll ákvarðanataka innan ramma laganna eigi að fara fram í útibúunum sjálfum, m.a. þættir eins og verkamannabústaðir og leiguíbúðir á vegum sveitarfélaganna. Þannig sér útibú af þessu tagi í tengslum við bankaútibú um allar veðtryggingar og endanlegan frágang lánsskjala. Allar sendingar til Reykjavíkur eru óhæfa þegar útibúin eru komin virk og um leið ábyrg.

Annað atriði, sem yrði að koma inn í reglugerð og ekki yrði raunhæft að lögbinda, er fjármögnunaraðferðin. Sumir hafa rætt þann möguleika að hver landshluti fengi sinn ákveðna kvóta í heildarfjármagninu til húsnæðismála á ári hverju. Það væri fásinna og óframkvæmanlegt. Hins vegar hvílir sú skylda á æðstu stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar og ríkisvaldinu í heild að sjá útibúunum fyrir nægilegu fjármagni árlega til að uppfylla þarfir hvers landshluta að fullu. Um það gilda engar fyrirframreglur, en sjálfstæði útibúanna verður því aðeins tryggt að æðsta stjórnin skerði í engu þeirra hlut og umbeðið fé verði ávallt til reiðu refjalaust þegar þess er þörf. Æðsta stjórn í Reykjavík þarf að hafa heildaryfirsýn yfir þróunina í húsnæðismálum almennt, vera þar örvandi og hvetjandi aðili, en forðast þá mismunun sem á hefur borið, en þar á ég við það að aldrei hafa fjárhagsörðugleikar stofnunarinnar verið látnir í neinu bitna á Breiðholtsframkvæmdunum, heldur sífellt komið niður á landsbyggðinni með einum eða öðrum hætti.

Þetta frv. er vissulega nokkur prófsteinn á vilja Alþ. til útibúamyndana af þessu tagi og ég veit um stuðning og velvilja þm. úr öllum fokkum við framkvæmd af þessu tagi. Um fyrirkomulag allt og nánari fyrirmæli um einstök atriði hlýtur til að koma reglugerð, og sömuleiðis eru ýmis atriði frv. sjálfs þess eðlis að eflaust þurfa þau nánari athugunar við. N. sú, sem fær frv. til meðferðar, fær umsagnir og álit þeirra sem gerst til þekkja, og má þá sníða af þá agnúa sem á kunna að vera. Sífellt tal um nauðsyn þess að auka vald landsbyggðarinnar og sjálfstæði í hinum ýmsu málaflokkum er hins vegar til lítils gagns fyrir íbúana ef ekki fylgja framkvæmdir í kjölfarið, raunhæfar, en virkar. Um þennan þátt er eðlilegt að fjalla nú þegar víða hafa orðið straumhvörf í húsbyggingum og fólk vill gjarnan flytja út á landsbyggðina, en erfiðasti þröskuldurinn er þá oft húsnæðisleysi í hinum einstöku byggðarlögum. Fátt veit ég vænlegra til að viðhalda þessari þróun og efla hana en að færa þjónustuna til fólksins í auknum mæli, eins og hér er lagt til, og veita fólkinn sjálfu hlutdeild í því skipulega átaki sem gera þarf til að færa húsnæðismál landsbyggðarinnar í viðunandi horf.

Að öðru leyti vísa ég til grg. og framsögu í fyrra, en bendi að lokum á mjög eindregin meðmæli með frv. úr þeim landshlutum sem hér hafa búið við skarðastan hlut. Það er krafa fólksins byggð á beinni þörf sem hér er verið að koma á framfæri og ég vænti stuðnings sem flestra við þá kröfu.

Herra forseti. Ég vil svo að lokinni þessari umr. leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.