10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

57. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil nú þrátt fyrir það að þeir hafa ekki lokið orðaskiptum sínum, hæstv. landbrh. og hv. 2. þm. Vestf., þakka þeim báðum tveim fyrir vinsamlegar móttökur á þessari till. þó að þær hafi verið ofurlítið hvor á sinn hátt.

Það er alveg rétt hjá Steingrími Hermannssyni að uppbygging þessa fyrirtækis hefur gengið of hægt, og ég held að við gætum verið sammála um að við værum ansi miklu betur settir núna ef stækkun hefði verið framkvæmd einhvern tíma í fortíðinni eða jafnvel ekki fyrr en á allra síðustu árum, þá þyrftum við ekki að vera að takast á við þennan vanda sem nú er við að glíma. En þegar litið er til fjármögnunar verksmiðjunnar og fjárhagsstöðu hennar, þá eru sjálfsagt eðlilegar skýringar fyrir því að uppbyggingarhraðinn hefur ekki verið meiri. Það er alveg rétt að þessi verksmiðja hefur átt við mjög mikil framleiðsluvandamál að stríða. Upphafleg kornastærð Kjarnans var með þeim hætti að menn voru óánægðir með að nota hann. Það fór í það bæði mikið fé og fyrirhöfn að kippa því í lag. Sem betur fer hefur það tekist og framleiðsla verksmiðjunnar hefur gjörbreyst til batnaðar á síðustu árum. En bændur hafa alltaf átt fullt í fangi með að kaupa þennan áburð. Þeir hafa alltaf átt fullt í fangi með að standa í skilum við sín verslunarfyrirtæki og við verksmiðjuna. Neytendum hefur líka þótt verð landbúnaðarafurða nógu hátt. Það hefði því þurft að leita annarra leiða til þess að uppbyggingin hefði getað verið möguleg.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins vera að fullyrða neitt um það hvaða stækkun eða hvernig stækkun þessari verksmiðju væri hentugust. Það getur vel verið að við sleppum með að byggja bara sýruverksmiðju og getum svo keypt ódýrt ammoníak frá Norsk Hydro eða ódýrt ammoníak frá olíusjeikunum þarna suður frá. En ég held að sé tryggast að búa að sínu. Ég læt það í ljós sem mína sérstöku skoðun.

Að hér eigi að ráða landshlutasjónarmið varðandi áburðarverksmiðjubyggingar er auðvitað hugsanlegt. Áburðarframleiðsla á Norðausturlandi er náttúrlega hugsanleg, þ. e. a. s. áburðarframleiðsla er auðvitað flókin og í mörgum stigum og vel getur verið að hagkvæmt væri að framleiða eitthvað af áburðinum annars staðar en í Gufunesi — þá væntanlega með byggðarsjónarmið í huga — og flytja til lokaframleiðslu í Gufunesi. En svo vill til að þar er búið að byggja yfir lokaframleiðsluna — það er eiginlega með nokkrum hætti byrjað á öfugum enda. Lokaframleiðsluna er hægt að vinna í Gufunesi í þessari nýlegu NPK-verksmiðju sem nú er ekki rekin nema með 2/3 afköstum, Það yrði þá líklega að flytja ammoníak sem framleitt væri annars staðar, til Gufuness til að nota sér þá verksmiðju sem þar er fyrir. Hagnýting Gufunesmannvirkjanna verður, held ég, best tryggð með stækkun þar.

Hvað varðar útflutningsverksmiðjuathugunina, þá vil ég leggja á það ríka áherslu, mjög ríka áherslu, að hún má ekki verða til þess að seinka eða fresta stækkun Gufunesverksmiðjunnar. Ég el þá von í brjósti að þessari athugun verði hraðað svo sem frekast er kostur. Þó að fjárhagsvandinn sé auðvitað augljós og hæstv. ráðh. þurfi að greiða úr honum, þá þarf einnig að hafa uppbyggingarsjónarmiðið að leiðarljósi, ef unnt væri að spara eitthvað eða jafnvel að bægja frá verulegum hluta vandans með því.