15.04.1975
Sameinað þing: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

338. mál, eftirstöðvar olíustyrks

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Svar við fyrri spurningunni er svo hljóðandi:

271.5 millj. kr., og eru þá allar tekjur fyrir tímabilið mars 1974 til febr. 1975 komnar inn og búið að inna af höndum greiðslur olíustyrks til loka nóvembermánaðar 1974.

Svar við annarri spurningunni er svo hljóðandi: Þessa dagana er unnið að greiðslu olíustyrks til einstaklinga til sveitarfélaganna. Styrkurinn fyrir des. 1974 til febr. 1975 hefur verið hækkaður í 2 400 kr. á einstakling úr 1 800 kr. og nemur þá alls í mars 1974 til febr. 1975 7 800 kr. Áætlað er, en um það er ekki alveg hægt að vita með vissu nú, að olíustyrkur til einstaklinga nemi samtals 230 millj. og 400 þús. kr. fyrir des. 1974 til febr. 1975. Verða þá eftir 41 millj. 100 þús. kr. og verður hluta af þeirri fjárhæð varið til að greiða rafveitum, sem notuðu olíu til framleiðslu á raforku til húshitunar, væntanlega allverulegum hluta þessarar fjárhæðar. En ekki er enn vitað hve mikil notkun rafveitnanna á olíu hefur verið í þessu skyni í des. 1974 til febr. 1975. Í marsmánuði til nóv. 1974 hafa þeim verið greiddar kr. 5.33 á lítra olíu og heildargreiðsla á því tímabili nam því 31 millj. 300 þús. kr.