15.04.1975
Sameinað þing: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2929 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

170. mál, afnám flýtifyrningar og skattur á verðbólgugróða

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er alveg rétt til getið hjá hv. þm. að þessi mál eru að sjálfsögðu nátengd, það er náið samhengi á milli annars vegar vísitölubindingar lána og svo hins vegar þess að verðbólguskattur sé á lagður sem sé miðaður við skuldir og lán. En á þessu er samt sem áður talsverður munur. Ég er sannfærður um að hv. þm. gerir sér grein fyrir því að þó að um yrði að ræða vísitölubindingu fjárskuldbindinga í miklu ríkari mæli en nú er, þá yrði samt mjög erfitt ef ekki ógerlegt, að taka upp slíka vísitölubindingu á skammtímalánum og yfirleitt á bankalánum vegna framkvæmdarörðugleika.

Ég býst því við að þó að menn tali nú um eitt og annað í þessu sambandi, þá muni enginn ímynda sér að hægt verði að vísitölutryggja lán alveg 100%. Ætli það verði ekki býsna langt frá að vera 100%? Ætli það séu nema svona 20–30% af lánum sem í framkvæmd er raunverulega mögulegt að vísitölutryggja? En svo er aftur annað mál með vísitölutrygginguna. Það er mál sem við höfum rætt í öðru samhengi og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að taka hana til meðferðar hér. En ég er persónulega í grundvallaratriðum ósammála því að lán verði almennt vísitölutryggð að fullu. Ég tel að frá efnahagslegu sjónarmiði væri það óðs manns æði, fyrst og fremst vegna þess að þá yrði um að ræða svo háa raunvexti á lánum að það gæti ekki haft annað í för með sér en miklu gífurlegri óðaverðbólgu en við höfum nokkru sinni áður kynnst. Hitt er annað mál að vísitölutrygging getur átt rétt á sér annaðhvort með vöxtum, sem eru nærri núllinu, eða vísitölutrygging að hluta, t. d. að 1/3 hluta eða að hálfu leyti, sem er að sjálfsögðu allt annað mál því að þá er bara um það að ræða að verið er að hafa gjald af lánsfé í einhverju samræmi við verðbólguna í þjóðfélaginu. Það á að sjálfsögðu fyllsta rétt á sér. En það er hins vegar rétt að það er náskylt því máli sem hér er verið að tala um, þ. e. a. s. verðbólguskatti. Ég tel hins vegar að þeir, sem tapa á verðbólgunni, séu býsna margir, en þó er þar fyrst og fremst um að ræða opinbera lánasjóði og opinbert bankakerfi. Það eru fyrst og fremst þessir aðilar sem eru að tapa, fyrir utan sparifjáreigendur. Ég tel að verðbólguskattur eigi því fyllsta rétt á sér til þess að reyna að vinna upp það tap, sem þarna er um að ræða, með skatti á þá sem mest græða á verðbólgunni.

Að lokum vil ég aðeins segja — vegna þess að hv. þm. vildi ekki við það kannast sem ég sagði hér áðan — að menn gætu raunverulega losnað við flýtifyrninguna, að heimildin, sem er til þess, er í 15. gr. skattalaga, nánar tiltekið í lokamgr. Þar segir: „Á sama ári er heimilt að fyrna þessar eignir með sérstakri fyrningu, er nemi sömu fjárhæð og talin var til tekna vegna þessa, þó eigi meira en nemur ófyrndum eftirstöðvum heildarfyrningarverðs eignanna.“ Þetta er að vísu það flókið að miklu lengra mál þyrfti til að gera grein fyrir því, en ég læt nægja að vísa í þetta lagaákvæði sem raunverulega felur það í sér að þegar maður selur eign, sem hefur verið fyrnd með t. d. 30% flýtifyrningu og kaupir aðra eign í staðinn, þá kemur ekki flýtifyrningin til skatts vegna þess að hann getur látið hana ganga upp í nýjar fyrningar.