14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð við 1. umr. þessa máls. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að þetta mál skuli nú vera komið fyrir þingið og vænti þess að það fái afgreiðslu á þessu þingi þó að kannske væru nokkur atriði sem ástæða væri til að ræða um. En það er þó eitt atriði sem ég tel allmikilvægt og ég tel að þurfi að fá upplýsingar um og beini því til hæstv. ráðh. og þeirrar n. sem málið fær til meðferðar. Mér finnst ekki vera nógu ljóst hvernig farið verður með þá nemendur sem stundað hafa nám í þeim tveim leiklistarskólum sem starfað hafa, þ. e. a. s. hvort það nám, sem þeir hafa þar lokið, verði skoðað sem áfangi sem tekinn verði til greina fari þessir nemendur í þennan leiklistarskóla ríkisins. Mér finnst það lágmarkskrafa að þeir nemendur, sem stundað hafa nám í þessum tveim skólum, eigi þess kost að halda áfram námi í þessum skóla og að það nám, sem þeir hafa stundað verði tekið sem fullgilt nám án þess að þeir þurfi að ganga undir eitt eða neitt sérstakt hæfnispróf til þess að geta komist inn í skólann. Mér finnst þetta talsvert mikilvæg spurning, hvernig verður með þetta mál farið, og ég vil beina því til þeirrar hv. n. sem málið fær til meðferðar að þessi þáttur verði skoðaður. Ég legg á það ríka áherslu að þessir nemendur eða það nám, sem þeir hafa lokið verði metið fullgilt, þeir þurfi ekki að fara að læra upp aftur til þess að geta hagnýtt sér þennan væntanlega skóla. Ég vil eindregið hvetja til þess að þetta verði skoðað. Það hefur komið um þetta sérstök ábending frá öðrum þeim skóla sem starfandi er í landinu þ. e. leiklistarskóla SÁL, og ég þykist vita að nemendur, sem stundað hafa nám í báðum þessum skólum, leggi ríka áherslu á að þeir verði ekki sviptir neinum réttindum við að hafa stundað nám í þessum skólum áður, þannig að það nám verði metið sem fullgilt.