16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2973 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

130. mál, fóstureyðingar

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Svo sem frægt er orðið skipaði hæstv. heilbrmrh. n. þriggja karlmanna til þess að endurskoða frv. það sem hér er til umræðu áður en það yrði lagt fyrir Alþ. að nýju. Skömmu eftir að n. þessi hafði skilað af sér verki, hlustaði ég á útvarpsviðtal við einn nm., hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram. Hann tók fram í þessu viðtali að þau vinnubrögð að fela þm. að endurskoða frv. væru til fyrirmyndar því að það væri allt of algengt að litið væri á Alþ. sem afgreiðslustofnun og hið raunverulega vald þannig falið embættismönnum sem semdu frv. Réttur þm. til sjálfsagðra áhrifa og ákvörðunar væri með því móti skertur á ósæmilegan hátt. Þm. vill að sjálfsögðu ekki una því að þurfa að bera ábyrgð á málum sem eru raunverulega ákveðin af embættismannavaldinu.

Við þessar aðstæður og með þetta í huga lét þessi þm. sér sæma að fella burt ákvæðið um ákvörðunarrétt kvenna í máli þar sem ábyrgðin hvílir endanlega á henni sjálfri og lagði þannig þennan rétt hennar í hendur embættismannavaldsins. Í grg. frá stjórn Læknafélags Íslands, sem öllum alþm. hefur borist og birt hefur verið í öllum fjölmiðlum, er að finna svofellda niðurlagsklausu, með leyfi hæstv. forseta:

„Breyti Alþingi frv. og samþykki að heimila fóstureyðingar að ósk konu, sbr. gr. 9.1 í upphaflega frv., leggur stjórn L. Í. til að inn í frv. verði fellt ákvæði þess efnis að læknum og öðrum heilbrigðisstéttum verði heimilt að taka við stöðum á sjúkrahúsum með þeim fyrirvara að þurfa ekki að framkvæma eða vinna við framkvæmd fóstureyðingar.“

Svipuð krafa hefur komið frá nokkrum hjúkrunarkonum.

Í þessari grg. er stjórn Læknafélagsins að fara fram á að sjálfsákvörðunarréttur lækna og hjúkrunarfólks verði virtur, í grg. sem er samin í því skyni að reyna að aftra því að konur fái sjálfsákvörðunarrétt í mjög viðkvæmu og persónubundnu máli eða eins og stendur orðrétt í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn L. Í. telur að það sé hvorki mögulegt né réttmætt af konunni að krefjast slíks réttar.“ Í báðum þessum dæmum, sem ég hef hér tekið, er krafan um sjálfsákvörðunarrétt byggð á siðferðilegum forsendum. Alþm. byggir ekki kröfu sína um sjálfsákvörðunarrétt á þeirri forsendu að hann búi yfir meiri sérþekkingu en embættismaðurinn. Læknirinn reisir ekki kröfu sína um sjálfsákvörðunarrétt á því að hann skorti þekkingu til að framkvæma fóstureyðingu. M. ö. o.: krafa þessara aðila er reist á nákvæmlega sömu forsendum og krafa þeirra sem berjast fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna og rétti til sjálfræðis og ábyrgðar á eigin gerðum. Í framhaldi af þessu væri eðlilegt að spyrja: Er þá siðferðilegur réttur þm. til ákvörðunartektar æðri en siðferðilegur réttur konu til hins sama? Er siðferðilegur réttur læknis háleitari en siðferðilegur réttur konu?

Nú kynnu andstæðingar mínir í þessu máli að segja að þetta væri ekki sambærilegt því að sjálfsákvörðunarréttur konu í þessu máli væri svo nátengdur rétti fósturs til lífs að ég hefði í þessu dæmi mínu gleymt sjálfu lífinu. Krafa hinna væri æðri því að þeir bæru lotningu fyrir lífinu. Þessi málflutningur, sem við höfum heyrt æðimikið af að undanförnu og ekki síst af hálfu forsvarsmanna kirkjunnar, felur það raunar í sér að endanlegur ákvörðunarréttur konu í þessu máli hljóti óhjákvæmilega að vera tengdur dauðanum eða eyðingu lífs eins og það er kallað. Hér erum við að mínu áliti komin að kjarna málsins.

Ég tók það fram í ræðu í fyrra þegar frv. um fóstureyðingar var þá lagt fram að mér væri óskiljanlegt hvers vegna frv. gæfi sumu fólki tilefni til rökræðna og bollalegginga einmitt nú um það hvenær líf kviknar og hvers vegna það legðist gegn 1. tölul. 9. gr. frv. á þeim forsendum að það væri á móti eyðingu lífs. Ef við værum að setja löggjöf í fyrsta sinn um fóstureyðingar hefði mér fundist þetta skiljanlegt, en við höfum í 40 ár búið við fóstureyðingarlöggjöf sem heimilar fóstureyðingar við vissar aðstæður, og öllum hefur fundist þetta sjálfsagt.

Í þessu nýja frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að fóstureyðing verði heimiluð af félagslegum ástæðum einum saman og er það nýmæli frá gildandi löggjöf. Ekki hafa mótbárur heyrst varðandi þetta nýmæli nema þá fyrst í dag í máli eins þm. Það er ekki fyrr en kemur að ákvörðunarréttinum sem deilurnar rísa. Þegar krafist er sjálfsákvörðunarréttar vanfærrar konu, þá er hrópað hátt um líf og synd og glæp. En þegar ákvörðunarrétturinn er færður í hendur embættismanna þagna þessar raddir. Þá er ekki lengur talað um synd og glæp. Þá hefur verknaðurinn hlotið opinbera blessun, og embættismannavaldið er hinn syndlausi endurlausnari. Hvað veldur þessu? Hvað veldur því að fólk sem veit betur, sem veit að við höfum leyft fóstureyðingar í 40 ár við viss skilyrði, fólk sem er reiðubúið að fallast á enn rýmri löggjöf en þá sem nú er í gildi, fellur í slíka gryfju rökleysis og mótsagna sem uppsagnir biskups, nefnda og stjórnar Læknafélags Íslands eru gleggst dæmi um, þegar það eitt bætist við að endanlegt úrslitavald skuli vera í höndum konunnar sjálfrar? Í ljósi þeirra umr., sem orðið hafa af hálfu þessara manna, er nauðsynlegt að reyna að brjóta þetta mál til mergjar, líka vegna þess að meiri hl. heilbr.- og trn. hefur tekið tillit til þessara radda. Ef ekki er unnt að finna svar á grundvelli skynseminnar einnar saman verður að leita á önnur mið.

Það hefur verið sagt að hér sé um tilfinningamál að ræða og vissulega er það satt. En tilfinningar eiga sér forsendur og fordómar eiga sér rætur. Og nú geri ég ágreining við hv. síðasta ræðumann, Ragnhildi Helgadóttur, sem sagði að þetta mál væri ekki kvenréttindamál. Dæmið, sem hún tók um barnsföðurinn sem væri í þeirri aðstöðu að geta hafnað barnsmóður sinni og væntanlegu barni, sýndi best í hve mismunandi aðstæðum móðir og faðir eru. Ég lít á þetta sem kvenfrelsismál og mun ég reyna að rökstyðja það.

Sé litið í menningarsögulegar heimildir kemur í ljós að frá upphafi hafa kenningar manna um líf verið svo samofnar neikvæðu viðhorfi til kvenna að þar verður ekki greint á milli. Hér verð ég auðvitað að stikla á stóru. Tveir menningarstraumar hafa gegnsýrt norræna menningu: hinn gyðinglegi og hinn gríski. Enn í dag byrjar trúaður gyðingur af karlkyni dag hvern með eftirfarandi bæn, með leyfi hæstv. forseta:

„Lofaður sé drottinn fyrir það að hann skapaði mig ekki konu.“

Og hann hafði vissulega ástæðu til að lofa guð fyrir það þegar litið er á hlutskipti konunnar í hinu trúarlega samfélagi gyðinga. Hlutskipti hennar þar eins og líka hjá grikkjum var fyrst og fremst að ala börn til viðhalds ættstofni mannsins. Manngildi hennar sem einstaklings var ekkert. Hún var óhrein, mátti ekki koma nálægt trúariðkunum og jafnvel barnsburðurinn sjálfur réttlætti ekki tilveru hennar að öllu leyti því að hún bar í sér erfðasyndir. Eftir að hafa fætt sveinbarn var hún talin óhrein í viku á eftir. Hefði dóttir fæðst var hún talin óhrein í helmingi lengri tíma. Samkv. Móselögum átti eiginmaðurinn rétt til að afneita konu sinni ef hún ól honum engin börn og sænga þá hjá ambáttinni. Þyki einhverjum heldur langt seilst aftur í tímann, skal bent á að Marteinn Lúther tók þessa sömu kenningu upp mörgum öldum síðar og kenndi áhangendum sínum að væri eiginkonan þeim ekki nægilega auðsveip ættu þeir fyllsta rétt á að leita til þjónustustúlkunnar. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á því hvort hann átti nokkrar ráðleggingar til handa þjónustustúlkunni ef hún yrði með barni því að þessu atriði eða þessari kenningu Lúthers er ekki mjög á lofti haldið í kirkjum landsins.

Hjá grikkjum og rómverjum síðar voru konur algerlega réttlausar sem félagsverur og voru settar á bekk með þrælum. Réttur þeirra til almennra lífsréttinda, sjálfræðis, bjargforræðis o. s. frv. var skertur á þeim forsendum að þær skorti vissa mannlega eiginleika. Bæn Platons var ekki ósvipuð bæn gyðingsins. Platon þakkaði guðunum fyrir tvennt: Í fyrsta lagi fyrir að hann hefði fæðst frjáls maður, en ekki þræli, í öðru lagi fyrir að hann hefði fæðst karlmaður, en ekki kona.

Hér eru komnir tveir meginþræðir í viðhorfi til kvenna sem ég vil vekja sérstaka athygli á: Annars vegar sú hugmynd að konan sé óhrein, guði vanþóknanleg og ill í eðli sínu, Hins vegar sú hugmynd að konuna skorti frá fæðingu vitsmuni og hæfileika sem karlmenn væru í eðli sínu gæddir. Ég bendi á þessar staðreyndir vegna þess að kirkjan tók nefnilega báðar þessar kenningar upp á arma sína og lét það ekki aftra sér þótt þær gengju í berhöggi við skýlausar manngildishugsjónir Krists sem að þessu leyti gerði ekki greinarmun á karli og konu. En vegna þessara hugmynda kirkjunnar um konuna komst kirkjan í hinar mestu ógöngur þegar hún glímdi við tvö vandamál sem hún var upptekin af nær allar miðaldir: Spurninguna um upphaf lífs og sál mannsins. Gat það virkilega verið að guð hefði gætt konuna sál, þessa ófullkomnu mannveru. Þetta atriði var oftast ákveðið með handauppréttingu á kirkjuþingum þar sem karlmenn sátu einir. Það er nánast hliðstæða við það sem hér á eftir að gerast, líklega á morgun

Kirkjuþing í Frakklandi á miðöldum gæddi konuna sál með eins atkv. mun. Á ráðstefnunni í Wittenberg gerðu mótmælendur heiðarlega tilraun til að sanna að konur væru ekki mannlegar verur. Það var kirkjan sem kom fyrst fram með þá kenningu að fóstur væri gætt sál. En jafnvel hér markaði viðhorfið til kvenna sín spor. Tómas frá Aquino, einn mesti lærifaðir kirkjunnar, kenndi að karlkynsfóstur öðlaðist sál eftir um það bil 40 daga í móðurkviði, en kvenkynsfóstur ekki fyrr en eftir 80 daga. Um leið og kirkjan var búin að ákveða það að fóstrið hefði sál, var fóstureyðing þar með orðin synd og glæpur og þaðan var skammt í ríkisforsjá og refsirétt. Að vísu var refsingin mismunandi ströng. Jafnvel heilagur Ágústínus kenndi að glæpur fátækrar konu, sem deyddi barn sitt vegna þess að hún gæti ekki séð því farborða, væri minni en glæpur þeirrar konu sem eyddi fóstri eingöngu til þess að dylja syndugt líferni.

Hér virðist mér komin hliðstæða við þær umr. sem átt hafa sér stað á Íslandi á allra síðustu tímum. Menn geta fallist á fóstureyðingu vegna t, d. fátæktar eða annars álíka undir forsjá ríkis og lærðra manna. En menn óttast að sé endanlegt ákvörðunarvald fært konunni sjálfri í hendur, þá muni gerast annað hvort: Að hið synduga eðli hennar nái yfirhöndinni, konur muni sækjast eftir fóstureyðingu af léttúð, hætta að nota getnaðarvarnir og lausung eflast í landinu — og ef ekki þetta, þá af hvötum sem stafa af hinni kenningunni um konuna, að hana skorti þroska, þrek, dómgreind og siðgæðisvitund og því sé þessi örlagaríka ákvörðun best komin í höndum karlmanna. Ég segi: karlmanna, því að þeir þrír karlmenn, sem voru í endurskoðunarnefndinni frægu, virðast ekki hafa gert ráð fyrir öðru. Í hið breytta frv. vantar nefnilega alveg ákvæði um hvernig með skuli fara ef kona, sem er læknir eða félagsráðgjafi, óskar eftir fóstureyðingu. Er hún talin fær um að dæma í eigin máli í krafti sérþekkingar sinnar eða koðnar lærdómur hennar og dómgreind niður í ekki neitt þegar hún er orðin vanfær kona?

Ég held að ekki fari milli mála að það, sem ég hef rakið, skýri hvers vegna öll skynsemi fer lönd og leið þegar á að ganga út frá því sem gefnu að kona hafi til að bera siðgæðisþroska og ábyrgðarkennd og hvers vegna einmitt henni virðist allra manna síst treystandi til að bera fyrir brjósti hagsmuni þess lífs, sem hún ber undir belti, eða taka ákvörðun sem hún telur að sé því fyrir bestu eða öðrum þeim mannslífum sem hún ber ábyrgð á. Enda hefur þessara tvenns konar viðhorfa til kvenna gætt hvenær sem þær hafa krafist réttar síns í mannlegu samfélagi, svo sem réttar til makavals, sjálfræðis, fjárforræðis, menntunar, kosningarréttar og kjörgengis. Að vísu hafa menn á allra síðustu öld eða svo sveipað þessa fordóma sína hulu mannúðar sem hefur komið fram í umhyggjutali um konuna sjálfa. Menn hafa þóst vilja veita henni vernd og reynt að telja henni trú um að henni sjálfri væri fyrir bestu að hún hefði engin þessi réttindi, og stundum hafa menn náð allgóðum árangri með slíkum áróðri. Dæmi af þessu tagi sjáum við einmitt í máli kirkjuvalds og ýmissa biskupsnefnda. Þeir telja miskunnarlaust og ómannúðlegt að kona beri ein ábyrgð á gerðum sínum ef hún sér ekki önnur úrræði en að æskja fóstureyðingar og leggja áherslu á að líf kvikni þegar við frjóvgun, en virðast gleyma því að líf er meira en fósturskeiðið. Lífið er lífshlaupið allt, og hér er ég að taka mér í munn ummæli dansks prests sem taldi ósiðlegt að meina konu endanlegs ákvörðunarvalds í fóstureyðingarmálum þegar það mál var til umr. þar í landi.

En hvernig er þessu þá háttað um þá margumtöluðu ábyrgð? Embættismenn, sem taka ákvörðum fyrir konu í þessu máli, bera ekki ábyrgð, en þeir hafa vald. Siðferðilega séð getur enginn öðlast ábyrgð með þeim hætti einum saman að meina öðrum ábyrgðar. Þjóðfélag getur ekki talist fyllilega ábyrgt nema allir þegnar þess séu ábyrgir. En þjóðfélagið getur líka varpað af sér ábyrgð þegar því býður svo við að horfa. Nýlegur hæstaréttardómur sannar, að embættismenn í lykilstöðum líta svo á að ábyrgðin sé hvergi endanleg nema hjá móður og foreldrum. Þetta hefur kirkjan líka kennt og innrætt fólki. Ekki er kirkjan sem stofnun eða stjórn Læknafélags Íslands í fararbroddi þeirra sem berjast fyrir fleiri dagheimilum. Kirkjan hefur ætið litið svo á að dagheimili væru neyðarúrræði, en varpað ábyrgðinni fyrst og fremst á herðar móður og heimilis. Í áratugi hafa láglaunakonur í mörgum atvinnugreinum barist fyrir fæðingarorlofi til þess að þær gætu alið börn sín við mannsæmandi aðstæður og jafnframt búið við atvinnuöryggi. Ég hef ekki heyrt eitt orð frá kirkjunni til stuðnings þessari kröfu. Allt frumkvæði um félagslegar úrbætur vegna ógiftrar móður og barns hennar hefur komið frá konunum sjálfum, ekki öðrum. Þegar kirkjan sýnir ábyrgð sína í verki í jafnríkum mæli og konur hafa gert, þá er hugsanlegt að ég geti farið að trúa því að hver einstakur þeirra, sem hér á hlut að máli og hæst hafa talað, hafi til að bera jafnríka ábyrgðarkennd og hver einstök kona.

Það eru allir sammála um að fóstureyðing sé neyðarúrræði. Það, sem menn greinir á um, er endanlegt ákvörðunarvald. Ég er í hópi þeirra sem telja að konan sjálf sé öðrum færari að taka endanlega ákvörðun í svo persónubundnu og viðkvæmu máli að þeim skilyrðum settum sem fram kom í brtt. hv. 3. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar. Ég mun því greiða þeirri till. atkv. mitt. Ég trúi því að kona, sem æskir fóstureyðingar, geri það ekki af léttúð, heldur út úr neyð, og ég trúi því að hún æski þess með það í huga að taka fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni og gerðum sínum.

Hæstv. forseti. Ég hef kosið að leggja áherslu á eitt atriði í þessu máli mínu. Ég hlýt þó að taka fram að ég tel frv. í heild til hóta frá því sem nú er kveðið á um í lögum. Verði brtt. hv. 3. þm. Reykv. felld, mun ég greiða atkv. með frv.