16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

130. mál, fóstureyðingar

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég gerði ekki ráð fyrir því að taka hér aftur til máls enda gerði ég, að ég tel, rækilega grein fyrir skoðun minni á þessu máli fyrr í dag. En vegna þess, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., sem var í fsp.- formi, til þeirra sem skipa meiri hl. heilbr.- og trn. og ég tel mig til, a. m. k. að verulegu leyti, vil ég aðeins fara nokkrum orðum þar um og þá hvernig þetta horfir við mér.

Ég held ég hafi getið þess í dag að skoðun mín væri sú að ekki yrði um að ræða í reynd neina verulega breyt. á framkvæmdinni annars vegar eins og hún kemur til með að verða, eins og 9. gr. 1 er í þessu frv. og eins og hún hefði komið til með að verða skv. gamla frv. Ég er þeirrar skoðunar og það er mín túlkun á 9. gr. 1 í því frv. sem við erum nú að ræða að hún komi til með að verða í reynd mjög nálægt því í framkvæmd eins og fyrra frv. gerði ráð fyrir. Þetta kemur, að ég held, rækilega fram, og undirstrikar mína túlkun í þessu máli, í álitsgerð Læknafélags Íslands eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði hér til, þ. e. a. s. hjá þeim aðilum sem fyrst og fremst koma til með að hafa þessa framkvæmd í sínum höndum. Og ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Sverrir Bergmann undirstrikaði þetta í ræðu sinni áðan að það skipti í reynd engu máli, framkvæmdin yrði mjög svipuð á 9. gr. 1 skv. því frv., sem við erum nú að ræða, eins og hinu gamla — að ósk konu, eins og þar var tiltekið.

Í umsögn Læknafélagsins segir orðrétt:

„Af orðalagi 1. málsgr. 9. gr. 1 er ljóst að miða ber fyrst og fremst við mat konunnar á eigin aðstæðum.“

Það er ljóst skv. túlkun þessara aðila sem fyrst og fremst koma til með að fjalla um þessi mál að hér verður um að ræða í reynd ákvörðunartöku fyrst og fremst að mati konunnar sjálfrar á félagslegum ástæðum. Ég held að það þurfi ekkert að fara í grafgötur með þetta. Þetta hygg ég að sé ljóst og undirstrikað af allmörgum ræðumönnum. Og ég man ekki betur en hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, kæmi einnig inn á þetta í ræðu sinni í dag að það mundi ekki verða ýkjamikill munur á framkvæmdinni skv. þessum tveimur frv. Ég tel því að hér sé verið að innleiða mjög frjálslega framkvæmd á fóstureyðingum, — framkvæmd sem ég fyrir mitt leyti get ekki léð máls á.

Það segir í áframhaldandi áliti Læknafélagsins: „Félagslegar ástæður eru teygjanlegt hugtak og því þýðingarmikið að tilgreint sé sérstaklega það sem leggja ber áherslu á. Hins vegar er með d-lið þessarar gr. opnuð leið til þess að meta gildar aðrar sambærilegar ástæður. Þessi gr. mun í framkvæmd hafa í för með sér mikla rýmkun á heimild til fóstureyðinga.“

Ég held að enginn hv. þm. þurfi að fara í grafgötur um það að þetta er álit og túlkun þeirra aðila sem koma til með að hafa þessi mál fyrst og fremst í sínum höndum. Og það hefur verið undirstrikað hér, m. a. af einum úr þeirra hópi, hv. þm. Sverri Bergmann.

Ég tel einnig að í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. hafi þetta komið allrækilega í ljós, að túlkun hans á þessari gr. frv. er það rúm, eftir því sem hann lét orð falla, að ég tel að það sé fyllilega sambærilegt við það sem gert var ráð fyrir í fyrra frv.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. vék hér einnig að 8. gr. þessa frv., sem við erum hér að ræða, sem hljóðar svo:

„Fóstureyðing skv. l. þessum er læknisaðgerð sem kona gengst undir í því skyni að binda endi á þungun áður en fóstrið hefur náð lífvænlegum þroska.“

Ef þessa gr. ætti að framkvæma er það álit mitt að aldrei kæmi til fóstureyðingar því að ég er þeirrar skoðunar og hef ekki sannfærst um annað en að um leið og egg frjóvgast sé kviknað líf sem hér er um að ræða að eyða. Það er kannske djúpt tekið í ár að spyrja þá, sem fyrst og fremst mæla með miklu frjálsræði í þessum efnum hversu langir tímar muni líða ef slíkt skref sem hér er lagt til að stiga í frjálsræðisátt er stigið, — hversu langir tímar muni líða til þess að byrjað verði á hinum endanum, að eyða því lífi sem á einhvern hátt eða einhverjir telja að sé orðið byrði á sér í þjóðfélaginu.

Ég hef ekki á neinn hátt breytt afstöðu minni til þessa máls undir þeim umr. sem hér hafa farið fram. Ég er sannfærður um að ef lögleidd verður þessi 9. gr. 1 verður hér um stórkostlega rýmkun á framkvæmd fóstureyðinga að ræða, — rýmkun sem ég get ekki sætt mig við og ég tel að eigi ekki rétt á sér í því þjóðfélagi sem við viljum telja okkur til.

Ég kæri mig kollóttan um það sem fram hefur komið hjá sérstaklega ein:um hv. þm. um að ég vilji hverfa 40 ár aftur í tímann. Ég hygg að margir séu mér sammála um að viðhorf til lífsins í þeirri merkingu, sem ég legg í það orð, það viðhorf sé hið sama og var fyrir 40 árum. Mér finnst menn margir hverjir, og það á einnig við suma hv. þm., tala í of miklu kæruleysi um svo viðkvæmt og mikið stórmál eins og hér er um að ræða, þannig að ég ætla ekki að fara að neinu leyti út í að svara slíkum ummælum. Ég kæri mig kollóttan um þau ummæli í minn garð. En ég ítreka það vegna óskar hv. 2. þm. Norðurl. v. að skilningur minn og sá að hér sé kannske í reynd verið að innleiða það frjálsræði sem 9. gr. gerði ráð fyrir í fyrra frv.