10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af ræðu hv. 2. þm. Vestf. vil ég gefa nokkrar upplýsingar svo að það liggi ljóst fyrir að ef um sök er að ræða í þessu sambandi, þá skal ég játa hana á mig. En það er miklu auðveldara um að tala heldur en í að komast að vera sýknt og heilagt að leysa úrfjárhagsvandamálum fyrirtækjanna. Það er miklu auðveldara að óska eftir framkvæmdum í þeim heldur en að leysa úr aðsteðjandi fjárhagsmálum eins og þau falla til á hverjum tíma.

Þegar ég tók við sæti landbrh. var verið að stækka þessa verksmiðju. Það fór með þessa framkvæmd eins og aðrar framkvæmdir hér á landi að verðbólgan gerði fjárþörfina miklu meiri en gert var ráð fyrir. Þess vegna hafa fjárhagsmál Áburðarverksmiðjunnar verið verulega mikið mál öll þessi á. Mér þykja það harðir kostir að því sé haldið fram að þeim málum hafi ekki verið sinnt. Þess vegna taldi ég að það væri réttmætt að athuga þann þátt málsins áður en lengra væri haldið, og það hefði sannarlega verið gert ef þessi nýi þáttur, áburðarverðshækkunin, hefði ekki komið til úrlausnar á s. l. ári og á þessu ári, sem hefur verið til meðferðar allt síðan um mitt s. l. ár. Ég held að það sé því réttmætt að taka það með að úr þeim daglegu þörfum þurfti í raun og veru að leysa, því að það var mikið átak fyrir okkur að byggja Áburðarverksmiðjuna, ekki síst þegar verðlagsþróunin varð okkur jafnóhagstæð og raun varð á þegar því verki var lokið, því að það hefur hún sannarlega verið. Áburðarverðshækkunin hefur verið gífurleg á þessum árum síðan stækkun verksmiðjunnar var lokið og hefur mikil vinna verið lögð í að leysa þann þátt.

Ég veit að stjórnarnefndarmenn Áburðarverksmiðjunnar gerðu ályktun um það á s. l. hausti eða yfirstandandi vetri að stækka verksmiðjuna, og mér var fullkomlega ljóst að það yrði að halda áfram við það verk. Hitt var mér líka ljóst, að það varð, áður en lengra var haldið, að leysa úr þeim nærtækustu fjárhagsvandamálum sem verksmiðjan hafði við að búa.

Út af því sem hv. 2. þm. Vestf. sagði um niðurgreiðslu á frumstigi, þá hefur það mál verið athugað og var m. a. athugað í sambandi við ákvörðun á áburðarverði á vorinu 1974. Eins og honum og öðrum hv. þm. er kunnugt um hafa allar okkar niðurgreiðslur verið miðaðar við áhrif á vísitöluna. Það þýðir ekkert að vera að blekkja sig og einn eða annan, þær hafa allar verið metnar út frá því. Og það var nálægt því vorið 1974 að það væri hagkvæmara að greiða áburðinn niður heldur en að greiða niður landbúnaðarafurðirnar eftir að þær hefðu verið framleiddar, miðað við það áburðarverð sem ákveðið var. Það reyndist að athuguðu máli heldur hagkvæmara þá, en að þessu sinni hefði það alls ekki reynst. Nú var það alveg ljóst að það var óhugsandi að hleypa þessu inn í verðlagið. Það hefði tvöfaldast á stuttum tíma og þrefaldast á rösku ári. Það kom fram í grg. þeirri sem n. sú, sem skipuð var til að skoða það áfall sem áburðarverðshækkunin var, samdi.

Út af því, sem hv. þm. sagði um þetta mál frekar, þá er ég honum ekki sammála um að það eigi að fela starfsmönnum Áburðarverksmiðjunnar þetta mál til rannsóknar. Ef það á að gera er því líka slegið föstu að það eigi ekkert að athuga nema stækkun Áburðarverksmiðju í Gufunesi. Eins og kom fram hjá hv. flm. og hafði komið fram í ræðu sem Runólfur Þórðarson, tæknilegur verksmiðjustjóri, hafði flutt á Búnaðarþingi, þá var það hans mat að ef ætti að fara fram mikil stækkun væri staðarvalið ekki einsýnt í Gufunesi. Ég er sammála um að það sé ekki. Hitt getur vel verið, að það reynist svo að það sé ekki hagkvæmt að byggja hér áburðarverksmiðju til útflutnings. Það má vel vera að sú verði raunin. Því kann ég ekki skil á og skal ekki fullyrða og veit að hv. 2. þm. Vestf. er betur að sér en ég í þeim efnum. Hins vegar hef ég heyrt menn, sem um slík mál hafa fjallað, halda því fram að það væri á athugunarstigi hvort það gæti verið hagkvæmt, og þess vegna finnst mér að nauðsyn beri til að þetta hvort tveggja sé athugað, hvaða viðbótarframkvæmdir eigi að vera í Gufunesi til að gera þá verksmiðju hagkvæmari en hún er og svo hvort hagkvæmt sé að byggja hér aðra verksmiðju og miða þá við útflutning. Þetta verður það verkefni sem sú n. fær til meðferðar sem verður sett á laggirnar, og að mínu mati er það svo að það er hagkvæmara, það er betra fyrir ráðh. að hafa á bak við sig yfirlýsingu Alþ. fyrir því, að slík endurskoðun sé gerð sem hér á að gera, heldur en þó að hann hefði tekið þetta upp hjá sér, sem hefði gert verðið ef áburðarverðsmálið hefði ekki truflað, því að það hefur verið erfitt mál viðfangs á þessum vetri og hefur tekið nokkurn tíma og úrræði. Mér er það fullkomlega ljóst að Áburðarverksmiðjan hefði ekki getað náð því eigin fjármagni sem þarf til þessara framkvæmda þó að framleiðsla hennar hefði verið verðlögð eins og stjórnin hefur óskað, og ég tel að fyrir því hafi verið séð þegar öllu er á botninn hvolft að svo hafi verið gert og muni ekki mikið á halla. En það hefði ekki nægt til neinna stórra framkvæmda því að svo stutt er liðið síðan hún gerði þá fjárfreku framkvæmd sem stækkunin var.

Þetta vil ég láta koma fram þannig að það sé ljóst að það er ekki hægt að ásaka stjórnendur Áburðarverksmiðjunnar í sambandi við þetta mál. Ef einhvern á að ásaka, þá tek ég það á mig. Ég hef talið að athuguðu máli að það væri gott að fá ályktun Alþ. í sambandi við þetta mál.