17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Mál það, sem hér er til umr. nú, er ákaflega mikilvægt mál, nauðsynjamál og réttlætismál. Það er varðandi fæðingarorlof barnshafandi kvenna. Ég ætla ekki að ræða það efnislega. Ég geng út frá því, að þm. séu yfirleitt sammála um nauðsyn þess að reyna að leysa þessi mál.

Það er tvímælalaust að konur eiga að hafa rýmri rétt en nú er almennt á vinnumarkaðnum í þessu efni og það verður að vera meira réttlæti í þessum málum eins og mörgum öðrum en nú er, þar sem annars vegar eru þær konur, sem starfandi eru hjá ríkinu, sem hafa 90 daga fæðingarorlof, og svo hins vegar flestar þær konur, sem eru á hinum almenna vinnumarkaði, sem hafa miklu skemmra fæðingarorlof, ef það á annað borð er fyrir hendi. Í samningum verkalýðsfélaganna fyrir ári tókst aðeins að bæta hér um. Þar er ekki nema um tiltölulega fáa daga að ræða, hálfan mánuð til þriggja vikna, en auk þess hafa sjúkrasjóðir verkalýðsfélaga nokkuð hlaupið hér undir bagga.

Í samningum verkalýðsfélaga fyrir rösku ári, í febr. 1974, voru þessi mál ákaflega mikið til umr. og voru krufin allverulega, en tókst ekki að finna lausn á þeim í það sinn. Hins vegar held ég að það hafi færst að því leyti nær, að málin komu þá mjög mikið á dagskrá í verkalýðshreyfingunni og ekki síður hjá atvinnurekendum, sem að venju báru við fyrst og fremst því, að þeir hefðu ekki fjármagn til þess að standa undir svo löngu orlofi þegar þannig stæði á fyrir konum. Það kom berlega fram einnig þá, það sem getið er um í grg. þessa frv., að það mundi verða til þess að atvinnurekendur reyndu að sniðganga þessar konur og öryggi þeirra í atvinnu yrði ekki hið sama og annarra. En sem sagt, þessum samningum tókst ekki að finna flöt á málinu, sem báðir aðilar gætu sætt sig við.

Það var ekki það mál út af fyrir sig að konur öðlist 90 daga fæðingarorlof sem ég ætlaði að fara að gera að umtalsefni í þessu frv., heldur hitt, hvernig lagt er til í því frv., sem hér er nú til umr., að fjármagna fæðingarorlofið. Það er sem sagt lagt til að það sé gert á tiltölulega mjög einfaldan hátt, þ. e. Atvinnuleysistryggingasjóður taki á sig að greiða konum 90 dagalaun fyrir og eftir barnsburð. Menn sjálfsagt halda, að Atvinnuleysistryggingasjóður geti auðveldlega staðið undir svona útgjöldum. Það er eins með Atvinnuleysistryggingasjóð eins og oft hefur verið sagt um hafið, að lengi taki hafið við, en menn eru nú jafnvel komnir að raun um að takmörk eru þar einnig. Á sama hátt er með Atvinnuleysistryggingasjóð. Það eru takmörk áreiðanlega fyrir því hvað hægt er að leggja á hann af greiðslum. Það hefur verið gert býsna mikið að því á undanförnum árum.

Ég get sagt strax að ég tel að Atvinnuleysistryggingasjóður geti ekki leyst þetta mál að öðru óbreyttu. Til þess að hann gæti staðið undir þessu þyrfti að breyta lögum sjóðsins og alla vega að breyta starfsvenjum hans. Það er gert ráð fyrir því, að iðgjöld atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1975 verði 170 millj. kr. Hvort þetta stenst, um það ætla ég ekki að fullyrða. En til þess að það standist þarf atvinnuástand að vera ekki lakara en það var á s. l. ári. Iðgjöld miðast við unnar stundir. Þessu til viðbótar kemur svo framlag sveitarfélaga sem er jafnt iðgjöldum atvinnurekenda og síðan framlag ríkissjóðs, sem er jafnt framlagi atvinnurekenda og sveitarfélaga eða réttara sagt helmingur þeirra iðgjalda sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur. Þannig er reiknað með að iðgjöld á árinu 1975 verði 080 millj. kr. Auk þess eru vaxtatekjur, sem áætlaðar eru um 190 millj. kr.

Það sýnist náttúrlega að hér sé um æðimiklar tekjur að ræða eða um 870 millj. kr., iðgjöld og vaxtatekjur. En það ber að líta á hvernig er varið tekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þær eru orðnar býsna mikið lögboðnar. Þar er í fyrsta lagi, að Atvinnuleysistryggingasjóði er gert með lögum að kaupa bréf Byggingarsjóðs ríkisins fyrir helming iðgjaldaupphæðarinnar árlega, þ. e. a. s. upphæð, sem er jöfn framlagi ríkissjóðs á hverju ári. Það þýðir að á árinu 1975 yrðu þessi bréf keypt fyrir 340 millj. Þá er einnig með lögum ákveðið, að Atvinnuleysistryggingasjóður standi undir 3/4 af lífeyrisgreiðslum til aldraðra í stéttarfélögunum. Þegar þessi lög voru sett árið 1970 tók ríkissjóður á sig að greiða þessar lífeyrisgreiðslur, sem samið var raunar um þegar almennu verkalýðsfélögin sömdu um sína lífeyrissjóði 1969. Hins vegar var síðan flutt frv. um og var bundið í lögum að Atvinnuleysistryggingasjóður skyldi greiða 3/4 af þessum lífeyrisgreiðslum og þær eru áætlaðar á þessu ári 113 millj. kr., sem ég hygg nú að ef eitthvað verður muni vera heldur lág upphæð heldur en hitt, en mun þó vera nálægt sanni. Þá er eftir að nefna það sem er aðalhlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs, og það er að sjá fyrir bótagreiðslum ef um atvinnuleysi er að ræða og að tryggja sem stöðugasta atvinnu í landinu. Þetta hefur verið og er frá upphafi aðalhlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í fjárl. er ætlað að bótagreiðslur á þessu ári, árinu 1975, muni nema um 100 millj. kr. Hér er náttúrlega um algerlega áætlaða upphæð að ræða. Stjórn sjóðsins hefur hins vegar talið að í þennan gjaldalið, þ. e. a. s. greiddar atvinnuleysisbætur, væri réttara að áætla 180 millj., en ekki 100 millj. á þessu ári. Það fer að sjálfsögðu eftir atvinnuástandinu hvernig þetta reynist. Á s. l. ári voru greiddar bætur 55 millj. kr. og var þá talið að ekkert atvinnuleysi væri. Það er rétt að taka fram, að atvinnuleysisbætur hafa hækkað verulega og má reikna með að hverjir 10 þús. atvinnuleysisdagar kosti Atvinnuleysistryggingasjóð í lágmarki 18–20 millj. kr. Ef mönnum finnst eitthvað voðalegt við að heyra nefnda 10 þús. atvinnuleysisdaga, þá get ég getið þess að í febr. voru skráðir atvinnuleysisdagar hér á landi rétt um 12 þús. og í marsmánuði voru þeir rösklega 3 þús., þannig að meðaltal þessara tveggja mánaða er a. m. k. þessi upphæð sem ég var nú að nefna. Hvernig þetta verður áfram á árinu, það fer að sjálfsögðu eftir atvinnuástandinu. En ég held, að á þessu sjáist að sú áætlun, sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur talið eðlilegt að ganga út frá, sé ekki neitt alvarlega utan við það sem telja verði raunhæfa í þessu efni.

Ef aðeins þessir þrír liðir eru teknir saman er komin upphæð sem er rösklega 630 millj. kr. útgjöld á þessu ári, á móti iðgjalda- og vaxtatekjum sem væru um 870 millj. kr. Þá er eftir að geta þess, sem hefur verið eitt aðalhlutverk sjóðsins, og það er að lána bæði sveitarfélögum, ríki og einstaklingum til margs konar framkvæmda til þess að tryggja atvinnu í hinum ýmsu byggðarlögum landsins. Fyrir stuttu var útbýtt hér til hv. þm. skýrslu um hvernig þessi útlán hafa skipst s. l. 3 ár, á árunum 1972, 1973 og 1974. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp. Ég vil aðeins geta þess að á árinu 1974 voru almenn útlán rösklega 120 millj. kr. En þess ber að geta að það ár voru greiddar til Viðlagasjóðs 80 millj. kr., helmingur þess sem Atvinnuleysistryggingasjóði var gert að leggja Viðlagasjóði til. ekki með lánum, heldur styrkjum, þegar eldarnir í Vestmannaeyjum komu upp. Auk þess voru svo kaup á skuldabréfum Byggingarsjóðs. Fram yfir það, sem nam helmingi iðgjaldanna, voru þau keypt fyrir 100 millj. kr. á s. l. ári. Það hefur nefnilega gjarnan verið þannig, að ríkissjóður hefur seilst lengra til Atvinnuleysistryggingasjóðs en lögin sjálf gefa fyrirmæli um að hann skuli gera varðandi kaup á skuldabréfum og öðru. Þessar 100 millj. voru kaup á skuldabréfum og var þar jafnað skuld, sem ríkissjóður var í við Atvinnuleysistryggingasjóð frá fyrri árum, þar sem ekki höfðu verið greidd framlög ríkissjóðs á réttum tíma.

Með þessu yfirliti um hvernig Atvinnuleysistryggingasjóði er háttað og hans fjárráðum, útlánum og öðru slíku, þykist ég hafa sýnt fram á að það verði ekki að óbreyttu staðið undir því hlutverki, sem Atvinnuleysistryggingasjóði er ætlað með frv. sem er til umr. nú.

Þá er kannske rétt líka að líta aðeins á hvaða fjármuni, hvaða peningaupphæðir er hér um að ræða. Frv. ber það ekki með sér eða grg. þess, heldur kom það ekki fram í framsöguræðu hv. 1, flm. frv. Hins vegar heyrði ég að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir viðhafði í útvarpinu, held ég það hafi verið frekar en í sjónvarpi, í viðtali, ágiskun um 100 millj. kr. á ári. Nú ætla ég ekki að fullyrða um hvað hér muni vera um að ræða miklar upphæðir, en ég held alla vega að þessi upphæð sé of lág og allt of lág. Þegar við vorum í samningunum í fyrravetur með þessi mál á borðinu var skv. upplýsingum Tryggingastofnunarinnar og ýmissa fleiri aðila áætlað, að 90 daga fæðingarorlof til allra vinnandi kvenna að vísu, það var ekki sundurliðað á ríki og einstaklinga, þá var talað um upphæð sem nam 450 millj. kr. Hvernig hún síðan sundurliðast á annars vegar þær konur, sem starfandi eru hjá ríkinu, og hins vegar þær, sem starfandi eru við annan atvinnurekstur í landinu, það skal ég ekki fullyrða um og lágu ekki fyrir upplýsingar um, en sem sagt ég er þeirrar trúar, að talan 100 millj. kr. muni vera of lág í þessu efni.

Þá vil ég aðeins geta þess, að í grg. frv. hefur slæðst inn villa, sem orsakast af prentvillu sem varð í lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Það segir hér í grg.: „Í lögum um atvinnuleysistryggingar segir í 18. gr. að atvinnuleysisbætur miðist við dagvinnulaun samkv. 2. taxta Dagsbrúnar og skuli vera 70–80% af áður greiddum launum,“ stendur hér. Það er eðlilegt ef orðalag laganna hefur verið til hliðsjónar. En hér átti að standa í lögunum „áður greindum“, en ekki „greiddum“ og það er æðimikill munur og efnismunur vegna þessarar einu prentvillu. Það verður þess vegna alveg ljóst, að þó að farið yrði eftir þessu frv. vantar býsna mikið á að konur héldu óskertum launum í 90 daga orlofi sínu. Ef það ætti að vera grundvöllurinn að ekki yrði um rýrnun á launum að ræða, þá yrði að sjálfsögðu enn að koma fé annars staðar frá til þess að bæta það.

Eins og ég sagði, þá eru víst allir hv. þm. — eða ég vona það — einkar sammála um að hér sé á ferðinni mikið nauðsynjamál sem beri að reyna að finna úrlausn á. En að mínu viti gerist það ekki þó að þetta frv. væri samþ. Ég veit ekki hvað t. d. hv. félmrh., sem á að sjá um fjármögnun íbúðabygginga eða Byggingarsjóðs, kynni að segja ef t. d. helmingur af framlagi ríkissjóðs yrði látinn ganga í þetta, en ekki kaup á skuldabréfum Byggingarsjóðs. Það væri þá alveg nýtt, sem frá hálfu ríkisins sneri að okkur, sem höfum komið nálægt þessum sjóði frá byrjun, því að það er alveg það gagnstæða. Það hefur oft verið gengið miklu nær sjóðnum af hálfu ríkisstj. en lög hafa gert ráð fyrir, og er engin sérstök ríkisstj. þar undanþegin, það hefur verið tilhneigingin hjá þeim öllum. Ef leggja ætti þessar kvaðir á Atvinnuleysistryggingasjóð, þá er að mínu viti alveg óhjákvæmilegt að útvega þeim sjóði fjármuni til þess að annast verkefni, sem hann hefur annast og gerðar eru kröfur til að hann annist. Ef það gengi ekki í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð lengur, þá ber að afla þeirra fjármuna til þeirra þarfa beint eða aðrir sjóðir eða aðrir aðilar ættu síðan að annast útdeilingu fjárins. Þetta finnst mér blasa við að verði að gera.

Auk þess verð ég að segja að mér finnst dálítið úrskeiðis og ekkert lítið úrskeiðis að ætla Atvinnuleysistryggingasjóði þetta hlutverk. Ég held að það fari ekki á milli mála að ef almannasjóðir eiga að standa undir þessu verkefni, þá séu það almannatryggingarnar sem eigi að gera það, en ekki Atvinnuleysistryggingasjóður. Það er einnig þannig, að í þessari hv. d. var fyrr á þessu þingi flutt þáltill. um fæðingarorlof og fæðingarstyrk af Bjarnfríði Leósdóttur. Þessi þáltill. liggur nú hjá heilbr.- og trn. þessarar d. Og mér hefði satt að segja fundist eðlilegt, að a. m. k. hv. 1. flm. þessa frv., sem á sæti í þessari n., hefði þá flutt þetta frv. sem brtt. við þáltill. eða beinlínis lagt til, að sú till. yrði afgr. með þessum hætti. Það er venjulegri aðferð við mál þegar þau eru komin fram áður í þinginu.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta frv. Ég vil biðja hv. n., sem fær það til meðferðar, að athuga einkar vel það, sem ég hef hér sagt um hvað Atvinnuleysistryggingasjóður geti gert. Ég álít að þetta mál leysist ekki með því að fara þessa leið og við ættum að reyna að sameinast um að finna þessu eðlilegan farveg. Og ég verð að segja það, að almannatryggingarnar eru að mínu viti miklu eðlilegri farvegur til þess að standa undir þessum greiðslum, og eins og ég sagði nú reyndar kannske meira í gríni við hv. flm. frv., að það væri í rauninni nær að þetta heyrði undir slysatryggingasjóð, en ekki Atvinnuleysistryggingasjóð. Það má kannske nokkuð til sanns vegar færa, því að skilyrði þess, að menn fái greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er að menn séu vinnufærir — skilyrði til þess, að menn fái greitt úr slysatryggingum, er að menn séu ekki vinnufærir. Mér sýnist vera mjög mikið haft á orði af flm. að hér þurfi að koma til sjóður sem atvinnurekendur greiða til. og skal ég sannarlega ekki draga úr því og mér finnst það á allan hátt eðlilegast, en þeir greiða einmitt til almannatrygginganna, þ. e. a. s. slysatrygginganna nær eingöngu, og einnig til annarra þátta almannatrygginga greiða þeir, þannig að ég held að það sé ekkert vafamál að þá leiðina á þetta að fara. Vil ég nú biðja þá hv. n., sem málið fær, að reyna að brjóta málið svo til mergjar að fæðingarorlof kvenna verði afgr. á þessu þingi, 90 daga fæðingarorlof til allra kvenna sem í störfum eru, en hins vegar verði sneitt hjá Atvinnuleysistryggingasjóði í þeim efnum.