10.04.1975
Sameinað þing: 61. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

184. mál, ráðstöfun fjár vegna óinnleystra orlofsmerkja og vaxta

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Þegar gildandi lög um orlofsmerki voru sett árið 1943 var að sjálfsögðu tilgangur þeirra að það fé, sem atvinnurekendur greiða í orlofssjóð, skyldi notað til að auðvelda launþegum að njóta orlofs. Þessi löggjöf var mjög gagnleg á sínum tíma og hefur reynslan af henni verið mjög góð. Hún hefur stuðlað á mjög heilbrigðan hátt að því að auka skilyrði launþega til þess að njóta heilbrigðs orlofs.

Í lögunum var ákvæði um að ef orlofsbók fyrir næsta ár á undan væri ekki lögð fram í póststöð til innlausnar fyrir 15. sept. félli andvirði orlofsmerkjanna til ríkissjóðs. Það mun ekki hafa verið gert ráð fyrir því á sínum tíma, þegar lögin voru sett, að mikið mundi kveða að þessu. En áratugareynsla hefur sýnt að mun meira hefur kveðið að því en menn í upphafi ætluðu og mun meira en að sjálfsögðu er æskilegt. M. ö. o.: orlofsféð hefur ekki nýst orlofsþegum í fullum mæli.

Við athugun sem gerð var um síðustu áramót, kom í ljós að í ríkissjóði standa nú um 20 millj. kr. vegna þess að orlofsbækur hafa ekki verið afhentar. Að vísu eru allir frestir til að fá orlofsfé greitt runnir út skv. gildandi lögum, gerðu það 1. maí 1974. Engu að síður er haldið áfram að greiða þau orlofsmerki, sem sýnd eru. Væri þá sannarlega eðlilegt að auglýsa um þau einhvern ákveðinn lokafrest til þess að endir sé bundinn á þetta mál. Mun það raunar standa til því að orlofslögin munu vera í nauðsynlegri endurskoðun, svo gömul sem þau eru orðin.

Staðreyndin er engu að síður sú að nú standa inni í ríkissjóði og eru í vörslu Pósts og síma rúmar 20 millj. kr. sem atvinnurekendur hafa greitt í þágu launþega sem þeim var ætlað að nota til að taka sér orlof, en hafa ekki notað í því skyni. Póstur og sími hafa auðvitað haft af því verulegan vaxtahagnað að varðveita svo mikið fé árum saman. Þess er hins vegar að geta að auðvitað hafa Póstur og sími haft vissan kostnað af varðveislu fjárins og því starfi sem innt hefur verið að hendi í því sambandi, og er sjálfsagt að tekið verði tillit til þess. En ég held að það hljóti að teljast sanngirnismál, sem allir ættu að vera sammála um, að þetta fé á ekki að renna endanlega í ríkissjóð. Það verður með einhverjum hætti að tryggja að það komi launþegum að gagni.

Nú hefur það gerst á undanförnum árum að launþegasamtökin hafa með aðstoð ríkisvaldsins, sem vissulega ber að þakka og meta að verðleikum, komið á fót orlofsheimilum, en enn er um að ræða fjárskort til þess að byggja nægilega mörg orlofsheimili, því að sannleikurinn er sá að heilbrigðasta orlof, sem launþegar verja orlofsfé sínu til, er vissulega orlofsferðir hér innanlands og þá einkum og sér í lagi dvöl í eigin orlofsheimilum alþýðusamtakanna. Þess vegna er lagt til í þessari till. að þetta fé, þessar rúmar 20 millj. kr., að viðbættum þeim vaxtatekjum, sem Póstur og sími hafa haft af vörslu þessa fjár, að frádregnum kostnaði, sem Póstur og sími kunna að hafa haft í þessu sambandi, renni til verkalýðssamtakanna í því ákveðna skyni að því verði varið til þess að byggja ný orlofsheimili.

Það getur varla verið um það ágreiningur að launþegar eiga þetta fé. Það hefur verið greitt þeim. Launþegar í heild eiga þetta fé þó að þeir einstaklingar, sem það eiga, hafi ekki hirt um að nota það. Og ég hygg að varla geti verið um það ágreiningur, að varla sé hægt að ráðstafa þessu fé betur í þágu launþega sem heildar en að styrkja eða stuðla að byggingu nýrra orlofsheimila. Þess vegna er það efni till. að skora á ríkisstj. að gera hið fyrsta með lagaheimildum, ef nauðsynlegt er, ráðstafanir til þess að verkalýðssamtökunum verði afhent þetta fé, þessar rúmu 20 millj. kr., með þessu skilyrði. Ég tel eðlilegt að það yrði beint skilyrði að því yrði varið til byggingar orlofsheimila verkalýðssamtakanna.

Ég vona að hv. Alþ. geti orðið sammála um að hér sé réttlætismál á ferðinni og till. hljóti vinsamlega afgreiðslu hins háa Alþ. áður en því lýkur.

Ég leyfi mér að leggja til. herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.