14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

206. mál, verðlagsmál

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af þessu frv. um verðlagsmál.

Ég fagna því að fram koma aths. og till. úr þessari átt um verðlagsmál. Ég held að það sé staðfesting á því að núv. kerfi sé gallað og þurfi mikillar endurskoðunar við. Hæstv. viðskrh. hefur upplýst að nú sé hafin endurskoðun á núgildandi löggjöf í verðlagsmálum undir forustu nýskipaðra manna og það er öllum þeim, sem um þessi mál hafa hugsað, mikið fagnaðarefni. Ég held að þeir, sem standa nærri kaupsýslu og viðskiptum, vilji mjög breyta um á þessu sviði, enda þótt þær breytingar séu e. t. v. ekki að öllu leyti eins og um ræðir í þessu frv. Kaupsýslumenn og viðskiptastéttin hefur ekki beðið um núgildandi löggjöf og hún liggur oft undir ásökunum fyrir ósanngirni og jafnvel svik og það er, held ég, í hennar þágu jafnt sem neytenda og þjóðfélagsins í heild að þessu sé breytt á þann veg, að þeir njóti fullrar sanngirni og liggi ekki stöðugt undir ósanngjörnum og röngum ásökunum.

Um einstaka liði þessa frv. skal ég ekki vera margorður. Sum þessara ákvæða eru í eðli sínu sjálfsögð og þess vegna kannske líka óþörf, eins og t. d. ákvæði um að bannað sé að halda vörum úr umferð í því skyni að fá hærri verslunarhagnað af þeim siðar, einfaldlega vegna þess að ef slíkt á sér stað, þá er það brotlegt og refsivert og þarf varla að taka fram með því að samþykkja nýtt frv. Núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir að slíkt háttalag sé refsivert. Eins er eðlilegt og sjálfsagt að breyta refsifjárhæðum. Þær upphæðir í núgildandi löggjöf eru löngu orðnar úreltar og þurfa hækkunar við.

Annað í þessu frv. er byggt á misskilningi sem ég skal ekki fara að rekja hér í hverju er fólginn að miklu leyti. Ég vil hins vegar aðeins gera að umtalsefni 1. gr. frv. þar sem segir: „Verðlagsnefnd getur hvenær sem er tekið ákvörðun sína um hámarksverð vöru til endurskoðunar og skal henni skylt að gera það ef gengisbreyting íslenskrar krónu eða erlendar verðhækkanir valda verulegri hækkun á verði og álagningu innfluttrar vöru.“

Andi þessarar mgr., svo og að mér finnst andi grg. og frv. í heild, er sá, að meinsemdin liggi í álagningunni og með því að færa álagningu niður á við sé ráðin bót á verðlagsmálum. Þetta er mikill misskilningur. Verðhækkanir eru auðvitað af mjög mörgum ástæðum, sem álagning getur engu um breytt, og líka er hitt, að álagning er ekki hagnaður eða gróði kaupsýslumanna, eins og því miður allt of oft er gefið í skyn og talað um. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. áðan, er álagningin þóknun til kaupsýslunnar, hún er til þess að standa undir ýmiss konar rekstri og þjónustu, sem viðskiptafyrirtæki veita, og hún er til að standa undir launum verslunarmanna og þess starfsfólks sem stendur í verslun. Það er því langt frá því að álagningin renni óskipt í vasa kaupsýslumannsins sem beinn hagnaður.

En hvað sem um álagningu má segja, hvort sem hún er of há eða lág, þá er það nokkuð ljóst að staða verslunarinnar er ákaflega slæm í augnablikinu. Verslunin verður fyrir barðinu á verðbólgu og gengisfellingum eins og aðrir atvinnuvegir þessu landi og það verður að sinna þörfum og hagsmunum þessarar atvinnugreinar jafnt sem annarra og verður auðvitað að koma í veg fyrir að hún hreinlega gefist upp eða sé rekin með svo miklu tapi að við það sé ekki lengur unað.

Ég get ímyndað mér að flm. þessa frv. séu sammála mér um að þetta frv. leysir ekki neinn heildarvanda í verðlagsmálum. Enda þótt frv. væri samþ. óbreytt, þá er ég sannfærður um að flm. eru sömu skoðunar og ég að ekki sé þar með allt komið í gott lag sem snertir verðlagsmál. Þess vegna held ég að það sé rétt og sjálfsagt að láta þetta frv. bíða eftir heildarendurskoðuninni og taka það til athugunar í því sambandi. Ég vil líka bæta því við að verðlagsmál verða ekki leyst með því að setja auknar skyldur á herðar verðlagsstjóra. Ég er þeirrar skoðunar, eins og flestum er kunnugt um hér vegna minna fyrri till. í þessum málum, að verðlagsmálin verði best leyst með því að auka frjálsræði í álagningu og í verðlagi. Ég held að það sé alls ekki slæmt þó að hægt sé að finna mismunandi verð á svipuðum vörutegundum í ýmsum verslunum borgarinnar, en með því að auka frjálsræði í verðlagningu og álagningu sé stuðla að hagkvæmari innkaupum og skapaður grundvöllur fyrir því að hægt sé að taka upp aukið aðhald frá verðlagsstjóra eða verðlagsyfirvöldum og neytendasamtökum frá því sem nú er.

Það kerfi, sem fyrir hendi er í dag, stuðlar ekki að hagkvæmum innkaupum á vörum. Ég held, að gott dæmi um það sé einmitt tilvitnunin í grg. um innkaupin á sykri og álagningu í því sambandi. Þar er sagt frá því að vegna hækkunar á verði á sykri í innkaupum hafi álagningin hækkað og þar af leiðandi krónunum, sem til verslunarinnar hafi gengið, fjölgað svo og svo mikið. Það má auðvitað deila lengi um hvers virði krónan er og hvers virði hún var. En ég held að þetta dæmi sýni fyrst og fremst hversu þetta er fráleitt kerfi, að geta ekki stuðlað að því og gert þær kröfur til verslunarinnar að hún geti gert hagkvæmari, innkaup en núgildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir. Innflytjendur, sykurkaupendur í þessu tilfelli, hafa enga sérstaka hagsmuni af því fyrir sjálfa sig og ekki heldur fyrir viðskiptavini sína að vera að leita eftir miklu betri innkaupum vegna þess að álagningarprósentan er alltaf sú sama hvort sem varan er slæm eða góð eða hvort hún er ódýr í innkaupum eða dýr. Með því að breyta þessu væri hægt að stuðla að því að menn leituðu frekar að hagkvæmara og lægra vöruverði. Ég held líka að með núv. fyrirkomulagi sé útilokað að krefjast þess og — jafnvel þótt þess sé krafist — útilokað að framkvæma það að verðlagsstjóri eða verðlagsyfirvöld geti fylgst svo nákvæmlega með því að alltaf sé um rétt vöruverð að ræða eða jafnt vöruverð. Það þarf mikla skriffinnsku og marga starfsmenn til þess að leita uppi verð á hverri einustu vöru í öllum verslunum landsins. Eins og ég sagði áðan, þá held ég að það sé ekkert óeðlilegt við það þótt mismunandi verð finnist í verslunum. En þegar um það er að ræða, þá er ég aftur sammála flm. þessa frv. um, að þá sé komið að því að hægt sé að auglýsa verðlista og skapa þannig aðhald, bæði frá verðlagsyfirvöldum og ekki síst frá neytendasamtökum, neytendunum sjálfum. Ég er sannfærður um að samtök verslunarinnar sjálfrar mundu vilja taka þátt í að skapa slíkt aðhald.

Þetta vildi ég láta koma fram í sambandi við flutning þessa frv. Niðurstaða mín af því — ég ætla að draga það saman aftur — er sú að það sannar að allir, hvort sem þeir vilja aukið frjálsræði eða ekki, eru sammála um það, hversu gallar núverandi löggjafar eru augljósir, og ættum við þá að geta sameinast í því að leita eftir lausnum á þessu til bóta frá því sem nú er, þannig að neytendur og verslunin njóti góðs af.