16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

130. mál, fóstureyðingar

Frsm. meiri hl. (Jón Skaftason) :

Virðulegi forseti. Ég hef nú hlustað á þær umr., sem orðið hafa um frv. þetta við 2. umr. í dag og um margt hafa verið athyglisverðar, og þó fyrst og fremst hafa þær verið málefnalegar af allra hálfu en bæði vegna þess að nú er orðið nokkuð áliðið nætur og margir farnir af fundi hafði ég ekki ætlað að kveðja mér aftur hljóðs við þessa 2. umr. En hv. 2. þm. Norðurl. v. bar fram fsp. sem hann óskaði eftir skýrum svörum frá mér við, um hvern skilning ég legði í ákveðnar gr. frv. Þótt að ég telji að það, sem ég sagði um þetta í framsögu fyrir áliti meiri hl. n. gæfi afar lítið tilefni til þess að bera fram þessar fsp. af hálfu hv. þm., þá skal ég þó reyna í örfáum orðum að verða við því að svara þessum spurningum hans.

Ég tók það fram þegar ég talaði fyrir nál., að þá vildi ég skýra þau sjónarmið sem lægju að baki þeirrar ákvörðunar minnar að standa að því að frv. þetta yrði samþ. með þeim breyt. sem n. flytur við það á sérstöku þskj., og jafnframt að aðrir nm., sem að meiri hl. stæðu, mundu gera grein fyrir sínum sérstöku sjónarmiðum þar um.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. fannst að á stundum hefði verið óljóst hvaða skilning ég legði í þetta. Hann sagði að ég hefði talið að lögfesting þessa frv. væri hæfilegur áfangi í þróun þessara mála hér á löggjafarþingi þjóðarinnar og spurði hvert stefndi ef þetta væri áfangi í þróun. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. veit það að á Norðurlöndum, sem við gjarnan berum okkur saman við í sambandi við löggjöf um málefni eins og þetta og raunar mörg önnur af eðlilegum ástæðum, hafa í öllum löndunum nema Noregi á s. l. fimm árum verið gerðar nokkrar breytingar á löggjöf um fóstureyðingarmálefni og þessar breyt. hafa allar undantekningarlaust í öllum löndunum gengið út á það að gera löggjöfina frjálslyndari en verið hefur. Það er í mínum huga enginn efi um að frv., eins og það liggur fyrir núna, er miklu frjálslyndara en lögin sem gilda um þessi efni frá 1935 og 1938, þannig að ég tel að það sé eðlileg þróun sem verði í þessum málum hjá okkur með því að lögfesta þetta frv. sem gengur lengra í frjálslyndisátt en gildandi lög. Það var þetta sem ég átti við þegar ég talaði um hæfilegan áfanga í þróun. Hvort þróunin hér hjá okkur gengur svo lengra, hvort hún gengur alveg að því marki að við lögleiðum frjálsar fóstureyðingar er svo allt annað mál sem ég skal ekkert um segja á þessari stundu. Hv. þm. sagði lítið samræmi í að ég styddi að frjálslyndari fóstureyðingalöggjöf, því að ég hafi sagt að sumar þjóðir, sem búnar voru að taka upp frjálsar fóstureyðingar, væru nú að snúa við, og það er rétt. En við höfum ekki enn leitt í lög að heimila frjálsar fóstureyðingar og frv. eins og það er gerir ekki ráð fyrir frjálsum fóstureyðingum.

Þá var það annað atriði sem hv. þm. spurði um. Hann sagði efnislega, eða ég tók svo eftir, að skv. frv. ætti konan sjálfdæmi um mat á félagslegum ástæðum sem væru grundvöllur fóstureyðingar. Það, sem ég sagði um þetta, var svona orðrétt:

„Það er mat konunnar á eigin aðstæðum sem lagt er til grundvallar þegar um er að ræða mat á félagslegum aðstæðum.“

Þetta get ég endurtekið. Það er mín skoðun. Það er engin spurning um það að til grundvallar mati læknis í þessu tilfelli yrði mat konunnar á eigin aðstæðum. En það er jafnljóst að læknirinn þarf ekki að fallast á það mat konunnar og hann gæti neitað konu um fóstureyðingu þó að hann legði til grundvallar mat hennar sjálfrar á eigin aðstæðum. Þessi skoðun kemur vel í ljós líka í áliti eða grg. frá stjórn Læknafélags Íslands sem hv. þm. Karvel Pálmason vék að áðan, en álitsgerð stjórnar Læknafélagsins birtist í blöðunum fyrir nokkrum dögum. Þar segir m. a.:

„Af orðalagi 1. málsgr. 9. gr. 1 er ljóst að miða ber fyrst og fremst við mat konunnar á eigin aðstæðum.“

Þannig er að mínu viti alveg ljóst, að það, sem ég sagði um þetta, og sá skilningur, sem ég lagði í þetta ákvæði, fer saman við þann skilning sem stjórn Læknafélags Íslands hefur haft uppi og birt almenningi um þetta ákvæði.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði að í reynd mundi enginn munur verða á 9. gr. 1 eins og hún er skv. þessu frv. og frv. eins og það var áður. Um það skal ég ekki segja annað en það á þessari stundu að skv. frv. eins og það er nú er það tvímælalaust réttur læknis, sem ekki fellst á mat konu á eigin félagslegum aðstæðum, að neita að skrifa undir grg. eða framkvæma aðgerð, þetta eitt út af fyrir sig gerir nokkurn mun, a. m. k. í teóríunni, ef svo má segja, á þessum frv. tveim.

Ég hefði viljað víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hv. 3. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, um þetta frv. og aths. hans um þá framsögu sem ég hafði fyrir meirihlutaálitinu. En hvort tveggja er að hann er farinn af fundi og eins og ég sagði áðan er nokkuð áliðið nætur þannig að ég skal sleppa því að sinni. Þó langar mig aðeins að víkja að tveimur atriðum þar sem hv. þm. var greinilega með tilburði til þess að snúa út úr upplýsingum sem ég gaf í ræðu minni. Ég hafði m. a. lesið upp upplýsingar um fjölgun fóstureyðinga á Norðurlöndum á árinu 1969 og árinu 1973 hins vegar. Hv. þm.. sagði að þetta sannaði ekki neitt því að það hefði ekki verið búið að breyta lögum á Norðurlöndum í það frjálslyndisform, sem þau eru nú, árið 1973. Þetta er ekki rétt hjá honum nema að óverulegu leyti. Árið 1970, eins og raunar kom fram í ræðu minni, voru lög sett í það form, sem þau eru í í dag, í Finnlandi, og bæði í Danmörku og í Svíþjóð voru gerðar verulegar breyt. á gildandi lögum árið 1970 í frjálslyndisátt í báðum löndunum, og sú var reynslan að fjölgun fóstureyðinga varð mikil við þessar lagabreyt. Mér er fyllilega ljóst að við getum ekki í þessu landi okkar haft gjörólík lög um þessi efni frá því sem þau eru í næstu nágrannalöndum okkar. Sannleikurinn er sá að með lögfestingu frv. eins og það er nú erum við með svipaða löggjöf og sum Norðurlandanna hafa í dag a. m. k. Þau eru frjálslyndari en gildandi lög eru enn í Noregi. Þau eru ekki mjög frábrugðin lögunum í Finnlandi, þannig að ég tel að þetta sé nokkuð hæfilegur áfangi, eins og ég hef áður sagt, í þróun fóstureyðingalöggjafar á Alþingi íslendinga.

Hitt atriðið, sem hv. 3, þm. Reykv. kom að, laut að því að ég nefndi í ræðu minni upplýsingar um að 23 000 íslenskar konur á aldrinum 15–44 ára hefðu notað öruggar getnaðarvarnir. Ég taldi, að frjálsar fóstureyðingar væru til þess fallnar að draga úr notkun getnaðarvarna, og tíndi til erlenda reynslu í þeim efnum. Út úr þessu vildi hv. þm. reyna að snúa og sagði að það mundi aldrei geta gerst að allar þessar konur, sem hættu að nota getnaðarvarnir, yrðu ófrískar. Vissulega er það rétt hjá honum. En ég sagði ekki heldur það um þetta atriði. Ég sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef frjálsar fóstureyðingar mundu leiða til 1% minnkaðrar notkunar getnaðarvarna gætum við af þeim sökum fengið 230 óvelkomnar þunganir á einu ári, og hugsuðum við okkur 5% minnkun á notkun getnaðarvarna væri möguleiki á 1150 óvelkomnum þungunum á einu ári.“

Ég hygg að flestir, sem heyra þetta, sjái að þarna er nokkuð mikill munur á því, sem ég sagði, og því sem hv. 3. þm. Reykv. er að leggja mér í munn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að víkja að þessu fleiri orðum.