16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

130. mál, fóstureyðingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mikið þessar umr. enda hef ég litlu við það að bæta sem ég sagði þegar ég fylgdi frv. úr hlaði.

Ég fagna því að heilbr.- og félmn. skuli hafa afgr. þetta frv., því aðeins og ég lagði áherslu á, þegar ég fylgdi því úr hlaði við 1. umr., þá var ætlun mín að fylgja því eftir að frv. yrði að lögum. Það var flutt snemma á síðasta þingi og fór til n. N. skilaði aldrei áliti, en við 1. umr. málsins urðu allharðar deilur í þessari hv. þd. Það var mikið rætt um þetta mál víðs vegar um land í mörgum félögum og í blöðum og öðrum fjölmiðlum í fyrra og sömuleiðis nú svo að það er tími til kominn að afgreiða þetta mál þannig að menn geti sæst á breytingar þær sem hér eru lagðar til.

Þegar ég tók við embætti heilbr.- og trmrh. taldi ég eðlilegt að láta fara yfir þær umr. og aths., sem komu fram við frv. á s. l. ári, og ræða við þá helstu aðila sem höfðu látið til sín heyra. Ég skipaði, eins og fram hefur komið í þessum umr., 3 manna nefnd. Ég heyrði á einum hv. þm. að það vakti furðu hans, sagði hann, að það hefðu verið skipaðir þrír karlar í þessa nefnd. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að ég hafði ekkert ofarlega í huga af hvoru kyninu nm. væru sem í þessa nefnd voru skipaðir. Ég tel að það hafi ekki nokkurn skapaðan hlut að segja, enda var starf þessarar nefndar ekkert annað en að fara yfir allar þær aths. sem fram hefðu komið. Einn nm. var starfsmaður í heilbr.- og trmrn. og var hann form. nefndarinnar. Það gerði ég í því augnamiði að ná einhverri skynsamlegri millileið frá frv. eins og það var í upprunalegri mynd með það fyrir augum að það ætti öruggan meiri hl. hér á hv. Alþ. Ég held að það sé ekki neitt vafamál að þetta frv. eins og það var flutt og með þeim breyt. sem meiri hl. nefndarinnar leggur til að gerðar séu á því, og ég tel að margar þær breyt. séu til bóta, þá tel ég að þetta frv. eigi öruggt brautargengi og því geti það orðið að lögum.

Það er eins með þetta mál og mörg önnur að það er ekki deilt um höfuðatriði frv., sem allir eru sammála um að er höfuðatriði þess, en það er ráðgjöf og fræðsla varðandi kynlíf og barneignir, I. kafli frv. Um það eru allir sammála og það er tiltölulega minnst rætt um I. kaflann sem er höfuðatriði þessarar löggjafar, en meira hangið í öðrum atriðum sem eru að mínum dómi miklu minna virði eða skipta minna máli. 9. gr., sem hefur verið hér rætt um og á fjöldamörgum fundum, er gerð í þessu frv. á þann veg að ég tel að flestir megi við una. Við höfum lýst því margir hverjir yfir að við teljum að það eigi að breyta þeirri löggjöf sem nú er og hefur verið í gildi frá 1935 og 1938, í frjálsræðisátt.

Út af því sem hv. 2. þm. Norðurl. v. innti mig eftir, hvernig ég liti á þessa breyt. og líti á 9. gr., þá vil ég svara því til að ég tel að 9. gr. skýri sig sjálf. Ég lít á hana, ef hún verður samþ. eins og hún liggur hér fyrir með þessum tveimur breyt. frá meiri hl. nefndarinnar, þá lít ég á að sú gr. standi þangað til Alþ. hefur aftur breytt þessari löggjöf. Það er ekki um frekari túlkanir að ræða frá minni hendi í þeim efnum.

Eins og ég sagði áðan ætlaði ég ekki að fara út í efnislegar umræður um þetta frv. eða svara því sem fram hefur komið. Ég tel að yfirgnæfandi meiri hl. þdm. séu með þessu frv. eins og það liggur núna fyrir. Og það er mikils virði, tel ég, fyrir alla að það komi ný og fullkomnari löggjöf í stað 40 ára gamallar löggjafar.

Ég vil svo að síðustu þakka nefndinni fyrir það starf sem hún hefur lagt í að fara yfir þetta frv. og hafa samband við marga aðila sem hafa látið til sín heyra í þessu máli. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að flestar till. frá nefndinni séu til bóta og get fyrir mitt leyti greitt þeim atkv.