16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3018 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

130. mál, fóstureyðingar

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég skal lofa því að vera ekki mjög langorður um þetta mál nú, enda hefur verið rætt um það á milli þm. að næturfundur væri nauðsynlegur til þess að koma málinu fram í þingi okkar. Það væri vissulega full ástæða til þess að ræða frekar þau atriði sem komu inn í þessar umr., um það hvernig landsbyggðarsjónarmið svokölluð geti fallið undir fóstureyðingafrv. eða hvort það eigi að loka fyrir reykvíska þm., en hinir eigi að fara og uppfylla og fjölga íbúum jarðar.

Í sjálfu sér segi ég ekki þessi orð vegna þess að ég telji neitt aðhlátursefni í sambandi við þetta frv. því að sjálfur er ég búinn að vera lengi að taka ákvörðun um á hvorn veg ég eigi að snúast, hvort ég eigi að fylgja hinni fyrri útgáfu af 9. gr. eða núverandi. — Ég virðulegi forseti, er að segja þessi orð nú til þess að firra forseta þeim vandræðum að hlusta á munnlega grg. þegar greidd verða atkv. eftir 2. umr. málsins.

Persónulega finnst mér koma fram tvö sjónarmið í sambandi við 9. gr. sem ég hef verið að reyna að gera upp minn huga um. Annað er það, sem réttilega var tekið fram af hv. 9. landsk. þm., Sigurlaugu Bjarnadóttur, í ræðu hér í kvöld, hvenær líf verði til. Ég er sammála henni um það að þegar frjóvgun verður þá verði líka líf til. Ég er þeirrar skoðunar. Um leið er mín skoðun að sjálfsögðu sú að þegar þessu sama lífi er eytt, þá er verið að deyða líf. Þetta er önnur röksemd mín fyrir afstöðu minni til þessa frv. Hin er sú að það er auðvitað ekki nóg að spyrja bara konuna í þessu tilfelli um hvað gera eigi. Það getur líka verið sársaukafullt fyrir karldýrið í þessu tilfelli — sem oftast er þannig túlkað í umr. kvenna um þessi mál — það getur líka verið sársaukafullt fyrir það þegar þarf að eyða fóstri eða lífi sem er að verða til. Því segi ég það, að það er ekki alveg nóg að segja að konan eigi að hafa alfarið þennan rétt.

Ég hef því gert upp minn hug í sambandi við þetta frv. og ég mun fylgja því eins og það kemur frá hv. nefnd ásamt þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar hefur lagt til.