09.04.1975
Neðri deild: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er ekki á hverjum degi sem hægt er að vera sammála hv. 2. þm. Austf. í öllum meginatriðum. Ég hlustaði á hann með athygli og þótti hann hafa all mikil rök fram að færa sem ég ætla ekki að fara að hafa hér yfir eftir honum, en skírskota til ræðu minnar sem ég flutti við 1. umr. málsins. En í lok ræðu sinnar benti hann á það, sem við vitum allir eða eigum að vita, að öll þessi mál eru í endurskoðun og ég sé ekki að það megi ekki a. m. k. hinkra eitthvað við eftir þeirri endurskoðun.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. talaði nokkur orð fyrir brtt. sem í sjálfu sér er mjög eðlileg og hafði ég ekkert út á þau rök hans að setja. En hann sagði þessi athyglisverðu orð, ef ég hef þau rétt eftir honum, að þessi samtök, landshlutasamtök sveitarfélaga, eiga ekki að vera valdstofnanir, heldur þjónustustofnanir. Þau eiga að vera það áfram eins og þau hafa verið. Þarna held ég að hann og fleiri, t. d. hv. þm., sem var hér að ljúka ræðu sinni, ættu að athuga málið örlítið betur. Með því að lögfesta þetta frv. er einmitt verið að gera þessi samtök að valdstofnunum þó að það sé e. t. v. ekki í mjög stórum stíl fyrst í stað, en það er engin hætta á öðru en þau færi sig upp á skaftið áður en langir tímar líða.

Hv. 5. þm. Reykn., sem hér lauk máli sínu, er vorkunn þótt hann tali fyrir þessu máli í þeim anda sem hann gerði. Hann hefur manna mest og best unnið í þessum samtökum á undanförnum árum og hefur á þeim málum mikinn áhuga. Ég get þó ekki verið sammála öllu því, sem hann sagði, m. a. að þessi mál megi ekki halda áfram að þróast, eins og hann nefndi það, fyrir algera tilviljun. Ég tel að þessi mál og þessi samtök geti mjög auðveldlega haldið áfram að þróast eðlilega þótt ekki verði gripið inn í gang mála núna með lagasetningu.

Eins og ég sagði ætla ég ekki að hafa um þetta mörg orð, en vitna til fyrri ræðu minnar, tek aðeins fram að lokum að ég ann þessum samtökum, landshlutasamtökum sveitarfélaga, alls góðs. Þau hafa margt gott gert á liðnum árum, ég get fyllilega tekið undir það. Ég get jafnvel skilið áhuga forráðamanna þeirra að vilja komast í íslenska lagasafnið, því hefur verið haldið fram að þetta frv. sé flutt að eindregnum tilmælum Sambands ísl. sveitarfélaga og það er sennilega alveg rétt. En ef grg. er lesin kemur berlega í ljós, að landssamtökin sjálf hafa ýtt mjög á stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga að koma þessu máli áfram.

Ég læt þessi fáu orð nægja, en segi að lokum að ég styð þessi samtök sem áhugamannasamtök, viðurkenni það, sem þau hafa gert vel, og mun styðja þau áfram til ýmissa góðra verka þótt ég sé ekki reiðubúinn til að samþykkja þetta frv.