14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Frsm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Frv. til l. um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar sem háðar eru sérstökum leyfum, er stjfrv. og var flutt snemma á þessu þingi. Urðu um málið allmiklar umr. í hv. Nd.

Um alllangan tíma hefur það verið svo að veiðar á ýmsum tegundum sjávarafla hafa verið háðar sérstökum leyfum sjútvrn. Þessar takmarkanir hafa verið taldar óhjákvæmilegar til þess að koma í veg fyrir að einstakar tegundir sjávarafla yrðu ofveiddar þannig að hætta stafaði af því að vissar tegundir yrðu rányrktar og stofninn gengi til þurrðar. Þær tegundir sjávarafla, sem þessum leyfum hafa verið háðar, eru rækja, humar, skelfiskur og enn fremur síldin sem nú um árabil hefur að öllu leyti verið bönnuð veiði á í hringnót.

Þær eru nýjastar fréttir frá norðmönnum varðandi takmarkanir á veiði vissra fiskstofna að svo sé komið hvað þorskinn snertir að fiskibátar, sem veiðar stunda með botnvörpu, megi koma með takmarkað magn af þorski að landi úr hverri veiðiför. Því miður virðist þróunin vera sú að hætta sé á að einstakir fiskstofnar séu ofveiddir og ef ekki komi til sérstakra ráðstafana til verndar geti svo farið að vissir fiskstofnar gangi til þurrðar.

Það frv., sem hér um ræðir, snertir að vísu ekki þennan þátt hvað veiðiheimildum viðkemur. Þar er ekki um nein nýmæli að ræða frá því sem er í gildandi lögum. Hér er um það að ræða að samræma vinnsluna í landi þeim veiðiheimildum og takmörkunum sem fyrir hendi eru varðandi þann sjávarafla sem frv. nær til. eða nánar til tekið rækju og skelfisk. Því er ekki að leyna að sumir nm. eru með vissar efasemdir í sambandi við framkvæmd laganna, ef frv. verður samþ., og telja jafnframt að skýrari ákvæði hefðu þurft að vera um það sem kallað er „fyrirsjáanleg aflaaukning“ eða „samdráttur í starfi annarra vinnslustöðva á svæðinu“. Hver það er, sem hér á að skera úr um, segir hvergi í frv. Það er hins vegar eðlilegt að álykta að varðandi spána um aflaaukninguna sé það Hafrannsóknastofnunin sem ætti að vera dómbær um málið. Varðandi hitt ákvæðið virðist eðlilegast að vottorð lægi fyrir frá viðkomandi áður starfandi fyrirtækjum eða þá sveitarstjórnaryfirvöldum. Um hvorugt þetta eru skýr ákvæði í þessu frv. Sjútvn. er hins vegar þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að hér verði komið á nokkurri samræmingu á milli þess takmarkaða veiðimagns, sem sýnilegt er að fyrir hendi verður, og þess tilkostnaðar sem lagt verður í við vinnslu aflans. Með tilliti til þess að verulega er liðið á þingtímann og n. telur að hér sé ekki um þann vanda að ræða, sem afgerandi þurfi að vera fyrir málið í næstu framtíð, leggur hún til að frv. verði samþ. óbreytt. Það skal þó tekið fram, eins og fram kemur í nál. á þskj. 426, að einn nm., Jón Árm. Héðinsson, skrifar undir nál. með fyrirvara og mun hann þá gera nánari grein fyrir afstöðu sinni.

Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að leggja til að frv. verði samþ. óbreytt og því að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.