16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

130. mál, fóstureyðingar

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Út af þeirri fsp., sem ég beindi til fulltrúa úr heilbr.- og trn. og hæstv. ráðh., þá hafa a. m. k. tveir nm. svarað þessari fsp. minni. Hv. frsm. n., Jón Skaftason, ítrekaði að það væri ljóst, eins og segir í grg. Læknafélags Íslands, að framkvæmd yrði að miða fyrst og fremst við mat konunnar á eigin aðstæðum. Það með ítrekaði hann nokkurn veginn fyrri afstöðu sína gagnvart skilningi á 9. gr. 1. Hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, lýsti því yfir að hann teldi að á framkvæmd 9. gr. samkv. fyrirliggjandi frv. yrði harla lítill munur og á framkvæmd þess frv. sem upphaflega var lagt fram. Hv. frsm. heilbr.- og trn. sagði að vísu að læknir gæti neitað um aðgerð skv. 9. gr. 1 þegar kona óskar fóstureyðingar vegna félagslegra aðstæðna. En þetta er út af fyrir sig ekki mikil breyt. frá því frv. sem lagt var fram á síðasta Alþ. vegna þess að þar er einnig ákvæði um það gagnvart fóstureyðingu að ósk konu, að fyrirvari er um að engar læknisfræðilegar aðstæður mæli á móti aðgerð.

Við þetta hef ég svo ekki öðru að bæta en því að svo virðist sem það sé a. m. k, skoðun sumra nm. og e. t. v. flestra alþm. að sú túlkun, sem fram kemur í grg. Læknafélags Íslands, sé rétt og að mjög óverulegur munur yrði á framkvæmd 9. gr. í um fóstureyðingu af félagslegum ástæðum og framkvæmd ákvæðanna í frv. er lagt var fram á síðasta Alþ. um fóstureyðingu að ósk konu. Hv. þm. Sverrir Bergmann, sem einnig er læknir, sagði hér áðan, ef ég man rétt, að framkvæmd eftir þessum tveimur lagagr. yrði nálega eins í framkvæmd. Það er því harla ómerkileg öll sú della sem staðið hefur um það hvort þetta frv. í núverandi mynd skuli lögfest eða hið upphaflega frv. sem lagt var fram á Alþ. í fyrra ef framkvæmdin yrði nálega eins, eftir því sem manni skilst að sé skilningur fjölmargra aðila.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en mér sýnist að þar hafi verið deilt um keisarans skegg og e. t. v. væri hreinlegra að afgr. frv. með þeim hætti sem fyrr var lagt fram ef þetta er rétt.

Ég lít svo á að þau svör, sem ég hef fengið við þessari fsp. minni, hafi ekki styrkt mig í því að greiða atkv. með 9. gr. 1 eins og hún liggur fyrir.