16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

130. mál, fóstureyðingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þar sem ég talaði alllangt mál í þessum umr. hér í dag mun ég ekki við það miklu bæta. Ég tel mér aðeins skylt að svara spurningu, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. beindi til mín um afstöðu mína til brtt. okkar í meiri hl. heilbr.- og trn. til eins orðs. En við gerum till. um að í stað orðsins „óbærileg“ í 9. gr. frv. komi orðin „of erfið“. Hv. þm. taldi að þessi till. breytti innihaldi frv. mjög ef samþ. yrði. Ég skýri þá afstöðu mína að ég lít á það sem algert smekksatriði hvort maður lætur standa orðið „óbærilegt“ eða orðin „of erfið“, því að mitt sjónarmið er það að ef meðganga barns er manni of erfið þá er hún óbærileg. Ég legg nokkurn veginn að líku hvort orðalagið er notað. Hitt kann svo að vera að aðrir menn hafi þar á önnur sjónarmið og greiða vitanlega atkv. í samræmi við það.

Annað atriði nefndi hv. þm. í sinni ræðu og vitnaði til ræðu minnar í því sambandi. Það var um þau ummæli mín í ræðu minni í dag að mér fyndist augljóst og nauðsynlegt, miðað við þá skoðun sem allir hér virðast vera samdóma um, að fóstureyðing sé alltaf neyðarúrræði, að þá yrði það að koma fram í lögunum sjálfum að um neyðarúrræði væri að ræða.

Í máli hv. síðasta ræðumanns kom það mjög skýrt fram hvernig einmitt þetta frv. hefur þetta í sér fólgið því að eins og hann orðaði það mjög réttilega, ef ástæður konu til fóstureyðingar rúmast ekki innan þess ramma, sem í þessu frv. er fólginn, þá er ekki um neyðarúrræði að ræða. Mér sýnist það koma nægilega fram af innihaldi frv. án þess að vera orðað sérstaklega.

Enn vil ég taka fram, og einnig vegna þess sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. þar sem hann, og raunar fleiri þm. hér í dag, hv. 5. þm. Vestf. t. d., nefndi að ef til vill væri ástæðulaust að lögleiða sérstaklega að fóstureyðing yrði heimil af félagslegum ástæðum einum saman, að það er rétt að strangt tekið, eftir orðanna hljóðan í væntanlegum lögum, þá er þetta mikil rýmkun. En að mínum skilningi er afskaplega mjótt á munum hvort um er að ræða læknisfræðilega ástæðu eða félagslega ástæðu. Ég held raunar að félagslegar ástæður, sem heimila fóstureyðingu, séu svo nátengdar því sem telja má læknisfræðilegar ástæður að þar verður oft varla greint á milli. Þessi breyting, sem í frv. felst, er í raun og veru sú að það er kveðið skýrt á um að félagslegar ástæður sérstaklega geti leitt til þessarar framkvæmdar, þó að margir séu aftur þeirrar skoðunar að allar þær ástæður mundu rúmast innan hugtaksins „læknisfræðilegar ástæður“ því að læknisfræðilegar ástæður eru langtum fleira en bara það hvort maður er t. d. með sótthita eða ekki. Félagslegar ástæður hljóta auðvitað að verka á allt andlegt og kannske líka líkamlegt heilsufar viðkomandi persónu. Þetta var aðeins til að skýra enn nánar afstöðu mína til þeirra till., sem hér liggja fyrir, og ég mun ekki fara út í að ræða frv. nánar því að ég ræddi grundvallarsjónarmið meira í dag og tel að við ættum að standa saman um að samþ. frv.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. spyr úr sæti sínu um sjónarmið mitt til túlkunar frsm. á orðalagi 9. gr. Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig orð frsm. féllu, en ég hef ekki orðið vör við annað í n., sem um málið hefur fjallað, en að okkar sjónarmið til þessa féllu alveg saman. Ég lít ekki svo á að 9. gr. frv. veiti þeirri konu, sem óskar fóstureyðingar, hvernig sem á stendur heimild til fóstureyðingar. Hún verður að uppfylla þau skilyrði sem upp eru talin í greininni. Get ég ekki séð annað en það liggi nokkurn veginn í augum uppi. Ég held að ég hafi skýrt mitt sjónarmið til þess í dag að ég teldi að við ættum ekki að hafa ákvæðið rýmra en það yrði með samþykkt þeirra brtt. við frv. sem við höfum lagt fram.

Ég vona að hv. 2. þm. Norðurl. v. þyki þetta nægileg skýring á afstöðu minni.