15.04.1975
Sameinað þing: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2942 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

219. mál, framkvæmd laga um grunnskóla

Forseti (Ásgeir Bjarnason) :

Út af því, sem hv. 10. þm. Reykv., Kristján Friðriksson sagði í sambandi við störf Alþ. og alþm., vil ég taka það fram, af því að ég geri ráð fyrir að hann sé ekki nógu kunnugur störfum þm. eftir þann stutta tíma sem hann hefur setið hér á Alþ.,alþm. þurfa víðar að starfa heldur en í þingsölunum og verða fleira að gera en að halda ræður. Og það er alls ekki rétt með farið að starfstími alþm. sé stuttur því að þm. eru alltaf starfandi, hvort heldur þeir eru í Alþ. sjálfu eða í kjördæmum sínum, enda ber þeim að gera slíkt. Og þótt venja sé að halda ekki þingfundi á föstudögum, þá veitir alþm. ekkert af þeim dögum til að sinna ýmsum málefnum í bænum, á opinberum skrifstofum og bönkum, sem þeir hafa ekki tíma til aðra daga vikunnar.

Þetta vildi ég upplýsa hv. þm. um um leið og hann er að kveðja Alþ. Ég geri ráð fyrir því að hann fengi aðra mynd af störfum Alþ. og alþm. ef hans gifta yrði fólgin í því að vera hér lengur í sölum Alþ.