09.04.1975
Neðri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austf. gaf mér tilefni til þess að standa hér upp og segja nokkur orð. Að vísu held ég að ég megi segja, að flest þau atriði, sem hann nefndi í sinni ræðu, hafi komið til umr. hér áður, þegar þetta frv. hefur verið til meðferðar, en hann virðist ekki hafa hlustað þá. Þess vegna vil ég gera nokkrar aths. við það sem hann sagði hér.

Það kom fram í ræðu hans að það virtist nauðsynlegt að setja þessi lög til þess að knýja sveitarfélögin til aðildar að landshlutasamtökunum. Þetta er rangt. Það er ekki verið að setja þessi lög í þeim tilgangi að knýja sveitarfélögin til aðildar. Hins vegar er skylduaðild sveitarfélaganna nauðsynleg að landshlutasamtökunum ef þau eiga að rækja þau hlutverk sem Alþ. hefur falið þeim. Þar með má telja verkefni sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur sjálfur tekið þátt í að fela landshlutasamtökunum og ég nefni hér enn grunnskólalögin.

Hv. þm. spurði hvort ætti að túlka lagasetninguna þannig að landshlutasamtökin gætu skuldbundið hinar einstöku sveitarstjórnir fjárhagslega. Ég get ekki séð nokkurt ákvæði í þessu frv. sem bendir til þess að landshlutasamtökin geti skuldbundið einstakar sveitarstjórnir fjárhagslega umfram það sem varðar ráðstöfun á tekjum landshlutasamtakanna. Og eins og menn vita, þá eru tekjur landshlutasamtakanna þær, að annars vegar er það framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hins vegar eru það framlög, sem hinar einstöku sveitarstjórnir láta af hendi eftir ákveðnum reglum. Og landshlutasamtökin hafa ekki yfir öðru fé að ráða og geta þess vegna að mínu mati alls ekki með samþykkt skuldbundið einstakar sveitarstjórnir umfram það.

Hann spurði einnig, hv. þm., að hvaða leyti ætti að skerða forræði sveitarfélaganna. Það á alls ekkert að skerða forræði sveitarfélaganna með samþykkt þessa frv. Ég get ekki séð neitt ákvæði í því sem skerðir forræði þeirra.

Einnig talaði hann um að ef landshlutasamtökin eigi að fá fjárhagslegt vald þá þurfi að standa öðruvísi að verki eins og ég held að hann hafi orðað það. Ég er honum algerlega sammála um það og hef áður lýst þeirri skoðun minni að ef ætti að gera landshlutasamtökin að einhverri sérstakri valdastofnun í þjóðfélaginu, þá ætti að standa öðruvísi að. Ég er þm. sammála um þetta, og ég held að við þurfum ekkert að ræða það frekar.

Þá taldi hv. þm. ekkert athugavert við það að frjálsum samtökum sem þessum, eins og þau eru í dag, væru falin einstök verkefni. Það er alveg rétt að það er ekkert athugavert við það að fela frjálsum samtökum ákveðin verkefni af hálfu ríkisins meðan einstakir þátttakendur í slíkum samtökum skorast ekki undan að vinna slík verk.

Hann taldi að það hefði ekki komið að sök í einu einasta tilviki að lög skorti um þetta efni. Þetta er ekki rétt. Ég hef dæmi um að það hefur einmitt komið að sök að lög skorti um landshlutasamtökin. Ég nefni þar enn einu sinni ákvæði grunnskólalaganna um fræðsluráðin. Það hefur ekki tekist að koma þeim á eins og lög gera ráð fyrir einmitt vegna þess að einstakar sveitarstjórnir hafa skorast undan og þær hafa getað það. Meðan svo er verður a. m. k. þessu ákvæði grunnskólalaganna ekki fullnægt. Þar höfum við ljóst dæmi um að það, að lög skortir, kemur í veg fyrir að verkefni, sem sjálft Alþ. hefur falið þessum landshlutasamtökum að rækja, hefur ekki verið hægt að koma í framkvæmd.

Hér er svo sífellt verið að tala um einhver yfirsamtök. Þetta er rangt. Það er ekki verið að setja hér neitt yfirvald yfir sveitarfélögin í landinu. Það er ekkert ákvæði í þessu frv. sem bendir til þess. Þarna er hreinlega um rangtúlkun að ræða sem ég held að menn ættu að hætta.

Hv. þm. nefndi dæmi máli sínu til stuðnings um það hvernig löggjöf væri dæmd til að mistakast ef andstaða væri af hálfu sveitarfélaganna, og hann nefndi þar iðnskólana. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. að sú löggjöf er mistök og mun aldrei takast að koma henni á. En ég held að orsökin sé fyrst og fremst sú, að það er rangt að láta sveitarfélögin greiða nokkurn hlut í rekstrar- eða stofnkostnaði iðnskóla. Því er sú löggjöf dæmd til að mistakast.

Þá talaði hv. þm. um það að það ætti ekki að fyrirskipa sveitarfélögunum eitt eða neitt af hálfu Alþ., t. d. það hvort ættu að vera ein eða tvenn samtök í einstökum landshlutum. En eins og allir vita nær Fjórðungssamband norðlendinga yfir tvö kjördæmi, Norðurl. e. og Norðurl. v. Ég er þm. alveg sammála um að það á ekki að fyrirskipa eitt eða neitt þarna og þess vegna styð ég þá brtt. sem hv. þm. Pálmi Jónsson mælti hér fyrir áðan, þess efnis að ef sveitarstjórnir í Norðurlandskjördæmunum óska eftir því að samtökin verði tvenn, þá verði þeim það heimilt. Ég er algerlega sammála þessu. Það á ekki að fyrirskipa að þessu leyti eitt eða neitt. Hins vegar legg ég áherslu á að það verði ekki farið að kveða á um einhver önnur mörk þessara samtaka heldur en kjördæmismörkin, og það segi ég einfaldlega vegna þess að það er nægur ruglingur fyrir í allri umdæmaskiptingu landsins. Það má nefna þar fjölmörg dæmi sem ég hirði ekki um núna, en það er ekki ástæða til að bæta við þann rugling sem þar er.

Þá er verið að tala um það sífellt að verið sé að blanda hér saman samtökum sveitarstjórna annars vegar og hins vegar stofnun sem eigi að vera hluti af framkvæmdavaldinu. Þetta er líka rangt. Það er ekkert verið að blanda þessu saman. Þetta eru hrein samtök sveitarstjórna og ekkert annað. Ef við værum hér að koma upp einhverju sérstöku framkvæmdavaldi og valdi, sem hefði yfir sveitarstjórnunum að segja, þá er ég, eins og ég sagði áðan, sammála hv. þm. Lúðvík Jósepssyni um að það á að standa öðruvísi að verki, það á að standa öðruvísi að kosningum t. d. til þessara samtaka en hér er gert ráð fyrir. Kosningin, eins og hún er sett fram í þessu frv., er eðlileg einmitt vegna þess að þetta eru samtök sveitarstjórna og ekkert annað. Þess vegna er ekki verið að blanda hér þessum tveimur þáttum saman eins og hv. þm. sagði.

Þá gerði hann að umtalsefni, að í grg. kæmi fram að almenn endurskoðun stæði yfir á sveitarstjórnarlögunum og spurði hvað það væri sem knýr á um að þetta frv. yrði að lögum. Það er að nokkru leyti rétt að endurskoðun stendur yfir. Þó vil ég heldur segja að hún hefur staðið yfir. Það var starfandi n. á síðustu árum sem var falið það hlutverk að endurskoða sveitarstjórnarlögin. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi, að sú n. telur að hún hafi lokið sínu hlutverki sem er þó ekki nema einn þáttur af því verki sem henni var falið. Og það er sá þáttur, sem varðar fylkjaskipan, og þar er einmitt komið inn á þetta svið, en með allt öðrum hætti en hér er verið að gera. Þar er ekki lagt til að starfandi verði í landinu slík samtök sveitarstjórna sem hér er verið að tala um, þ. e. samtök eins og þau sem hafa starfað í landinu, heldur verði komið á fylkjum sem verði kosið til með sérstökum hætti og í beinum kosningum. Að öðru leyti hefur sú n., sem starfað hefur, ekki endurskoðað sveitarstjórnarlögin.

Ég vil að lokum segja það að ég tel þessa lagasetningu nauðsynlega, einkum til þess að þessi mál hætti að þróast fyrir algera tilviljun, en það hafa þau gert og það tel ég hættulegt. Með því að samþykkja þetta frv. verður öllum ljóst hver staða landshlutasamtakanna er í stjórnkerfinu og hver hún verður þar til Alþ. kann að kveða á um aðra skipan. Það hafa komið fram ítrekaðar óskir af hálfu sveitarstjórnarmanna um að þetta frv. verði samþ. Þetta hefur margsinnis verið til meðferðar á landsþingum Sambands ísl. sveitarfélaga, á fulltrúaráðsfundum þess og á fundum landshlutasamtakanna. Ég veit ekki betur en allir þessir aðilar hafi margítrekað óskað eftir því að þetta frv. verði að lögum.

Ég vil svo taka undir orð hv. þm. Pálma Jónssonar að landshlutasamtökin eiga ekki að verða valdastofnanir, ekki í þessu formi, sem við erum að óska eftir hér að þau verði lögfest í, heldur verði þetta þjónustustofnanir, þau sinni verkefnum í umboði viðkomandi sveitarstjórna, verkefnum sem sveitarfélögin valda ekki hvert og eitt eða þá verkefnum sem þau telja af öðrum ástæðum heppilegt að vinna að sameinuð fremur en sundruð.