16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

130. mál, fóstureyðingar

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Af þeim umr. sem orðið hafa um frv. til laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir á þskj. 233, umr. jafnt utan þings sem innan, þá sýnist mér og væntanlega öllum nokkuð ljóst að sá eini ágreiningur, sem máli skiptir, er um II. kafla þessa frv., sem fjallar um fóstureyðingu, og þá um 9. gr. frv.

Áður en ég vík að þessu ágreiningsatriði vil ég láta í ljós ánægju mína með þetta frv. sem heild. Ég mun styðja þetta frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 233, þótt sitthvað megi finna að einstökum atriðum þess. Ég hef ekki hugsað mér að bera fram neinar brtt., en ég vildi í máli mínu hér á eftir víkja nokkrum ábendingum að hv. heilbrn. þessarar hv. d. og vænti þess að hún sjái sér fært að athuga þær á milli 2. og 3. umr, málsins.

I. kafli frv. fjallar um ráðgjöf og fræðslu. Ég tek undir það, sem fram hefur komið hjá ýmsum hv. þm., að þetta tel ég vera langmerkasta kafla þessa frv. Hér á að sjálfsögðu ekki að vera um nein feimnismál að ræða og fræðsla og ráðgjöf er ekki aðeins sjálfsögð, heldur nauðsynleg. Hins vegar er alveg ástæðulaust að feimni taki á síg öfug formerki, eins og mér virðist stundum vera nokkur tilhneiging til, og ég lít svo á að fræðsla og ráðgjöf eigi ekki að vera of, fremur en hún hefur hingað til verið van. En það er í þessu efni vandrataður hinn gullni meðalvegur, og kannske ekki hvað síst hér, því að í þessu efni er fjallað um einn af eðlislægustu þáttum lífsins.

Ég er einnig sammála því, sem kveðið er á um í I. kafla þessa frv., hvernig þessari ráðgjöf skuli fyrir komið. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég er því alveg sammála að fræðsla í þessum málum á skyldunámsstigi sé í höndum fræðsluyfirvalda og falli inn í skipulagningu námsefnis í hverjum skóla fyrir sig án þess að þar þurfi að kalla til einhverja svonefnda sérfróða aðila. Orðin eru til alls fyrst og lagasetningin auðvitað nauðsynleg, en það mikilvægasta er auðvitað að vel takist til um framkvæmd þessa frv. ef að lögum verður, auðvitað í heild, en ekki hvað síst þennan kafla frv. og jafnframt að á framkvæmdinni verði engin töf.

Um III. kafla frv. hef ég ákaflega litlar athugasemdir fram að færa og ég hef ekki orðið var við mikinn ágreining um hann. Ég lít á að hér sé um ákaflega mikil persónuleg atriði að ræða og hér ætti að viðhafa skriffinnsku í lágmarki. Ég tel að nefndarafskipti hér séu með öllu óþörf, nema þá því aðeins að synjað sé um ófrjósemisaðgerð, sem manni sýnist nú að jafnan mundi enginn grundvöllur eiga að vera fyrir eftir að sá eða sú, sem óskar slíkrar aðgerðar, hefur verið frædd eða fræddur um eðli aðgerðarinnar og hvað af henni leiði og jafnframt hafi verið gengið úr skugga um að þetta sé raunverulegur vilji þess eða þeirrar sem aðgerðarinnar óskar.

II. kafli frv. fjallar um fóstureyðingar. Í þeim kafla er að finna margnefnda 9. gr., en það er einmitt um hana sem heita má að allur ágreiningurinn hafi orðið. Þessi grein fjallar um heimildir til fóstureyðingar og orðan þessarar gr. er að finna annars vegar á þskj. 233 og sú orðan er studd af meiri hl. hv. heilbrn. d., en svo er till. um annað orðalag þessarar gr. að finna á þskj. 428, þ. e. frá minni hl. hv. heilbrn., lagt fram af hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni.

Um þessa títtnefndu 9. gr. hafa orðið miklar deilur bæði innan þings og utan og er kannske vert að hyggja að því fyrst um hvað hefur verið deilt.

Því hefur verið haldið fram að 9. gr., eins og hún var í hinni upprunalegu mynd þessa frv. og eins og hún nú liggur fyrir á þskj. 428, hafi jafngilt frjálsum fóstureyðingum og með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á upprunalega frv. og þá eins og það nú liggur fyrir á þskj.233, hafi þessar frjálsu fóstureyðingar verið afnumdar. Þetta er ekki rétt. Frjálsar fóstureyðingar eru ekki á dagskrá, hv. þm. Magnús Kjartansson hefur tekið rækilega fram í áliti sínu og ræðu sinni hér í hv. d., að hér sé ekki um frjálsar fóstureyðingar að ræða, og telur, að slíkt felist ekki í till. hans.

Þá kemur næst að því hvort verið sé að deila um sjálfsákvörðunarrétt konunnar. Þessu er mjög haldið á lofti. En mín skoðun er sú að svo sé raunverulega ekki. Mér finnst miklu fremur að hér sé settur á svið svolítill orðaleikur, en raunveruleikinn sé allur annar. Það er konan sem hefur tekið, tekur og mun taka ein endanlega ákvörðun um fóstureyðingu. Hún hefur tekið, tekur og mun taka ein eftirköstum og afleiðingum slíkrar aðgerðar, líkamlega og andlega, til góðs eða ills.

Ég tel að hástemmdur tilfinningalegur orðaleikur ætti ekki heima í þessu sambandi. Það er enginn, sem tekur þessa ákvörðun fyrir konuna, og það er enginn, sem ber raunverulega ábyrgðina og tekur afleiðingunum, nema hún. Hins vegar hefur það verið svo og er enn þá gert ráð fyrir því að fóstureyðing sé ekki framkvæmd nema frambærilegar ástæður séu fyrir hendi. Og það er alveg sama hvort frv. yrði samþ. í sinni upprunalegu mynd eða í sinni núverandi mynd, að frambærilegar ástæður þyrftu að vera fyrir hendi. Það er ekki um neinar frjálsar fóstureyðingar að ræða hvoru frv. við veittum heldur brautargengi. Ég skal viðurkenna að frv. í sinni upprunalegu mynd er rýmra í þessu efni en það lítur nú út á þskj. 233. En það breytir engu um það að þegar litið er á allar þær félagslegu og læknisfræðilegu ástæður sem nú eru nægjanlegar til heimildar fyrir fóstureyðingu, þá er hér á ferðinni mjög rýmilegt frv. Raunar er þetta svo rýmilegt að sé fóstureyðing ekki möguleg innan þess ramma sem þar er upp settur, þá er ekki lengur um neyðarúrræði að ræða, og það eru þó að mér virðist, allir sammála um, að það hljóti fóstureyðing að vera, síðasta úrræði og neyðarúrræði. Þetta er mergurinn málsins. Það er hvorki um það að ræða að taka upp frjálsar fóstureyðingar né hafa af konunni sjálfsákvörðunarrétt. Þetta er eingöngu orðaleikur, sem hér er hafður frammi, og það er þar af leiðandi engin ástæða til allra þeirra deilna, sem hafa orðið um þessa gr., og engin ástæða, finnst mér, til þeirra mörgu og stóru orða sem hafa verið látin falla. En þetta fyrirgefst vegna þess að þetta mál er tilfinningamál. Þetta er tilfinningamál og tilfinningar geta vel yfirbugað skynsemina. En menn verða að halda sig við jörðina til að geta séð málið eins og það raunverulega er og hvernig það hlýtur að verða í framkvæmd. Það er alveg sama hvaða orð standa á pappír, og það er eiginlega alveg sama hversu lög mæla fyrir, það er framkvæmdin á þeim sem skiptir mestu máli. Og kostir þessa frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 233, eru þeir að það er mjög rúmt — og svo að ég endurtaki það, sem ég hef áður sagt, það er svo rúmt að ástæður til að leyfa fóstureyðingu, sem ekki kæmust fyrir í þessum ramma, gera það að verkum að maður getur ekki lengur talað um nein neyðarúrræði. Kostur við frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 233, er einnig sá að þar er að finna ákvæði sem tryggja skjóta og örugga framkvæmd fóstureyðinga og það tel ég varða mjög miklu.

Ég vil segja að það góða við umr. um þetta mál hafi kannske fyrst og fremst verið það, að komið hefur vel fram í dagsljósið það sem úrskeiðis hefur farið í sambandi við framkvæmd fóstureyðinga skv. eldri lögum og reyndar enn gildandi lögum. Ég hygg að þetta muni eiga sinn þátt í því að þeir, sem eiga að sjá um framkvæmd laganna, muni verða vel á verði og gera sitt besta til þess að framkvæmdin geti gengið vel og greiðlega.

Mig langar nú til að víkja að þessu svolítið nánar. Nú verður kona vanfær, og slíkt gerist ekki alltaf eftir fyrirframgerðri áætlun og virðist oft skapa óyfirstíganleg vandamál. En nú fullnægir konan einhverju þeirra skilyrða sem sett eru um heimild fyrir fóstureyðingu og þá hefur hún leið út úr sínum vanda ef hún svo sjálf ákveður. En þetta er erfið ákvörðun og konan ráðfærir sig við þá sem hún treystir. Hún ráðfærir sig við vini og vandamenn ef ég má svo að orði komast. Hún leitar liðsinnis hjá þeim, hún leitar hjá þeim halds og trausts. Stundum leysist málið á þeim vettvangi án þess að til nokkurrar fóstureyðingar komi. Það er ekkert óeðlilegt við það að hún leiti síðan til félagsráðgjafa til að fá allar upplýsingar um það hvernig hún standi í þjóðfélaginu, hvernig hún stendur á þessari stundu og á þeim tíma sem í hönd fer og eftir að hún elur sitt barn, ef það er hennar raunverulega ósk, — sem ég hygg að sé alltaf hennar ósk hvað sem síðar ræðst og hún ákveður. Hún leitar einnig til læknis, og það er mjög eðlilegt. Hvað gerir læknirinn? Það er reynt að setja þetta mál þannig á svið að hér sé um að ræða stríð milli lækna og kvenna. Þetta er alger misskilningur. Læknirinn getur ekkert annað gert en að leggja ákveðnar upplýsingar fyrir konuna. Hann hlýtur að greina henni frá því hver áhættan er við að gangast undir fóstureyðingu. Hann verður að meta með henni þá áhættu annars vegar og hins vegar þá áhættu sem er í því fólgin að halda áfram að ganga með barn sitt og ala það. Sú áhætta er að sjálfsögðu vaxandi eftir því sem heilsufarsástand konunnar er verra. Það er ekkert athugavert við það þó að læknirinn taki þátt í því að meta heilsufarsástand konunnar, hina líkamlegu heilsu konunnar og eftir atvikum hina andlegu heilsu hennar einnig. Læknirinn getur ekkert annað en lagt þessar niðurstöður á borðið. Konan hefur þær niðurstöður ásamt mörgum öðrum til þess að taka sína ákvörðun enda eigi hún stoð í lögunum fyrir því að geta tekið slíka ákvörðun. Læknirinn verður aldrei annað en staðfestingaraðili í þessum efnum. Ég legg til við hv. heilbrn. að hún íhugi hvort ekki megi gera vottorðin einfaldari en gert er ráð fyrir í frv. Læknirinn þarf ekki annað en að staðfesta umsögn konunnar. Í sumum tilfellum verður læknirinn ekki aðeins staðfestingaraðili, hann verður einnig beinlínis ráðleggjandi aðill þannig að hann mælir með því að konan láti framkvæma fóstureyðingu. Þetta mundi læknirinn gera ef konan væri augljóslega haldin einhverjum slíkum sjúkdómum að líklegt væri að það að ganga með barn og ala barn gæti valdið henni alvarlegu og varanlegu heilsutjóni.

Ég hef persónulega staðið frammi fyrir slíkum ráðleggingum oftar en einu sinni og síðast fyrir hálfum mánuði. Hins vegar er það konan sem ræður hvaða ákvörðun hún tekur, en ekki ég. Það er hennar mál. Hún á sitt líf. Ég get sagt við hv. alþm.: Við höldum að það sé óhollt að reykja, við höldum að það sé óhollt að vera allt of feitur, við höldum að það sé óhollt að hafa of litla hreyfingu, og jafnslæmt og þetta allt til samans er að vera haldinn streitu. Við getum aðeins bent fólki á þessa hluti, en það ræður alveg sjálft hvernig það hagar sér. Það á sitt líf. Það er ekki um neitt stríð að ræða milli lækna og kvenna. Læknirinn getur aðeins staðfest eða beinlínis ráðlagt að til fóstureyðingar komi. Hann getur ekki stöðvað konuna og hann hefur enga löngun til þess. Auðvitað eru menn í öllum stéttum sem kannske þykjast alltaf vera þess umkomnir að segja öðrum fyrir verkum. Þeir eru vafalaust einnig í minni stétt. En ég hygg að það þurfi ekkert að fara út fyrir veggi þessa húss til að finna slíka menn.

Ég vil vekja athygli á því að bæði hjúkrunarkonur og læknar hafa lýst því yfir að þau vilji gera ákveðinn fyrirvara um aðild sína að fóstureyðingum ef samþykktar verða frjálsar fóstureyðingar. Þetta með frjálsar fóstureyðingar er að sjálfsögðu byggt á þeim misskilningi að frv. í sinni upprunalegu mynd hafi þýtt frjálsar fóstureyðingar. Ég vil hins vegar beina því til hæstv. heilbr.- og trn. að hún athugi hvort ekki megi koma inn í síðari gr., þ. e. ekki 9. gr., það væri möguleiki 14.–16. gr., 14. eða 15. sennilega, viðbótarákvæði þar sem segði eitthvað á þá leið að læknar og hjúkrunarfólk sé skuldbundið til þess að taka þátt í fóstureyðingum enda kveði ráðningarsamningar þeirra svo á um. Hjúkrunarkonur og læknar hafa ekki sett sig upp á móti frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 233, og ég hygg þar af leiðandi að það verði vandalaust að setja þetta inn í samninga þessa fólks. En þetta tryggir það að framkvæmd fóstureyðingar stöðvist ekki á sjúkrahúsi vegna þess að þeir, sem þar starfa, líti svo á að þeim beri engin skylda til að framkvæma hana. Þetta tel ég nauðsynlegt konunnar vegna til að útiloka enn einn möguleikann á því að framkvæmdin fari í handaskolum. Ég bið hv. n. að taka þetta til vinsamlegrar athugunar.

Hvað við kemur frv. í sinni upprunalegu mynd og eins og það liggur fyrir, þ. e. a. s. sem brtt. á þskj. 428, þá er um þá mynd frv. að segja að hún felur ekki í sér frjálsar fóstureyðingar. Hún tryggir engan umtalsverðan rétt konunnar umfram það sem er í frv. á þskj. 233. Loks er ljóst að framkvæmd fóstureyðingar skv. þeirri mynd frv. gæti orðið ótrygg. Það sýnist því þjóna litlum tilgangi að reyna að fá frv. í þeirri mynd í gegnum þingið.

Ég tek alveg undir það, sem komið hefur fram hjá nokkrum hv. alþm., að við skulum vona að til þess komi að það verði einvörðungu læknisfræðilegar ástæður er leiði til þess að fóstureyðingar verði heimilaðar. En við verðum hins vegar að horfast í augu við staðreyndir það eru félagslegir erfiðleikar og félagsleg vandamál í þjóðfélaginu. Við skulum setja okkur það mark að reyna að uppræta þessa erfiðleika. En meðan þeir eru verðum við að taka tillit til þeirra. Við verðum að taka tillit til þeirra og telja félagslegu ástæðurnar gildar sem heimild til fóstureyðingar, svo lengi sem við erum sammála um það meginsjónarmið að fóstureyðing sé heimil yfirleitt, og við sýnumst allir vera sammála um að það sé neyðarúrræði og skuli eingöngu beitt sem slíku.

Ég ætla nú ekki að elta ólar við sum stór orð sem hér hafa verið látin falla í garð lækna. Við erum orðnir þessu svo vanir. Það er nú svo að það er ekki mikið deilt um nauðsyn okkar. Það er ekki heldur deilt um nauðsyn sérfræðinganna og það eru raunar alltaf þeir sem eru dregnir fram mönnum til halds og trausts er mikið liggur við. En svo lenda menn stundum í svolitlu tilfinningalegu feni og þá leita þeir sér halds og trausts á öðrum miðum. Þetta er mál hvers og eins og ég orðlengi ekki frekar um það.

En ég vil vara menn við því að gera lítið úr þeirri siðfræði lækna og hjúkrunarfólks að hlutverk okkar sé að lækna og líkna og lina þjáningar. Ég verð auðvitað að segja það, að það verður að vera á valdi hvers og eins hversu mikinn sóma hann telur sér að því að vanvirða þetta markmið í starfi þessara stétta. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að við stöndum á hverjum degi frammi fyrir því að viðhalda lífi og á hverjum einasta degi gæta oft sýnst miklu eðlilegra — svo að ég nefni nú ekki hvað það væri miklu auðveldara — að eyða þessu hinu sama lífi. Það er aðeins ein vöru og aðeins ein stoð sem maður hefur, og hún er að vera trúr því markmiði sem maður hefur unnið eið að, því að láti maður undan einu sinni, þá veit enginn hvenær og hvar það gerist næst og hvar það að lokum endar. Þetta er staðreynd og þeim, sem vilja fara léttúðlegum orðum um þessa siðfærði og telja hana kannske innantóma, þeim verð ég bara að fyrirgefa vegna algers skilningsleysis.