15.04.1975
Sameinað þing: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

170. mál, afnám flýtifyrningar og skattur á verðbólgugróða

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 310 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. þess efnis að ríkisstj. verði falið að láta undirbúa frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt með það fyrir augum að koma í veg fyrir að arðvænleg fyrirtæki geti skotið sér undan að greiða tekjuskatt með ýmiss konar bókhaldsaðferðum. Stefnt skal að því að ákvæði um svonefnda flýtifyrningu verði afnumin.

Það var upphaf þessarar tillögugerðar að í haust fékk ég í hendur skattskrá fyrir Reykjavík 1974. Ég tók mér dálítinn tíma til að fletta upp í kaflanum um félög og fór að reyna að áætla hver veltan hefði verið hjá ýmsum stórfyrirtækjum borgarinnar á s. l. ári. Ég fletti upp á fimm skipafélögum, Fragtskipi hf., Hafskip hf., Jöklum hf., Víkingi hf. og Eimskipafélagi Íslands hf., en þessi fimm skipafélög höfðu um 2920 millj. kr. veltu á s. l. ári. En þegar athugað var hvað þessi skipafélög greiddu mikinn tekjuskatt til ríkisins kom í ljós að þau borguðu ekki eina einustu krónu, sluppu öll við tekjuskatt. Nú kynnu menn að halda að skipafélög hefðu einhverja sérstöðu hvað rekstur snerti. En ef litið er á verslunarfyrirtæki reynist útkoman vera mjög svipuð. Ef litið er á fyrirtækin Garðar Gíslason hf., H. Benediktsson hf., Íslenska verðlistann hf., Silla og Valda sf., Sláturfélag Suðurlands sf., Velti hf., Verslanasambandið hf. og Þórð Sveinsson & Co. hf., en samanlagt munu þessi fyrirtæki hafa velt um 3225 millj. kr., á árinu 1974, þá kemur það nákvæmlega sama í ljós. Öll þessi fyrirtæki borguðu ekki eina einustu kr. í tekjuskatt. Sama reynist vera um fjögur tryggingafélög, sem hafa tæplega 1000 millj. kr. veltu, eða hótelin sem kenna sig við Esju, Borg og Sögu og hafa samanlagða veltu um 350 millj. kr. Ekkert af þessum fyrirtækjum greiðir neinn tekjuskatt.

Ég hafði satt að segja heyrt þessa getið á liðnum árum að mörg fyrirtæki slyppu vel frá tekjuskattsálagningu en ég verð að játa að þegar ég fór að athuga þetta mál gaumgæfilega kom niðurstaðan mér mjög á óvart. Ég get upplýst það hér, sem áður hefur komið fram, að skv. þessari lauslegu athugun, sem ég gerði, kom í ljós að félög, sem engan tekjuskatt greiða í Reykjavík á liðnu ári, voru um 240 talsins og þá eru að sjálfsögðu ekki talin með fyrirtæki sem eru rekin í nafni einstaklinga og ekki smáfélög með minna en 1 millj. kr. ársveltu. Mér taldist til lauslega áætlað að ársvelta þessara fyrirtækja væri ekki undir 10 000 millj. kr.

Hver er nú skýringin á þessum staðreyndum? Hvernig stóð á á skattárinu 1973? Var það virkilega svona erfitt ár fyrir atvinnureksturinn í landinu að hann hefði ekki efni á að borga neinn tekjuskatt? Nei, staðreyndin er að sjálfsögðu sú, eins og mörgum mun kunnugt, að á þessu ári var mikið góðæri ríkjandi í landinu. Aðeins einn atvinnuvegur í landinu stóð raunverulega illa á því ári og það var útflutningsiðnaðurinn. Aðrar atvinnugreinar stóðu vel.

Ég vil leyfa mér að fletta hér upp í grg. hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar um þjóðarbúskapinn á árinu 1973. Þar segir á bls. 22, með leyfi forseta:

„Lauslegar áætlanir fyrir árið 1973, sem byggðar eru á athugun á heildarverslunarveltu skv. söluskattsframtölum, virðast benda til þess að umsvif í heildverslun gætu aukist um 7–8% að magni og smásala gæti aukist um 6–7% að magni á þessu ári. Einnig virðist vera um magnaukningu að ræða í olíu-, byggingarvöru- og bílaverslun. Niðurstöður athugana sýna að í heildverslun hafi hreinn hagnaður félaga og eigendatekjur í einstaklingsfyrirtækjum sem hlutfall af vergum sölutekjum og tekjuvirði orðið um 3.7% á árinu 1971 og um 3.3% á árinu 1972. Niðurstöður athugana á afkomu smásöluverslunarinnar sýna svipaðar breytingar. Lauslegur framreikningur rekstraryfirlita heildverslunar og smásöluverslunar fyrir árið 1973 bendir til þess að afkoma verslunar í heild á þessu ári verði svipuð og á árinu 1972.“

Staðreyndin er sem sagt sú, t. d. hvað verslunina snertir, að hún kom mjög vel út á þessu ári og svo var um margar aðrar atvinnugreinar í landinu. Ég nefni hér aðeins það sem nefnt var í þessari skýrslu um sjávarútveginn, en á bls. 75 í þessari skýrslu var komist svo að orði:

„Á hvaða kvarða sem mælt er virðist hagur sjávarútvegs á árinu 1973 með því besta sem gerst hefur.“

Að sjálfsögðu segir það sig sjálft að góður hagur sjávarútvegsins á árinu 1973 hefur haft víðtæk áhrif í öðrum atvinnugreinum vegna þess að sjávarútvegurinn er undirstaðan, og sé velgengni í þeim atvinnuvegi, þá er venjulega allgóð velta í flestum öðrum atvinnuvegum eins og ég sagði áðan, að undanskildum útflutningsiðnaðinum sem hefur að sjálfsögðu nokkra sérstöðu.

Nei, ég held að á því geti ekki verið neinn vafi að flest þessara 240 fyrirtækja, sem ég nefndi áðan, hafa haft dágóðan hagnað á árinn 1974.

Við getum að sjálfsögðu verið viss um það að þegar svo mörg stærri fyrirtæki í Reykjavík eru tekjuskattslaus, — ég get látið þess getið að yfir 100 þessara fyrirtækja mæla veltu sína í tugum millj. — þá eru að sjálfsögðu hundruð fyrirtækja um land allt með tekjuskattsgreiðslur sem eru ekki í neinu samræmi við hagnað þeirra.

Ef við veltum fyrir okkur hvaða aðferðir kunni að vera fyrir hendi til að komast undan því að greiða tekjuskatt þarf ekki að segja neinum það að ólöglegar aðferðir eru býsna margar til. Hér verður þó alls ekki fjallað um ólöglegu aðferðirnar, heldur einungis um þær löglegu.

Áður en vikið er að aðalaðferðunum er rétt að gera grein fyrir örfáum aðferðum sem hafa kannske nokkra sérstöðu. Það má nefna sem dæmi að mörg fyrirtæki hafa í hendi sér að meta vörubirgðir á lágu verði og með þessu geta þau velt á undan sér mjög miklum tekjum, en það er að sjálfsögðu mjög hagkvæmt gagnvart skattayfirvöldum á slíkum verðbólgutímum eins og við lifum nú. Skyld aðferð, sem tryggingafélög nota meira eða minna eftirlitslaust, er heimild þeirra skv. 17. gr. skattalaganna til þess að leggja til hliðar vegna ógreiddra tjóna eða bótagreiðslna. Þannig er vitað að tryggingafélög geta skotið undan miklum tekjum sem oft eru ekki skattlagðar fyrr en löngu síðar. Þær eru að sjálfsögðu skattlagðar fyrr eða síðar, en verði um langan tíma að ræða sem liður frá því að tekjurnar verða til og þar til skatturinn er á lagður, þá er um mikinn hagnað að ræða vegna þess að krónurnar verða verðminni.

En við skulum sleppa þessum sérstöku aðferðum sem í raun og veru eiga aðeins við í afmörkuðum tilvikum þótt að vísu eigi þær vafalaust við býsna mörg fyrirtæki og þá sérstaklega sú aðferð að meta vörubirgðir lágt. Aðalaðferðirnar til þess að sleppa undan að greiða tekjuskatt byggjast á heimildum skattalaganna sjálfra og þar ber einkum að nefna fjórar leiðir.

Í fyrsta lagi má nefna heimild í 17. gr. skattal. sem fyrirtæki hafa til að leggja í varasjóð 1/4 af hreinum tekjum félaganna áður en tekjuskattur frá árinu áður hefur verið frádreginn. Þessi fjórðungur tekna er sem sagt skattfrjáls með öllu. Í svari hæstv. fjmrh. við fsp. hv. þm. Geirs Gunnarssonar nú fyrir nokkrum dögum kom fram að árið 1974 hefðu félög, — þá er sem sagt átt við bæði hlutafélög og aðrar félagseiningar sem með rekstur hafa að gera, — þessi fyrirtæki höfðu dregið frá hreinum tekjum sínum, áður en skattur var á lagður, 511 millj. kr. á þessu eina ári. Nú er skattgjaldsstofn félaga 53% og má því ætla að ríkissjóður hafi með þessu heimildarákvæði einu látið af hendi 271 millj. kr. til félaga á þessu eina ári eða 781 millj. kr. á fjórum árum, á árabilinu 1971–1974.

Í öðru lagi ber að nefna almennar fyrningarreglur. Hámark fyrningar er 15% á ýmsum tegundum lausafjár, þ. á m. vinnuvélum og flutningatækjum, svo sem skipum og vöruflutningabifreiðum, 12.5% á öðru lausafé, en á fasteignum frá 2 og upp í 8% eftir gerð byggingarefnis fasteignanna og tegundum þeirra. Þannig eru lægstar fyrningar á steinsteyptum verslunar- og skrifstofuhúsum, hæstar á verksmiðjum og verkstæðum eða vörugeymslum sem byggðar eru úr lítt varanlegu efni eins og tré eða málmum.

Ef við á annað borð viðurkennum þá hugsun sem liggur að baki almennum afskriftareglum, að eigendur eigi að geta lagt til hliðar á hverju ári nokkra upphæð sem ekki sé skattlögð og þannig safnist í sjóð jafnvirði eignarinnar á sama tíma og hún gengur úr sér eða verður ónýt, þá verð ég að játa að mér sýnist að þessar almennu fyrningarreglur séu í grófum dráttum ekki óhæfilegar, þ. e. a. s. 12–15% fyrir eignir, sem ekki hafa áætlaðan endingartíma nema kannske 6–8 ár, en miklu lægri fyrir varanlegri eignir. En þó virðist mér augljóst að hægnastar séu þessar almennu fyrningarreglur varðandi skip, sem má fyrna allt að 90% á fimm árum, að vísu ekki nema 60% skv. almennu reglunni. Skip endast, eins og kunnugt er, að öllu jöfnu í 15–20 ár og eru lengi í háu verði, eru yfirleitt í miklu hærra verði þegar þau eru seld eftir fjögur ár heldur en þegar þau voru keypt og kemur þar að sjálfsögðu fyrst og fremst til verðbólguhækkun. Atvinnurekendur hafa löngum kvartað yfir því. Mér hafa borist tilmæli frá forseta um að gera hlé á ræðu minni vegna þess að Sjálfstfl. óski eftir að halda þingflokksfund. Ég verð að vísu að játa að mér finnast þessi tilmæli nokkuð einkennileg því að þessi tími, sem nú er, er ekki venjulegur þingflokksfundartími og hefði mér fundist að ósekju að sá fundur hefði kannske mátt vera svolítið síðar á þessum degi. En ég hlýt samt að verða við tilmælum forseta og mun því halda áfram ræðu minni þegar færi gefst síðar.

— [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég var beðinn að gera hlé á ræðu minni fyrr í dag hafði ég aðeins náð því að gera grein fyrir nokkrum atriðum þessa máls. Ég hafði bent á að fjöldamörg fyrirtæki sluppu við að greiða tekjuskatt á árinu 1974 og var að gera grein fyrir því hvaða ástæður mundu hafa legið til þess að fyrirtækin sluppu svo vel frá skattgreiðslum. Ég nefndi það að ýmsar sérstakar aðferðir væru notaðar til þess að komast hjá að greiða tekjuskatt, en þar nefndi ég sem dæmi að vörubirgðir væru metnar í lágu virði og tekjum, sem í þeim fælust, væri síðan velt áfram, en með því fengist allverulegur verðbólguhagnaður. Einnig nefndi ég þær aðferðir, sem tryggingafélögin nota, en þau hafa heimild til að leggja til hliðar vegna ógreiddra tjóna- eða bótagreiðslna og geta þannig skotið undan miklum tekjum, sem ekki eru skattlagðar fyrr en löngu eftir að þær verða til. Síðan sneri ég mér að 4 meginaðferðum sem notaðar eru til að sleppa undan greiðslu tekjuskatts og nefndi þar fyrst heimildina, sem er í 17. gr. skattal. um heimild til félaga til að leggja í varasjóð 1/4 af beinum tekjum félaga, og benti á að samkv. svari hæstv. fjmrh. við fsp. hv. þm. Geirs Gunnarssonar hefðu félög á árinu 1974 getað dregið frá beinum tekjum sínum alls 511 millj. kr. En með þessum hætti hefði ríkissjóður látið af hendi 271 millj. kr. til félaga á þessu eina ári.

Í öðru lagi nefndi ég hinar almennu fyrningarreglur og rakti hverjar þær eru, en þær eru á lausafé 12.5–15% og á fasteignum frá 2–8%. Ég var síðan kominn að því atriði að atvinnurekendur hafa löngum kvartað yfir því að vegna verðbólgunnar væri endurnýjunarverðmæti eignanna langtum hærra þegar framleiðslutækið væri endurnýjað en numið hefði upphaflegu kaupverði og fyrningarverði á notkunartímanum og þar af leiddi að þeir bæru skarðan hlut frá borði. Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram að þessi umkvörtun atvinnurekenda sé ekki að öllu leyti rökrétt. Flest atvinnufyrirtæki eru keypt fyrir lánsfé, a. m. k. að hálfu leyti og oft að 70–90%. Það er að sjálfsögðu ekki rökrétt að fyrirtæki fái aðstoð úr ríkissjóði til þess að fyrna þann hluta af eignum sínum, sem eru keyptar fyrir lánsfé, enda má að sjálfsögðu ætla að þegar atvinnurekandi kaupir næst atvinnutæki fái hann hlutfallslega ekki minna lánsfé en hann fékk í hið fyrra sinn og hann þurfi því raunverulega aðeins að fyrna eignarhluta sinn í atvinnutækinu, eða þannig fyndist manni að löggjafinn ætti að líta á málið. En svo er ekki. Í þessu efni eru lögin ákaflega hagstæð atvinnurekendum og því að sjálfsögðu ljóst, að þeir hafa ekki yfir neinu að kvarta í þessum efnum.

Er ég þá kominn að þriðju stóru skattaívilnunarreglunni í skattal., en það er reglan í 15. gr. skattal., 6. mgr., um svonefndan verðhækkunarstuðul sem svari til hinna almennu verðbreytinga er átt hafa sér stað á skattárinu. Í 15. gr., 6. mgr., segir:

„Verði almennar verðbreytingar til hækkunar á eignum þeim, sem taldar eru í 1. og 2. tölul. a-liðar 1. mgr. hér að framan,“ — en það eru sem sagt eignirnar sem fyrnanlegar eru, — „er skattþegni heimilt að fyrna slíkar eignir sérstakri óbeinni fyrningu sem reiknuð skal af krónutölu þeirra fyrninga sem hann notar á árinu með heimild í 1.–3. tölul. C-liðar þessarar gr. Skulu þær ákveðnar eftir verðhækkunarstuðli sem svarar til hinna almennu verðbreytinga sem átt hafa sér stað á skattárinu. Við ákvörðun verðhækkunarstuðuls fyrir húseignir skal hafa til hliðsjónar breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Verðhækkunarstuðul fyrir fyrnanlegar eignir í atvinnurekstri skal einkum miða við verðbreytingar á þeim eignum sem fluttar eru til landsins.“

Samkv. þessu ákvæði hefur hæstv. fjmrh. ákveðið með auglýsingu nr. 381 1974 að verðhækkunarstuðull fasteigna á árinu 1974 skuli teljast hvorki meira né minna en 60% af fasteignum og af lausafé 70%. Eru þetta víst langsamlega hæstu tölur sem notaðar hafa verið við ákvörðun þessa verðhækkunarstuðuls því að hann mun hafa verið á árinu 1973 aðeins um 10%. En þetta táknar sem sagt að fyrning á lausafé, sem ég hef hér gert grein fyrir að er samkv. dögum að hámarki 15% á ári, hækkar um 70% til viðbótar og fyrning af vinnuvélum, flutningatækjum og skipum er því í reynd á árinu 1974 25.5% og af öðru lausafé rúm 21%. Ég vek á því athygli, að þessi stórfelldu hlunnindi, sem fela í sér afsal ríkissjóðs á hundruðum millj. kr. á ári, koma atvinnurekstrinum til góða til viðbótar varasjóðsheimildinni, almennu fyrningunni og flýtifyrningunni sem ég hef enn ekki vikið að. En það er fjórða verulega skattaívilnunarreglan í þágu atvinnurekstrarins og hún er í skattalögum í D-lið 15. gr. og kveður svo á um að til viðbótar fyrrnefndum fyrningarreglum sé heimilt að fyrna eignir um 30% af heildarfyrningarverði þeirra á 5 árum um 6% á ári. Eins og ég sagði áðan er þetta hin svokallaða flýtifyrning og hún kom inn í löggjöfina árið 1971. Þetta var eitt af seinustu verkum Viðreisnarstjórnarinnar sálugu. Hún var þá ótakmörkuð og gat orðið 30% á einu ári, en sú lagfæring fékkst fram í tíð vinstri stjórnarinnar að flýtifyrningin var bundin að hámarki við 6% á hverju ári.

Eins og ég hef þegar tekið fram bætist þessi fyrningarheimild við þær afskriftaheimildir, sem áður eru nefndar, og eins og sjá má af þeim tölum, sem ég hef dregið hér fram, geta fyrningar ýmissa eigna, þ. á m. vinnuvéla, bifreiða, krana, skipa, bæði fiskiskipa og flutningaskipa, numið tæplega 32% á einu einasta ári þegar allar þessar heimildir koma saman. Nú er það svo að eignir má fyrna allt að 90% samtals, þegar allt er talið ár eftir ár. Samkv. þessum heimildum er því hugsanlegt að eign sé fyrnd að fullu samkv. heimildum laga á aðeins þremur árum. Það mundi að sjálfsögðu heyra til undantekninga að eign væri að fullu fyrnd á þremur árum. Til þess þyrfti verðbólguþróunin að vera býsna ör. Hitt er sjálfsagt mjög algengt og næstum að segja regla, að eignir séu fyrndar á nokkru lengri tíma, enda ekki víst að þörf sé á því að nýta fyrningarheimildir til fulls á hverju ári til þess að fyrirtæki geti losnað við skatta. Það mun því vera mjög algengt að lausafé sé að fullu fyrnt á 4–6 árum.

Nú kynni einhver að segja sem svo að þegar 4–6 ár eru liðin, þá sé atvinnurekandinn í raun og veru búinn að eyða öllum þessum fyrningarheimildum, fá út á þær tekjuskattslækkanir miklar og nú sé hann í raun og veru búinn að eyða öllum forðanum og verði að sæta því að fá engar afskriftir á eignir sínar á árunum sem þar fylgja í kjölfarið. Hann þurfi því að borga mikla skatta og standi sem sagt algerlega berskjaldaður gagnvart tekjuskattsálagningunni svo fremi að hann hafi ekki verið að bæta raunverulega við sig nýjum eignum. En þeir, sem þetta halda, hafa ekki áttað sig á heildarsamhengi þessa máls. Ef eignin er þess eðlis að auðvelt er að selja hana, þá á atvinnurekandinn enn einn leik á borði. Hann sem sagt selur eignina og kaupir sér aðra eign jafnverðmæta eða dýrari. Hvort sem þessi eign, sem hann kaupir í staðinn, er notuð eða ný, þá heimilast honum að byrja afskriftirnar á nýjan leik af fullum krafti eins og ekkert hafi gerst.

Ég hef nýlega gert þá fsp. hjá skattayfirvöldum hvort það sé hugsanlegt að tveir útgerðarmenn, sem báðir hafa eignast fiskiskip fyrir t. d. 150 millj. kr. hvor um sig og báðir hafa afskrifað skip sín á 4–5 árum að 90% og hafa þannig sloppið hugsanlega við að greiða tekjuskatt sem nemur 135 millj. kr. hagnaði hvor um sig, geti raunverulega séð sér leik á borði að hafa skipti á skipum í þeim tilgangi að geta byrjað að afskrifa hvor um sig á nýjan leik. Ég fékk þau svör að þetta væri vel hugsanlegt og í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu, sbr. E-lið 7. gr. skattal. um skattskyldan ágóða af sölu fyrnanlegs lausafjár sem bindur skattskylduna við 4 ár. Sá, sem þetta ætlar að gera, verður að bíða í 4 ár með að selja skipið og skipta á því við einhvern annan. En eftir 4 ár er hann kannske búinn að fyrna fyrra skipið um 90% og þá getur hann skipt og byrjað svo af fullum krafti á nýju skipi, sem væntanlega er allmiklu dýrara en það fyrra.

Eins og ég hef hér nefnt þarf seljandi skipsins ekkert að greiða í skatt af söluhagnaði eftir fjögurra ára eignarhald. En það skal að vísu tekið fram, til þess að öllu sé til skila haldið, að lögum samkv. á hann að greiða skatt af flýtifyrningunni sem er 30% af þessum 90% sem ég nefndi áðan. Hann á að skila til baka þeim skattaívilnunum, sem liggja í því að hann hefur notað flýtifyrninguna til að sleppa við skattgreiðslu. En af því að það má heita öruggt mál eð útgerðarmaðurinn er ekki sérlega hrifinn af því að þurfa að standa skil á þessu fjármagni, þá hefur verið séð fyrir enn einni smugu í skattal. til að koma í veg fyrir að hann þurfi nokkurn tíma að standa skil á skatti af þessum 30%. Ef hann sem sagt kaupir annað skip, sem væntanlega er í verðbólguþjóðfélagi miklu, miklu dýrara en skipið sem hann var að fyrna, þá heimilast honum að láta þær afskriftir, sem hann átti að greiða skattinn af, ganga upp í nýjar fyrningar sem geta numið, eins og hér hefur verið sagt, allt að 31.5% á árinu 1975, þannig að það má heita harla ólíklegt að hann borgi nokkurn tíma nokkurn skatt, ekki heldur af flýtifyrningunni.

Þessi furðulegu fyrningarákvæði verða að sjálfsögðu enn fáránlegri í ljósi þess að lánafyrirgreiðsla til skipakaupa er 85–90% og lánin eru veitt til allt að 18 ára. Eftir 4 ár, þegar skip er að fullu fyrnt, hefur eigandinn sjálfur aðeins greitt 30–34% af andvirði skipsins, en þá selur hann mjög oft skipið og afgangurinn af verði skipsins er raunverulega í eigu opinberra sjóða, en hann hefur sjálfur fengið að njóta þess hagnaðar sem fólginn er í afskriftum af þeim hluta skipsverðsins einnig. Við þennan þátt málsins er alkunn staðreynd í þjóðfélagi okkar að skip eru seld eftir 4–5 ár, og má heita frekar regla að svo sé, og þarf því enginn að vera neitt undrandi á því af hverju það stafar.

Ef við gerum tilraun til þess að meta þann heildarhagnað, sem fyrirtæki hafa árlega af fyrningarreglum, þá verðum við að líta á opinberar tölur um brúttóhagnað fyrirtækja áður en greiddur er skattur og áður en afskriftir eru reiknaðar. Samkv. upplýsingum hagrannsóknadeildar þeirrar stofnunar, sem nú mun heita Þjóðhagsstofnun, var brúttóhagnaður allra fyrirtækja í landinu á árinu 1973 um 5100 millj. kr. Þar af var hagnaður í iðnaði, að undanskildum sements-, áburðar- og áliðnaði, 1506 millj. í fiskiðnaði 2117, í smásöluverslun 567, í heildsöluverslun 571 og í sjávarútvegi eða útgerð 361. Samtals gera þetta 5 122 millj. kr. Ef skattar væru greiddir af hagnaðinum, eins og hann kemur fyrir þá hefðu tekjuskattar átt að vera á árinu 1974 2 700 millj. kr. En samkv. upplýsingum sömu stofnunar er talið að tekjuskattar félaga hafi numið rúmum 700 millj. kr. á árinu 1974, sem sagt munurinn er hvorki meira né minna en 2 000 millj. kr. Að sjálfsögðu er munurinn fólginn í þeim fyrningar- og ívilnunarreglum, sem ég hef hér rakið, og mönnum til fróðleiks er rétt að skýra hér frá því hvernig hlutföllin eru í grófum dráttum. Eins og ég hef áður tekið fram námu varasjóðsheimildirnar á árinu 1973 511 millj. kr., en afskriftir 2 550 millj. Þó að manni finnist að vísu að skatturinn ætti að gefa eilítið meira, því að mismunurinn á brúttóhagnaði, afskriftum og varasjóðsheimildum er rúmlega 2004 millj., skatturinn ætti þá að vera liðlega 1000 millj., þá virðist vera að samkv. áætlunum um innheimtan skatt nemi hann ekki nema liðlega 700 millj. kr. og kann ég ekki að gera grein fyrir því í hverju þessi munur kann að vera fólginn. En mér dettur í hug í fljótu bragði að hann liggi í því að skatturinn er að sjálfsögðu ekki lagður á skatta fyrra árs og má vera að þeir séu í þessari tölu. En það er eitthvað sem veldur þessum 300 millj. kr. mun. Upp úr stendur að ef lagður væri 53% tekjuskattur á brúttóhagnað fyrirtækja í landinu, þá ætti sá skattur að nema 2 700 millj. fyrir skattárið 1973, en hann nam aðeins rúmum 700 millj. kr.

Ég held að menn þurfi ekkert að efast um það að fyrirtæki á íslandi bera óeðlilega lítinn hluta af skattabyrðinni. Ég vil í því sambandi aðeins benda á það að ef teknir eru þrír stærstu gjaldpóstarnir, sem lagðir eru á hinn almenna skattgreiðanda í landinu, þá eru það að sjálfsögðu tekjuskatturinn með tæpa 6 milljarða á árinu 1975, tollar með rúma 12 milljarða og söluskattur með tæpa 18 milljarða eða samtals 36 milljarðar kr. En tekjuskattur á félög í landinu nemur aðeins 1 milljarði á árinu 1975 samkv. áætlun fjárl. og sjá allir að munurinn er þarna orðinn gífurlegur, enda mun staðreyndin vera sú að hlutfall gjalda atvinnurekstrarins af heildartekjum ríkissjóðs hefur farið mjög minnkandi á síðari árum.

Eins og ég sagði er tekjuskattur félaga á árinu 1975 áætlaður 1 milljarður í fjárl., en ég vil leyfa mér að fullyrða að ef engar ráðstafanir verða nú gerðar til að breyta þeim fyrningarreglum og afskriftarheimildum, sem fyrir eru í lögum þá muni heimtur ríkisins af tekjuskatti félaga verða langtum minni en áætlað er í fjárl. Að vísu er það svo að kannske verður enginn til frásagnar um það hvað tekjuskattur félaga raunverulega er á árinu 1975 frekar en endranær, því að svo einkennilega vill til að í ríkisreikningi er þessi tala ekki sundurliðuð, þ. e. a. s, tekjuskatturinn almennt, og því ekki hægt að átta sig á því hvað er tekjuskattur félaga og hvað er tekjuskattur einstaklinga. Ég hef því ekki getað fengið um það upplýsingar hver var raunveruleg tekjuskattsgreiðsla félaga á árinu 1974, heldur hef orðið að styðjast eingöngu við áætlunartölur.

Ég lít svo á að brýn þörf sé á því að fram fari sérstök rannsókn á bókhaldi, birgðasöfnun og eignaaukningu fyrirtækja á Íslandi í dag. Þess vegna er það annar þátturinn í þeirri till. til þál., sem ég hef leyft mér að flytja, að fram fari sérstök rannsókn á bókhaldi, birgðasöfnun og eignaaukningu þeirra hundraða fyrirtækja sem höfðu meira en 5 millj. kr. í ársveltu á árinu 1973, eins og segir í till., en fengu þó engan tekjuskatt samkv. skattskrá ársins 1974. Ég er sannfærður um að margt muni koma í ljós við þessa rannsókn, sem mönnum var ekki áður ljóst, og ég lit svo á að nauðsynlegt sé að gera slíka rannsókn til þess að átta sig á því hvernig fyrningarreglum verður hagað í framtíðinni. En eins og ég hef áður tekið fram, þá er það skýrt tekið fram í till. að flýtifyrningin verði þegar í stað afnumin og er þá rannsóknin fyrst og fremst auðvitað við það miðuð að fyrningarreglurnar verði að öðru leyti teknar til athugunar og þeim skipað á nýjan veg þegar þeirri rannsókn er lokið. Ég er sannfærður um að rannsókn af þessu tagi mundi leiða margt athyglisvert í ljós, fleira en það hvernig fyrirtæki hafa hagnast á afskriftareglum. Eitt af því, sem vinnst við slíka rannsókn, er það að fá mætti hugmynd um þann mikla verðbólgugróða sem íslensk fyrirtæki taka til sín í skjóli verðbólgunnar. Óþarfi ætti að vera að gera hér grein fyrir því hvers eðlis sá gróði er sem kenna má við verðbólgu. Verðbólgugróði verður til þegar eign, sem keypt er með lánafyrirgreiðslum, hækkar hlutfallslega miklu örar í verði en áhvílandi lán, þegar höfð er hliðsjón af vaxtagreiðslum og hugsanlegu vísitöluálagi eða gengishækkun lána. Verðbólgugróðinn er sem sagt ævinlega tengdur lánum eða skuldum í beinu eða óbeinu formi.

Alltaf öðru hverju verð ég var við það að til eru þeir sem ekki skilja í hverju verðbólgugróði er fólginn. Þeir ímynda sér að þegar rætt er um verðbólgugróða sé einfaldlega átt við almennar verðhækkanir á eignum af völdum verðbólgunnar. Þannig var t. d. langur pistill í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum sem einmitt fjallaði um þessa till., en hinn ágæti höfundur greinarinnar virtist hreinlega ekki skilja hvað átt væri við með hugtakinu verðbólgugróði, virtist sem sagt ímynda sér að menn ættu bara við það að eignir hækka af völdum verðbólgu. En það segir sig sjálft að sá, sem á skuldlausa eign, hagnast ekkert á því einu að eign hækki í verði, ef verðhækkunin er fólgin í því einu að peningarnir hafa rýrnað í gildi. Því aðeins að skuldir hvíli á eigninni er að sjálfsögðu um verðbólgugróða að ræða.

Samkv. lauslegri áætlun, sem ég hef reynt að gera um lán, óverðtryggð og án gengistryggingar, úr bönkum og lánasjóðum, virðist mér að þau hafi numið milli 20 og 22 milljörðum kr. á árinu 1974, milli 20 og 22 þús. millj. kr. á árinu 1974. Því miður hef ég ekki nákvæmar upplýsingar um heildarupphæð útistandandi lána úr bönkum eða öðrum innlánsstofnunum eða úr fjárfestingarlánasjóðum eða lífeyrissjóðum. En af fyrirliggjandi opinberum upplýsingum virðist mega ætla að upphæðin sé einhvers staðar milli 80 og 90 þús. millj. kr. Á árinu 1974 hækkaði verðlag á fasteignum og lausafé um 50–70%. Það ætti því ekki neinn að þurfa að fara í grafgötur um það að verðbólgugróði á þessu eina ári, á árinu 1974, hefur verið gífurlegur. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að rifja upp orð sem Bjarni heitinn Benediktsson, fyrrv. forsrh., lét falla á Alþ. í umr. um verðstöðvunarfrv. sem þá var á ferðinni, en þessar umr. fóru fram 12. des. 1966. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það væri auðvitað alveg fásinna ef ég ætlaði að segja að aldrei kæmi til mála að fella gengi á Íslandi. Hitt segi ég, og við það skal ég standa, að ég skal aldrei verða með gengislækkun framar nema því aðeins að ráðstafanir verði gerðar til þess að þeir, sem ætla sér að knýja fram gengislækkun til þess að græða á henni sjálfir, fái að borga sinn brúsa fyllilega.“

Bjarni heitinn Benediktsson var sem sagt ekki í neinum vafa um að til væri nokkuð sem héti verðbólgugróði og þeir væru margir sem högnuðust með óeðlilegum hætti á verðbólgunni. En ég vil aðeins bæta því við, að ef nokkurn tíma hefur í Íslandssögunni verið tímabært að lagður sé verðbólguskattur á þá, sem hafa grætt á verðbólgunni, þannig að þeir fái að borga brúsann, eins og Bjarni heitinn Benediktsson komst svo ágætlega að orði, þá er það nú. Af þessari ástæðu er lagt til í þessari till., sem ég hef hér lagt fram, að á grundvelli þeirrar rannsóknar, sem fram fari, verði undirbúin löggjöf um almennan skatt á verðbólgugróða fyrirtækja.

Ég vil að lokum segja það eitt, að með afnámi flýtifyrningar, með endurskoðun fyrningarreglnanna og sérstaklega með afnámi verðhækkunarstuðulsins, sem ég hef hér gert að umræðuefni, og þar að auki með því að skattleggja nokkurn hluta af þeim mikla verðbólgugróða, sem nú myndast á ári hverju, oftast með tilstyrk ríkisbanka og opinberra fjárfestingarlánasjóða, mætti alveg vafalaust draga verulega úr skattaálögum á alþýðu manna. Vil ég í því sambandi segja, að ég tel að sérstaklega komi til álita að fella niður söluskatt á ýmsum nauðsynjavörum og draga þannig úr verðbólgu, eins og við Alþb.-menn höfum gert till. um hér á hv. Alþ.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn.