16.04.1975
Neðri deild: 66. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2967 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

130. mál, fóstureyðingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti: Ég á sæti í heilbr.- og trn. þessarar d. og stend því að till. meiri hl. n. ásamt þeim tveimur meðnm. mínum sem hér hafa talað svo og öðrum nm. Ég vek athygli á því að n. í heild stendur að þessum brtt. sem prentaðar eru á þskj. 431.

Það hefur verið nokkuð um það talað að aðallega karlmenn hafi fjallað um þetta mál á undirbúningsstigum þess og þar sem segja má að ég hafi nokkra sérstöðu í þessari þn. vegna þess að ég er sú eina af nm. sem hef staðið í því sjálf að ganga með og fæða börn þá sé ég ástæðu til þess að greina nokkru nánar frá mínum viðhorfum til þessara mála en beinlínis kemur fram í nál. okkar.

Ég vil þá fyrst nefna það, að ég tel að það málefni, sem frv. um fóstureyðingar fjallar um, sé ekki sérmál kvenna. Við erum að fjalla um málefni barna, málefni foreldra, málefni sem varðar allt þjóðfélagið. Það hafa miklar umr., sem hafa verið mjög tilfinningabundnar, farið fram í landi okkar og raunar fleiri löndum mánuðum saman og árum saman um þetta mál. Ég tel að um þetta mál hafi verið fjallað á þann hátt að mönnum hafi hætt til að segja mörg ótímabær orð og mörg vanhugsuð orð.

Í fyrsta lagi tel ég að það sé grundvallarmisskilningur að við séum að fjalla um kvenréttindamál. Ég tel mig vera kvenréttindakonu í þess orðs fyllstu merkingu og þá á ég við að ég vil reyna að vinna að því að jafnrétti karla og kvenna sé sem mest í þjóðfélaginu. Ég held að þegar því er haldið fram að það sé sjálfsagður réttur konu að mega eyða því lífi sem hún ber undir belti eða eins og það er orðað stundum: ráða því sjálf hvort hún gengur með, fæðir og elur upp það barn sem hún á von á, þá séum við að tala um kvenréttindamál á villigötum. Mér er ómögulegt að líta á það sem sjálfsagðan rétt einnar manneskju að eyða lífi og allra síst þegar um það líf er að ræða sem á fyrir höndum að verða að manneskju, líf sem er algerlega komið undir því að það fái næringu úr líkama þeirrar móður sem tekur þessa ákvörðun. Ég held því að hin mjög svo útbreiddi talsmáti, sjálfsákvörðunarréttur konu til fóstureyðingar, feli í sér margar mótsagnir. Í fyrsta lagi er hægt að tala þarna um ákvörðunarrétt, ef menn líta svo á að um eitthvert réttindamál sé að ræða, en ekki sjálfsákvörðunarrétt. Það er eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, ekki konan ein sem á í hlut. Hún á ekki ein hlut að máli, það er faðir barnsins eða þungans skulum við segja og það er það líf sem kviknað er innra með henni og hún verður að taka ákvörðun um ef hún á að ráða því sjálf og ein hvort það fær að þróast áfram eða ekki. Mér finnst því rangt að tala um í þessu sambandi sjálfsákvörðun konunnar. Hins vegar finnst mér rétt að tala um sjálfsákvörðun konunnar á fyrra stigi, Það varð sannarlega gjörbreyting á sjálfsákvörðunarrétti kvenna þegar sú merka læknisfræðilega uppgötvun var gerð sem leiddi til þess að notkun pillunnar svonefndu varð útbreidd. Nú á dögum eiga konur að hafa sjálfsákvörðunarrétt um það hvort barn er getið eða ekki, og það er það sem skiptir máli. Og það er ekki aðeins það að konur eigi að hafa sjálfsákvörðunarrétt um það hvort barn er getið, það er sjálfsagt, — karlmaðurinn þarf líka að virða þennan rétt hennar og þarna liggur hætta í því að tala um að það sé réttindamál fyrir konu að fóstureyðingar verði lögleiddar frjálsar. Ég leyfi mér að nota orðalagið frjálsar því að ég lít svo á að það sé raunverulega það sem yrði staðreynd ef að lögum yrði sú hugmynd sem hv. þm. Magnús Kjartansson talaði um áðan og var í fyrra stjórnarfrumvarpi um þetta mál, 9. gr. þess.

Í því sambandi tala menn — og m. a. sá hv. þm. — af mikilli vandlætingu um það viðhorf sem felst í ótta manna um það að frjáls fóstureyðing eða réttur til frjálsrar fóstureyðingar gæti leitt til þess að menn notuðu síður getnaðarvarnir, eða öllu heldur eins og hv. þm. sagði, að konur hættu að nota getnaðarvarnir. Þetta hafa menn bæði hér á þingi og utan þess túlkað fyrst. og fremst sem vantraust á konum. Ég spyr: En karlmönnum? Er það aðeins konan ein sem á að sjá um getnaðarvarnir? Gera menn sér ljóst að það er margt fólk sem er svo ástatt um að það nýtur aldrei þeirrar hamingju að lifa kynlífi annaðhvort í varanlegu ástarsambandi eða hjónabandi? Það er á þessu sviði lífsins háð ýmiss konar skyndikynnum.

Ég veit ekki hvort menn gera sér ljóst, hversu umkomulaus kona getur verið undir svona kringumstæðum. Ég veit ekki heldur hvort menn gera sér ljóst eða hafa hugsað út í að ef í lögum landsins væri heimilt án nokkurra vafninga — eða ég get ekki kallað það neina vafninga — að fá fóstri eytt þrátt fyrir fortölur og leiðbeiningar annarra, að einungis slík löggjöf mundi svipta konu vissri réttarvernd sem hún hefur í dag og ég tel að löggjöfin eigi að veita henni. Það er ekki aðeins á þessu augnabliki — nú er ég að tala um það augnablik sem máli skiptir og sjaldan er kannske talað um í þessum umr., þ. e. a. s. þegar barnið er getið — það er líka síðar. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa lifað þá aðstöðu að sitja andspænis þungaðri konu sem útlistar fyrir manni að hún hafi tilkynnt barnsföður sínum að hún væri þunguð. Henni bregður að vísu í fyrstu, hún reynir að átta sig á staðreyndum málsins og ákveður að það sé ekkert víst að hún hafi síðar í lífinu möguleika á að eignast barn. Hún tekur þá ákvörðun að hún skuli ganga með þetta barn og fæða það, fer og segir barnsföður sínum hvernig ástatt er, og maðurinn segir við hana: Nú, ef þú ert ófrísk, þá skal ég kosta fyrir þig ferð til útlanda og þú lætur eyða þessu fóstri og minnist ekki á þetta við nokkurn mann. Ef þú gerir það ekki þá skaltu fá að standa í því að fara í mál til að feðra barn þitt, því að ég neita að gangast við þessum þunga og þú hefur engar sannanir. — Ég leyfi mér að nefna dæmi af þessu tagi vegna þess að sjálf hef ég verið í þeirri aðstöðu að tala við konur sem svona er ástatt um þó nokkrum sinnum. Ég starfaði nefnilega um 8 ára skeið við stofnun sem hafði mikið með málefni mæðra í vanda — skulum við segja — eða væntanlegra mæðra að gera, og ég verð að játa að af kynnum mínum af þeim vandamálum, sem ég varð vör við þá, hefur afstaða mín í dag mjög mótast.

Nú kann að vera að einhverjum konum, sem eru bæði svo vel að sér og á allan hátt viljasterkar, segi sem svo: Ja, við erum alveg færar um að ákveða sjálfar hvort við látum eyða því fóstri sem við göngum með eða ekki, — að þeim finnist þessi afstaða móðgandi. En ég leyfi mér að segja að þær, sem svo stendur á um, ættu síst að þurfa á vernd þessarar löggjafar að halda. Ég lit svo á að þessi löggjöf eigi að vernda lítilmagnann. Og það er alveg sama hvað við vefjum þetta mál í miklar silkiumbúðir, við komumst ekki hjá því að viðurkenna að það er fjöldi kvenna sem ekki bara núna, heldur áratugum saman og væntanlega öldum saman hafa átt í vanda af þeim sökum — kannske m. a. og ekki síst vegna þess að karlmaðurinn hefur ekki virt sjálfsákvörðunarrétt konunnar. Halda menn að það muni fremur verða til þess að karlmaður virði sjálfsákvörðunarrétt konu að svipta hana þeirri réttarvernd sem felst í því að löggjöfin segi tvímælalaust að fóstureyðing sé ekki heimil hvenær sem er, jafnvel ekki hvenær sem er á fyrstu 12 vikum meðgöngutímans.

Þessi sjónarmið vil ég hér láta koma fram til að leggja áherslu á það að hér er ekki um kvenréttindamál að ræða. Það er ekki réttarbót fyrir konu að lögleiða það að hún geti gengið hvenær sem er — ja, við skulum ekki gleyma því að nefna alltaf þessar fyrstu 12 vikur meðgöngutímans — fengið fóstureyðingu þrátt fyrir leiðbeiningar sem henni standa til boða eða væntanlega standa til boða af þjóðfélagsins hálfu.

Með þessu er ég ekki að segja að konur mundu að sjálfsögðu fara og biðja um fóstureyðingu. Ég legg enn áherslu á að það er ótrúleg sálarangist sem konur geta staðið í aðstöðu eins og ég nefndi hér áðan. Ef kona veit að löggjöfin heimilar henni að láta að þessari kröfu barnsföður, eins og ég lýsti hér áðan, sem segði: „Láttu eyða þínu fóstri, annars skalt þú þurfa að fara í hart til þess að feðra barnið, — þá kann vel að vera að þessi kona lendi í þeirri aðstöðu að geta ekki dregið þau rök sem mundu vera nægjanleg fyrir dómi til að feðra þetta barn, Slík hótun er eitt það alvarlegasta sem barnshafandi kona getur staðið andspænis ef um er að ræða einstæða móður sem gerir sér ljóst að fæðing barnsins og uppeldi þess kemur til með að hvíla á hennar herðum og hún vill svo sannanlega fá að stuðla að því að barn hennar fái að njóta þess sjálfsagða réttar sem er að eiga föður.

Nú vil ég víkja að öðru atriði sem oft er nefnt þegar menn færa rök fyrir því að fóstureyðing eigi að vera frjáls. Fjöldinn allur — ég segi fjöldinn allur miðað við það hve mörg bréf hafa borist okkur þm. í seinni tíð sem mæla með því að fóstureyðing verði gefin frjáls — fjöldinn allur af a. m. k. þessum bréfriturum heldur því fram að hér sé um mál að ræða sem konan ein beri alla ábyrgð á. Konan, segja margir, á að hafa rétt til þess að ákveða að láta eyða þessu fóstri vegna þess að það er hvort sem er hún ein sem ber alla ábyrgð á þunganum, fæðingu barnsins, uppeldi þess og umönnun. Ég spyr: Hvar hefur þetta fólk verið á undanförnum mörgum áratugum? Ég veit ekki betur, hvort sem við köllum okkur kvenréttindakonur eða jafnréttindafólk eða hvað við eigum að kalla það, en við viljum þó öll væntanlega viðurkenna að það er ekki bara konan sem ber ábyrgð á uppeldi barnsins. Það kann að vera að einhverjir barnsfeður, sem ekki vilja gangast við börnum sínum, vilji líta svo á og yrðu þeirri stundu fegnastir að það yrði kveðið á um það í löggjöf með einhverjum hætti að konan ein beri ábyrgð á þessu. Barátta okkar í áratugi og margar, margar réttarbætur í löggjöfinni hafa byggst á því að það eru báðir foreldrar, sem bera ábyrgð á uppeldi barnsins. Því miður höfum við ekki náð nægilega langt á þessu sviði. Hvað t. d. um meðlagsskyldu feðra? Er það ekki viðurkenning löggjafarinnar á því að þeir eigi að bera ábyrgð á uppeldi barnsins? Mér er mætavel ljóst að það ákvæði nær allt of skammt. En við erum ekki aðeins að tala um börn utan hjónabands. Hvað um öll hjónabandsbörnin eða öll börnin sem fæðast í sambúð foreldra sinna og alast upp hjá báðum foreldrum. Ég veit ekki betur en bæði karlmaðurinn og konan beri ábyrgð á uppeldi þessara barna. Mér finnst það uppgjöf að segja árið 1975: Konan ein ber ábyrgð á uppeldi barns. Mér finnst það fráleitt.

Hv. þm. Magnús Kjartansson átti varla nógu sterk orð til að lýsa því hve undarlega og hrokafull siðgæðisviðhorf fælust í afstöðu þess fólks sem óttaðist að fóstureyðingarlöggjöf drægi úr getnaðarvörnum. Síðar í ræðu sinni sagði hv. sami þm. um lækna — þá var hann að tala um lækna sem höfðu önnur sjónarmið en hann sjálfur, hv. þm.: Ekki mótast sjónarmið þeirra af siðgæði og mannúð, læknanna, heldur óska þeir eftir valdi yfir öðru fólki o. s. frv. — Ég leyfi mér að mótmæla þessum ummælum algerlega. Vitanlega eru sjónarmið lækna mismunandi eins og annars fólks. Við höfum ekki vald til þess, hvorki biskup, eins og hv. þm. sagði, að ákveða um viðhorf annars fólks né heldur hv. þm. Magnús Kjartansson að kveða á um það af hvaða siðgæðisrótum viðhorf manna eru runnin.

Ég geri mér vel ljóst að hin mismunandi sjónarmið í þessu máli — þau a. m, k. sem ég veit um — miðast við að ná sem mestum framförum á þessu sviði. Mér dettur ekki í hug annað en að trúa því að þeim, sem óska eftir því að löggjöfin gefi fóstureyðingar frjálsar, gangi gott eitt til. Það fólk trúir því einfaldlega að í þessu felist engin hætta og það er alltaf látið fylgja með: Fóstureyðing er náttúrlega neyðarúrræði. Það er rétt og þess vegna skulum við hafa löggjöfina þannig að það sjáist á löggjöfinni að hún sé neyðarúrræði.

Þetta fólk segir líka: Að sjálfsögðu er það skilyrði fyrir því að frjálsar fóstureyðingar séu í lög leiddar að mönnum standi til boða mjög góð og mikil upplýsingaþjónusta um ýmiss konar aðstoð, félagslega og annars konar, auk almennrar aukinnar kynlífsfræðslu. Í landinu eru starfandi, ég held 13 eða 14 félagsráðgjafar. Þetta upplýsingastarf um félagslega aðstoð á að mestu að vera í þeirra höndum, og löggjöfin gerir ráð fyrir að ef frjáls fóstureyðing yrði lögleidd yrði að koma á mjög miklu fræðslukerfi. Það upplýsingakerfi væri að mínu viti mjög til bóta hvort sem við lögleiðum frjálsa fóstureyðingu eða ekki. En við skulum bara horfast í augu við þá staðreynd að þetta kerfi kemst ekki upp á næstu árum. Við höfum einfaldlega ekki fólk til að sinna því, og þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til greina að hafa heimildina jafnopna og gert var ráð fyrir í fyrra stjórnarfrv. og alltaf var sagt að byggðist á þeirri forsendu að þessi upplýsingaþjónusta væri fyrir hendi. Það er því ljóst að af praktískum ástæðum væri ekki hægt að lögleiða það fyrirkomulag.

Hv. þm. Magnús Kjartansson lagði mikla áherslu á það viðhorf sitt að með því að lögleiða frjálsar fóstureyðingar væri verið að viðurkenna að konan yrði að standa ein að þessari ákvörðun, það yrði að gera henni ljóst að hún bæri ein afleiðingarnar, hún hefði við engan að sakast ef fóstri hennar væri eytt gæti engum um kennt nema sjálfri sér, eins og hv. þm. sagði. Ég verð að segja að þetta finnst mér harkalegt viðhorf. Ég skil rök hv. þm. fyrir þessu viðhorfi og fljótt á litið gæti þetta virst rökrétt. En sé nú svo sem hv. þm. segir og ég hef ekki ástæðu til að bera brigður á að hann líti svo á að kona sem æskir fóstureyðingar sé í algerri neyð, annaðhvort andlega eða af öðrum ástæðum, þá er henni þörf á því að hafa einhvern til að taka þessa ákvörðun með sér. (Gripið fram í: það er líka gert ráð fyrir því.) Það er gert ráð fyrir því í frv. sem við erum með. Í till. hv. þm. er gert ráð fyrir því að hún geti rætt um þessi mál, þ. e. a. s. að hún eigi kost á leiðbeiningum og upplýsingum úr þessu upplýsingakerfi sem við höfum. ekki möguleika á að koma á á næstunni. — Læknir getur beitt fortölum eða félagsráðgjafi eða þeir sem við segjum að hún geti fengið viðtöl hjá. Viðkomandi embættismaður veit að hvað sem hann segir, þá hefði konan samkv. till. hv. þm. nákvæmlega sömu heimild til að ganga inn á spítala og biðja um að fóstrinu væri eytt, og ég sé ekki annað en það geti verið viðhorf sem a. m. k. orkar mjög tvímælis um hvort sé mannúðlegt.

Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að kona — eða konur skulum við segja sem eru barnshafandi, þær eru ákaflega misjafnar eins og annað fólk og það er afskaplega einstaklingsbundið hvaða áhrif vitneskjan um þungun hefur á konuna. Margar konur — það kannast vafalaust flestir þingmenn við — þær einfaldlega eru þannig gerðar að þær eru ekki í sínu eðlilega formi, ef svo má segja, þegar þær vita að þær eru þungaðar. Fyrir margar kostar þetta alveg nýtt mat á ýmsum viðhorfum til daglegs lífs. Þetta getur verið geysilega mikil breyting á lífi einnar konu og haft í för með sér mörg ný viðhorf sem koma í einni bendu inn í líf konunnar af þessu tilefni. Við það bætist að margar konur eru meira og minna lasburða fyrstu vikur meðgöngutímans og niðurdregnar af þeim sökum. Hlutur, sem manni finnst ósköp auðvelt að framkvæma þegar maður ekki á von á neinu barni, getur orðið að feikilegum erfiðleika á fyrstu vikum meðgöngutímans. Þetta kannast afskaplega margar konur við þó að margar séu svo heppnar að losna við þessa erfiðleika. En þetta er atriði sem gerir það að verkum að það getur valdið verulegri hættu á því að kona gefist upp fyrir þeim erfiðleikum sem það getur haft í för með sér að ganga með, fæða barn og ala það upp. En hún fer þá líka á mis við þá hamingju sem þessu fylgir. — Ég held að þessi atriði, sem ég hef talið upp hér, sýni mönnum fram á að það er ekki rétt að tala um það að löggjöf um frjálsa fóstureyðingu feli í sér réttarbót fyrir konur.

Ég hafði, herra forseti, hugsað mér satt að segja að ræða miklu fleiri atriði, en mér er ljóst að tímans vegna verður að gera hlé á fundinum og ég áskil mér þá rétt til að taka til máls síðar í umr. En áður en ég lýk máli mínu um þetta eina atriði, sem ég hef fjallað um, vil ég leggja á það áherslu að frv., sem hér er til umr., með þeim brtt. sem meiri hl. n. hefur lagt til, ef þær verða samþ., mun fela í sér verulega rýmkun frá núgildandi löggjöf. Það má raunar segja að frv. feli í sér bókstaflega alla þá rýmkun á löggjöfinni sem hægt er að hugsa sér án þess þó að gefa heimild til fóstureyðingar algerlega frjálsa. Ég held að við höfum gengið eins langt í frjálsræðisátt og fært er miðað við ríkjandi aðstæður. Ég held líka að við séum með frv. og okkar brtt. að lögfesta þá framkvæmd sem nú er á þessum málum hér á landi, — þá framkvæmd sem nú tíðkast á eldri löggjöfinni. En eldri löggjöfin er þannig að hún hefur fólgna í sér vissa hættu á mistökum í framkvæmdinni, og við gerum nokkrar brtt. sem ég tel mjög veigamiklar í þá átt að forðast mistök.

Ég vil aðeins að lokum vekja athygli á einmitt þessum brtt. sem ég held að verði til þess annars vegar að ganga enn lengra í þá átt að auka ákvörðunarvald konunnar og líka lengra í þá átt að flýta möguleikanum á framkvæmd og í þriðja lagi — og það er mikilvægast að mínu mati — að við reynum í löggjöfinni að slá varnagla við því að það verði neitað að framkvæma fóstureyðingu sem konan hefur heimild til að fá. Við gerum till. um það að heilbrigðisstjórnin sjái til þess að á sjúkrahúsum ríkisins verði hægt að framkvæma þessa aðgerð. Við viljum forða því að fyrir geti komið þau hryllilegu mistök að kona, sem e, t. v. er komin á skurðarborð, sé send heim aftur, hafi hún í höndunum fyllilega löglega heimild til fóstureyðingar. Komi það fyrir að sjúkrahús neiti konum um aðgerð, þá gerum við till. sem eykur rétt konunnar frá því sem er í frv. sem var lagt fram í vetur til þess að hraða framkvæmdum. Hún getur sjálf og umsvifalaust snúið sér beint til nefndar sem leggur úrskurð á málið innan einnar viku. Við gerum einnig frekari brtt. að því er varðar þetta atriði til að tryggja að ýmiss konar atvik verði ekki til þess að tefja þetta mál. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. að hann hefur að sjálfsögðu kost á því að halda ræðu sinni áfram þegar málið verður aftur tekið á dagskrá, en nú ber nauðsyn til að fundi ljúki.)

Herra forseti. Ég er kannske sjálf í þessum stól ekki allt of umburðarlynd við ræðumenn stundum, en mig langar til þess — með leyfi hæstv. forseta — að fá að lesa aðeins eitt bréf sem varðar þetta mál. Þá langar mig að koma aftur að því sem skýrði þann ótta, sem ég og fleiri bera í brjósti, við að gefa heimild til fóstureyðingar algerlega frjálsa sem ég tel að sé samkv. till, hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar t. d. Það, sem bæði ég og fleiri hafa fært fram gegn því, var, eins og ég sagði áðan, viss ótti við að notkun getnaðarvarna minnkaði. Menn telja þetta hneykslanlegt viðhorf og segja að þarna sé ekkert samband á milli. En til að sýna fram á, að þessi ótti hefur við rök að styðjast, vil ég leyfa mér að lesa upp bréf sem sent var til þm. frá þeirri virðulegu stofnun Stúdentaráði Háskóla Íslands. Það hljóðar svo:

„Níundi fundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands, haldinn þann 23. febr. 1975, lýsir yfir andstöðu sinni við þær breyt. sem orðið hafa á frv. til laga um kynferðisfræðslu og fóstureyðingar.“ — Svo segir, með leyfi hæstv. forseta: „Það er skýlaus réttur hverrar konu að eiga kost á fóstureyðingu meðan ekki er völ á ókeypis fullkomnum getnaðarvörnum sem eru án aukaverkana.“

Herra forseti. Ég þarf ekki að lesa lengra í þessu bréfi. Aðeins þessi orð sýna það viðhorf karlmanna sem ég óttast að geti orðið of ríkjandi hjá sumum hverjum a. m. k. ef við lögleiðum frjálsar fóstureyðingar.