16.04.1975
Efri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

125. mál, almannatryggingar

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. 125. mál fjallar um breyt. á l. um almannatryggingar. Breyt. koma fram í 1. og 2. gr. frv. 1. gr. hljóðar svo:

„Nú dvelst sá, sem dagpeninga nýtur, í sjúkrahúsi eða á hæli á kostnað samlags síns og skal hann þá halda dagpeningum óskertum. Hið sama gildir um sjúkradagpeninga vegna barna sjúklings.“

Og 2. gr.:

„Elli-, örorku- eða ekkjulífeyrisþegi heldur óskertum lífeyrisgreiðslum, þótt til komi vistun á stofnun þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann, nema um sé að ræða samfellda vistun á slíkum stofnunum umfram 24 mánuði.“

Nál. heilbr.- og trn. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

N. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og fengið umsagnir um það. Ljóst er að skerðing sjúkradagpeninga við dvöl á sjúkrahúsi veldur mörgum heimilum örðugleikum, en nauðsynlegt er að afla frekari upplýsinga og gagna um þann aukna kostnað, er mundi leiða af afnámi skerðingarákvæðanna, áður en ákvörðun verði tekin. Varðandi 2. gr. frv. er í gildandi l. heimild til þeirra lífeyrisgreiðslna, sem þar er rætt um, og þar sem heimildarendurskoðun almannatryggingalaga fer nú fram og í trausti þess, að við þá endurskoðun verði umrædd atriði athuguð nánar, leggur n. til að frv. verði vísað til ríkisstj.