10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í sambandi við afgreiðslu þáltill. á þskj. 60 um stækkun Áburðarverksmiðju ríkisins, sem er til umr., vil ég segja nokkur orð þar sem ég var ekki viðstaddur þegar till. var tekin til fyrri hl. umr.

Eins og kunnugt er hafa þessi mál mjög verið til umr. á þessum vetri vegna þeirrar gífurlegu áburðarhækkunar sem varð og verður á þessu ári og hefur verið mikið vandamál. Á s. l. ári kom upp umr. um að nauðsyn hæri til að fara að athuga um frekari stækkun á Áburðarverksmiðju ríkisins, en eins og áður er fram tekið kom stækkun sú, sem áður var lokið, til framkvæmda á árinu 1972.

Ég hafði hugsað mér í samráði við forstöðumenn Áburðarverksmiðju ríkisins að skipa sérstaka menn til að athuga þetta mál og hafði þá einnig í huga að það yrði gert með þeim hætti að athuga hvort ekki gæti einnig komið til greina að byggja aðra áburðarverksmiðju sem ekki yrði í tengslum við þessa ef það reyndist hagkvæmt að flytja út áburð sem er ekki með öllu talið óhugsandi. Að athuguðu máli og eftir að hv. flm. hafði rætt þetta mál við míg fannst mér rétt að láta málið fara inn á Alþ. til þess að hafa stuðning Alþ. fyrir þeirri ákvörðun að taka þetta mál til sérstakrar athugunar og hugsanlegrar framkvæmdar eða framkvæmdar að því leyti sem varðar undirbúning málsins. Ég taldi mikið öryggi í því, ekki síst þegar jafnhliða var verið með erfiðan hnút í þessu máli þar sem er áburðarverðið á þessu ári, 1975. Þess vegna er það mér ánægja að hv. n., atvmn. Alþ., sem hefur fengið þetta mál til meðferðar, stendur öll að því að gera till. um að það verði samþ. og Búnaðarþing hefur einnig fjallað um það. Ég tel að fram sé komin sú viljayfirlýsing sem mér fannst að athuguðu máli nauðsynleg til að taka ákvörðun um undirbúning þessa máls.

Ég mun því í framhaldi af afgreiðslu þessarar till. hér á hv. Alþ. skipa n. til að athuga þetta mál og mun þá jafnframt fela henni að gera athugun á málinu á víðara sviði, hvort til greina komi að við byggjum aðra verksmiðju og þá um staðsetningu hennar. Ég vil reyna að hraða þessu máli, nú þegar Alþ. hefur afgr. það og einnig hefur sá þáttur í áburðarmálinu, sem mikil vinna hefur farið í á þessum vetri verið afgr. Ég veit að hér er um mikið mál að ræða, og þess vegna tel ég að það sé mikils virði að hafa þingvilja á bak við þá ákvörðun að láta taka málið til athugunar og hugsanlegrar framkvæmdar. Ég get því sagt við þetta tækifæri, um leið og ég þakka hv. flm. og hv. n. hvernig á þessu máli hefur verið tekið, að ég mun hraða framkvæmd á því þegar ályktunin hefur verið gerð.