10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna þessari till. og fagna þeirri athugun sem er fram undan á stækkun Áburðarverksmiðjunnar. Ég skal forðast að endurtaka það, sem hv. frsm. hefur sagt, en mun fjalla um þá staðreynd að það er satt að segja nokkuð undarlegt að hv. Alþ. skuli þurfa að samþ. að athugun sé gerð á stækkun Áburðarverksmiðjunnar. Hvernig stendur á því að sá neisti, sem á að vera til í einu fyrirtæki, hefur ekki logað þarna, hann hefur kulnað? Hvernig stendur á því að Áburðarverksmiðjan sjálf hefur ekki getað sinnt þessu sjálfsagða verkefni eins fyrirtækis og ekki síst svo mikilvægs fyrirtækis í okkar þjóðarbúskap?

Ég þekki Áburðarverksmiðjuna vel, starfaði sem verkfræðingur við byggingu hennar og var við hana riðinn nokkuð lengi og er það raunar smávegis enn. Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með þeirri uppbyggingu. Það voru stórhuga menn, sem að þessu stóðu, ekki síst menn eins og Vilhjálmur heitinn Þór, sem gerði sér vonir um að þarna skapaðist eins konar íslenskt Norsk Hydro, þ. e. a. s. kjarni að íslensku alhliða efnafyrirtæki, sá þáttur í íslenskum þjóðarbúskap sem bæri uppi þann orkufreka efnaiðnað sem menn hafa talið eðlilegt að hér þróaðist. Þannig var hugsunin þá. En því miður hefur þetta ekki orðið.

Áburðarverksmiðjan hóf rekstur 1954. Kostnaður varð, ef ég man rétt, í kringum 8 millj. dollara, á gengi nú um 1200 millj. ísl. kr., en þá 10. hluti af þessari upphæð. Það var samt sem áður mjög stórt átak í þá tíð. Áburðarverksmiðjan notar um 140 gwst., og toppálag er um 18–19 mw. Það var einnig mjög mikið átak miðað við okkar virkjanir í þá tíð, og þetta var sannarlega stóriðjuátak. Áburðarverksmiðjan fékk orku á mjög hagkvæmu verði, allt niður í 1/2 þúsundasta úr Bandaríkjadollar, en því hefur að vísu verið breytt í dag og nú fær Áburðarverksmiðjan orku á sama verði og Álbræðslan. En hins vegar er samningi þannig háttað að af þessu afli má segja að um 6 500 mw. séu fast afl, en það sem eftir er um 2/3, er eins konar afgangsafl og má skerða það hjá Áburðarverksmiðjunni áður en skert er hjá öðrum kaupendum Landsvirkjunar. En hins vegar greiðir Áburðarverksmiðjan aðeins um 30 aura fyrir kwst. og það er mikil spurning hvort það verð er ekki allt of lágt, eins og ég hygg að flestir séu sammála um að sé hjá Álverinu í Straumsvík.

Hv. frsm. hefur getið um framleiðslugetu verksmiðjunnar og hve skammt hún nær nú að fullnægja þörf landsmanna, og ætla ég ekki að fara fleiri orðum um það, en vil hins vegar vekja athygli á því að frá 1954 hefur varla nokkur viðbót átt sér stað hjá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Það má raunar segja að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur varla átt bót fyrir rassinn.

Í sambandi við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi var ákaflega mikið kvartað undan kornastærð, eins og menn þekkja, og bændur töldu sumir áburðinn ónothæfan af þeirri ástæðu. Þar var reynd nokkuð ný aðferð sem reyndist ekki eins góð og menn hafa gert sér vonir um. Þó var það ekki fyrr en 1972, nálægt 20 árum eftir að Áburðarverksmiðjan hóf starfsemi, að unnt reyndist að endurbæta þetta með byggingu nýrrar kornunarverksmiðju, og er þar raunar gert ráð fyrir því að sú verksmiðja geti annað um það bil tvöfaldri framleiðslugetu annarra þátta Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, þannig að það má segja að þar sé nokkur stækkun. En þó hygg ég að þessi framkvæmd hafi fyrst og fremst orðið vegna þess að bændur vildu ekki lengur una þeirri kornastærð sem fékkst frá gömlu verksmiðjunni. Þetta átak kostaði nálægt því 500 millj. kr. eða um það bil 6 millj. dollara á gengi þá. Þá voru uppi ráðagerðir um að tvöfalda sýruverksmiðjuna sem er sá þáttur sem er nauðsynlegur á milli ammoníaks og endanlegs áburðar. Það varð ekki, ekki fékkst fjármagn í það. Sá þáttur var strikaður út á þeim tíma.

Til þess að stækka Áburðarverksmiðjuna, eins og hér hefur komið fram, þarf í fyrsta lagi að stækka fyrsta þátt hennar, vetnisframleiðsluna, síðan þarf að stækka köfnunarefnisframleiðsluna, sem er annar þátturinn. Þessi tvö efni, köfnunarefni og vatnsefni, eru sameinuð í ammoníak í þriðja framleiðsluþætti verksmiðjunnar. Síðan er úr því framleidd saltpéturssýra í fjórða þættinum, sýruverksmiðjunni. Þessa fjóra þætti þarf að stækka og hv. frsm. hefur réttilega getið þess að það er sýruverksmiðjan sem er brýnust nú og var orðin brýn þegar 1972 því að auðveldara er að flytja inn ammoníak til sýruverksmiðjunnar en hálfunna áburðarframleiðslu eða áburð sem er lengra á veg kominn í vinnslunni. Og hann hefur getið um stofnkostnað þessara þátta sem ég ætla ekki að endurtaka hér.

Ég vil hins vegar varpa fram þeirri spurningu, hvernig stendur á því að Áburðarverksmiðjan hefur ekki sjálf getað annast slíka rannsókn til hlítar og farið út í stækkun. Það er vegna þess að Áburðarverksmiðjan hefur lent í hinum dauðu greipum verðbólgu og vísitölu og aldrei fengið þann arð sem einu fyrirtæki er nauðsynlegur til þess að það fái að þróast. Ég er út af fyrir sig ekki að áfellast stjórnvöld fyrir að halda áburðarverði niðri. Hins vegar, þegar áburðarverði er haldið niðri, þá veður eftir öðrum leiðum að tryggja slíku fyrirtæki viðunandi rekstrarfé. Og í raun og veru er ég þeirrar skoðunar að niðurgreiðsla á landbúnaðarafurðum á frumstigi, eins og hér er um að ræða, sé að mörgu leyti æskilegri en á lokastigi. Ég get því fylgt þeirri leið að greiða niður áburðarverð. Hins vegar er algjörlega útilokað að greiða niður áburðarverð með því að láta Áburðarverksmiðjuna safna skuldum. Það hefur verið gert árum saman. Hún hefur beinlínis safnað skuldum. Og hún hefur verið í stöðugum fjárhagsörðugleikum. Bankar hafa nálægt því lokað fyrir Áburðarverksmiðjuna. Það hefur ekki verið fyrr en eftir mikla eftirgangsmuni opinberra aðila, ráðh. og fleiri, að fengist hefur viðbótarlán til að standa undir afborganabyrði Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Þetta er að mínu viti ófært og þarf sannarlega að breytast.

Í framtíðinni verður vonandi rætt um saltverksmiðju hér á landi, saltverksmiðju sem kemur til með að kosta í kringum 3 000 millj. ísl. kr. Mjög væri eðlilegt að Áburðarverksmiðjan byggði slíka saltverksmiðju. Frá þessari saltverksmiðju fæst t. d. kalí sem Áburðarverksmiðjan flytur nú inn. Áburðarverksmiðjan gæti þegar í dag nýtt um fjórða partinn af því kalíi, sem þarna er framleitt, og fljótlega, hygg ég, nálægt því helming. Áburðarverksmiðjan hefur ekkert bolmagn til að taka þátt í byggingu saltverksmiðjunnar. Saltverksmiðjan er hins vegar athyglisverður grundvöllur frekari efnaiðnaðar. Þar fást hráefni sem nauðsynleg eru í ýmiss konar efnaiðnaði.

Þannig er nú ástatt með Áburðarverksmiðjuna. Þessu vildi ég koma á framfæri og leggja ríka áherslu á, ekki síst við hæstv. ráðh., að sú stefna, sem ríkt hefur öll árin gagnvart Áburðarverksmiðjunni, verði endurskoðuð þótt seint sé.

Um hagkvæmni stækkunar skal ég ekki fara mörgum orðum. Það er, eins og hv. frsm. sagði, það þarf að skoðast. Ég er nokkuð sannfærður um að það er hagkvæmt að stækka Áburðarverksmiðjuna, tvöfalda hana eða þrefalda, þannig að hún fullnægi vel innlendri framleiðslu. Það stafar m. a. af því að verulegur hluti verksmiðjunnar er þegar afskrifaður og við njótum þess. Hitt er hins vegar alveg ljóst að raforkuverð hlýtur að hækka mjög til seinni þátta verksmiðjunnar. Sömuleiðis er ammoníaksverð á heimsmarkaði nokkuð óljóst þannig að þetta þarf að skoða vel. Ég held að þeir, sem starfa við Áburðarverksmiðjuna, séu langfærastir um að skoða þennan þátt. Þeir eru í stöðugu sambandi við framleiðendur ammoníaks, kaupa inn mikið ammoníak og þekkja alla þessa þætti mjög ítarlega. Ég held að sérstaklega eigi að hraða athugun á þessum þætti.

Jafnframt er rætt um stóra verksmiðju til útflutnings. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög efins um hagkvæmni slíkrar verksmiðju, tel þó sjálfsagt að það sé athugað. Ég er ekki að draga úr því. En lágmarksstærð slíkrar verksmiðju til útflutnings yrði einhvers staðar í kringum 800–1200 lestir á dag og það er u. þ. b. 20-föld framleiðsla stækkaðrar áburðarverksmiðju í Gufunesi, þannig að þarna yrði fullnægt þörfum okkar íslendinga á tiltölulega fáum dögum. Þetta yrði ammoníak til útflutnings. Ammoníak í heiminum er framleitt á tvennan máta. Það var á árum áður framleitt með rafgreiningu á vatni. Þannig fæst vetni, sem ég ræddi um áðan, og síðan er það sameinað köfnunarefni. Norsk Hydro er langsamlega stærsti framleiðandi ammoníaks eftir þessari leiðinni og er raunar, hygg ég, í dag e. t. v. sá eini sem það gerir í heiminum fyrir utan okkar litlu verksmiðju hér.

Ammoníak er jafnframt framleitt úr olíu og nú í vaxandi mæli úr jarðgasi. Fyrir nokkrum árum reyndist framleiðsla úr olíu stórum hagkvæmari en með raforku þannig að Norsk Hydro hóf fyrir nokkrum árum að leggja niður sínar rafgreiningarverksmiðjur. Þess má geta að tæki, sem sett voru upp hér í Áburðarverksmiðjunni fyrir örfáum árum til að endurnýja gömlu tækin, sem þar voru orðin léleg til rafgreiningar, eru keypt frá Norsk Hydro. Það eru gömul, notuð tæki sem Norsk Hydro hafði gert upp. Þetta reyndist hagkvæmt þá vegna þess að raforkuverðið til Áburðarverksmiðjunnar er ákaflega lágt.

Nú hafa menn að sjálfsögðu staldrað við þá staðreynd að olíuverð hefur hækkað mjög og ammoníaksverð ákaflega mikið í framhaldi af því. Ég átti nýlega viðræður við einn af ráðamönnum Norsk Hydro, mann sem hingað hefur oft komið, mann sem fyrst og fremst starfar að áformum Norsk Hydro um stækkanir og nýja framleiðslu. Hann tjáði mér, að skv. nýlegum athugunum Norsk Hydro væri enn tvöfalt dýrara að framleiða ammoníak með rafmagni heldur en með olíu, og hann benti á að í staðinn fyrir að framleiða ammoníak beint úr olíu færi í vaxandi mæli framleiðslan fram úr jarðgasi sem erfitt er að nýta nema til upphitunar. Mestu er brennt í reykháfum eða útblástursrörum hinna stóru olíuhreinsunarstöðva. Erfitt er að flytja það langar leiðir. Norsk Hydro er að byggja í dag, ef ekki búið að byggja ammoníaksverksmiðju í Skotlandi sem framleiðir um 700 þús. lestir af ammoníaki og það er tvöfalt meira en við erum að tala um í sambandi við stóra ammoníaksverksmiðju hér á landi. Hann sagði að Norsk Hydro óttaðist að vissu leyti hið gífurlega magn af jarðgasi, sem nú brennur í útblástursrörum olíuhreinsunarstöðvanna í Arabíu og þar um slóðir, yrði fljótlega notað til ammoníaksframleiðslu og þær hugmyndir hefðu komið fram hjá arabaþjóðunum að nota þetta sem aðstoð við vanþróuðu löndin sem verða nú að greiða hátt verð bæði fyrir olíu og áburð. Hann taldi því alla framleiðslu ammoníaks mjög óvissa í dag.

Ég vil leggja á það áherslu að vissulega ber að athuga þetta þó að ég sé efins um að slíkt reynist hagkvæmt. Slík verksmiðja eins og við tölum hér um, með 350 þús. lesta framleiðslu, mundi nota, eins og frsm. sagði, um 400–500 mw. eða Dettifoss + Blöndu + Kröflu, allt saman og dálítið til viðbótar. Gaman væri að vita hvort einhver hv. þm., sem er ekki hrifinn af erlendri fjárfestingu í okkar landi, ætlar okkur að gera þetta einum og ég lít sérstaklega á þann, sem situr hér beint fyrir framan mig, af því að hann hefur flutt þáltill. um þetta mál. Ég held að hér væri um ákaflega áhættusamt fyrirtæki að ræða, — fyrirtæki sem stendur og fellur með því hvernig arabaþjóðirnar verðleggja sitt ammoníak. Ég vil lýsa þeirri efasemd minni að í slíkt fyrirtæki yrði ráðist með eigin fjármagni okkar. Þetta segi ég til þess að þessar upplýsingar, sem ég tel að séu réttar og hef reyndar fengið staðfestar hjá starfsmönnum Áburðarverksmiðjunnar, komi hér fram, en ekki til að draga úr athugun á þessu sviði.

Um þetta skal ég ekki hafa fleiri orð, en vil ljúka mínum orðum með því að lýsa ánægju minni með þessa þál till., en jafnframt enn einu sinni undirstrika þau varnaðarorð mín að horfið verði frá þeirri braut, sem fylgt hefur verið, og Áburðarverksmiðjunni heimilað að safna nokkru eiginfjármagni. Það er nauðsynlegt ef fyrirtækið á að þróast, og munu allir sannfærast um það sem skoða Áburðarverksmiðjuna og kynnast þörfum hennar fyrir endurbætur og nauðsynlegar stækkanir.