10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að svara hæstv. landbrh. Ég óska eftir því að hann verði sóttur, honum verði tjáð að ég sé kominn í ræðustólinn.

Ég get á meðan aðeins rætt við hv. síðasta ræðumann. Ég þakka honum upplýsingarnar. Við höfum ekki horfst nógu djúpt í augu í Ed. til að skilja hvor annan,en það var kannske vegna þess að ég var fjarverandi þegar þáltill. hans var rædd þar. En mér datt satt að segja aldrei í hug að nokkrum manni hugkvæmdist að skipta þessari litlu áburðarframleiðslu okkar. Ég held að stækkun Áburðarverksmiðjunnar hér byggist algerlega á því að við eigum þarna mikilvægan kjarna, en þarna er þá um sem sagt annað mál að ræða og skal ég ekki fjalla meira um það.

En eins og ég sagði áðan, ég ætlaði fyrst og fremst í örfáum orðum að leiðrétta misskilning sem mér finnst koma fram hjá hæstv. landbrh. og mun gera hlé á máli mínu þar til hann er kominn í salinn.